Byggðamál og valdefling sveitarfélaga

Pírataþing á vefnum, 13. febrúar 2021
Umræða í “vesturherbergi” - Byggðastefna og sveitarfélög

Umræðupunktar:

  • Sveitarfélögum séu tryggðir tekjustofnar til að standa undir þeirra verkefnum og sjálfræði þeirra sé eflt til þess að tryggja getu þeirra til að sinna þeim verkefnum
  • Forgangsröðun verkefna sé í höndum nærsamfélagsins - hlutverk ríkisins sé að fjármagna þá forgangsröðun - sú forgangsröðun sé gegnsæ og sýnileg við umræður á þingi og í samfélaginu
  • Dreifing ríkistekna með borgaralaunum eflir möguleika til frjálsrar búsetu (segja kannski efla möguleika til frjálsrar búsetu, t.d. með borgaralaunum?)+
  • Sveitarfélög fái fleiri verkefni svo sem heilbrigðisþjónustu, menntun og samgöngur og fái hlutfall af skatttekjum til að fjármagna það
  • Ríkið veiti gagnsæja hvata- og nýsköpunarstyrki en skipti sér annars ekki af atvinnulífinu
  • Inngrip atvinnulífs í velferðar- og heilbrigðisþjónustu séu alltaf háð samþykki nærsamfélagsins
  • Ekki detta í loforðaflaum við ætlum ekki að redda öllu, við erum að efla fólk til að laga hlutina sjálft
  • Heildræn nálgun í sveitarstjórnarmálum, minni síló í sveitarfélögum.- hugsa líka um opnunartíma þjónustu þegar verið er að skoða umferðina
  • Landið verði eitt kjördæmi, enda eigi þingið bara að taka ákvarðanir um sameiginlega hagsmuni landsins, en vald og ábyrgð yfir nær-ákvörðunum sé færð til milli-stjórnsýslustigs, sveitarfélaga eða minni eininga
  • Styrkjum sveitarfélög með því að gera fólki kleift að búa þar
  • Innviðir séu sterkir í öllum sveitarfélögum - möguleikar fólks til frjálsrar búsetu séu efldir
  • Stofna ætti millistjórnsýslustig sem geri sveitarfélögum kleyft að vinna saman að verkefnum, þessu millistjórnsýslustigi sé falin ábyrgð og tekjustofnar í samræmi við þau verkefni
  • Íbúakosningar ættu að vera bindandi - eða það ætti að vera möguleiki á að þær verði ráðgefandi áfram
  • Taka skýra afstöðu gegn þvinguðum sameiningum sveitarfélaga
  • Kanna þá hvata sem eru til staðar fyrir sveitarfélög til að sameinast eða ekki, svosem byggðakvótar
  • Sveitarfélög fái hlutdeild í virðisaukaskatti og fjármagnstekjuskatti sem verður til á svæðinu
  • Samþætta byggðastefnu kröfu um uppboð á veiðiheimildum, þar sem hluti innkomu af uppboðum renni til sveitarfélaga, svo þau geti byggt sig upp á eigin forsendum.
  • Skoða það sem vel og illa hefur gengið við sameiningu sveitarfélaga og forsendur þeirra, nauðarsameining, t.d. með byggðakvóta.
  • Punktur frá Magnúsi D. Norðdahl: Eitt af þeim atriðum sem Píratar þurfa að taka afstöðu til er hvernig reka megi byggðastefnu sem tekur mið af sjónarmiðum um fæðuöryggi þjóðarinnar. Þróun mála í veröldinni síðastliðið ár með hliðsjón af kórónuveirufaraldri hefur vekið upp áleitnar spurningar í þessu samhengi þegar samgöngur á milli heimshluta hafa lamast að miklu leyti. Ráðast þarf í greiningarvinnu hvernig best megi ná því markmiði að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar og hvernig fjármunum verði best varið í því samhengi og þá að teknu tilliti til samgöngu- og orkumála, aðgengi að þjónustu á landsbyggðinni og réttarins til frjálsrar búsetu.
  • Almenningur á ekki fulltrúa kosinn í þjóðlendur, gegn stefnu Pírata. Spurning um að mynda sveitarfélög yfir þær.
  • Byggðamál eru líka kerfismál. Skólar þurfa að vera til staðar, leikskólar þurfa að vera til staðar.
  • Varðandi millistjórnsýslustig, þarf ekki að vera formlegt. Styðja meira sameiginlega vinnu.
  • Gera jöfnunarsjóð sveitarfélaganna gagnsærri
  • Þvingun á sameiningu gengur gegn grunnstefnu Pírata. Millistjórnsýslustig myndi leysa málið. Losna við ógegnsæ byggðasamlög.
  • Stefnan á ekki að byggja á stórfjárfestingu, eins og virkjun o.þ.h. Tryggja flutningskerfi raforku og jafn raforkuverð á milli þéttbýlis og dreifbýlis. Bæta netaðgang til að efla nýsköpun og búsetufrelsi.
  • Íbúakosningar mega vera ráðgefandi, en þröskuldur fyrir kröfu um kosningu þarf að lækka.

Vinnuhópur um valdeflingu nærsamfélaga

1.fundur 4.mars 2021 kl. 18 haldinn á jitsí.

Mætt: Albert Svan, Pétur Linnet, Alexandra Briem.

Fundarpunktar:

  1. Starfssvið hópsins: ábyrgðaraðili, fundarstjóri, ritari, útbúa kosningastefnu 1 síða.

Ákveðið var að Pétur verði ábyrgðaraðili og boði frekari fundi. Reynt verður að byggja á þeim stefnum Pírata sem varða byggðamál og málefnavinnu kjörinna fulltrúa Pírata.

  1. Vettvangur (docs vinnuskjal, fundarboð á viðburðadagatal og spjall.piratar.is)

Líkt og aðrir vinnuhópar á vegum Stefnu- og málefnanefndar

  1. Fundatími - fimmtudagar kl. 18-19

Pétur boðar fundina

  1. Taka eitt mál fyrir á hverjum fundi undir yfirskriftinni “valdefling nærsamfélaga”
  2. Undirbúningsfundur, 4. mars. Vinnuhópurinn stofnaður og verkefni ákveðin
  3. Fundur 1, 11. mars. Tekjustofnar og verkefni sveitarfélaga
  4. Fundur 2, 18. mars. Þriðja stjórnsýslustigið formgert
  5. Fundur 3, 25. mars. Samgöngur
  6. Félagsfundur, 31. apríl, samþykkt nýrrar stefnu í vefkosningu.

Á milli funda fara umræður fram á tilteknum þráðum á spjall.piratar.is og kosningastefnan verður unnin í opnu stefnuskjali.

Vinnuhópur um valdeflingu nærsamfélaga: Tekjustofnar & hlutverk sveitarfélaga

2. fundur 11. mars 2021 kl. 19 haldinn á jitsí.

Mætt: Albert Svan, Pétur Linnet, Alexandra Briem, Aðalheiður Alenu og Björn Leví

Fundarpunktar:

Rætt var um valdeflingu sveitarfélaga út frá gildandi stefnum Pírata og valið úr þeim nokkrir punktar til frekari umræðu og nýta í kosningarstefnu:

  • Frelsi og sjálfsákvörðunaréttur á að vera grundvöllur vals hvers einstaklings á búsetu og búsetuformi, hvort sem er með lögheimili í eigin húsnæði, leiguhúsnæði, sambýlishúsnæði með öðrum einstaklingum eða sambúð með einum eða fleiri aðilum.
  • Sveitarfélög eiga að standa tryggum fótum og eiga sinn eigin sjálfstæða tekjugrundvöll.
  • Auka þarf sjálfsábyrgð og sjálfsstjórnun sveitarfélaga með því aflagningu miðstýringar í flokkum húsnæðismála, heilbrigðismála, menntamála og samgöngumála.
  • Til viðbótar við útsvar skal eðlilegt hlutfall fjármagnstekjuskatts og virðisaukaskatts af arði af fyrirtækjarekstri og nýtingu náttúruauðlinda renna beint til þess nærsamfélags þar sem starfsemi, starfsstöð, útibú eða verslun er.
  • Píratar styðja dreifstýringu og eflingu grenndarstjórnunar sem byggir á gagnsæi, íbúalýðræði og dreifingu valds.

Næsti fundur verður um stofnun þriðja sveitarstjórnastigsins til að valdefla nærsamfélög og taka við verkefnum frá ríkinu án þess að leggja óþarfa þrýsting á smærri sveitarfélög til sameiningar.

Vinnuhópur um valdeflingu nærsamfélaga: Þriðja stjórnsýslustigið

3. fundur 18. mars 2021 kl. 19 haldinn á jitsí.

Mætt: Alexandra Briem, Skúli Björnson, Dagný ??, Albert Svan og Pétur Linnet

Fundarpunktar:
Píratar vilja skoða lögleiðingu þriðja opinbera stjórnsýslustigs til viðbótar við ríki og sveitarfélög. Markmiðið er að valdefla nærsamfélög og draga úr miðstýringu valds í málaflokkum sem vel eru til þess fallnir.

  • Þriðja stjórnsýslustigið er fyrst og fremst lýðræðisleg, gagnsæ og afmörkuð sjálfsstjórn í vel skilgreindum málaflokkum sem tilteknir eru í samþykkt viðkomandi sveitarfélaga.
  • Þriðja stjórnsýslustigið fær afgreiðslu-, fjármála- og stjórnsýsluvald í þeim verkefnum sem því er falið.
  • Þriðja stjórnsýslustigið felur í sér nærsamfélag sem getur spannað allt frá hverfum eða grenndarsvæðum innan sveitarfélags upp í það að ná yfir tvö eða fleiri sveitarfélög.
  • Forsenda stofnunar nýs nærsamfélags á þriðja stórnsýslustigi er annarsvegar breyting á sveitarstjórnalögum og hinsvegar að kallað sé eftir sjálfsstjórnar af íbúum viðeigandi svæðis.
  • Íbúakosningar um sjálfsstjórn sem þriðja stjórnsýslustigs skulu vera bindandi og heimilaðar í tengslum við sveitastjórnakosningar.
  • Engir íbúar skulu þvingaðir til samvinnu eða sameiningar ef mögulegt er að koma á sjálfsstjórn í nærsamfélagi sem nær til afmarkaðra málaflokka á þriðja stjórnsýslustigi.
  • Sveitarfélög geta sammælst um þriðja stjórnsýslustig sem spannar fleiri en eitt sveitarfélag og fengið sjálsstjórn í vel skilgreindum málaflokkum sem tilteknir eru í samþykkt viðeigandi sveitarfélaga í vel skilgreindum málaflokkum sem tilteknir eru í samþykktum viðeigandi sveitarfélaga.
  • Í stjórn nærsamfélags á þriðja stjórnsýslusviði skulu vera tveir lýðræðislega kosnir íbúar á hvern einn sem skipaður er af sveitarstjórnum.
  • Nærsamfélög sem samþykkt eru í samræmi við lög um þriðja stjórnsýslustigið eiga að geta sótt fjármagn á fjárlögum og starfað að fullu eins og opinberir aðilar innan síns verksviðs.
  • Þriðja stjórnsýslustigið á ekki að vera eins og byggðasamlög hafa verið uppbyggð, enda er þar oft um að ræða rekstur þar sem lítið gagnsæi eða lýðræði er viðhaft.
  • Á sama tíma getur þriðja stjórnsýslustigið líkst svokölluðum heimastjórnum sem skipaðar hafa verið úr til reynslu í Múlaþingi, en þær hafa vel ígrundað sjálfsstjórnarvald í málaflokkum sem tilteknir eru í samþykktum Múlaþings. Einnig getur þriðja stjórnsýslustigið náð til nærsamfélaga sem hafa íbúaráð eða hverfisstjórnir þar sem íbúar óska eftir sjálfsstjórnunarvaldi í tilteknum málaflokkum.

Sýnidæmi til glöggvunar á stjórnsýslu sem fundarpunktarnir taka mið af:
*Stjórn nærsamfélags á þriðja stjórnsýslusviði má vera áþekk fyrirkomulagi um heilbrigðiseftirlit og heilbrigðisnefndir sem skilgreint er í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir: *

  • Ekkert sveitarfélag skal vera án viðhlítandi heilbrigðiseftirlits.
  • Sveitarfélög greiða kostnað við heilbrigðiseftirlit í héruðum að svo miklu leyti sem lög mæla ekki um
  • Svæðisnefnd hefur yfirumsjón með fjármálum heilbrigðiseftirlits á viðkomandi svæði og gerir tillögur að fjárhagsáætlun og skiptingu kostnaðar milli sveitarfélaga á svæðinu fyrir næsta reikningsár.
  • Tillögur svæðisnefnda skulu lagðar fyrir hlutaðeigandi sveitarstjórnir sem hafa frest til athugasemda til 1. desember sama ár.
  • Komi fram athugasemdir ber svæðisnefnd að ræða þær við viðkomandi forsvarsmenn sveitarfélaga og leita samkomulags. Náist ekki samkomulag ræður fjárhagslegur meirihluti.
  • Náist ekki samkomulag um hver skuli annast fjárreiður fyrir heilbrigðiseftirlit svæðisins ber stærsta sveitarfélaginu að annast það gegn hæfilegri þóknun.

Nokkur dæmi úr samþykkt Múlaþings um heimastjórnir sem sjálfstæðar stjórnvaldseiningar innan sveitarfélagsins:

  • Heimastjórnir. Kjósa skal einn sveitarstjórnarfulltrúa sem aðalmann og annan til vara skv. 38. og 132. gr. sveitarstjórnarlaga og 36. gr. samþykktar þessarar, til viðbótar við þá tvo er kjörnir eru beinni kosningu.
  • Heimastjórn annast þau störf sem sveitarstjórn felur henni og snýr að viðkomandi byggðahluta. Heimastjórnir hafa vald til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. viðauka við samþykkt þessa.
  • Heimastjórn afgreiðir, eftir umfjöllun umhverfis-og framkvæmdaráðs, tiltekin verkefni skipulagslaga nr. 123/2010 án staðfestingar sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga, þ.m.t. um deiliskipulag á hafnarsvæðum.
  • Heimastjórn afgreiðir tiltekin verkefni laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 án staðfestingar sveitarstjórnar.
  • Heimastjórn fer með verkefni náttúruverndarnefndar skv. 14. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013.
  • Heimastjórn tekur ákvarðanir sem sveitarstjórn skal taka samkvæmt lögum nr. 21/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Varðandi leikskóla þá vil ég benda á að samkvæmt lögum þá er ekki skylda sveitarfélaga að veita þá þjónustu. Þó fjallað sé um leikskóla sem fyrsta skólastigið er það staðreynd sú þjónusta/kennsla sem þar er veitt er ekki eitt af grunnhlutverkum sveitarfélaga, ástæðan er sú að ekki er skólaskylda á leikskólastigi. Það leiðir af sér að leikskólastigið er valkvæð þjónustua.

2 Likes

Ég held að fólk sé fast í þeirri hugsun að þriðja stjórnsýslustig þarf að vera “yfir” sveitafélagum. Þá er ekki talið með hluti eins og heimastjórn, hverfisráð eða íbúaráð. En ég held að þetta sé meira spennandi hlutinn af þessu samtali. Hvetjum sveitarfélög til að sameinast og á sama tíma hvetjum sveitarfélög til að taka upp grendar stjórnunar verkfæri í hvaða formi sem þau væru.

1 Like

Þrjár pælingar

  • Hversu nauðsynlegt verður þriðja stjórnsýslustigið ef það verður af þeim stóru sameiningum sem eru í farvatninu?
  • Erum við með nægilega marga íbúa og landsvæði til þess að réttlæta 3 stjórnsýslustig?
  • Ef það verður þriðja stjórnsýslustigið, þá þarf valdið að koma frá ríkinu en ekki frá núverandi sveitarstjórnum (sem yrði örugglega útfærsla núverandi stjórnvalda) - til þess að viðhalda grunnstefnu
2 Likes

Með sameiningum sveitarfélaga er öll stjórnsýsla stækkaðs sveitarfélags oft færð til stærsta bæjarfélagsins. Með smá hugarfarsbreytingu þá má afhenda nærsamfélögum sjálfsstjórn í tilteknum málaflokkum, þannig að ákvarðanir í þeim endurspegli þarfir íbúanna þar.
Með því að lögfesta þetta form þá má kalla þetta þriðja stjórnsýslustigið, sem felst í valdeflingu íbúa, íbúalýðræði og gagnsæi.
Í öðrum tilfellum geta íbúar fleiri en eins sveitarfélags tekið sig saman í að sinna tilteknum verkefnum og fengið sjálfsstjórn yfir því, verkefnin geta ýmist verið þau sem ríkið hefur áður sinnt eða annað sem íbúum viðkomandi sveitarfélaga þykir vert að sameinast um.

Valdefling nærsamfélaga snýst kannski ekki endilega um fjölda, heldur minni miðstýringu valds með auknu íbúalýðræði. Ef möguleikinn á slíku er festur í lög þá geta íbúar tekið sig saman um allskonar verkefni og hafa fullt leyfi til þess. Þetta má kalla þriðja stjórnsýslustigið ef menn vilja.

Já eða vald fært frá stórum sameinuðum sveitarfélögum til nærsamfélaga sem vilja vinna sjálfstætt.

Á Íslandi voru þrjú stjórnsýslustig innanlands frá a.m.k. 1262 til u.þ.b. 1991. Íbúafjöldi er ekki vandamálið, og fáránleg stærð landsins í samanburði við mannfjöldann ætti síður en svo að draga úr þörfinni.

1 Like

Hér er stefnan eins og hún verður lögð fyrir félagsfund.

Byggðir og valdefling nærsamfélaga

  1. Efla skal sveitarfélög og auka sjálfsábyrgð og sjálfsstjórnun þeirra með aflagningu miðstýringar í flokkum húsnæðismála, heilbrigðismála, menntamála og samgöngumála.
    Greinargerð: Sveitarfélög eiga að standa tryggum fótum og eiga sinn eigin sjálfstæða tekjugrundvöll til að geta boðið íbúum trygga þjónustu og velferð.

  2. Til viðbótar við hefðbundna tekjustofna sveitarfélaga skal eðlilegt hlutfall virðisaukaskatts og fjármagnstekjuskatts af arði af fyrirtækjarekstri og nýtingu náttúruauðlinda renna beint til þess nærsamfélags þar sem starfsemi, starfsstöð, útibú eða verslun er staðsett.
    Greinargerð: Sveitarfélög hafa tekið við verkefnum frá ríkinu í áratugi án þess að nægilegt fjármagn fylgi með. Þannig hefur miðlæg skortstefna veikt mörg af helstu innviðum samfélagsins og gert sveitarfélögum erfitt um vik að veita íbúum þá þjónustu sem gert er ráð fyrir í nútímasamfélagi. Þetta þarf að laga og markvisst fjölga tekjustofnum sveitarfélaga.

  3. Styðja skal við dreifstýringu og eflingu grenndarstjórnunar sem byggir á gagnsæi, íbúalýðræði og dreifingu valds.
    Greinargerð: Með dreifstýringu er valdinu dreift á milli fólks í stað miðstýringar, þannig vilja Píratar að íbúar séu valdeflldir og hafi meira um sín mál að segja. Þá þarf einnig að tryggja gagnsæi í stjórnsýslu sveitarfélaga og ríkisstofnana sem mikil samskipti hafa við þau. Íbúalýðræði á almennt að vera bindandi, nema í undartekningartilfellum og stuðla skal að valddreifingu innan sveitarfélaga með grenndarstjórnun og lýðræðislegu sjálfræði svæða innan sveitarfélaga.

  4. Þriðja stjórnsýslustigið er fyrst og fremst lýðræðisleg, gagnsæ og afmörkuð sjálfsstjórn nærsamfélagss í vel skilgreindum málaflokkum sem tilteknir eru í samþykkt viðkomandi sveitarfélaga.
    Greinargerð: Með þessari hugmynd er raungerð hugmyndafræði sem m.a. hefur verið framkvæmd í Múlaþingi, sem fékk undanþágu frá sveitarstjórnarlögum til að nærsamfélög geti fengið sjálfstæði í ákveðnum málaflokkum. Þessa hugmynd má heimfæra um allt land sem þriðja löglega stjórnsýslustigið, þar sem íbúar nærsamélaga geta fengið sjálfsstjórn í fyrirfram ákveðnum málaflokkum.
    Í stjórn nærsamfélags á þriðja stjórnsýslusviði skulu vera tveir lýðræðislega kosnir íbúar á hvern einn sem skipaður er af sveitarstjórnum.

  5. Þriðja stjórnsýslustigið fær afgreiðslu-, fjármála- og stjórnsýsluvald í þeim verkefnum sem því er falið.
    Greinargerð: Með formgerðri dreifstýringu er valdinu dreift á milli fólks í stað miðstýringar. Nærsvæði sem samþykkt er að fái að starfa á þriðja stjórnsýslustiginu fá lagalegt sjálfstæði í þeim málaflokkum sem við á. Nærsamfélög sem samþykkt eru í samræmi við lög um þriðja stjórnsýslustigið eiga að geta sótt fjármagn á fjárlögum og starfað að fullu eins og opinberir aðilar innan síns verksviðs.

  6. Þriðja stjórnsýslustigið felur í sér nærsamfélag sem getur spannað allt frá hverfum eða grenndarsvæðum innan sveitarfélags upp í það að ná yfir tvö eða fleiri sveitarfélög.
    Greinargerð: Almennt séð hefur þriðja stjórnsýslustigið hingað til verið hugsað sem sjálfsstjórnareiningar innan sveitarfélaga. Það er þó ekkert sem kemur í veg fyrir að slík svæði spanni fleiri en eitt sveitarfélag. Í áratugi hefur verið hefð fyrir slíku í heilbrigðiseftirliti á Íslandi, þar sem heilbrigðisnefnt og heilbrigðisfulltrúar starfa lögum samkvæmt á svæði sem spannar mörg sveitarfélög. Það er ekkert því til fyrirstöðu að á lýðræðislegu þriðja stjórnsýslustigi geti fleiri málaflokkar verið starfræktir á þennan hátt. Einnig getur þriðja stjórnsýslustigið náð til nærsamfélaga sem hafa íbúaráð eða hverfisstjórnir þar sem íbúar óska eftir sjálfsstjórnunarvaldi í tilteknum málaflokkum.
    Sveitarfélög geta sammælst um þriðja stjórnsýslustig sem spannar fleiri en eitt sveitarfélag og fengið sjálsstjórn í vel skilgreindum málaflokkum sem tilteknir eru í samþykkt viðeigandi sveitarfélaga í vel skilgreindum málaflokkum sem tilteknir eru í samþykktum viðeigandi sveitarfélaga.

  7. Forsenda stofnunar nýs nærsamfélags á þriðja stórnsýslustigi er annarsvegar breyting á sveitarstjórnalögum og hinsvegar að kallað sé eftir sjálfsstjórnar af íbúum viðeigandi svæðis í tilteknum málaflokki.
    Greinargerð: Múlaþing fékk undanþágu frá sveitarstjórnarlögum til að efla sjálfstæði fyrrum sveitarfélaga eftir sameiningu sveitarfélaga í Múlaþing. Þriðja sjórnsýslustigið er hugsað á sviðapan máta fyrir önnur nærmfélög eða svæði sem óska eftir sjálfsstjórn í tilteknum málaflokkum, en þurfa þá ekki að fá undanþágu frá lögum, þar sem þriðja stjórnsýslustigið verður lögleitt í sveitarstjórnarlög.

  8. Íbúakosningar um sjálfsstjórn þriðja stjórnsýslustigssvæðis skulu vera bindandi og heimilaðar í tengslum við sveitastjórnakosningar.
    Greinargerð: Engir íbúar skulu þvingaðir til samvinnu eða sameiningar ef mögulegt er að koma á sjálfsstjórn í nærsamfélagi sem nær til afmarkaðra málaflokka á þriðja stjórnsýslustigi.
    Þriðja stjórnsýslustigið á ekki að vera eins og byggðasamlög hafa verið uppbyggð, enda er þar oft um að ræða rekstur þar sem lítið gagnsæi eða lýðræði er viðhaft.

3 Likes

Ég er á því að þriðja stjórnsýslustigið eigi að vera á milli sveitarfélaga og hins opinbera. Þ.e. stærri einingar en sveitarfélögin. Við getum notað sýslurnar gömlu sem dæmi. Verkefni sem reynast sveitarfélögum ofvita, myndu þá falla sýslum í skaut. Þetta myndi gera byggðasamlög óþörf -þau eru óteljandi mörg, ógegnsæ og oft óskilvirk. Þetta myndi reynast smáum sveitarfélögum afar gagnlegt og gera sameiningar margra þeirra óþarfar. Þá þurfum við minna að spá í hverfaráð og heimastjórnir. Ég veit að mörg minni sveitarfélög sem hafa sameinast öðrum langar til að draga sig út úr því samstarfi og þetta myndi gera þeim það kleift.

1 Like

Hver segir að núverandi sveitarfélög og byggðasamlög væru til í að gefa eftir vald sitt til nýs 3ja stjórnsýslusviðs samanber hvað þau hafa verið treg til að sameinast næstu sveitarfélögum?