Drög að stefnu um dýravelferð og lífríki

Eftir nokkra góða málefnafundi með sérfræðingum í dýravernd er að fæðast nokkuð róttæk dýravelferðarstefna þar sem tekið er á flestu því sem aflaga hefur farið í núgildandi dýraverndarlögum.

Stefna um velferð dýra og lífríkis (drög):

 1. Setja skal ákvæði um dýravernd í stjórnarskrá og varúðarákvæði í löggjöf þannig að velferð dýra njóti vafans í ákvarðanatöku er varðar dýrahald og lífríki.
 2. Færa þarf dýravelferðarmál til Velferðarráðuneytis og til þess bærrar ríkisstofnunar eða deild sem hefur yfirumsjón með fræðslu, gagnaöflun og faglegri stjórnsýslu varðandi dýravelferð.
 3. Efla þarf daglega stjórnsýslu sveitarfélaga með umsjón dýra þegar kemur að dýraathvarfi, neyðartilfellum, umönnun, o.þ.h. hvetja þarf til þjónustu við dýraeigendur, m.a. með hundagerðum eða öðrum dýravinsamlegum útivistarsvæðum í bæjarfélögum.
 4. Skýrir ferlar og skjót viðurlög eru jafn áríðandi þættir til að tryggja velferð dýra, til dæmis ef taka þarf dýr af fólki sem ekki sinnir þeim, getur ekki sinnt þeim eða stundar dýraníð. Þessu þarf að bæta úr strax með auknu fjármagni.
 5. Endurskoða þarf málameðferð við innflutning dýra og stytta eins og unnt er þann tíma sem fer í einangrun gæludýra sem allra fyrst.
 6. Koma skal á samræmdri skráningu á gæludýrum sem nær til alls Íslands og birta tölfræði um fjölda dýra og tegundir.
 7. Reglur og úrræði fyrir velferð alifugla, svína og loðdýra eiga að taka mið af þörfum dýranna til rýmis, loftgæða, heilsu og eðlislægra þarfa. Ef ekki er unnt að mæta þörfum dýranna er ekki grundvöllur fyrir dýrahaldinu.
 8. Kröfur til heilnæmis, velferðar og öryggis dýra til matvælaframleiðslu skulu vera sambærilegar í matvörum sem seldar eru hér, óháð upprunalandi.
 9. Halda skal lyfjanotkun búfjár og gæludýra í lágmarki og í samræmi við viðurkenndar rannsóknir.
 10. Sá aðili sem er beint eða óbeint af valdur af áverkum eða dauða dýra skal greiða kostnað sem af því leiðir. Ef atvik verða í atvinnustarfsemi sem skaða dýr eða raska lífríki, hvort sem er af gáleysi eða ásetningi, skal sá sem skaðanum veldur greiða fyrir björgun dýra eða upphreinsun að fullu.

Stefnudrög með drögum að greinargerð er að finna hér…

Ég á erfitt með að skilja hvernig 1. grein er meint. Augljóslega er ekki verið að leggja til bann við dýrahaldi, slátrun né veiðum, hvorki heldur til fækkunar (t.d. minkadráp) né til manneldis eða fóðrunar. Né er ætlunin að banna breytingu á landnotkun sem kann að jafa stórkostleg hrif á fjölda dýra, t.d. framræsingu lands eða uppsetningu vindmyllu eða byggingu húss. En hvað er þá lagt til að banna?

1 Like

Takk, reyndar er ekki talað um að banna neitt, heldur að ganga betur frá málum þannig að húsdýr þurfi ekki að þjást vegna seinagangs í kerfinu og gæludýr og eigendur fái þjónustu við hæfi.
Ég fæ frekari álit á þessari athugasemd á málfundinum sem verður annað kvöld í Tortuga.

Væri þá ekki nær annað hvort að taka spendýr fyrir sérstaklega eða dýr í haldi sérstaklega? Það er ef ætlunin er ekki að breyta réttarstöðu ófriðaðra, frjálsra fugla eða annarra dýra sem menn drepa oft eða slasa, beint eða óbeint.

Það er fjarlægja orðin “og lífríki” úr fyrstu grein. Flest líf er dekkað í öðrum stefnum, t.d. um heilbrigðisþjónustu og byggingu og viðhald húsa.

1 Like

Takk Bjartur
Ég prófaði að taka út lífríki og held það sé óhætt, enda eru náttúruverndarlög með lífríkið og varúðarákvæði innifalin.

Hér er uppfærð útgáfa af stefnudrögum eftir síðasta fund (og með þinni tillögu), en greinargerðin er í hlekknum með upphafsinnlegginu.

 1. Setja skal ákvæði um dýravernd í stjórnarskrá og varúðarákvæði í löggjöf þannig að velferð dýra njóti vafans í ákvarðanatöku er varðar dýrahald.
 2. Færa þarf dýravelferðarmál til Velferðarráðuneytis og til þess bærrar ríkisstofnunar eða deild sem hefur yfirumsjón með fræðslu, gagnaöflun og faglegri stjórnsýslu varðandi dýravelferð.
 3. Efla þarf daglega stjórnsýslu sveitarfélaga með umsjón dýra þegar kemur að dýraathvarfi, neyðartilfellum, umönnun, o.þ.h. hvetja þarf til þjónustu við dýraeigendur, m.a. með hundagerðum eða öðrum dýravinsamlegum útivistarsvæðum í bæjarfélögum.
 4. Skýrir ferlar og skjót viðurlög eru jafn áríðandi þættir til að tryggja velferð dýra, til dæmis ef taka þarf dýr af fólki sem ekki sinnir þeim, getur ekki sinnt þeim eða stundar dýraníð. Þessu þarf að bæta úr strax með auknu fjármagni.
 5. Endurskoða þarf málameðferð við innflutning dýra og stytta eins og unnt er þann tíma sem fer í einangrun gæludýra sem allra fyrst.
 6. Koma skal á samræmdri skráningu á gæludýrum sem nær til alls Íslands og birta tölfræði um fjölda dýra og tegundir.
 7. Við slátrun þarf að huga að eftirliti með mannúðlegri meðferð dýra. Reglur og úrræði fyrir velferð alifugla, svína og loðdýra eiga að taka mið af þörfum dýranna til rýmis, loftgæða, heilsu og eðlislægra þarfa. Ef ekki er unnt að mæta þörfum dýranna er ekki grundvöllur fyrir dýrahaldinu.
 8. Kröfur til heilnæmis, velferðar og öryggis dýra til matvælaframleiðslu skulu vera sambærilegar í matvörum sem seldar eru hér, óháð upprunalandi.
 9. Halda skal lyfjanotkun búfjár og gæludýra í lágmarki og í samræmi við viðurkenndar rannsóknir.
 10. Öll móttaka eða geymsla dýra og opinber þjónusta skulu vera eftirlitsskyld.
 11. Koma þarf á samræmdu námi á Íslandi um dýraatferli, móttöku dýra, dýrahjúkrun og dýralækninum með því markmiði að fjölga dýrahjúkrunarfræðingum og dýralæknum.
 12. Sá aðili sem er af valdur af áverkum eða dauða dýra skal greiða kostnað sem af því leiðir. Ef atvik verða í atvinnustarfsemi sem skaða dýr, hvort sem er af gáleysi eða ásetningi, skal sá sem skaðanum veldur greiða að fullu fyrir björgun dýra eða upphreinsun.
1 Like

Nokkrir punktar/hugmyndir í fljótheitum. 1. tala um hundagarða í stað hundagerða - meira aðlaðandi og getur haft jákvæð áhrif á mótun þeirra. 2. leggjum til að loðdýrarækt verði lögð af. Eru ekki eldisdýr og aðbúnaður er viðurstyggilegur. 3. leggjum til að starfsemi sláturhúsa verði gagnsæ (ýmsar leiðir, allt frá fræðsluskyldu um hvernig hinum ýmsu dýrategundum er slátrað nákvæmlega, yfir í að almenningur geti heimsótt sláturhúsin og að þau séu með stórum gluggum. (Svo er ekkert til sem kalla má “mannúðlegt” við slátrunarferlið frá því dýrið leggur af stað og þar til ferð þess er endanlega lokið, þetta er samfella af angist og kvöl).

2 Likes