Fjölónæmu bakteríu dilemmað-rapport

Einn af kostum þess að sitja í stjórnum eins og stjórn Neytendsasamtakanna er að maður getur stundum kallað til sérfræðinga til að ræða málefni aðeins ítarlegar.

Vegna umræðu um innflutning á fersku kjöti og frumvarpið sem er komið til vegna þess að Ísland hefur tapað dómsmálum fyrir EFTA dómstólnum þá fengum við Karl G.Kristinson yfirlækni á sýklafræðideild landspítalans til að ræða við okkur.

Hann sýndi okkur tölfræði sem sýndi svart á hvítu að íslenskir dýrastofnar koma vel út í samanburði við dýrastofna á meginlandi Evrópu hvað varðar fjölónæmu bakteríusmit. Noregur er samt ekki að koma illa út og það má þakka því að þeir fóru aðra leið árið 2007. (Það virðist oft vera þannig að íslenskir ráðamenn í fortíðinni hafa gert brautina sem við erum á óhjákvæmilega á þessum mikla “uppgangstíma”).

NS hefur síðustu ár verið mjög hlynnt meiri innflutningi vegna þess að það eykur samkeppni og lækkar verð. Andstaða bænda á Íslandi snýst vitaskuld um áhyggjur af smiti í bústofna, en það má ekki gleyma því að þeir hafa beina viðskiptahagsmuni líka. Þó við viðurkennum það erum við ekki að gera lítið úr því sem er meginpunkturinn í máli Karls. G.

Nefnilega að Ísland er eyja og þess vegna eiga að vera strangari reglur til að vernda lífríkið.

En á fyrirlestri hans runnu á mig tvær grímur. Smit frá fjölónæmum bakteríum koma langfæst frá kjöti. Kjöt er nefnilega í 5. sæti. Grænmeti hins vegar í 4.sæti og mun líklegra til að bera með sér bakteríur. Það er sennilega af því við eldum það öðruvísi (eða ekki) en höfum þó samt í huga að þetta er gífurlega sjaldgæft. Svo þetta getur verið svolítið eins og að hafa áhyggjur allan daginn af hryðjuverkaógn. Ég er ekki að segja að við eigum að sleppa eftirliti á flugvellinum, bara að við eigum að lifa lífi okkar án þess að láta þessar áhyggjur stýra okkur. Haldið áfram að borða salat og ferðast.

En talandi um ferðalög.
1-3 ástæður þess að bakteríurnar berast í heiminum eru ferðalög fólks. Íslendingar á sólarströnd sem borða kjöt og grænmeti á Spáni (sem er það land í Evrópu sem notar mest sýklalyf í landbúnaði) er miklu líklegra til að koma veirum og bakteríum inn í íslenskt lífríki.

Aðalsökudólgurinn er samt túristinn. En það er samt ekki honum að kenna endilega. Jú vissulega gæti einhver Frakki komið með samloku með ógerilsneyddum osti til landsins og stoppað bílaleigubílinn og gefið hesti eða kind að smakka. En það er mun líklegra að viðkomandi skilji eftir saur sem sauðfé komist í tæri við. Bág salernisaðstaða á ferðamannastöðum er ein mesta ógn við íslenska bakteríuflóru sem finnst.

Sömuleiðis þá er vegna þessa mjög mikilvægt að skólp og frárennslismál í íslenskum þorpum séu til fyrirmyndar. Þar erum við sluksarnir í Evrópu.

Það er umhugsunarefni að við vorum síðasta ríki EES að taka upp reglugerðir sem gerðu eftirlit með sýklum strangara. Og það er umhugsunarvert að við látum salernisaðstöður og skólpmál sitja á hakanum. (Þarna held ég að peningahagsmunir spili inn í. Sjallarnir hafa viljað einkavæða meira aðgengi að náttúruperlum og réttlætt með kostnaði eigenda við að setja upp aðstöðuna. Auðvitað er spurning hversu mikið á að setja í að byggja upp innviði og aðgengi að salernum … og spurning hvort það skemmi oft svæði sem eru laus við mannvirki að öðru leyti … en ef alvarlegir sjúkdómar berast í bústofna vegna slíks slugsskaps … þá held ég við munum sjá eftir því).

Ég er svoldið klofin í þessu máli því ég hef alltaf stutt við meiri innflutning og minni höft, en minn innri umhverfissinni er miklu skeptískari. (Og meiri einangrunarsinni en frjálslynda sjálf mitt).

En allavega ég læt lokið þessu inputti í umræðuna í bili. Þetta er smá “food for thought” svo maður flytji erlent hugtak hrátt inn og mengi íslenska textann. Kannski myndi ég geta stutt heilsteypta stefnu sem gengur út á að viðhalda Íslandi sem tærustu. Kannski er það of seint og óhjákvæmilega mun staða landsins sem ferðamannaparadís leiða til þess að baráttan sé töpuð.

Eitthvað segir mér samt að við myndum aldrei sjá eftir átaki í skólprennsli og salernisaðstöðu um allt land.

3 Likes

Hér er reglugerðin sem við áttum að innleiða 2014 (þegar aðrar þjóðir gerðu það).