Nú er ég ekki 100% viss um að ég átti mig á því hvað kallist mainstream og hvað ekki, en þetta eru ekki einu mainstream kostirnir (sem ég veit að þú varst ekki að segja - ég er bara að segja sjálfur). Reyndar hef ég aldrei upplifað það sem mainstream hugmynd að taka upp erlenda mynt einhliða.
Annars finnst mér ekki vera aðalatriði hvort það gerist á meira eða minna en áratug, heldur að það sé rétt ákvörðun miðað við þær forsendur sem eru gefnar. Reyndar finnst mér óhjákvæmilegt að það taki meira en áratug, alveg sama hvaða leið sé farin. En mér finnst almennt varhugavert að velja eina hugmynd frekar en aðra vegna þess að henni sé hægt að koma í framkvæmd fyrr, nema það sé mjög skýr og knýjandi ástæða fyrir því að hana þurfi að framkvæma sem allra fyrst (t.d. í loftslagsmálum). Eitthvað eins og gjaldeyrisskipti er eitthvað sem ég myndi miklu frekar vilja gera mjög hægt og mjög vel, heldur en hratt og ekki mjög vel.
Óháð því, þá þykir mér tvo kosti þarna vanta. Annar þeirra er aðild að Evrópusambandinu - sem er alveg mainstream, en er í rauninni ekki alveg á borðinu þar til Brexit lýkur. Meira að segja hörðustu stuðningsmenn aðildar Íslands halda að sér höndum þangað til það er komið á hreint hvernig fer fyrir því. Skiljanlega. Ég myndi samt halda að það tæki minna en áratug, eða kannski u.þ.b. það, ef ákveðið yrði að fara þá leið.
Hinn kosturinn er að taka upp aðra mynt, en í samstarfi við annað ríki.
Þá er þriðji kosturinn að binda íslensku krónuna við erlenda mynt. Það gætum við alveg gert einhliða og kannski væri þannig hægt að ná fram einhverjum af þeim markmiðum sem stærri gjaldmiðill myndi ná, án þess að taka upp annan gjaldmiðil. Þó verð ég hreinlega að viðurkenna fáfræði mína á því upp að hvaða marki hafi verið sýnt fram á að það nái tilætluðum árangri.
Að hugsa hluti í efnahagsmálum alveg upp á nýtt er ég almennt frekar fælinn við (ólíkt því sem var í gamla daga þegar ég vildi helst gera einungis eitthvað slíkt), vegna þess að þrátt fyrir alla galla þess efnahagsfyrirkomulags sem við höfum núna, þá er a.m.k. til heilmikil reynsla af því - á ýmsum sviðum. Kenningarnar eru allar gallaðar að einhverju leyti, en það er þó allavega stundum hægt að slá því á föstu að hvaða leyti þær séu gallaðar. Mér finnst oft ekki alveg fylgja sögunni, þegar hlutir eru hugsaðir alveg frá grunni, að þá vitum við ekki fyrirfram hvaða áhrif téð hugmynd hefur þegar hún er raungerð. Allra síst þekkjum við ófyrirsjáanleg hliðaráhrif fyrr en þau koma fram.
Það má samt alveg gera tilraunir, eins og með að heimila hliðargjaldmiðla. Það er ekki drastísk pæling. En það er samt annað heldur en að taka upp erlendan aðalgjaldmiðil.
Úff, þetta varð of langt. Ég hætti hér í bili.