Er til einhver Pírataleg túlkun á merkilegustu salernisferð ársins?

Hæhæ, veit að þetta spjall er vannýtt auðlind en datt í hug að skjóta fram þræði í kjölfar fjölmiðlaumræðu um háttvirtan þingmann.

Óháð því hver á í hlut, Pírati eða ekki, þá þykir mér persónlega oft leiðinlegt að lesa um skakkaföll kjörinna leiðtoga í persónulegu/utanstarfslífinu þeirra. Það er samt extra leiðinlegt að lesa kommentin frá boomer körlum og lélega stuðluðu ferskeytlurnar þeirra þegar flokkssystkyni eiga í hlut.

Svo sárnar mér smá. Ég veit að það er illa gert af mér að búast við ofurmannlegri hegðun frá öðrum og ein undirstaða lýðræðis er að fólkið í stjórn sé eins og maður sjálfur, en þau fá líka umboð sitt að einhverju leyti, í trausti þess að þau hegði sér betur en annað fólk og hafi vit fyrir okkur hinum.

Í ljósi þess hversu oft áður ég hef viljað að ráðherrar, þingmenn, bæjar- og borgarfulltrúar segi af sér, þá get ég ekki með góðri samvisku gert undantekningu þegar einhver úr uppáhaldsflokknum mínum gerir eitthvað ámælisvert. Jafnvel þótt að það sé einn af mínum uppáhaldsþingmönnum. Bæði vegna þess að það væri tvískinnungsháttur, en einnig vegna þess að eitt af grunngildum Pírata er að fólk taki ábyrgð og það ætti ekki að takmarkast við ráðherra og meirihlutastjórnir, heldur ættum við sem flokkur að vera leiðandi og fyrirmynd. Mér líður eins og ég sé að taka einhverja ábyrgð með því að kasta þessum pælingum fram, svo má endilega leiðrétta mig eða koma með fleiri sjónarhorn.

Tek fram að ég er ekki krefjast þess að Arndís Anna segi af sér, en þetta gæti verið hluti af umræðu um hvernig við viljum tækla ábyrgð innan flokksins ef það kemur eitthvað alvarlegt uppá í framtíðinni, því þá mega Píratar mega ekki vera undanskildir aðhaldi Pírata.

Salernismálið er fyrir skort að betra orði af minni hálfu “tittlingaskítur” en þar sem Pírata hafa í gegnum tíðina reynt að bæta menningu í kringum ábyrgð þá tel ég að það þurfi að gera eitthvað áþreifanlegt í þessu máli.

Það sem ég mundi mæla með er að Arndís kalli inn varamann fyrir sig og svo yrði gert kosning innan x. Pírata. Is þar sem hún mundi “endurnýja” umboðið sitt frá félagsmönnum.

Segi það sama og þú, hún hefur staðið sig vel á þingi og mundi ég gefa henni aftur mitt atkvæði.

1 Like

Fyrst nefni ég að ég er bróðir Arndísar og langt frá því að vera hlutlaus, en hitt er að við getum svosem engin verið hlutlaus þegar við erum að tala um okkar eigin þingmenn.

Mér þætti ekkert minna en galið að Arndís segði af sér út af þessu máli, persónulega. Hún gerði ekki nokkurn skapaðan hlut af sér annan en að taka það óstinnt upp að ráðist væri inn á hana á klósetti. Hefði auðvitað verið flottara að halda kúlinu, en þetta er í algjörum grundvallaratriðum ólíkt öllum ástæðum sem ég þekki fyrir því að stjórnmálamanni bæri að segja af sér.

En ég vil nefna nokkra punkta.

  1. Við höfum iðulega kallað eftir afsögnum ráðherra, en ekki þingmanna. Fyrir mér er mikilvægur greinarmunur þarna á, vegna þess að þingmenn eru þjóðkjörnir og mér finnst skrýtið að ætla að láta einhverjar aðrar reglur en atkvæði kjósenda ráða því hvort þeir verði áfram þingmenn eða ekki. Ráðherrar eru hinsvegar skipaðir út frá praktískum sjónarmiðum um hvers konar ríkisstjórn þoli vantraust frá þinginu. Þannig hef ég aldrei kallað eftir því að þingmaður segi af sér, jafnvel þegar þeir ljúga blákalt að þing og þjóð eins og mörg, skjalfestanleg og sannanleg dæmi eru um. Sama gildir ekki um ráðherra. Og sömuleiðis finnst mér að þá eigi ráðherra að setja af sér ráðherraembætti, ekki þingmennsku (nema viðkomandi kjósi að gera það sjálfur af einhverjum öðrum ástæðum). Sama lógík þykir mér gilda um t.d. formannsembætti nefnda og þess háttar, þ.e. stöður sem eru ekki ákvarðaðar með beinu atkvæði kjósenda.

  2. Ég verð að viðurkenna að ég er bara frekar ósammála þessum punkti hérna:

Á engan hátt vil ég að þingmenn hafi vit fyrir kjósendum, heldur akkúrat þveröfugt. Ég vil þingmenn sem þekkja mannlífið eins og það er í raun og veru, þarf að díla við hversdagsleg vandamál og þekkir samskipti við batterí eins og dyraverði. Ef setja ætti lög um skemmtistaði sem snerti á dyravörslu, til dæmis, þá myndi ég treysta Arndísi betur núna til að taka upplýsta afstöðu um það vegna þess að ég veit, að hún veit, hvernig dyraverðir geta verið… og hvernig gestir geta verið. Ég vil að þingmenn þekki og hrærist í sama samfélagi og þeir stjórna.

  1. Almennt finnst mér ekki að afsagnir eigi að vera refsing. Því miður hugsa íslenskir stjórnmálamenn mikið eins og það sé málið, þegar málið er frekar hvort þeir geti sinnt starfinu þannig að það sjáist að þeir geri það að heilindum. Þá má spyrja; nákvæmlega hvaða hluta af þingstörfum Arndísar telur fólk að þetta atriði hafi haft áhrif á, eða geti haft áhrif á? Það eina sem mér dettur í hug er að hún er upplýstari um hvernig samskipti við dyraverði og lögreglu geti verið. Berum þetta saman við t.d. Hönnu Birnu að ljúga að þinginu um hvernig ráðuneytið hennar lak persónugögnum um viðkvæman einstakling í fjölmiðla þegar hún er dómsmálaráðherra, Bjarna Benediktsson að selja föður sínum banka þegar hann er fjármálaráðherra, Sigríði Á. Andersen að rústa einu stykki réttarstigi með dæmalausri þvermóðsku og ofmati á eigin sérfræðiþekkingu þegar hún er dómsmálaráðherra. Jón Gunnarsson að neita að afhenda Alþingi gögn sem honum ber lögum samkvæmt að afhenda. Þessi mál snúast ekkert bara um að þetta hafi verið hneyksli eða hvort fólki hafi fundist þessir hlutir asnalegir eða ekki, heldur um að þessum einstaklingum var ekki stætt á að sitja í þessum embættum í ljósi þess hvernig þeir fóru með valdið. Það er spurningin. Það er málið. Þetta snýst um meðferð valds. Að láta kasta sér út af skemmtistað er ekki þingmaður að misnota vald sitt, heldur að finna fyrir því hvernig óbreyttum borgara líður þegar hann abbast upp á dyraverði.

En í grunninn finnst mér fínt að við ræðum þetta aðeins, því mér finnst alls ekki hafa verið ljóst hvað ráði för þegar fólk kallar eftir afsögn. Það er vondur bragur á því, og því um að gera að við ræðum þetta til að forðast hræsni í framtíðinni, sem við erum vel megnug um eins og annað fólk.

Læt þetta duga í bili til að drepa ekki lesendur úr málæði. :sweat_smile:

3 Likes