Framtíðargjaldmiðill Íslands

Fyrir stuttu fór fram fyrsti fundur málefnahóps um mótun gjaldmiðilsstefnu fyrir Pírata. Farið var gróflega yfir þau vandamál og lausnir sem flotgengisstefna Seðlabankans býður upp á. Einnig var aðeins tæpt á hverfulleika krónunnar á stórum gjaldeyrismarkaði. Að lokum var sett gróf tímaáætlun fyrir næstu fundi, en pallborðsumræður um málefnið eru áætlaðar í lok janúar.

Á þessum þræði getur fólk lagt til mögulega þátttakendur í pallborðið og skipst á hugmyndum, dreift greinum og bara almennt tjáð sig um krónuna og hvað skuli gera við hana.

Hér er t.d. frétt um grein Gylfa Zoega í vísbendingu þar sem Gylfi sýnir fram á að í landinu séu hreinlega tveir gjaldmiðlahópar, fjármagnseigendur sem geta flutt fjármagn úr landi eftir hentisemi og svo launþegar sem eru fastir með krónuna í gegn um alla hennar toppa og öldudali.

1 Like

Ég vil leggja til að reynt verði að fá Gylfa Zoega og Ragnar Árnason prófessora í pallborð.

Mjög hæpið að við gætum fengið Rannveigu Sigurðardóttur en væri sannarlega áhugavert.

En hvað finnst fólki hérna sjálfu almennt núna? Fyrir mitt leyti get ég sagt að það er næstum því sama hvaða efnahagsvandamál ég skoða, alltaf enda ég á því að vandinn sé sjálfstæð, fljótandi króna. En hún er heldur ekkert laus við alla kosti, heldur átti hún t.d. ótvíræðan þátt í því að bjarga okkur úr hruninu - en átti reyndar líka sennilega frekar ríkan þátt í því að hrunið hafi getað átt sér stað af þeirri stærðargráðu sem það gerði. Þetta er ekkert endilega einfalt og engin lausn er gallalaus, en ég hallast meira og meira að upptöku annars gjaldmiðils.

Leyfist mér að spyrja hvort þessi hópur hafi kannað stefnu Pírata um gjaldeyrismál og leitað eftir bakgrunnsupplýsingum um hana?

Áttu við þessa, @odin?

A-yup.

Ég gæti skrifað ritgerð um það af hverju megnið af umræðu um gjaldeyrismál er á villigötum, en ég nenni því ekki akkúrat núna. Stutta útgáfan er að það er ekki raunhæft fyrir okkur að taka annan gjaldmiðil upp einhliða, en á sama tíma er ekki hægt að búa við þá ókosti sem krónan hefur. Þetta eru samt einu “mainstream” kostirnir í stöðunni nema horft sé til meira en áratugs. Svo ég held að við verðum að skoða kosti sem eru innilega ekki mainstream.

Nú er ég ekki 100% viss um að ég átti mig á því hvað kallist mainstream og hvað ekki, en þetta eru ekki einu mainstream kostirnir (sem ég veit að þú varst ekki að segja - ég er bara að segja sjálfur). Reyndar hef ég aldrei upplifað það sem mainstream hugmynd að taka upp erlenda mynt einhliða.

Annars finnst mér ekki vera aðalatriði hvort það gerist á meira eða minna en áratug, heldur að það sé rétt ákvörðun miðað við þær forsendur sem eru gefnar. Reyndar finnst mér óhjákvæmilegt að það taki meira en áratug, alveg sama hvaða leið sé farin. En mér finnst almennt varhugavert að velja eina hugmynd frekar en aðra vegna þess að henni sé hægt að koma í framkvæmd fyrr, nema það sé mjög skýr og knýjandi ástæða fyrir því að hana þurfi að framkvæma sem allra fyrst (t.d. í loftslagsmálum). Eitthvað eins og gjaldeyrisskipti er eitthvað sem ég myndi miklu frekar vilja gera mjög hægt og mjög vel, heldur en hratt og ekki mjög vel.

Óháð því, þá þykir mér tvo kosti þarna vanta. Annar þeirra er aðild að Evrópusambandinu - sem er alveg mainstream, en er í rauninni ekki alveg á borðinu þar til Brexit lýkur. Meira að segja hörðustu stuðningsmenn aðildar Íslands halda að sér höndum þangað til það er komið á hreint hvernig fer fyrir því. Skiljanlega. Ég myndi samt halda að það tæki minna en áratug, eða kannski u.þ.b. það, ef ákveðið yrði að fara þá leið.

Hinn kosturinn er að taka upp aðra mynt, en í samstarfi við annað ríki.

Þá er þriðji kosturinn að binda íslensku krónuna við erlenda mynt. Það gætum við alveg gert einhliða og kannski væri þannig hægt að ná fram einhverjum af þeim markmiðum sem stærri gjaldmiðill myndi ná, án þess að taka upp annan gjaldmiðil. Þó verð ég hreinlega að viðurkenna fáfræði mína á því upp að hvaða marki hafi verið sýnt fram á að það nái tilætluðum árangri.

Að hugsa hluti í efnahagsmálum alveg upp á nýtt er ég almennt frekar fælinn við (ólíkt því sem var í gamla daga þegar ég vildi helst gera einungis eitthvað slíkt), vegna þess að þrátt fyrir alla galla þess efnahagsfyrirkomulags sem við höfum núna, þá er a.m.k. til heilmikil reynsla af því - á ýmsum sviðum. Kenningarnar eru allar gallaðar að einhverju leyti, en það er þó allavega stundum hægt að slá því á föstu að hvaða leyti þær séu gallaðar. Mér finnst oft ekki alveg fylgja sögunni, þegar hlutir eru hugsaðir alveg frá grunni, að þá vitum við ekki fyrirfram hvaða áhrif téð hugmynd hefur þegar hún er raungerð. Allra síst þekkjum við ófyrirsjáanleg hliðaráhrif fyrr en þau koma fram.

Það má samt alveg gera tilraunir, eins og með að heimila hliðargjaldmiðla. Það er ekki drastísk pæling. En það er samt annað heldur en að taka upp erlendan aðalgjaldmiðil.

Úff, þetta varð of langt. Ég hætti hér í bili.

Satt að segja sé ég ekki hvaða máli Brexit skiptir í þeim efnum, nema hvað varðar innanlandspólitík á Íslandi - og hvað hana varðar eru aðrir stórir þröskuldar sem gera afar ólíklegt að aftur verði sótt um aðild. Það er hinsvegar helsti kosturinn sem ég hef í huga varðandi leið sem myndi að líkindum taka áratug, og þá aðallega vegna þess að kröfur evrópska seðlabankans eru eitthvað sem ég hef satt að segja litla trú á að okkur gangi mikið betur að uppfylla en austur-Evrópuríkjunum.

Það eru nokkur dæmi um slíkt, aðallega söguleg, en einhver í nútímanum. Í öllum tilvikum sem mér er kunnugt um er um að ræða samband nýlenda eða fyrrum nýlenda við gamla nýlenduherrann, sem á m.a. við um samnorrænu krónuna sem Ísland var aðili að sem nýlenda Danmerkur fyrir rúmum 100 árum. Þetta er fræðilegur möguleiki, en pólitíkin bak við þetta, bæði í ljósi þess hve ólíklegt er að annað ríki fáist til að taka þetta upp, en þó sérstaklega röflsins um “sjálfstæða krónu” úr ýmsum áttum, grunar mig að sé óyfirstíganleg. Þess til viðbótar hefði þetta fyrirkomulag nákvæmlega enga kosti fram yfir aðild að Evrópusambandinu.

Munurinn á þessu og einhliða upptöku annars gjaldmiðils er minni en gæti virst í fyrstu. Kostnaðurinn við að viðhalda slíkri festingu er umtalsverður, og fyrirkomulag af þessu tagi krefst gríðarlegra varasjóða. Dæmin um ríki sem hafa reynt þetta og brennt sig illilega eru fjölmörg. Því til viðbótar hefur þetta alla sömu ókosti varðandi notkun sem stýritæki á efnahaginn.

Ég sagði ekki að það ætti að finna eitthvað nýtt upp. Það er töluvert til af hugmyndum sem hafa verið prófaðar í raunveruleikanum og virkuðu ágætlega. Peningakerfið sem við búum við og tökum sem sjálfsögðu er innan við 100 ára gamalt. Einkaréttur seðlabankanna til útgáfu handhafabréfa sem gjaldmiðla kom ekki til fyrr en nokkuð var liðið á 20. öld. Fram að því var eina sérstaða seðlabankanna sú að þú þurftir að borga skatt í skuldabréfum frá þeim.

Framtíðargjaldmiðill Íslands hefur verið til umræðu um langt árabil og enn er engin niðurstaða í augsýn.

Frá mínum bæjardyrum séð er virk útlánastjórnun forsenda peningalegs stöðugleika óháð gjaldmiðlinum.

Óhófleg útlánaþensla leiðir til verðbólgu og/eða halla á greiðslujöfnuði við útlönd.

Virk útlánastjórnun af hálfu SÍ væri litin hornauga af bankakerfinu.

Fljótandi - og fallandi - króna er því sá valkostur sem stendur til boða að óbreyttu.

@horatio: En pælingin hérna er að við komum okkur saman um skýrari stefnu um akkúrat það efni. Við erum með almenna efnahagsstefnu og almenna gjaldeyrisstefnu, en hvorugar taka á stefnu flokksins gagnvart krónunni sem tæki, sérstaklega. Það má síðan vel vera að erfitt sé að koma þeirri stefnu í framkvæmd, en tillagan er að móta samt sem áður stefnu til að leggja allavega okkar á vogaskálarnar í þeirri umræðu. Þetta gerist ekkert hraðar án þess.

Hvað varðar útlánaþenslu, þá er hún ekki alveg taumlaus heldur eru nokkrar bremsur á henni, sér í lagi vaxtastig, sem á Íslandi er mjög hátt og hefur alltaf verið. Útlán eru takmörkuð við það ástand að lánveitandi þarf að vilja lána og lántaki þarf að vilja lánið og geta borgað af því. Annars tapa báðir að öllu jöfnu eða a.m.k. auka verulega hættuna á því. Til þess að útlánaþensla skili sér í verðbólgu verða útlánin einnig að leita út í almennt verðlag, sem þýðir að peningarnir þurfa að vera notaðir í hagkerfinu sjálfu. Það verður engin verðbólga við það eitt að 10 skrilljarðar verði til, heldur verður hún þegar þeir bætast við hagkerfið, og þá einungis að því gefnu að verðmætaaukning hagkerfisins aukist EKKI um 10 skrilljarða á sama tíma. Sumsé, peningaframleiðsla umfram raunvirðisaukningu (þar sem raunvirði er afstætt, bregðult og tímabundið - og í reynd ómælanlegt) veldur verðbólgu, ekki bara peningaframleiðsla. Þess vegna er erfitt að staðfesta eða afsanna þessa kenningu, að útlánaaukning sé að valda verðbólgu á Íslandi.

Persónulega sé ég ekki margt benda til þess. Það sem mér finnst hinsvegar mjög augljóst, eru verðbólguskotin sem verða þegar krónan hrynur í verði, eins og gerðist 2009-2010. Það gerist vegna þess að Ísland stólar á innflutning þjónustu og vöru og hún verður dýrari í krónum talið. Þetta er yfirþyrmandi mest áberandi verðbólguvaldurinn á Íslandi eftir því sem ég fæ best séð á meðan útlánaþenslukenningin virðist ekki skilja eftir sig svo skýr sönnunargögn.

Því leiði ég líkum að því að mun mikilvægara sé að útkljá gjaldeyrisstefnu heldur en útlánastefnu bankanna. Hafa þarf hemil á henni, vissulega, og það er alveg umræða sem er þess virði að taka, en hvort sem við ræðum verðbólgu á Íslandi, óstöðugleika eða vaxtakostnað, þá lendum við alltaf á sama staðnum: ekki útlánaþenslu bankanna, heldur íslensku krónunni. Hún er stærsti sameiginlegi samnefnarinn með næstum því öllu sem hægt er að kvarta undan í íslensku hagkerfi.

Aðild að ESB er forsenda þess að Ísland geti skipt krónu út fyrir evru.

Slík aðild er ekki í kortunum í fyrirsjáanlegri framtíð.

Skipting út fyrir BNA eða Kanada dollar er ekki framtíðarlausn án aðgangs að seðlabönkum ríkjanna til að mæta tilfallandi gjaldmiðilsskorti.

Það er engin ástæða til að ætla að slíkt sé í boði.

@horatio: Sjálfur hefði ég hugsað meira út í norska krónu, sænska eða danska. Mér skilst ennfremur að þær tvær síðarnefndu séu bundnar við evruna.

Ég tel aðild að ESB mjög vel geta verið í kortunum eftir að Brexit lýkur, en það hlýtur að vera grundvallaratriði hjá okkur að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um bæði það að hefja slíka umsókn aftur sem og að ganga inn þegar samningaviðræðum lýkur. Það tekur óhjákvæmilega nokkurn tíma… en ég meina, sjálfur tel ég ekkert hægt að gera á stuttum tíma. Þetta er risavaxið mál og mun taka langan tíma, ég lít svo á að það liggi bara fyrir. Ef við ætlum að ekki að gera hluti nema þeir gerist á næstunni, þá finnst mér það segja sig sjálft að ekkert gerist yfirhöfuð, en þá erum við líka í rauninni að segja að við ætlum aldrei að hefja risavaxin verkefni. Í því sé ég ákveðna mótsögn og því finnst mér ekki tímabært að velta fyrir sér hversu langan tíma hlutirnir taka, fyrr en það er orðið ljósara hvert rétta múvið yfirhöfuð sé.

Enginn þeirra sem hafa stungið upp á upptöku erlend gjaldmiðils hefur nokkurn tímann getað útskýrt með hverju ætti að borga fyrir allan þann erlenda gjaldeyri sem þyrfti þá að kaupa inn í landið til að skipta honum út fyrir þær íslensku krónur sem þegar hafa verið gefnar út. Varla tekur seljandinn við íslenskum krónum sem greiðslu enda yrðu þær eðli máls samkvæmt verðlausar við afnám þeirra sem lögeyris.

Með öðrum orðum liggur ekki fyrir nein aðgerðaráætlun. Ekki einu sinni drög að slíkri áætlun.

Með hverju á að borga?
Almenningseignum?
Náttúruauðlindum?
Fiskveiðimiðum?
Raforku?

Slíkum spurningum hlýtur að þurfa að svara því annars er þetta bara tilgangslaus hugarleikfimi.