Á Íslandi eru lög sem setja tjáningu skorður. Sérstaklega eru miklar takmarkanir á auglýsingum. Þetta hamlar listamönnum og fjölmiðlum. Borgarleikhúsið sýnir leikrit um fíkil, en má ekki auglýsa það með teikningu af fíklinum að reykja. Íslensk tímarit um læknisfræði, Læknaneminn og Læknablaðið, þurfa að ritskoða auglýsingar á lyfseðilsskyldum lyfjum á vefútgáfu blaðanna. Þeir sem lesa blöðin einvörðungu á netinu kunna því að vera grunlausir um hverjir styrkja útgáfuna. Það er andstætt viðmiðum læknavísinda um gagnsæi í fjármögnun og hagsmunatengsl. Tekjur af áfengisauglýsingum renna svo ekki til íslenskra fréttamanna, heldur til erlendra tæknifyrirtækja.
Erlend tæknifyrirtæki. Ég veit ekki með ykkur, en ég hef samt séð fleiri auglýsingar—á íslensku—um áfengi og veðmál, þá sennilega um hvenær hætti að gjósa, en mig kærir um. Enda fæ ég efni frá þeim sem hafa efni á að veita því til mín. Þar eru fyrirtækin með óheftu auglýsingatekjurnar ofarlega á blaði. Ólíkt Fréttablaðinu sáluga, eða litlum íslenskum fréttastofum og ritstjórnum sem er búið að smætta niður í Gróu á Leiti og aðstoðarmenn. Ríkisútvarp gnæfir þar eitt yfir, þó fleiri séu nú komin undir hæl stjórnmálamanna. Fréttamennska er núorðið mikið til fjármögnuð með hverfulum ríkisstyrkjum og áskriftum.
Viljum við ekki leyfa birtingu auglýsinga innanlands?
Þetta er náttúrulega skýrasta birtingarmynd þess að áfengislöggjöfin er úrelt, og sömuleiðis hömlur á auglýsingar annarra lyfja og vímuefna. Það er allt sem mælir á móti núverandi framkvæmd. Gjaldeyrir streymir úr landi, samkeppnisstaðan er skekkt og áfengislöggjöfin sniðgengin. Dauður lagabókstafur er bara dauður þangað til reynir á hann, svo mér finnst að já, við ættum að styðja það.
Er annars á því að það ætti að rýmka mjög á hvaða lyf teljast örugg. Fólk er hvort sem er að flytja inn ofnæmis- og verkjalyf frá EES í massavís og það er þá betra að samræma okkur framkvæmdinni þar til að gæta öryggis frekar en að vera alltaf að halda lyfjum frá fólki.
Allar takmarkanir á tjáningarfrelsi - líka þær réttmætu - þurfa að byggja á nauðsyn til að ná fram tilteknum markmiðum. Þegar það er alveg ljóst að þau markmið náist aldrei með takmörkuninni, þá ber að afnema hana.
Ég hefði ekki verið svo viss fyrir tíma internetsins, allavega ekki að öllu leyti, en ef markmiðið er að vernda áhorfendur fyrir auglýsingum, þá er það markmið bara orðið að einhverri óraunhæfri draumsýn.
Þá er eina vopnið sem við höfum, að ýmist treysta fólki til að sjá og heyra, og kenna því að meðhöndla upplýsingar og auglýsingar betur. Við erum að vísu að standa okkur mjög illa í því núna, þannig að ég myndi líka vilja sjá eitthvað til að tækla það. Almennt er fólk lélegt í að meðhöndla upplýsingar, og ofuráreiti nútímans gerir það ekkert auðveldara.
En þá er spurning hvort við séum ekki komin út í annað efni. Hvað varðar þessar auglýsingar sem þú nefnir, þá dugar mér að það sé með öllu gagnslaust að takmarka tjáningarfrelsi að þessu leyti, og við það eitt verð ég mótfallinn takmörkuninni. Sönnunarbyrðin er ávallt hjá þeim sem vill takmarka það, og stundum er það auðvelt (t.d. hvað varðar hótanir, brot á friðhelgi einkalífs, réttinum til sanngjarnrar málsmeðferð o.s.frv.), stundum aðeins erfiðara, og svo einstaka sinnum bara gjörsamlega ómögulegt.