Drög að prófkjörsreglum í Reykjavík 2022

Prófkjörsreglur og leiðbeiningar fyrir framboð í prófkjöri Pírata vegna sveitarstjórnarkosninga 2022 í Reykjavík


Opnað verður fyrir framboð þriðjudaginn 11. janúar 2022. Framboðsfresti lýkur þann 12. febrúar kl. 15:00 og hefst þá kosning. Kynning á frambjóðendum á sér stað rafrænt dagana 14-18. febrúar. Þann 19. febrúar lýkur kosningu kl. 15:00 og verða niðurstöður kynntar í kjölfarið. Ábyrgðaraðili prófkjörs er starfshópur stjórnar Pírata í Reykjavík myndaður af þeim sem bjóða sig ekki fram í prófkjörinu.

Leiðbeiningar um tilkynningu:

Frambjóðendur tilkynna sjálfir framboð inn á þing Pírata í Reykjavík í kosningakerfi Pírata á https://x.piratar.is ásamt því að skila inn formi til ábyrgðaraðila sveitarstjórnakosninga.

Til þess að tilkynna framboð á kosningakerfinu þarf að:

 1. Vera skráð/ur í Pírata.
 2. Vera skráð/ur í kosningakerfi Pírata sem notandi.
 3. Smella á „Tilkynna framboð“ hnappinn.
 4. Jafnframt þarf að skila inn formlegri tilkynningu til ábyrgðaraðila sveitarstjórnarkosninga í sveitarfélaginu sem er stjórn Pírata í Reykjavík í gegnum form á netinu: https://forms.gle/Guyeh5wxKfUTDU9dA
  Sú tilkynning skal berast með öllum nauðsynlegum upplýsingum áður en framboðsfrestur rennur út þann 12. febrúar 15:00.

Sértu ekki skráð/ur í kosningakerfið þá geturðu haft samband við viðkomandi aðildarfélag eða framkvaemdastjori@piratar.is.

Þau sem hafa í hyggju að tilkynna framboð skulu kynna sér eftirfarandi prófkjörsreglur þar sem fram kemur hvaða upplýsingum ber að skila við tilkynningu um framboð.

Prófkjörsreglur fyrir sveitarstjórnarkosningar 2022

Reglur um prófkjör Pírata fyrir sveitarstjórnakosningar 2022 og skyldur frambjóðenda í prófkjöri Pírata í Reykjavík.

Frambjóðandi skal tilkynna framboð með innsendingu forms á slóðinni https://forms.gle/Guyeh5wxKfUTDU9dA. Þar þarf að koma fram eftirfarandi:

 • Fullt nafn (samkvæmt þjóðskrá)
 • Kennitala
 • Staða, starfsheiti eða lífsköllun
 • Lögheimili
 • Símanúmer og netfang sem einungis eru nýtt fyrir samskipti vegna framboðs og verður ekki birt almenningi
 • Ljósmynd sem má birta almenningi

Með framboðsskráningu samþykkir frambjóðandi að hann hafi kynnt sér eftirfarandi kvaðir sem fylgir framboðinu og samþykki þær:

 1. Frambjóðandi skal vera skráður í Pírata (sjá https://x.piratar.is)

 2. Frambjóðandi skal gera grein fyrir kjörgengi skv. 3 gr.laga um framboð til sveitarstjórnarkosninga nr. 5/1998

 3. Frambjóðandi útvegar stjórn Pírata í Reykjavík allar nauðsynlegar upplýsingar sem koma fram í þessum reglum og leiðbeiningum.

 4. Frambjóðandi samþykkir með undirskrift endanlegt sæti á lista og gefur hann einnig samþykki fyrir umboðsmönnum listans. Þetta skal gert eigi síður en 4 dögum áður en frestur til að skila listanum rennur út, ellegar er heimilt að fella frambjóðanda af lista.

 5. Framboðslistum verður raðað samkvæmt úrslitum forgangskosningar með Schulze aðferð eftir kosningu í kosningakerfi Pírata. Þó skal frambjóðendum heimilt að víkja sæti og taka lægra sæti á lista en kjör hans segir til um, og færast þá aðrir frambjóðendur ofar á lista. Starfsmanni er ekki heimilt að taka fyrsta eða annað sæti. Hafni frambjóðandi sæti eða geti af öðrum sökum ekki tekið því skal afmá nafn hans af listanum og færa þá sem á eftir koma upp um eitt sæti. Nægi fjöldi frambjóðenda að þessum breytingum loknum ekki lögbundnu lágmarki fyrir fullskipaðan framboðslista er ábyrgðaraðila listans heimilt að bæta nöfnum þeirra sem það samþykkja í sæti á eftir þeim sem kjörnir hafa verið á framboðslistann.

 6. Allir félagsmenn Pírata í Reykjavík sem skráðir hafa verið í Pírata í 30 daga eða lengur munu hafa kosningarétt í prófkjöri Pírata í Reykjavík. Lokadagsetning til að skrá sig í Pírata og hafa atkvæðisrétt er þann 19. janúar n.k. eða 30 dögum áður en kosningum lýkur.

 7. Ef frambjóðandi er ekki kjörgengur er heimilt að víkja honum af lista svo listinn sé löglegur.

 8. Frambjóðendur gera grein fyrir öllum þeim hagsmunum sem gætu skipt máli við framboðið. Hagsmunaskráningu skal lokið áður en kosning hefst þann 12. febrúar. Skrá skal hagsmuni inn á Mínum síðum frambjóðanda í kosningakerfi Pírata (https://x.piratar.is)

 9. Kaup á atkvæðum eru ekki leyfileg undir neinum kringumstæðum. Verður frambjóðandi uppvís um slíkt verður málinu vísað til úrskurðarnefndar Pírata sem mun taka ákvörðun um áframhaldandi þátttöku frambjóðandans í prófkjöri.

 10. Eftirfarandi tillögur verða lagðar fyrir félagsfund til atkvæðagreiðslu. Einungis ein tillaga verður færð í reglurnar.

 11. Að greiða ekki fyrir umfjallanir, birtingar á greinum eða auglýsingar í prófkjörinu.

 12. Auglýsingar vegna framboðs til prófkjörs eru leyfðar en einungis úr eigin vasa. Hámark kostnaðar vegna auglýsinga er 50.000 kr. Ef tekið er sæti á lista þarf að gefa upp kostnað við auglýsingar.

 13. Kaup á auglýsingum vegna framboðs í prófkjöri fara í gegnum sérstakan hópfjármögnunarpott. Ekki er heimilt að kaupa auglýsingar með öðru fjármagni. Píratar í Reykjavík leggja fram fjármagnspott fyrir kostanir á auglýsingum sem er hópfjármagnaður af einstaklingsframlögum. Einstaklingar geta millifært á reikning Pírata í Reykjavík með skýringunni “Pottur”. Pottinum er svo úthlutað jafnt til þeirra frambjóðenda sem sækja um styrk fyrir þann 12. febrúar.

Sáttmáli frambjóðenda

Frambjóðendur beðnir um að hafa eftirfarandi atriði í huga í framboði sínu:

 1. Frambjóðendur í prófkjöri sýna öðrum frambjóðendum kurteisi og virðingu og koma fram af háttvísi, bæði í ræðu og riti.
 2. Frambjóðendur koma heiðarlega fram, eru sannsöglir og málefnalegir.
 3. Frambjóðendur gæta þess að sýna auðmýkt gagnvart ábyrgð sinni og valdi sem frambjóðendur Pírata.

Að lokum:

Að öllu jöfnu verður gert ráð fyrir að frambjóðandi vilji efsta mögulega sæti miðað við niðurstöðu prófkjörs.

Frambjóðendur eru hvattir til að svara eftirfarandi spurningum og birta svörin á Mín síða á kosningakerfi Pírata (https://x.piratar.is )

 1. Hvers vegna vilt þú bjóða þig fram fyrir Pírata?
 2. Hvað gerir þig að góðum kosti til að vera sveitarstjórnarfulltrúi í Reykjavík?
 3. Hver eru þín helstu stefnumál?
 4. Eða settu eitthvað fram sem þú heldur að gæti vakið áhuga fólks á framboði þínu.

Gleymið ekki hagsmunaskráningunni sem verður að koma fram á Mínum síðum.

Birt með fyrirvara um breytingar.

Píratakveðjur,

Stjórn Pírata í Reykjavík

reykjavik@piratar.is

Líst bara mjög vel á þetta.

Blátt bann á að stunda kynningarstarf sem kostar heillar mig ekki. Hámark eða miðlægur fjármagnspottur heillar mig hinsvegar.

 1. Píratar ættu að að fylgja lögum landsins frekar en að takmarka okkur í samkeppni við önnur stjórnmálaöfl. Komum okkur til valda og breytum kerfinu þannig að reglurnar séu þær sömu fyrir allt stjórnmálaafl á landinu.

 2. Það er erfitt að framfylgja svona bönnum og ekkert mál að fara á svig við bannið með því að láta aðra fjármagna svona kostanir fyrir sig.

 3. Ef Pírati er á móti því að fólk borgi fyrir almannatengsl eða auglýsingar, þá kýs það fólk aðra en þá frambjóðendur sem nýta sér slíkt. Það er lýðræði!

 4. Bann á auglýsingum er mjög vont fyrir nýliðun í flokknum og gefur núverandi Pírötum forréttindi. Við þurfum fleira fólk í Pírata til þess að flokkurinn lifi og dafni! Þátttaka í prófkjörum, kosningum grasrótar og stefnumótun hefur dregist saman. Svona bönn draga úr aðgengi að flokknum.

 5. Rökin fyrir banni er til að jafna prófkjörsbaráttu þannig að ríkt fólk hafi ekki forskot á fátækt fólk. Eða að ríka fólkið kaupi sér vald. Ég hef enga trú að Píratar dragi að sér einhverja dulda kvótakónga sem ætla að kaupa sér flokkinn. Ef svo er, þá eigum við að taka á því með lýðræði (og kjósa aðra) en ekki bönnum. Það eru í þokkabót engin fordæmi sem ég hef veit af fyrir því að einhver hafi keypt sér vald innan Pírata og menningin innan flokksins bara alls ekki í þá áttina. Ég hef heldur ekki trú á því að frambjóðendur geti einungis beitt sér fyrir hönd síns tekjuflokks. Bannið er ekki að leysa nein vandamál, heldur setur frambjóðendum þrengri stakk en í öðrum flokkum.

 6. Ef þetta er raunverulegt vandamál, þá höfum við ekkert í höndunum í dag til að halda slíku fram. Með tilkynningarskyldunni í 10b (eins og tíðkast í einhverjum flokkum) þá kemur þessi kostnaður fram í dagsljósið.

 7. Ef slík bönn eiga að vera til staðar, þá finnst mér að móðurfélagið eigi að álykta um slíkt frekar en stjórnir einstakra aðildafélaga séu að setja á svona afdráttalausar reglur með prófkjörsreglum. Prófkjörsreglur ættu að vera með einföldu sniði og svona ágreiningur ætti alls ekki að koma upp við gerð þeirra. Þetta er eitthvað sem er auðvelt að leysa með atkvæði í prófkjöri (kjósa ekki þá sem auglýsa) frekar en að taka inn á félagafund.

Atli Stefán Yngvason, formaður PíR.

Mér barst athugasemd frá Andrési Inga. Það eru komin ný kosningalög sem taka á kjörgengi og er því tilvitnun okkar í 2. grein prófkjörsreglna röng (í 3.gr sveitastjórnarlaga). Rétt tilvitnun er 6. gr kosningalaga nr. 112/2021. Ég mun leggja til að uppfæra í hana á félagsfundi í kvöld.

Á seinasta fundi var velt upp hvernig taka eigi á því ef upp koma hneykslismál hjá frambjóðendum sem eru á lista hjá Pírötum. Stungið var upp á útfærslum af einhverskonar upplýsingaskildu þeirra sem eru í framboði þannig að þeir ættu að gera ljóst ef þeir væru með eitthvað á bakinu eða eitthver vafamál. Ég held að það sé almennt góð hugmynd að reyna fá frambjóðendur til að gefa sem skýrasta mynd af hverjir þeir eru og hvað þeir hafa gert. Hinsvegar kann allt slíkt að vera talsvert loðið, hvað einum finnst mikilvægt að komi fram finnst öðrum það kannski ekki. Að sama skapi þá er enn óljóst hvernig eigi að taka á málum sem koma upp eftir að einstaklingur er kosinn á lista en áður en almennar kosningar fara fram.

Undir lok fundarins lagði ég fram spurningu sem varðaði mögulega lausn. Lausnin væri að hafa “fljótandi” kosningu í prófkjöri Pírata á þann veg að kjósendur gætu breytt atkvæðum sínum alveg fram að almennu kosningunum, eða amk þar til flokkurinn þarf að hafa skilað inn endanlegum lista til yfirvalda. Hugsunin er að ef ekkert mál kemur upp þá sé engin ástæða fyrir því að listinn breytist, kjósendur eru eins ánægðir með val sitt og þeir geta orðið. Hinsvegar ef það koma nýjar (slæmar) upplýsingar fram þá geti lýðræðislegt ferli séð til þess að uppsetning listans endurspegli þær. Þ.e.a.s. kjósendur geta þá fært atkvæði sitt frá þeim sem þeim lýst nú illa á og yfir til annars frambjóðanda. Þannig þarf enga yfirstjórn til að dæma hvað eru slæm brot, hvað gengur og hvað gengur ekki. Kjósendur ákveða það sjálfur. Slíkt kerfi ætti ekki að auka hættu á að neinir utanaðkomandi hafi áhrif á listann, því ef þeir hefðu tök á því myndu þeir gera það strax í upphafi, það væri enginn hagur í því að bíða með það þar til síðar í ferlinu.

Svo spurningin mín var og er: Er þessi hugmynd slæm eða góð? Er hún óframkvæmanleg útaf eitthverju? Að mínu mati (vitanlega 😊 ) hljómar hún vel og raunar er ég ekki sá fyrsti til að velta fyrir mér slíku fyrirkomulagi á lýðræði, s.s. að atkvæði fljóti meira og lýðræðið geti virkað hraðar en bara með föstum millibilum.

Auka: Ég póstaði þessu upphaflega á facebook eventinn, en hef þetta á báðum stöðum svo það sé ólíklegra að þetta fari framhjá fólki.

1 Like

Vitum við hvenær opnar fyrir framboð?