Flækjustig skattkerfisins

Það er ekki vinnandi vegur að skilja og reikna tekjuskatt. Hvorki fyrir skattgreiðendur né stjórnmálamenn. Hér er dæmi um skattalögum sem var breytt í desember 2019:

Sé tekjuskattsstofn annars samskattaðs aðila hærri en 11.125.045 kr. skal það sem umfram er skattlagt með 23,5% skatthlutfalli allt að helmingi þeirrar fjárhæðar sem tekjuskattsstofn þess tekjulægri er undir 11.125.045 kr., þó reiknast 23,5% skatthlutfall aldrei af hærri fjárhæð en 3.581.173 kr. við þessar aðstæður.

Þetta var síst einfaldara fyrir breytingu. Því er ansi örðugt að spá fyrir um hve mikið verður greitt í efsta skattþrepi. Þar með er líka erfitt að skilja hvaða áhrif breytingar annars staðar í skattalögum hafa, til dæmis hækkun eða lækkun á mörkum efra skattþreps eða breyting á skatthlutfalli. Það verður einhver að geta skilið þetta. Skatta verður að einfalda.

4 Likes

Svona útskýrði ég þetta ákvæði á Twitter: “Nú má í mesta lagi færa 3.581.173kr. úr efsta skattþrepi eins yfir í miðþrep hjá maka. En fyrir hverja krónu sem er færð til makans, þá eru mörk efra skattþreps makans lækkuð um eina krónu.” Hlynur Hallgrímsson setti þetta fram í mynd af súluritum, með tíu örvum. Sama hvernig þetta er sett fram, þá er þetta allt of flókið.

1 Like

Það er ekki heimsfræðilegur fasti sem segir að skattalöggjöf þurfi að vera flókin. Stundum eru lög viljandi gerð flókin svo sem fæstir skilji þau.

Sammála! Ég væri til í að sjá Pírata tala meira um þetta.

Ég væri til í að sjá almennt einfaldara skattkerfi.

Sumir segja að þetta skiptir ekki máli því “tölvurnar reikna þetta hvort sem er” - en það er einfaldlega ekki svo einfalt.
Í hvert skipti sem skattkerfinu er breytt, þá fer gríðarleg vinna hjá fyrirtækjum og stofnunum að sjá til þess að breytingunum sé rétt framfylgt.

Nýlegt dæmi sem ég lenti persónulega í miklum vandræðum með var þegar ríkisstjórnin felldi niður virðisaukaskatt á ýmsum reiðhjólum, en að hámarki 96.000.
Sjá nánar hér
Ég hjálpa einni reiðhjólaverslun á Íslandi með tæknimál og ég gat ekki afgreitt málið, og þeir hafa þurft m.a. að skoða að skipta um viðskiptahugbúnað, því sá gamli styður ekki svona breytingar.

Ég skil að markmiðið var að reyna búa til hvata til að selja fleiri hjól, en tíminn sem fór í að breyta kerfum hjá reiðhjólaverslunum á Íslandi er gígantískur. Hugbúnaðurinn sem sumar þessara verslana notar styður ekki svona breytingar og verðlagning verður miklu flóknari.

Þetta er bara eitt dæmi af mörgum, og þegar við erum sífellt að flækja kerfið og bæta við ívilnunum, erum við að reikna með hversu margar klukkustundir vinnustaða fara í að breyta kerfum?

2 Likes

Svo eru lækningar undanþegnar virðisaukaskatti. En ekki er minnst á dýralækningar. Eru þær skattskyldar? Svo er stangveiði víst íþrótt, eða veiðileyfi leiga á fasteign, og veiðileyfi því undanþegin virðisaukaskatti.

Og svo hefur OECD reynt að slá á puttana á okkur fyrir að leggja á þriðja og efsta tekjuþrep, því það skapi háan jaðarskatt á heimavinnandi eiginkonur tekjuhárra karla.

Getum við ekki afnumið fyrrgreindar þágur undan virðisaukaskatti og hæsta skattþrepið á móti?

2 Likes

Ég skil tilhneiginguna að bæta við “einni einfaldri undanþágu”. Það er líklega einfaldara til skamms tíma (og pólitískt auðveldara) en að breyta öllu kerfinu, en stundum þarf einmitt að taka almennilega til í kerfinu og einfalda það.

Ég hef þá (óvinsælu?) skoðun að mér finnst ekki eiga að vera nein skattþrep, aðallega til að flækja ekki kerfið. Bara eina prósentu og svo persónuafslátt.
Svo verður notað persónuafsláttinn til að hjálpa lægst launuðu.

Einfalt dæmi miðað við 40 klst vinnuviku:
Mér finnst ósanngjarnt ef einhver þarf að vinna 10 klst á viku fyrir samfélagið (25% skattur) á meðan annar þarf bara að vinna 8 klst á viku (20% skattur), bara af því annar náði sér í menntun eða samfélagið ákvað að önnur vinnan sé verðmætari.

Mér finnst að allir sem vinna jafnmargar klukkustundir í viku, skili jafnmörgum klst í samfélagið, óháð hversu góðir eða slæmir þeir eru í starfinu sínu.

1 Like

Mér tókst að skilja þetta þó flókið sé en þetta er óþarfa flæking sem að er sköpuð greinilega til þess að veita skattaafslátt með aukaskrefum fyrir fólk með svimandi háar tekjur og þar er hluturinn sem pirrar mig mest.

Skattþrep eru nefnilega ekki flókin, en allar ívilnanirnar og barbabrellurnar sem að eru hengdar upp í kringum þau eru það.

Þegar valdhafar mikla sig yfir flækjustigum skattkerfisins hinsvegar þá eru þau ekki að kvarta yfir öllum þessum aukareglum heldur því að það skuli vera þrep til staðar.

Og þá taka þau skref til að “einfalda” skattkerfið með því að lækka skatta á hina ríku til að færa þá nær hinum fátæku.

Skrefið sem þau tóku í áttina til þess að “einfalda” virðisaukaskattkerfið er það sem mér dettur alltaf í hug þegar þau sem hafa það ágætt tala um að einfalda tekjuskattinn, en þá lækkaði vaskurinn á lúxusvörur og dýrari hluti… en hækkaði á móti á nauðsynjavörur eins og mat.
Það var hluti ástæðunar að í nokkra mánuði borðaði ég nánast ekkert nema afganga eftir að barnið var búið að borða.
Það var skref sem að svelti mig og fleiri og ég fyrirgef það ekki.

Missti alveg af þessum þræði og ætla svo sem ekki að bæta við núna. En það er engin spurning að það er allra hagur að hafa einfalt og skýrt skattkerfi, enda kosta allar flækjur peninga hjá einstaklingum, lögaðilum og ríkinu við að fara rétt að reglunum.

1 Like