Borgaralaun - dýpkun á samtalinu

Er kominn af stað málefnahópur í kring um borgaralaun? Ég sé að borgaralaun eru að birtast í stefnu flokksins um landbúnað, sem er nú til umræðu, þrátt fyrir að það sé enn mjög opið hvað stefna Pírata í borgaralaunum sjálfum eigi að hafa í för með sér. Eins og málin standa núna þá er stefna að senda þingsályktunartillögu á alþingi um ágæti borgaralauna https://x.piratar.is/polity/1/issue/324/ sem var svo gert á 145. lögjafaþingi 2015-16 https://www.althingi.is/altext/145/s/0454.html.

Síðan þá hefur lítið komið fram frá þeim vettvangi og gerð frekari stefna um borgaralaun. Það er uppi málefnalegur ágreiningur um ágæti og skilvirkni Borgaralauna í að ná fram þeim markmiðum sem þeim er ætlað. Ég ætla ekki að fara út í efnislega gagnríni að svo stöddu, en hef gert það áður en vill einnig taka það fram að ég er heldur ekki í princippum mótvægin þeim heldur einungis hvað varðar alla praktík. Þá tel ég að hollt væri fyrir Pírata að leggjast í heiðarlega og beinskeitta vinnu með að útkljá hver stefna okkar eigi í raun að vera að þessu máli.

Ef það er málefnahópur þá óska ég aðkomu að honum. Ef það er ekki málefnahópur þá sting ég upp á að slíkur fari í gang. Ef það er ekki stemming fyrir að leggjast í málefnalegan ágreining með þeim hætti þá sting ég upp á panel debate eða debate í podkasti þar sem tekist er á um málefnalegar hliðar þessa máls svo að fólk geti myndað sér skoðun út frá þeim röddum um þetta mál sem þegar hafa komið fram og jafnveg upp úr því lagt meira til málsins, vonandi í lausnum. Ég býð mig fram til að taka umæðuna um þetta út frá skeptíska sjónarmiðinu en það má einnig vera einhver annar sem býður sig fram sem fólk ber traust til að veiti þeirri hlið góða vörn.

Í fullri hreinskilni þá langar mér alveg að hafa rangt fyrir mér í þessu máli en mér þykir margar erfiðar spurnigar vera enn ósvaraðar og ég tel það gætir verið bæði hættulegt sem og traustrýrandi fyrir Pírata að halda út á þá braut að ætla að lofa öllum peningum fyrir ekkert án þess að í fullri alvöru vera búin að taka samtalið innanborðs hvað það eiginlega þýðir.

Ef einhverir sem vill taka opið debat um þetta mál við mig eða einvhern annan sem sér þetta reikningsdæmi vera óframkvæmanlegt við núverandi raunveruleika, þá hvet ég þau til að stíga fram til þess að eiga samtalið. Það þarf að vera dýpra en Yay meiri peningar fyrir alla þó það kunni að hljóma vel í eyrum sumra.

1 Like

Já, ég skil ekki hvers vegna verið er að setja fram stefnu um landbúnaðarmál sem virðist í raun aðallega vera stefna um borgaralaun, án þess að það sé skýrt nokkuð frekar hvað átt er við með því… hvað þá að kosið hafi verið um borgaralaun sem stefnu flokksins fyrst.

Er verið að tala um beina, flata greiðslu frá hinu opinbera til allra borgara óháð aðstæðum og ef svo er, hversu háa? Eða er verið að tala um neikvæðan tekjuskatt, og hver ætti útfærslan og skattprósentan þá að vera? Eða er bara verið að tala um að gera fólki auðveldara að fá stuðning frá hinu opinbera sem miðast við aðstæður þeirra og þarfir, og þá hvernig?

1 Like

Við þurfum ekki að vita allar útfærslur, upphæðir og tæknileg atriði varðandi borgaralaun til þess að geta stefnt í átt að samfélagi þar sem sjálfsákvörðunarréttur og valddreyfing eru miðpunktur. Heldur getum við talað um að fara varlega skref fyrir skref í átt að þessari framtíðarsýn sem borgaralaunasamfélag í sinni bestu mynd boðar. En það er alveg ljóst að til að þetta virki þarf nýja stjórnarskrá, verulegar umbætur í hagkerfinu og áherslubreytingar í rekstri hins opinbera. Þannig tel ég að við ættum ekki að hengja umræðuna á smáatriðin, heldur að stefna að þeim afrakstri sem hægt er að ná með borgaralaunum.

Tillaga að ályktun um borgaralaun:

Stefnum markvisst í átt að innleiðingu skilyrðislausrar grunnframfærslu í Íslensku samfélagi. Hugmyndin kallar á viðamiklar breytingar og verður innleidd á löngu tímabili. Þess vegna styðja Píratar við varfærnislega nálgun í átt að þessu marki. Píratar hafa þegar samþykkt ályktanir um að bjóða eigi nemendum 18 ára og eldri sem eru í framhaldsskóla- og háskólanámi skilyrðislausa grunnframfærslu, svo og einstaklingum sem vinna við landbúnað og matvælaframleiðslu.

Markmið með skilyrðislausri grunnframfærslu er aðallega fernskonar: 1) að útrýma fátækt, 2) að bregðast við breyttum atvinnuháttum vegna aukinnar sjálfvirknivæðingar, 3) að leysa almannatryggingakerfið af hólmi eða í það minnsta einfalda það verulega, gera það réttlátara og sömuleiðis uppræta ákveðinn innbyggðan ójöfnuð í samfélaginu og 4) að valdefla einstaklinga gagnvart valdmeiri aðilum með því að auka sjálfsákvörðunarrétt þeirra.

Næstu skref eru að innleiða skilyrðislausa grunnframfærslu í skrefum þannig að allir landsbúar fái rétt til grunnframærslu á sem miðast við lágmarksframfærsluviðmið. Best er að koma þessu nýja kerfi á í skrefum, jafnvel að prófa hugmyndina fyrst á tilteknu landsvæði eða á tilteknum þjóðfélagshóp. Á sama tíma er vel hægt innleiða breytingar á núverandi félagslegum kerfum sem miðast við úrbætur í hag tekjulágra einstaklinga.

Skilyrðislaus grunnframfærsla verður fjármögnuð með innheimtu auðlindagjalda, úrbótum á Íslensku skattakerfi og réttlátri dreifingu skatttekna, ásamt því að færa núferandi tekjutilfærslur til einstaklinga yfir í nýja kerfið.

Ljóst er að skilyrðislaus grunnframfærsla er ekki svar við öllum vandamálum samfélagsins, þess vegna þarf einnig að stefma að verulegum umbótum á félagslegri þjónustu, húsnæðismarkaði, skattkerfinu og velferðarinnviðum.

Greinargerð:
Allt frá stofnun Pírata hefur hreyfingin haft áhuga á borgaralaunum, þ.e. skilyrðislausri grunnframfærslu og rætt um ýmsar birtingamyndir þeirrar hugmyndar. Markmiðið er framtíðarsamfélag þar sem sjálfsákvörðunarréttur einstaklinga og valddreyfing eru stórefld frá því sem nú er.

Nokkur örugg skref í átt að skilyrðislausri grunnframfærslu fyrir alla landsbúa geta falist í eftirfarandi:

  1. Að gera persónuafslátt útgreiðanlegan fyrir þá sem ekki nýta hann.
  2. Að lögleiða eitt lágmarksframfærsluviðmið sem allir opinberir aðilar miða við.
  3. Að afnema krónuskerðingar af atvinnuleysisbótum, ellilífeyri og örorkulífeyri.
  4. Að hækka persónuafslátt í skrefum
  5. Að afnema önnur skilyrði fyrir tekjutilfærslum til einstaklinga.

Til að fjármagna skilyrðislausa grunnframfærslu þarf einnig mörg skref:

  1. Að innheimta fullt auðlindagjald og mengunarbótagjöld.
  2. Að afnema beingreiðslur búnaðarkerfisins til einstaklinga, sem fá grunnframfærslurétt þess í stað.
  3. Að afnema listamannalaun til einstaklinga, sem fá grunnframfærslurétt þess í stað.
  4. Að leggja niður atvinnuleysisbætur, lífeyrisbætur og aðrar tekjutilfærslur til einstaklinga, sem fá grunnframfærslurétt þess í stað.
  5. Að leggja niður jöfnunarsjóði ýmisskonar þar sem einstaklingar um allt land fá réttindi til grunnframfærslu þess í stað.

Ítarefni:
Um skilyrðislausa grunnframfærslu (www.borgaralaun.is)
Úttekt á Íslensku skattkerfi (https://www.stjornarradid.is/media/forsaetisraduneyti-media/media/Skyrslur/uttekt-a-skattkefinu.pdf)
Sanngjörn dreifing skattbyrðar (https://efling.is/wp-content/uploads/2019/02/Sanngjörn-dreIfing-skattbyrðar-lokaproof_A.pdf)

1 Like

Ég kann að meta viðleitnina að málamiðlun!

Persónulega finnst mér vanta upp á það í þessari stefnu að skilgreint sé skýrt í upphafi hvað nákvæmlega er átt við með skilyrðislausri grunnframfærslu, þ.e. hvað það er sem Píratar vilja stefna markvisst að.

Hugtakið “skilyrðislaus” mætti skilja sem svo að öll í samfélaginu eigi rétt á grunnframfærslu, þannig að ef þau njóta hennar ekki með öðrum hætti (með einhvers konar tekjum) eigi hið opinbera / samfélagið að tryggja þeim hana án skilyrða. Það mætti hins vegar líka skilja sem svo að hið opinbera ætti að greiða öllum borgurum tiltekna upphæð sem kölluð er “grunnframfærsla”, án tillits til þess hvort þeir njóta grunnframfærslu fyrir og/eða án tillits til þess í hvaða stöðu þau eru.

Ég hef hingað til skilið talsfólk borgaralauna/GIFA sem svo að þau tali fyrir hinu síðarnefnda, en mér finnst það ekki skýrt hér. T.d. er talað um að Píratar hafi þegar samþykkt ályktanir um “skilyrðislausa framfærslu” fyrir nemendur og bændur, en þær ályktanir eru auðvitað ekki “skilyrðislausar” í þessum síðari skilningi hugtaksins; vegna þess að í þeim tilvikum eru greiðslur skilyrtar við það að viðkomandi sé í námi eða starfi við landbúnað.

Ef það var ekki skýrt fyrir, þá er ég fylgjandi skilyrðislausri framfærslu í fyrri merkingunni en ekki hinni síðari. Þess vegna er ég t.d. fylgjandi liðum 1.-3. sem eru talin upp sem mögulegar leiðir í greinargerðinni og sennilega lið 4. líka, en ég efast um að ég sé fylgjandi leið 5. og er amk. alfarið á móti því sem virðist birtast í fjármögnunartillögunum: að afnema eigi þá meginreglu velferðarríkisins að listafólk, atvinnulausir, eldri borgarar, nemendur, barnafólk, öryrkjar o.fl. hópar hljóti meiri stuðning frá hinu opinbera heldur en aðrir (t.d. ég, sem fell ekki í neinn þessara hópa og hef eigin tekjur).

Mér sýnist eina tekjuöflunarleiðin sem er lögð til þarna, sem ekki felur í sér að færa fé frá þeim sem þurfa það minna til þeirra sem þurfa það meira, vera fullt auðlindagjald og mengunarbótagjöld. Ég er mjög fylgjandi þeim tillögum í sjálfu sér en sé ekki að þau geti fjármagnað mikið af þessari ályktun út af fyrir sig.

Af þessum ástæðum kýs ég gegn tillögunni í kosningakerfinu, þó mér finnist hún alls ekki alslæm. Ég væri alveg til í frekari vinnu þar sem við reynum t.d. að sameinast um stefnu® um liði 1-3. sem og um umbætur á velferðarkerfinu, samræmingu og þjónustu þess.

1 Like

Já þetta með skilyrðislaus getur verið túlkað á nokkra vegu, að allir eigi rétt á að fá grunnframfærsluna skilyrðislaust eða að engin skilyrði eigi að vera fyrir því hvort fólk fær grunnframfærsluna greidda ef það á rétt á henni.
Eðlilegt er að taka stöðuna eftir hvert skref og líklegt er að á einhverjum tímapunkti verði velferðin orðin slík að ekki þurfi að stíga næsta skref. Þannig má búast við að neikvæður tekjuskattur (útgreiðanlegur persónuafsláttur sem miðast við grunnframfærsluviðmið) geti orðið lokapunkturinn, sér í lagi ef árangur næst með öðrum umbótum í samfélaginu.
En varðandi tekjuöflunina þá er ljóst að nú þegar fara ⅔ af skatttekjum hins opinbera í beinar tekjutilfærslur til einstaklinga, ef þetta tekjutilfærslukerfi verður hluti af borgaralaunum og auðlinda + mengunarbótagjald bætast ofan á, er líklega búið að fjármagna neikvæða tekjuskattinn. Það þarf síðan fleiri tilfæringar í ríkisrekstri til að fjármagna full borgaralaun fyrir alla landsbúa.

1 Like