Það ætti ekki að fara á milli mála að þegar kemur að málefnum flóttamanna og innflytjenda þá eru Píratar með mannúðlegri stefnu en flestir aðrir flokkar á þingi og þingmenn Pírata, eins og @helgihg, eiga þakkir skilið fyrir að vera óhræddir við að ræða þessi mál af hugsjón á Alþingi.
Það ætti heldur ekki að fara framhjá okkur að þetta eru mál sem brenna heitt á Íslendingum um þessar mundir, jafnvel enn meira en þegar stefnur Pírata í þessum málum voru mótaðar 2013 og 2016. Gott dæmi um það er að er að í undirskriftarsöfnunum til stuðnings barnafjölskyldum sem átt hefur að vísa af brott af landi hafa stundum fleiri skrifað undir en kusu Pírata 2017.
Verandi einn þeirra sem hefur notið góðs af því að vera Íslendingur og með Íslenskt vegabréf sem hefur opnað mér möguleika á að vinna út um allan heim, þá tel ég það sjálfsögð réttindi að sama gildi um þá sem vilja koma til Íslands í leit að betra lífi. Við erum þjóð sem eigum erfitt með að reka ýmsa grunnþjónustu vegna þess hversu fá við erum og það að taka á móti fleira flóttafólki og innflytjendum myndi einungis hjálpa okkar landi að halda áfram að vaxa og dafna.
Sem það land sem býr við hvað best lífsgæði í heiminum þá er það siðferðisleg skylda okkar að taka við fleira fólki sem býr við erfið lífskjör en er í leit að tækifærum til betra lífs. Það er einnig mikilvægt að ákvarðanir um það hverjir fá hér dvalarleyfi séu teknar án tillits til þess hvaða litarhátt og trúarbrögð viðkomandi hafi - nokkuð sem virðist ekki alltaf vera gert.
Mig langar að hvetja til umræðu um þessi mál hér meðal okkar og ræða hvaða leiðir við sjáum til þess að tækla þessi mál á ábyrgan en sanngjarnan hátt. Ég tel það mikilvægt að við Píratar höfum skýra sýn á þessi mál þegar kemur að kosningum næsta haust og að við tryggjum að Ísland verði land sem tekur á sanngjarnan og hlutlausan máta á þessum málum í framtíðinni og uppfyllum skilyrði Barnasáttmála SÞ í stað þess að reyna að finna holur til að skýla sig bakvið.