Kæru Píratar.
Í gær var fyrirhugaður fundur klukkan 20:00 um auðlinda- og umhverfisákvæði stjórnarskrár. Eins og þau ykkar sem mættu vita, þá varð ekkert úr fundinum og er það mér að kenna. Ég get ekki beðist nógu mikið afsökunar á því en það er alfarið við mig að sakast.
Af ástæðum sem mér eru ókunnar hvarf liðurinn úr dagatali mínu en ég man mjög skýrt eftir að hafa fært hann inn. Ég satt best að segja kann enga skýringu á því. Verra var að mér ljáðist að tilgreina í dagatali flokksins og í fundarboðinu hver bæri ábyrgð á fundinum, en ef ég hefði gert það, þá hefði verið hægt að hafa samband þegar ljóst var að ég væri ekki mættur á tilsettum tíma. Þess í stað fattaði ég ekki fyrr en um 23-leytið um kvöldið að fundurinn væri farinn út um þúfur.
Lexían sem ég tek úr þessu er að skilgreina ávallt ábyrgðarmann fundar, þannig að vitað sé hvern eigi að hafa samband við ef eitthvað fer úrskeiðis.
En að því sögðu verður að halda áfram með málið. Því býð ég fólki sem getur fyrirgefið mér þessi mistök á nýjan fund, tímasettan nákvæmlega viku seinna en þann fyrri. Hann verður þá haldinn þriðjudaginn 4. júní kl. 20:00.
Að lokum biðst ég aftur einlæglega afsökunar og heiti því að láta þetta aldrei gerast aftur.
Helgi Hrafn Gunnarsson
Boðað er til fundar um tillögu forsætisráðherra í samráðsgátt stjórnvalda um auðlinda- og umhverfisverndarákvæði stjórnarskrár.
Fundurinn verður haldinn í Síðumúla 23 (Selmúla-megin) kl. 20:00 þriðjudaginn 4. júní 2019.
Ábyrgðarmaður fundarins er Helgi Hrafn Gunnarsson (helgi@piratar.is).
Dagskrá:
- Kosning fundarstjóra
- Stutt kynning á aðstæðum
- Kynning á tillögu forsætisráðherra í samráðsgátt stjórvalda
- Umræða um auðlinda- og umhverfisverndarákvæði stjórnarskrár
Fundurinn er til samráðs, upplýsinga, umræðu og skoðanaskipta um lögfræðilegt efnisinnihald auðlindaákvæðis í stjórnarskrá. Til þess að nýta tímann sem best er rétt að taka fram fyrirfram að fundurinn er ekki hugsaður til umræðu um stefnumótun, baráttuna fyrir nýrri stjórnarskrá eða taktík í þeim efnum.
Efni til umfjöllunar:
- Drög að stjórnarskrárákvæði um auðlindir náttúru Íslands (https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=1387)
- Drög að stjórnarskrárákvæði um umhverfisvernd (https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=1388)
- 34. og 35. gr. frumvarps um nýja stjórnarskrá (bls. 7 í https://www.althingi.is/altext/pdf/149/s/0822.pdf)
- Greinargerð frumvarps til nýrrar stjórnarskrár um 34. og 35. gr. (bls. 157-182 í https://www.althingi.is/altext/pdf/149/s/0822.pdf)
Ekki er gerð krafa um að fundargestir lesi allt það efni fyrirfram, enda um viðbjóðslega mikið efni að ræða, en umræðurnar verða þó ávallt skilvirkari og gagnlegri eftir því sem henni er beint að tilteknum álitaefnum sem finna má í efninu. Í því ljósi eru fundargestir hvattir til að kynna sér vel fyrirfram þau álitamál sem þeir vilja ræða í efninu, jafnvel ef þeir komast ekki yfir allt efnið.