Oft sjáum við góðar/fróðlegar upplýsingar á netinu, færslur á fb oþh. sem geta gagnast vel í framtíðini t.d. þegar kemur að kosningum. Gallinn er að þetta lekur úr hausnum á manni. Þannig að mér datt í hug að búa til þennan þráð til að safna þessu saman. Er ekki nógu flinkur til að búa til einhverskonar gagnabanka.
Hér er ein sem Marinó G. Njálsson kom með á facebook um framlög til LSH:
Ég er mikill tölfræðikarl, eins og þeir vita sem þekkja mig. Velti ég mér því oft upp úr tölum frá öðru sjónarhorni en fólk gerir almennt.
Um þessar mundir hefur Svandís Svavarsdóttir tekið að sér hlutverk, sem Bjarni Ben nánast bjó til fyrir nokkrum árum, en það er að reyna að bera í bætifláka fyrir það að framlög til Landspítalans séu ekki nóg og þau hafi bara hækkað helling. Bjarni stundaði þetta í mörg ár, en féll í sömu gryfju og Svandís gerir. (Líklega hefur hann hjálpað henni að finna gryfjuna ) Eins og Bjarni hér á árum áður (læt þetta hljóma eins og Bjarni sé orðinn fjörgamall karl), þá bendir Svandís á, að framlög til Landspítalans hafi aukist um 12% á þremur árum og þá eru ekki tekin með framlög vegna hækkunar launa og verðbólgu. Sem sagt 12% hrein hækkun framlaga.
Þetta væri nú alveg glæsilegt, ef…
…ekki hefði viljað svo til að frá 1. janúar 2017 til 30. september 2019 fjölgaði landsmönnum úr 338.450 í 362.860 eða um 7,2%;
…íbúum 70 ára og eldri hefði ekki líka fjölgað um 7,2% (raunar 7,3%);
…ekki hefði verið veruleg uppsöfnuð fjárþörf hjá Landspítalanum áður en þessi hækkun kom til;
…fjöldi ferðamanna hefði ekki aukist um þrefaldan fjölda landsmanna á þessum þremur árum og Landspítalinn hefur þurft að bera að fullu kostnað vegna hluta þessara ferðamanna.
Ég gæti svo sem komið með fleiri atriði, en læt þetta duga.
Ef eingöngu er litið til fjölgunar þjóðarinnar, þá fóru 60% aukningarinnar bara í að koma til móts við mannfjöldaþróun, sem gera má ráð fyrir að hafi leitt til meira álags á Landspítalann. Hin 40% fóru því í að mæta uppsafnaðri þörf, því að þjóðarsjúkrahúsið þarf líka að sinna gestum okkar og síðan uppbyggingu innan spítalans.
Vissulega voru aukin framlög upp á 5,6 ma.kr., en hátt í 3,4 ma.kr. voru bara til að halda í við fjölgun þjóðarinnar og eftir standa rúmlega 2,2 ma.kr. sem var raunveruleg viðbót. Það gleymdist nefnilega hjá Svandísi, eins og gerðist ítrekað hjá Bjarna, að þjóðinni fjölgar og fleiri einstaklingar kalla á meiri þjónustu af hálfu Landspítalans. 7,2% fjölgun landsmanna þýðir t.d. að líklega sé þörf á 7,2% fleiri leguplássum, 7,2% fleiri starfsmönnum, 7,2% fleiri komum á bráðadeild, 7,2% fleiri röntgenmyndum, o.s.frv. Þannig að hafi verið þörf fyrir 100 rúm í lok árs 2016, þá er núna þörf fyrir 107 rúm með öllu sem því fylgir.
Svo má ekki gleyma því, að hugsanlega fjölgaði landsmönnum um einhver þúsund milli 30. september 2019 og 31. desember 2019. Þá eru 40%-in allt í einu orðin 35% og rúmlega 2,2 ma.kr. eru tæplega 2,0 ma.kr. Þannig að þegar öllu var á botnin hvolft, þá dugðu þessir 5,6 ma.kr. bara til þess að halda í horfinu og kannski búa til örlítið borð fyrir báru sem myndi duga í logni og golu. Það er bara sjaldan logn eða gola á Landspítalanum, þó óskandi sé að sú væri staðan.