Dagskrá aðalfundar - Breytingar á skipulagi Pírata

Í ársbyrjun 2020 gengu í gegn miklar breytingar á innra skipulagi Pírata. Framkvæmdaráð var lagt niður en í stað þess sett á fót framkvæmdastjórn, stefnu- og málefnanefnd og fjármálaráð.

Ákveðið hefur verið að taka stutta umræðu á aðalfundi 2021 um lagaumhverfi Pírata í heild sinni. Bæði til að skoða hvernig tókst til við breytingarnar og hvort þörf sé á frekari breytingum.

Þessi þráður er opinber vettvangur til að leggja fram ykkar hugleiðingar eða tillögur að breytingum sem þið viljið leggja til. Á aðalfundi Pírata verður svo gerð grein fyrir þeim tillögum og athugasemdum sem hér koma fram. Ef tilefni er til verður þessi umræða upphafið af frekari fundum til að betrumbæta enn frekar lagaumhverfið okkar.

Hver er þín hugmynd? Hvað hefur gengið vel? Hvar getum við bætt okkur? Eða er þetta bara allt í besta lagi?

Engin skylda að skila tilbúnum lagabreytingatillögum (en vel þegið engu að síður), hér má líka koma með vangaveltur og hugmyndir.

5 Likes

Mín tillaga að lagabreytingu á lögum um umboðsmenn.

verð sennilega ekki á fundinum sjálfur

  1. Umboðsmenn Pírata
    10.1. Píratar geta á almennum félagsfundum og aðalfundi skipað umboðsmenn,
    einn eða fleiri, til að sinna ákveðnum, vel skilgreindum og tímabundnum
    verkefnum í umboði flokksins.
    10.2. Verkefni umboðsmanna, skyldur þeirra til skýrslugjafar og tímamörk
    verkefnisins skal skilgreint í erindisbréfi sem lagt er fram á aðalfundi flokksins eða
    almennum félagsfundi. Tímamörk verkefnis skal samsvara gildistíma erindisbréfs.
    10.3. Tímabinding skipunar skal vera eins þröng og kostur er og aldrei lengra en
    eitt ár. Hægt er að endurnýja erindisbréf þegar mest einn mánuður er eftir af
    gildistíma fyrra erindisbréfs. Endurnýjun fer fram eins og um nýtt erindisbréf væri
    að ræða.
    10.4. Erindisbréf verður aðeins lagt fyrir almennan félagsfund eða aðalfund ef fyrir
    því liggur samþykki þingflokksfundar, fundar framkvæmdastjórnar, fundar stefnuog málefnanefndar, aðalfundar eða fundar allra oddvita framboðslista Pírata fyrir
    alþingiskosningar. Aðalfundur getur lagt fram erindisbréf og samþykkt að vísa því í
    atkvæðagreiðslukerfi Pírata á sama fundi.
    10.5. Með samþykki almenns félagsfundar eða aðalfundar skal erindisbréfi vísað til
    atkvæðagreiðslu í atkvæðagreiðslukerfi Pírata.
    10.6. Framkvæmdastjóri skal setja erindisbréf í rafrænt atkvæðagreiðslukerfi Pírata
    innan sólarhrings frá samþykkt félagsfundar eða aðalfundar.
    10.7. Erindisbréf skal vera til umræðu í atkvæðagreiðslukerfi Pírata í sjö daga og
    atkvæðagreiðsla skal standa aðra sjö daga.
    10.8. Fjöldi umboðsmanna verkefnis skal vera oddatala og skal hver umboðsmaður
    velja sér sinn varamann.
    10.9. Umboðsmenn þurfa ekki að vera Píratar en geta verið sérfræðingar á því sviði
    sem verkefnið krefst eða eftir atvikum aðrir þeir sem sinnt geta verkinu.
    10.10. Séu umboðsmenn verkefnis fleiri en einn skal þeirra fyrsta verk vera að
    skipta með sér verkum og kjósa sér fyrsta umboðsmann og einnig annan
    umboðsmann ef umboðsmenn eru fleiri en einn, úr sínum hópi.
    10.11. Fyrsti umboðsmaður skal jafnan stýra fundum hópsins og sinna almennri
    verkstjórn hópsins en annar umboðsmaður skal rita fundi og taka við verkstjórn í
    forföllum fyrsta umboðsmanns.
    10.12. Almennur félagsfundur eða aðalfundur geta krafið umboðsmenn um skýrslu
    um stöðu verkefnis og skal henni skilað innan þriggja vikna frá því að hennar er
    krafist.
    10.13. Hægt er að afturkalla erindisbréf umboðsmanna fyrir þau tímamörk sem
    bréfið kveður á um með sama hætti og þau eru búin til, sbr. 1. gr. og öðlast
    afturköllun gildi með sama hætti og erindisbréf, sbr. 5. gr. Almennur félagsfundur
    getur lagt fram erindisbréf til afturköllunar fyrra erindisbréfi
2 Likes

Án þess að ég vilji vera með leiðindi, þá held ég að gagnlegra væri að leggja fram einungis breytingarnar sem gera á. Mér sýnist yfirgnæfandi hluti þessa vera samhljóða núgildandi lögum, en þori ekki að vera viss um að ég hafi tekið eftir öllum breytingum.

Ef þú átt ekki slíka útgáfu á reiðum höndum get ég sennilega útbúið hana, en það verður trúlega frekar vélrænt.

10.4. Erindisbréf verður aðeins lagt fyrir almennan félagsfund eða aðalfund ef fyrir
því liggur samþykki þingflokksfundar, fundar framkvæmdastjórnar, fundar stefnuog málefnanefndar, aðalfundar eða fundar allra oddvita framboðslista Pírata fyrir
alþingiskosningar. Aðalfundur getur lagt fram erindisbréf og samþykkt að vísa því í
atkvæðagreiðslukerfi Pírata á sama fundi.
10.5. Með samþykki almenns félagsfundar eða aðalfundar skal erindisbréfi vísað til
atkvæðagreiðslu í atkvæðagreiðslukerfi Pírata.
10.6. Framkvæmdastjóri skal setja erindisbréf í rafrænt atkvæðagreiðslukerfi Pírata
innan sólarhrings frá samþykkt félagsfundar eða aðalfundar.

  1. gr. Almennur félagsfundur
    getur lagt fram erindisbréf til afturköllunar fyrra erindisbréfi

Það þarf að taka ákvæði um trúnaðarráð úr lögum Pírata.

Trúnaðarráð Pírata kom til með lagabreytingu árið 2016 til að leysa úr ýmsum innbyrðis ágreiningi innan Pírata. Hugsunin var að ráðið ræddi við alla aðila máls og leiddi þá síðan að einhverskonar sáttum eða úrlausn. Hugmyndin var vel meint, en virkaði ekki vel í mörgum málum og á endanum var orðið erfitt að fá fólk til að vera í ráðinu til að taka á móti straumi ágreiningsefna af öllum smæðum og stærðum.

Síðan 2019 hefur ekki verið starfandi trúnaðarráð hjá Pírötum, þess í stað hafa stjórnir aðildarfélaga reynt að taka á ágreiningsmálum, spjallsíður lotið ritstjórnunar og framkvæmdastjóri hefur beint erfiðum málum til sérfræðiúrlausnar.

Árið 2018 voru samþykktar verklagsreglur um bann við mismunun, einelti, áreitni,stefna innan Pírata. Niðurstaðan er sú að trúnaðarráð er orðið óþarft og ákvæði um það má fella úr lögum Pírata.

1 Like

Hér er eitt atriði sem er hreinlega yfirsjón úr störfum skipulagshóps. Kosið er í framkvæmdastjórn, stefnu- og málefnanefnd og fjármálaráð til tveggja ára. En í grein 7.1.1, 7.2.1 og 7.3.1 er sagt að sá sem hlýtur besta kosningu skal vera formaður nefndarinnar. Það gengur illa saman við að kjósa aðeins um hluta meðlima hvert ár. Ég legg því til að setningin:

Sá meðlimur nefndarinnar sem hlýtur besta kosningu skal stýra störfum hennar nema viðkomandi biðjist undan.

breytist í:

Sá meðlimur nefndarinnar/ráðsins/stjórnarinnar sem hlýtur besta kosningu skal stýra störfum hennar/þess á síðara ári sínu í embætti nema viðkomandi biðjist undan.

Með þessu hefur formaður ávallt setið í eitt ár í embætti og þekkir því störfin vel sem framundan eru.

2 Likes

Mér finnst að þa mætti fara fram umræða um að setja í lög félagsins að þau sem kosin eru í embætti á aðalfundi taki aðeins við embætti x mörgum dögum eftir að aðalfundi eða auka-aðalfundi lýkur.

Þörfin fyrir þetta er orðin minni eftir að kosið var til tveggja ára og því alltaf einhver sem halda áfram, en að sama skapi er ekkert grace period fyrir nýliða sem gætu þurft að hoppa inn í stórar ákvarðanir með litlum sem engum fyrirvara.

Ég er ekki búinn að ákveða mig sjálfur hvort mér finnist þetta nauðsyn, en langar að heyra rök annarra.

4 Likes

Þeim reglum þarf að framfylgja mikið mikið mikið mikið betur.

1 Like

Vafalaust, en reynslan sýnir að áframhaldandi tilvist trúnaðarráðs er ekki endilega hjálpleg í þeim efnum.

3 Likes

Það eru fleiri djúpstæð og alvarleg vandamál við ákvæðin um kosningu í þessar nefndir. T.d. á að kjósa “beinni kosningu á aðalfundi”, sem ekki er nánar skilgreint. Það skapar tvö vandamál:

  1. Ekki er gefin nein skýr heimild til að láta þá kosningu fara fram rafrænt, en slíkt er ekki til staðar fyrir úrskurðarnefnd heldur, og hefð er fyrir að sú kosning sé rafræn. Það er engu að síður bara hefð, og snúin staða gæti komið upp ef einhver krefst þess að allra formsatriða sé gætt.
  2. Talningaraðferð er ekki tiltekin, sem þýðir að hægt er að láta greiða atkvæði á aðalfundinum um það nákvæmlega hvaða aðferð á að nota. Að vísu er ákvæði sem segir að talning skuli skila ‘raðaðri niðurstöðu’, en það setur nánast engin raunveruleg mörk.

Ég hef grun um að sum af þessum atriðum séu ‘cargo cult’ ákvæði - að þau séu sett þarna af því að þau voru einkenni á sumum eldri ákvæðum. Þannig er t.d. ákvæðið sem nefnt er, um að sá frambjóðandi sem nái ‘bestri kosningu’ eigi að vera formaður, nánast örugglega þarna til að líkja eftir ákvæði um framkvæmdaráð sem sagði að Condorcet-sigurvegari kosninganna, ef hann væri til, ætti að vera formaður. Þvert á það sem ýmsir virðast hafa haldið þýddi það ekki að fyrsti einstaklingur á listanum sem Schulze-kjör skilar væri sjálfkrafa formaður. Ég tel að þessu yrði betur farið með því að fjarlægja ákvæðið algjörlega.

Það er rétt, þetta er allt voðalega loðið. Ég held að ég sé bara sammála þér. Ef ákvæðið yrði “besta formanninn” yrði fjarlægt myndi ég samt vilja sjá einhverja leið til að tryggja að meðlimur á síðara ári sínu væri formaður, burtséð frá því hvernig staðið yrði að slíku vali.

Sem reyndar myndi gera það að verkum að annað hvert ár væri formenn framkvæmdastjórnar og fjármálaráðs kosnir beint á aðalfundi, því þá er bara fyllt upp í eitt sæti á hvorum stað.

Héddna. Ég rakst á vandamál í viðbót.

Tímabundið ákvæði sagði að kjósa skyldi með skiptum hætti til fulls tímabils og til hálfs tímabils í fyrsta skipti sem kosið yrði í þessar nefndir. Ekki verður séð að því hafi verið fylgt - í kosningakerfinu koma allir aðilar nefndanna fram - og í fundargerð aðalfundar kemur ekki fram að nein skipting sé. Núna er hins vegar verið að óska eftir framboðum í sætin sem ættu að vera að losna.

Lögin kveða aðeins á um að aðili með ‘besta kjör’ skuli vera formaður, og það er því varla verjandi að segja núna að lægstu sætin séu þau sem séu styst. Það þyrfti að greiða úr þessu sem allra fyrst.

Þetta kom fram í fundarboðinu þar sem óskað var eftir fólki til að bjóða sig fram í embætti. Sannarlega hefði verið betra að þetta hefði komið fram í bráðabirgðaákvæðinu, en þar sem kjörstjórn setti þetta fram áður en kosning fór fram og fólk var upplýst um þessa tilhögun ætti það að vera nægilega gott til að standa á því.

Framkvæmdastjóri er líka búin að tala við alla sem falla þarna undir og þessi skilningur er universal.

En well spotted!

Staða PP-IS í PP-EU!
Starfið með evrópskum pírötum er bæði skemmtilegt og krefjandi og er mikilvægt fyrir okkur að taka þátt í.
Nú hef ég verið í stjórn PPEU í tvö ár og hef nokkrar skoðanir á fyrirkomulagi PP-IS gagnvart þessu starfi.

Í lögum Pírata er ekkert tekið fram um kjörin eða valin alþjóðafulltrúa Pírata sem gengur því hlutverki að vera milliliður íslenska starfsins og evrópska starfsins. Sem stendur er ég titluð sem alþjóðafulltrúi íslenskra Pírata, en hvernig mér áskotnaðist sú staða er óljóst. Þeir aðilar sem kosnir eru í stjórn PP-EU geta ekki sjálfkrafa verið alþjóðafulltrúar, fyrst og fremst vegna þess að það er aldrei öruggt að Ísland sé með fulltrúa í PP-EU. Önnur ástæða er sú að vera meðlimur í stjórn PP-EU er heilmikil sjálfboðavinna og færi betur með sérstakan alþjóðafulltrúa skipaðan/kosin af framkvæmdastjórn eða grasrót.

Því þarf að gera lagabreytingu sem skilgreinir hvernig alþjóðafulltrúi er skipaður og hvert hlutverk þeirra er.

Þessi tillaga helst svo í hendur við hvað Píratar á Íslandi sjá fyrir sér til framtíðar í starfi sínu með Pírötum í Evrópu. Við höfum öll tækifæri til að standa sterk í alþjóðastarfinu okkar en sniðugt fyrsta skref er að tala um okkar vilja og þar fram eftir götunum.

2 Likes

Fannst engum nema mér galli að ákvæðið um að píratar gegndu aðeins einu kjörnu embætti í einu félli út? Mér fannst það tryggja nauðsynlega valddreifingu. Mér finnst ómögulegt að fólk geti setið í mörgum nefndum, ráðum og stjórnum. Þetta getur valdið hagsmunaárekstrum, óeðlilegri samþjöppun valdasækinna eða vinsælla aðila. Er ekki hægt að setja aftur einhverjar takmarkanir inn? (Skýrt þó að varaþingmenn og varabæjarfulltrúar teljist ekki með og megi sinna trúnaðarstörfum innan félags).
Mér finnst ómögulegt að lögin okkar heimili í gr. 7.8.2 að megi sitja í fleiri en einni stöðu. Við getum komist í þá stöðu að einn aðili sitji í frkvstjórn, fjármálaráði, stefnumálaráði, stjórn femínistafélagsins og kannski stjórnum allra kjördæmafélaga. Jafnvel verktaki hjá félaginu líka (en það er önnur saga).
Mér finnst þetta bagalegt.

1 Like

Tillögur að breytingum á stefnumótunarferli Pírata - Reynsla af nýjum strúktúr flokksins

Dóra Björt Guðjónsdóttir
Albert Svan Sigurðsson
Halldóra Mogensen
Hrefna Árnadóttir
Gísli Rafn Ólafsson
Alexandra Briem
Gamithra Marga
Smári McCarthy
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir
Rannveig Ernudóttir
Vignir Árnason
Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir
Jón Þór Ólafsson
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir

TLDR:

Stefnumótunarferill Pírata hefur marga kosti en við getum gert stefnumótunarferlið enn betra. Hér eru reifaðar leiðir til að auka lýðræðislegt umboð stefna innan flokksins svo hægt sé að styðja við markvissa innleiðingu þannig að flokksfólk og kjörnir fulltrúar þekki stefnurnar betur. Í kjölfarið er lagt til að þessar tillögur fari til frekari vinnslu í stærri hópi. Hér er rætt hvernig væri hægt að sníða af vankanta stefna, viðhafa öflugt umsagnarferli og auka aðgengi að mótun stefnu og kosningu um stefnu. Lagt er til að útvíða ferlið þar sem tillögur að stefnum fara í kosningu í kosningakerfinu og tengja inn umsagnarferli. Lagt er til að forgangsraða ,quality over quantity“ eða gæðum umfram magn með því að gefa okkur rýmri tíma til að ná niðurstöðu sem endurspeglar enn betur vilja flokksfólks. Lagt er til að ákveða í upphafi stefnumótunar tímalínu samráðsferils og útbúa fundarplan sem væri svo auglýst með góðum fyrirvara. Yfirlit yfir stefnumótun hvers misseris fyrir sig sem væri ákveðið við upphaf þess myndi skapa fyrirsjáanleika. Fastir stefnumótunartímar sem skarast ekki þannig að öll geti tekið þátt í öllu ef vilji er til myndi auka aðgengi til dæmis fjölskyldufólks. Lagt er til að bjóða umsagnarhöfundum á fund til að vinna úr umsögnum með stefnumótunarhópnum. Að lokum væri öllum umsögnum svarað og endurbætt stefnudrög sett í kosningakerfið. Afmarkaður tími á hverju misseri fyrir kosningu um allar stefnur þess misseris, einskonar uppskerutími, myndi tryggja að fleiri hefðu tækifæri til að kynna sér og kjósa um allar stefnur sem myndi eflaust leiða til þess að fólkinu sem kýs um stefnur myndi fjölga. Þá þarf fólk ekki stanslaust að vera að fylgjast með kosningakerfinu. Lagt er til að öll samþykkt stefnudrög séu tekin saman og staðfest endanlega á Pírataþingi að vori þar sem hægt er að leggja fram breytingartillögur til að gera góðar stefnur frábærar. Öll á Pírataþinginu gætu kosið um breytingarnar og svo um tillögurnar að stefnum og að því loknu um heildarstefnu Pírata. Þannig gætum við haldið stefnum ferskum, ofarlega í hugum fólks, betrumbætt þær eftir þörf og nýjum upplýsingum, einfaldað, stytt, samhæft, samræmt og tryggt að stefnurnar endurspegli huga og hjarta Pírata hverju sinni.

Formáli

Undirbúningur nýs skipulags flokksins

Skipulagsstarfshópur skipaður af framkvæmdaráði, þar sem öll sem áhuga höfðu fengu að taka þátt, starfaði yfir sumarið 2019 frá maí fram í ágúst að því að leggja grunn að nýju skipulagi flokksins. Hugmyndir hópsins voru unnar áfram og sú vinna leiddi að endingu að þeim lögum Pírata sem nú eru í gildi með ákveðnum breytingum á innra flokksstarfi. Þar var undirrituð fulltrúi, sem hefur því fylgt breytingaferlinu á skipulagi flokksins frá upphafi. Ýmislegt hefur tekist vel en það eru tækifæri til að gera enn betur er varðar ákveðin atriði í stefnumótun. Margt gott hefur verið gert með tilkomu stefnu- og málefnanefndar og erum við á réttri braut að setja stefnumótunarferil flokksins í fókus og veita stefnumótun meira rými með Pírataþingunum. Þó er hægt að gera betur og ganga lengra og munu eftirfarandi tillögur sem fylgja því varða stefnumótunarferil flokksins.

Áherslur Pírata er stefnumótun varðar á öðrum vettvangi

Eftir að undirrituð settist í borgarstjórn hef ég, ásamt fulltrúum í borgarstjórnarflokknum, komið að mótun stefnu Reykjavíkurborgar í hinum ýmsu málaflokkum. Hef ég farið fyrir mótun stefnu og beitt mér hvarvetna fyrir lýðræðislegri stefnumótun með góðu samráði við alla hluteigandi aðila sem og almenning. Í okkar vinnu höfum við lagt áherslu á að samráð fari fram á öllum stigum vinnunnar, að ákveðin sé tímalína fyrir samráðsferli í upphafi og hvernig það skuli líta út með því markmiði að sem flestar raddir fái að heyrast í vinnunni svo að niðurstaðan verði sem best. Hef ég farið fram á að stefnur fari til umsagnar mismunandi fagráða sem bera endanlega faglega ábyrgð samkvæmt sveitarstjórnarlögum en líka til samráðsnefnda borgarinnar sem eru skipuð fulltrúum hagsmunasamtaka sem starfa í þágu ýmissa minnihlutahópa sem og íbúa í hverfunum. Þessi ráð eru öldungaráð, aðgengis- og samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks, fjölmenningarráð og íbúaráð. Að auki hef ég farið fram á opið umsagnarferli meðal almennings sem og opna hugmyndasöfnun í upphafi vinnunnar. Þetta er auk opinna funda með almenningi, rýnihópa og vinnustofa eftir þörf hverju sinni. Þessi sýn kristallast í drögum að lýðræðisstefnu sem er nú í opnu umsagnarferli sem og umsagnarferli meðal ráða borgarinnar. Þessi áhersla mín byggist á grunnstefnu Pírata um gagnrýna hugsun og upplýsta stefnu, gagnsæi, lýðræði og rétt borgarans til aðkomu að ákvörðunum um eign málefni.

Tækifæri til betrumbóta

Í þessu ljósi finnst mér tækifæri til að gera stefnumótunarferli Pírata betra. Það er margt jákvætt við núverandi stefnumótunarferli. Ég tel það mjög gott að öll innan flokksins hafi tækifæri til að taka frumkvæði að og taka þátt í stefnumótun. En mér finnst við verða að gera ákveðnar breytingar til að meðal annars tryggja aukið gagnsæi, lýðræðislega aðkomu að stefnumótun, auka umboð stefnu sem samþykkt er meðal Pírata almennt og hvað varðar innleiðingu stefnu meðal okkar. Mér finnst mikilvægt að gera það sem við segjumst standa fyrir í okkar eigin innra starfi. Við verðum að standa okkur vel þegar kemur að lýðræðislegri stefnumótun og við erum væntanlega öll sammála um það.

Við vinnslu þessa skjals var ráða leitað til einstaklinga innan Pírata sem þekkja vel til stefnumótunarferils flokksins og gerðar lagfæringar í samræmi við þær ábendingar. Tillögur þessar eru lagðar fram sem grundvöllur til samtals um framtíð stefnumótunarferilsins og þurfa frekari vinnslu í stærri hópi. Í kjölfar niðurstöðu þarf svo að skoða nauðsynlegar breytingar á lögum Pírata í takt við vilja til breytinga njóti þessar tillögur framgöngu til frekari vinnslu.

Með von um góðar viðtökur og uppbyggilega umfjöllun,
Dóra Björt Guðjónsdóttir

Tillögur að breytingum á núverandi fyrirkomulagi

Stefna flokksins verður að hafa skýrt umboð flokksfólks. Það er æskilegt að það ríki almenn sátt um innihald stefna og að allir Píratar hafi tækifæri til að koma að stefnumótun með virkum hætti á mismunandi stigum vinnunnar. Við viljum að öll upplifi að hafa fengið hlutdeild í ferlinu og að það sé skapað svigrúm til að ræða í þaular þá anga sem ekki er samstaða um til að finna sem besta niðurstöðu og að minnsta kosti skapa skilning á forsendum ákvarðanna. Þetta krefst tíma og ákveðins skipulags.

Mikilvægt er aukinheldur að tryggja að stefna haldi gildi sínu, sé í takt við tíðarandann og sé þekkt meðal Pírata svo hún sé ofarlega í hugum fólks. Það grefur undan stefnum flokksins að stefnur endi með að vera hundsaðar vegna þess hve gamlar þær eru, vegna þess hve fáir hafi komið að raunverulegri mótun stefnunnar eða hve úr takt við tíðarandann og vilja almenns flokksfólks þær eru. Það er í raun vandamál sem er í ætt við réttarríkisvandann sem getur orðið þegar lög eru í gildi sem hafa ekki siðferðislegar stoðir í samfélaginu eða virðingu almennings.

Stefna hefur bara áhrif í krafti þess að hún sé innleidd. Með innleiðingu er átt við að flokksfólk og kjörnir fulltrúar þekki stefnuna og geti notað hana þegar mikið liggur við í störfum sínum við að breyta samfélaginu okkar. Vegna fjölda stefna og stundum kaótísks stefnumótunarferils er erfitt fyrir kjörna fulltrúa og flokksfólk að kunna stefnurnar og nýta þær þegar það skiptir máli. Við verðum að vera samkvæm sjálfum okkur og tryggja að stefnur okkar hafi umboð flokksfólks, séu í gildi, séu virkar, séu innleiddar í flokknum og ekki síst í störfum kjörinna fulltrúa. Eins og staðan er í dag eru stefnurnar svo margar að það er í raun nánast ómögulegt að hafa yfirsýn yfir þær allar og hvað þá að muna þær þegar mikið liggur við í störfum inni á Alþingi, í sveitarstjórnum eða á öðrum vettvangi. Stefnurnar okkar skarast einnig á að einhverju leyti. Þetta allt er ekki til þess fallið að tryggja innleiðingu og umboð þeirra og að farið sé eftir þeim þegar á hólminn er komið.

Upphafleg hugmynd með Pírataþingunum var að þau yrðu vettvangur til að vinna stefnu en einnig ákveðin stefnusía. Upphaflega hugmyndin var að halda í núverandi stefnumótunarferli en betrumbæta það með því að tryggja ákveðna reglulega síu þar sem væri hægt að sníða af annmarka og tryggja góða kynningu og víðtækt umboð meðal flokksfólks.

Að þessu öllu sögðu er lagt til:

• Að taka okkur að jafnaði lengri tíma í stefnumótunarvinnuna, gefa okkur rúman tíma og vinna út frá quality over quantity, gæðum umfram magn. Vinna hægar og betur með vandaðra ferli yfir lengri tíma. Skapa stefnur sem halda gildi sínu yfir lengri tíma en er hægt að sníða til eftir þörfum án þess að byrja endilega frá grunni eins og við gerum ansi oft. Skoða það að taka út heimild fyrir hraðafgreiðslu í kosningakerfi eða skapa mjög afmörkuð skilyrði til slíkrar notkunar - hafa hana til dæmis frekar fyrir hendi er varðar stjórnarsamstarf og ályktanir og sleppa þá staðfestingarkosningu samhliða og hafa hraðkosningu í þeim tilvikum fullnaðarafgreiðslu. Skipulagsleysi eða það að fólk fari seint af stað í vinnu á sem dæmi ekki að vera forsenda fyrir hraðafgreiðslu því hraðafgreiðsla tillögu takmarkar tækifæri fólks til þátttöku og til að kynna sér málið vel til að marka sér afstöðu. Það takmarkar líka tækifæri til að tillaga sé metin út frá umræðu á x.piratar.is og breytt í kjölfarið. Slík vinnubrögð geta tæplega talist í takt við grunnstefnu Pírata. Þegar hraðkosning er svo nýtt þegar ástæða er til að bregðast hratt við aðstæðum í samfélaginu með ályktun (sem myndi væntanlega fjölga í kjölfarið á þessari breytingu) þá skapar það mikla óvissu að hafa staðfestingarkosningu samhliða. Efni ályktunar er kannski orðin þekkt í samfélaginu sem svo er hætta á að njóti ekki staðfestingar flokksins. Þá er betra að fólk viti að hraðafgreiðslan er afgerandi og að efnið fari í kjölfarið í dreifingu. Það er hvati til að fólk taki þátt á þeim tímapunkti. Við viljum ekki vera gerð afturreka með ályktanir sem eru þegar orðnar þekktar, sem skapar einnig óvissu um afstöðu flokksins.

• Fækka stefnum, stytta, sameina og tryggja samræmingu milli stefna. Tryggja gæði stefna, það er að segja að þær endursegli vilja flokksfólks eins vel og hægt er. Láta allar stefnur Pírata virka sem undirstefnur í einni heild sem er almenn stefna Pírata, þannig séu þær skoðaðar í samhengi við hvora aðra. Skapaður sé rammi eða einskonar sniðmát um stefnumótun sem tryggir samræmingu á formi stefna og að þær séu ekki óþarflega langar. Of miklar upplýsingar eða útlistingar getur komið niður á gagnsæi því þá er hægt að drekkja fólki svo í texta að mikilvæg og afgerandi atriði drukkna. Meiri upplýsingar er ekki endilega það sama og gagnsæi. Í takt við þetta legg ég til að vega og meta hvort það sé ástæða til að fella út skyldu um að stefnur skulu rökstuddar. Einnig að endurskoða hvernig þær hafi vísan í fyrri ákvarðanir (í 6.6 gr. laga Pírata) til að forða því upptalningaformati sem nú er. Einnig væri ástæða til að skoða leiðir til að minnka notkun eða jafnvel hætta að nota greinargerðir í stefnum umfram allra þarfasta bakgrunnsefni eins og fylgigögn. Þessi skylda um rökstuðning hefur oft valdið óþarfa málalengingum, en auðvitað er enn gerð krafa um skýran stefnutexta. Texti sem á ekki erindi í stefnuna sjálfa flækir, lengir og minnkar yfirsýn. Ef það er ástæða til að útskýra eitthvað sé það gert með einföldum hætti í stefnunni sjálfri til að tryggja gagnsæi í kringum hvað verið er að meina. Ef fólk skilur með engu móti hvað átt er við án frekari útskýringa í greinargerð er það sem stendur í stefnunni kannski ekki nógu skýrt og þarf að laga.

• Gera kosningakerfið að hluta af stefnumótunarkeðju Pírata frekar en að vera upphaf og endir stefnumótunar. Láta kosningakerfið og það ferli sem nú er vera aðalframleiðsluhluta stefnumótunarferilsins sem endar með kosningu um stefnudrög sem fara til endanlegrar afgreiðslu á Pírataþingi í kjölfarið. Hafa tvö kosningatímabil á ári í kosningakerfinu sem vari yfir nokkrar vikur þar sem allar stefnur sem unnar hafa verið á misserinu komi í kosningu. Þannig þarf flokksfólk ekki stanslaust að fylgjast með kosningakerfinu heldur getur einsett sér góða yfirferð þegar kosningatímabil stendur yfir og fleiri fá þá tækifæri til að kynna sér stefnurnar og setja af tíma til að greina þær og mynda sér skoðun. Við það bætist Pírataþing sem tryggi gæði, umboð og innleiðingu. Eins og staðan er í dag er of lítil þáttaka í kosningakerfinu. Það er ekki aðgengilegt að þurfa að fylgjast stanslaust með x.piratar.is til að kjósa um stefnu, öll hafa ekki tækifæri til þess og hafa nóg á sinni könnu í sínu hversdagslífi en hafa kannski mikinn áhuga á að taka þátt. Því er kosningakerfið um margt réttindi sem ekki öll geta nýtt sér eins og staðan er í dag. Þetta er þó verkfæri sem getur vel nýst í ferlinu en ætti ekki að vera endanlega afgerandi eins og hefur verið reyndin. Sjá nánari útlistun ferils að neðan.

• Opna stefnumótunarferlið enn frekar og viðhafa öflugt samráðs- og umsagnarferli í allri stefnumótun. Það er lýðræðislegt. Festa í sessi samræmt utanumhald um stefnumótun. Að hún fari af stað eftir ákveðnum takti, ekki öll í einu heldur á yfirvegaðan hátt með fyrir fram skilgreindri tímalínu sem er auglýst kirfilega.

o Festa ákveðna stefnumótunarfundartíma yfir hvert misseri og gera plan um stefnumótun á hverju tímabili fyrir sig þannig að þau sem vilja geti tekið þátt í flest allri stefnumótun á vegum flokksins án þess að þurfa að vera upptekin öll kvöld vikunnar. Þetta kemur til móts við fjölskyldufólk sem dæmi og er lýðræðislegt og eykur aðgengi að stefnumótun. Planið sé sent út á allt flokksfólk við upphaf hvers misseris svo það viti hvenær stefnumótun sem það vill taka þátt í fer af stað.

o Hafa miðlæga lista yfir þátttöku í stefnumótun svo Píratar geti skráð sig í stefnumótun fyrir fram og geti bætt sér við þegar hentar. Sá listi sé svo nýttur þegar boða á stefnumótunarfundi. Þannig missir fólk ekki af öllu þó það missi af fyrsta fundi og þannig er hægt að koma í veg fyrir að fólk þurfi að fylgjast með á Facebook eða dagatalinu til að vita hvenær næsti fundur verði haldinn. Það er ekki aðgengilegt að þurfa fylgjast með og betra að geta bara skráð sig með vissu um að fá þá nauðsynlegar upplýsingar. Var þetta upphaflega hugmyndin með málefnahópum sem skilgreindir eru í lögum og væri þá hægt að virkja það ákvæði og skilgreina ef til vill með skýrari hætti byggt á þessum sjónarmiðum.

o Gera kröfu um að hver stefnumótunarhópur/málefnahópur stundi virkt samráð í stefnumótunarferlinu og skrifi upp viðeigandi samráðsferli í upphafi vinnu til að tryggja yfirsýn yfir hvaða fagaðila eða hluteigandi aðila verði talað við í hverju ferli fyrir sig, hvenær eigi að ráðast í opna hugmyndasöfnun, halda málþing eða vinnustofur eða annað sem getur komið að gagni við vinnuna og aukið gæði niðurstöðunnar. Þetta yrði til að tryggja virka hlutdeilt þeirra sem stefnan snýst um og samtal við þá sem þekkja best til. Þá séu settar niður tímasetningar fyrir fundi og samráðsfundi og þetta gert aðgengilegt öllum Pírötum á piratar.is sem og sent á öll sem hafa skráð sig á þá stefnumótun. Færðar séu fundargerðir hvers fundar stefnumótunarhópa sem sé safnað saman og skjalað á viðeigandi hátt.

o Láta tímapunktinn þegar stefna fer í umræðu á x.piratar.is fyrir kosningu vera raunverulegan hluta stefnumótunar, hafa umræðuna alvöru umsagnarferli eins og við gerum kröfu um að fari fram í borginni sem dæmi. Á umræðutíma (eða kannski betra að breyta í ,umsagnartíma“?) sé hægt að koma með athugasemdir sem stefnumótunarhópi beri að taka til virkrar athugunar á opnum fundi þar sem þeim sem hafa sent inn athugasemdir er boðið að mæta. Umsagnarferli séu auglýst fyrir fram með mánaðarlegu fréttabréfi Pírata svo að þau fari ekki fram hjá neinum. Að úrvinnslu lokinni sé öllum athugasemdum svarað í samanteknu skjali sem gert er aðgengilegt á vefnum með birtingu stefnunnar. Stefnan sé sumsé tekin út eftir umræðu til endurskoðunar með tilliti til athugasemda og svo sé stefnan sett inn aftur með þeim breytingum sem gerðar hafa verið til atkvæðagreiðslu um leið og svör við athugasemdum og athugasemdirnar er birt með tillögu að stefnudrögum. Samþykkt stefnudrög fari svo til endanlegrar afgreiðslu Pírataþings að vori þar sem hægt er að leggja fram formlegar breytingartillögur til að snurfusa endanlega og skapa sem víðtækasta sátt. Sjá frekari útskýringu í næsta punkti.

• Árleg Pírataþing verði hluti af fyrirsjáanlegu, gagnsæju og taktvissu stefnumótunarferli og tengist við núverandi stefnumótunarferli þar sem öll geta mótað stefnu og þar sem stefnan er að meginefninu til unnin. Á Pírataþingi er hægt að tryggja alvöru samtal um stefnudrög, að góð stefnudrög líði ekki fyrir vankanta sem auðvelt er að laga auk þess sem að með þessu móti myndu mun fleiri kjósi um stefnu heldur en gengur og gerist í kosningakerfinu og þannig njóta stefnur aukins umboðs.

o Hér væri Pírataþing aðgengilegur vettvangur allra Pírata til að hafa skoðun á og tækifæri til að breyta lokaútgáfu stefnudraga eftir kosningu í kosningakerfi þar sem hún hefur verið samþykkt - um leið og hún væri með þessu móti betur kynnt fyrir flokksfólki. Þetta myndi tryggja betur skýrt umboð stefnu meðal Pírata. Samhliða því að þingfulltrúar geti kosið verður að tryggja tækifæri þeirra sem ekki eiga heimangengt til að kjósa. Til dæmis með því að hafa kosningaskjal með yfirliti yfir atkvæðagreiðslu aðgengilegt fyrir fund þannig að fólk geti skilað sínum afgreiðslum til kjörstjórnar.

o Á reglulegum Pírataþingum sé hægt að sníða af vankanta stefna og stefnudraga, samhæfa og samræma. Skoða heildina og vinna verkið þannig sem eina heildarstefnu Pírata með undirflokkum sem eru undirstefnurnar. Hugsa sem svo að þær stefnur sem eru samþykktar í kosningakerfi séu tillögur að stefnum sem fari til endanlegrar afgreiðslu á Pírataþingi þar sem allir Píratar geti tekið þátt. Með þessu móti er stefnan ekki bara rækilega kynnt fyrir flokksfólki, heldur er um leið verið að tryggja að hún eigi enn erindi til fólks og haldi sér relevant, sé innleidd og hafi nægt umboð.

o Fyrra Pírataþing ársins að hausti sé brainstorm-vinna þar sem hægt er að ýta stefnumótunarvinnu úr vör fyrir árið. Slík stefnumótunarvinna sem fari fram milli Pírataþinga snúist einungis um veigamiklar breytingar á stefnum. Pírataþing að vori sé nýtt til að sníða af vankanta af stefnudraga sem samþykkt hefur verið í kosningakerfi eða af gömlum stefnum svo þær haldi gildi sínu og relevans.

o Að vori sé heildarstefna Pírata (með öllum undirköflum eða undirstefnum og nýjum stefnudrögum afgreiddum úr kosningakerfi) send út með nokkurra vikna fyrirvara fyrir Pírataþing svo öll hafi nægan tíma til að kynna sér textann og vinna mögulegar breytingartillögur. Hér sé skoðað hvort það sé til staðar eitthvað innra ósamræmi, hvort eitthvað megi einfalda og hvort eitthvað megi betur fara. Mesta vinnan hefur farið fram á þessum tímapunkti en hér er tækifæri til að snurfusa og gera góða stefnu og góð stefudrög enn betri, tryggja umboð og yfirsýn og aðkomu enn fleiri. Hér er einnig kominn filter til að tryggja að gamlar stefnur haldi gildi sínu því allar stefnur fari í gegnum samþykktarferli á Pírataþingi að vori. Samhliða vinnslu þessara tillagna þarf að ræða leiðir til að tryggja að heildin geti ekki notað þessa virkni til að heildin gangi á réttindi jaðarhópa.

o Breytingartillögum sé svo skilað með ágætum fyrirvara til þingnefndar/stefnu- og málefnanefndar sem setji upp atkvæðagreiðsluna fyrir Pírataþing að vori. Þar sem tekið er tillit til þess að hægt sé að sameina breytingartillögur sem eru keimlíkar, að kosningin sé sett þannig upp að þær breytingartillögur sem eru andstæðar geti ekki báðar verið samþykktar (að ein falli niður sé hin samþykkt til dæmis). Svo fari fram hrein atkvæðagreiðsla á Pírataþinginu um breytingar þar sem allir Píratar geta tekið þátt. Þannig séu nauðsynlegar breytingar gerðar áður en Pírataþingið kýs endanlega um undirstefnur og hvort stefnudrög verði að undirstefnu sem skapar grunn að heildarstefnu Pírata með undirköflum/undirstefnum sem er þá tilbúin í lok þingsins.

• Stefnu- og málefnanefnd hafi það hlutverk að halda utan um feril þennan og tryggja lýðræðislega og gagnsæja stefnumótun með góðu aðgengi allra Pírata.

• Samhliða áframhaldandi vinnslu þessara tillagna verði rætt samspil milli miðlægrar stefnumótunar flokksins og staðbundinnar stefnumótunar aðildarfélaga.

• Kosningakerfið sé uppfært í takt við þessar breytingar.

4 Likes

Ég er sammála þessu. Mér finnst allt í lagi að fara í framboð í fleiri en einni nefnd enda geta menn verið tilbúnir til að sinna fjölbreyttum verkefnum en ef einstaklingur hlýtur kjör í fleiri en eina nefnd ætti hann að þurfa að velja hvaða nefnd hann vill sitja í og láta næsta mann á lista ganga í hina/hinar.

Frábærar tillögur. Það má fækka stefnum og draga saman efni. Við þurfum hins vegar að passa að þær verði ekki jafn innihaldslausar og almennt orðaðar og stjórnarsáttmálar kunna að vera. Það sem mér hefur fundist slæmt er hvað uppsetningin er oft misgóð. Málfar, stafsetning, greinaskil o.s.frv. getur verið hingað og þangað. Mig langar rosalega að geta prentað út allar gildandi stefnur flokksins og látið binda í fallega bók. Það er hægt að gera það ódýrt hjá til dæmis Háskólaprenti og Svartprenti. Þannig gætu menn gengið með þær eins og handbækur undir handarkrikanum. Þær eru hins vegar of subbulegar eins og er til þess að það borgi sig.