Efni sem gott er að hafa fyrir kosningar

Oft sjáum við góðar/fróðlegar upplýsingar á netinu, færslur á fb oþh. sem geta gagnast vel í framtíðini t.d. þegar kemur að kosningum. Gallinn er að þetta lekur úr hausnum á manni. Þannig að mér datt í hug að búa til þennan þráð til að safna þessu saman. Er ekki nógu flinkur til að búa til einhverskonar gagnabanka.

Hér er ein sem Marinó G. Njálsson kom með á facebook um framlög til LSH:

Ég er mikill tölfræðikarl, eins og þeir vita sem þekkja mig. Velti ég mér því oft upp úr tölum frá öðru sjónarhorni en fólk gerir almennt.

Um þessar mundir hefur Svandís Svavarsdóttir tekið að sér hlutverk, sem Bjarni Ben nánast bjó til fyrir nokkrum árum, en það er að reyna að bera í bætifláka fyrir það að framlög til Landspítalans séu ekki nóg og þau hafi bara hækkað helling. Bjarni stundaði þetta í mörg ár, en féll í sömu gryfju og Svandís gerir. (Líklega hefur hann hjálpað henni að finna gryfjuna :slight_smile: ) Eins og Bjarni hér á árum áður (læt þetta hljóma eins og Bjarni sé orðinn fjörgamall karl), þá bendir Svandís á, að framlög til Landspítalans hafi aukist um 12% á þremur árum og þá eru ekki tekin með framlög vegna hækkunar launa og verðbólgu. Sem sagt 12% hrein hækkun framlaga.

Þetta væri nú alveg glæsilegt, ef…

…ekki hefði viljað svo til að frá 1. janúar 2017 til 30. september 2019 fjölgaði landsmönnum úr 338.450 í 362.860 eða um 7,2%;

…íbúum 70 ára og eldri hefði ekki líka fjölgað um 7,2% (raunar 7,3%);

…ekki hefði verið veruleg uppsöfnuð fjárþörf hjá Landspítalanum áður en þessi hækkun kom til;

…fjöldi ferðamanna hefði ekki aukist um þrefaldan fjölda landsmanna á þessum þremur árum og Landspítalinn hefur þurft að bera að fullu kostnað vegna hluta þessara ferðamanna.

Ég gæti svo sem komið með fleiri atriði, en læt þetta duga.

Ef eingöngu er litið til fjölgunar þjóðarinnar, þá fóru 60% aukningarinnar bara í að koma til móts við mannfjöldaþróun, sem gera má ráð fyrir að hafi leitt til meira álags á Landspítalann. Hin 40% fóru því í að mæta uppsafnaðri þörf, því að þjóðarsjúkrahúsið þarf líka að sinna gestum okkar og síðan uppbyggingu innan spítalans.

Vissulega voru aukin framlög upp á 5,6 ma.kr., en hátt í 3,4 ma.kr. voru bara til að halda í við fjölgun þjóðarinnar og eftir standa rúmlega 2,2 ma.kr. sem var raunveruleg viðbót. Það gleymdist nefnilega hjá Svandísi, eins og gerðist ítrekað hjá Bjarna, að þjóðinni fjölgar og fleiri einstaklingar kalla á meiri þjónustu af hálfu Landspítalans. 7,2% fjölgun landsmanna þýðir t.d. að líklega sé þörf á 7,2% fleiri leguplássum, 7,2% fleiri starfsmönnum, 7,2% fleiri komum á bráðadeild, 7,2% fleiri röntgenmyndum, o.s.frv. Þannig að hafi verið þörf fyrir 100 rúm í lok árs 2016, þá er núna þörf fyrir 107 rúm með öllu sem því fylgir.

Svo má ekki gleyma því, að hugsanlega fjölgaði landsmönnum um einhver þúsund milli 30. september 2019 og 31. desember 2019. Þá eru 40%-in allt í einu orðin 35% og rúmlega 2,2 ma.kr. eru tæplega 2,0 ma.kr. Þannig að þegar öllu var á botnin hvolft, þá dugðu þessir 5,6 ma.kr. bara til þess að halda í horfinu og kannski búa til örlítið borð fyrir báru sem myndi duga í logni og golu. Það er bara sjaldan logn eða gola á Landspítalanum, þó óskandi sé að sú væri staðan.

tengill á póstinn


4 Likes

Flott samantekt, takk fyrir þetta

Af fb: “Þessir felldu tillögu um hækkun framlaga til almannatrygginga, hækkun sem hefði fært örorku og ellilífeyri til jafns við lægstu laun: Ari Trausti Guðmundsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Ásmundur Friðriksson, Birgir Ármannsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir, Brynjar Níelsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Haraldur Benediktsson, Herdís Anna Þorvaldsdóttir, Jón Gunnarsson, Katrín Jakobsdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Lilja Alfreðsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Orri Páll Jóhannsson, Ólafur Þór Gunnarsson, Óli Björn Kárason, Páll Magnússon, Sigríður Á. Andersen, Sigurður Ingi Jóhannsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Svandís Svavarsdóttir, Una Hildardóttir, Vilhjálmur Árnason, Willum Þór Þórsson, Þórarinn Ingi Pétursson og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir.”

2 Likes

@OlgaCilia vildi benda á þetta frá Marínó sem Bjarki deilir hér

2 Likes

Meira efni frá Marinó :slight_smile:

Mjög algengt er að sjá það í umræðunni um virkjanir og stóriðju, að með því að virkja “hreina” orku á Íslandi sem seld er til mengandi stóriðju, þá sé verið að koma í veg fyrir að notuð sé “óhrein” orka fyrir þessa sömu stóriðju annars staðar í heiminum og þá sérstaklega í Kína. Þannig er því gjarnan haldið fram, að íslenskar vatnsaflsvirkjanir dragi úr þörf fyrir kolaorkuver í Kína. Með þetta í huga er áhugavert að rifja upp hvernig þetta var í raun og veru og í ljós kemur að ekki er flugufótur fyrir þessari fullyrðingu. Þetta er algjört KJAFTÆÐI!

Að stóriðja hefði ekki verið byggð á Íslandi þýðir ekki að framleiða hefði þurft orku með kolum fyrir þessi stóriðjuver annars staðar í heiminum. Það er einfaldlega röng ályktun. Þessi stóriðja hefði líklega verið byggð í landi með álíka lágan framleiðslukostnað raforku og vistvænum hætti, þ.e. þar sem byggðar hefðu verið vatnsaflsvirkjanir (eða í seinni tíð vindorkuver). Spyrjið bara þá sem voru stjórnendur og eigendur þessara stóriðjuvera á þeim tíma þegar stóriðjuverin voru byggð. Þar sem það er líklega ekki hægt, þá er kostur að hafa gott minni.

Ég veit svo sem ekki hvert er eignarhald álvera í Kína, en við uppflettingar á vefum Alcoa, RioTinto og Century Aluminium kemur í ljós að aðeins CA er með einhverja starfsemi í Kína, en þar eru framleidd rafskaut hjá fyrirtæki sem það á 40% í. Ég veit hins vegar, að þegar álverið var reist í Straumsvík, þá stóð valið ekki milli raforku sem framleidd var með kolum í Kína og raforku á Íslandi sem framleidd var með vatnsafli. Nei, valið stóð nokkuð örugglega milli vatnsafls á Íslandi og vatnsafls í einhverju öðru landi. Þetta hefur ítrekað komið fram í fréttaflutningi síðustu 50 árin og sérstaklega í tengslum við stækkanir á álverinu í Straumsvík.

Tökum næst járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga. Ég stórlega efast um að Elkem hafi í eitt augnablik velt fyrir sér að kaupa rafmagn frá kolaorkuveri. Mig minnir að valið hafi staðið á milli vatnsorku á Íslandi eða vatnsorku í Noregi.

Sama var þegar álverið var reist á Grundartanga. Valið var á milli tveggja landa, þar sem rafmagn var framleitt með vatnsafli/gufuafli. Og loks þegar kom að álverinu í Reyðarfirði, þá stóð valið á milli tveggja landa, þar sem rafmagn var framleitt með vatnsorku, í þetta sinn var hitt landið Brasilía (muni ég rétt).

Loks er það kísilverksmiðjan á Bakka við Húsavík. Það var hreinlega ímyndarmál hjá PCC að verksmiðjan notaði “hreina” orku. Hefði hún ekki verið reist á Bakka, þá hefði hún verið reist í öðru landi, þar sem “hrein” orka stóð til boða.

Sem sagt raforkuframleiðsla til stóriðju á Íslandi hefur ekki sparað mörg tonn í útblæstri á CO2 vegna raforkuframleiðslu, hvað þá 200 milljónir tonna, eins og sumir vilja halda fram og bera þá saman við kolaorkuver í Kína. Það sem meira er, að sé miðað við þá staði sem líklegt er að hafi komið til greina fyrir þessi stóriðjuver á sínum tíma, að sú staðreynd að þau séu á Íslandi hefur í reynd aukið losunina, þar sem aðföng og afurðir eru flutt langar leiðir yfir hafið til og frá Íslandi. Nánast ekkert, sem notað er til framleiðslunnar (utan rafmagnsins) er upprunið á Íslandi og nánast ekkert (ef nokkuð) af framleiðslunni er notað á Íslandi án þess að vera fyrst flutt úr landi og síðan aftur til landsins í fullunninni vöru. Kolefnisfótspor stóriðjuveranna er því stærra, ef eitthvað er, vegna þess að þau eru staðsett á Íslandi, en ekki í þeim löndum sem til greina kom að reisa þau.

Vil ég hvetja fólk og þá sérstaklega þingmenn, að halda sig við staðreyndir. Valið er EKKI á milli vatnsaflsvirkjana á Íslandi og kolaorkuvera í Kína. Fjölbreytileikinn er miklu meiri en svo. Bygging stóriðjuvera á Íslandi hefur EKKI sparað 200 milljónir tonna í CO2 útblæstri, vegna þess að aldrei stóð til að þessi stóriðjuver myndu nota orku frá kolaorkuverum, hefðu þau verið reist þar sem einnig kom til greina að reisa þau.

Það eru nánast óteljandi álver í Kína (telst til að þau séu yfir 140, en ekki er víst að öll séu í rekstri, eða vel yfir helmingur allra álvera í heiminum), en ég vil leyfa mér að fullyrða að ekkert þeirra var reist þar vegna þess að ekki fékkst leyfi til að reisa álver í staðinn á Íslandi og engu þeirra verður lokað vegna þess að nýtt álver yrði reist á Íslandi. Vissulega er samkeppni milli álvera um allan heim, en á Íslandi eru þrjú álver sem eru með framleiðslugetu upp á 861.000 tonn meðan heimsframleiðslan er líklega yfir 70 milljónir tonna (75,8 milljónir tonna með fyrirvara um að einhver álver séu ekki í rekstri). Að fullyrða að einhver tengsl væru á milli þess að nýtt 300.000 tonna álver yrði reist á Íslandi og að dregið yrði úr framleiðslu raforku í kolaorkuveri fyrir álver í Kína eða hætt við að reisa nýtt álver þar, sem notar kolaorku, er ekki bara langsótt, það er fjarstæðukennt. Höfum það alveg á hreinu, að ný virkjun á Íslandi hefur engin mælanleg áhrif á notkun kola við raforkuframleiðslu í Kína eða annars staðar í heiminum.

1 Like

Svo má ekki gleyma sölu Bjarna Ben í sjóði 9 https://stundin.is/grein/5550/