Fulltrúar Pírata í íbúaráðum Reykjavíkur

Við viljum byrja á því að þakka öllum þeim sem tilnefndu aðila í íbúaráð, margar mjög góðar tilnefningar bárust og við erum mjög þakklátar fyrir þær.

Ferillinn við valið á okkar fulltrúum var eftirfarandi:

  1. Fyrst fengum við tvo mismunandi aðila til að meta hæfni þeirra sem tilnefndir voru eins og fram kom í tilnefningunum, án þess að matsaðilar fengu að sjá nöfn viðkomandi einstaklinga og raða hæfninni í forgangsröð. Þeir einstaklingar sem voru ofarlega hjá báðum matsaðilum fóru í gegnum næsta mat sem byggðist á
  2. Þekkingu á Pírötum og reynslu af grasrótarstarfi Pírata, og
  3. Þekkingu á borgarkerfinu.

Þessar upplýsingar fóru svo inn í viðræður við hina flokka meirihlutans um hvernig sæti meirihlutans skiptast okkar á milli.

Það eru tvö sjónarmið sem þarf að hafa í huga, af þeim þremur fulltrúum sem borgarstjórn skipar í hvert ráð er gert ráð fyrir að tveir þeirra séu kjörnir fulltrúar (aðal- eða varamenn, og helst amk. annar aðal) og hins vegar að þeir búi í hverfinu eða hafi við það sterka tengingu. Þegar kemur að kjörnu fulltrúunum skiptir það meira máli að þeir séu þar sem tenging inn í borgarstjórn. Við höfðum það sjónarmið að leitast við að nota þau sæti sem við gátum úthlutað sem flokkur af sætum borgarstjórnar frekar til fólks í grasrót sem er nær hverfinu, og stækkum þannig hópinn sem er að vinna að málefnum borgarinnar.

Niðurstaðan var sú að við völdum að skipa Kristínu Elfu Guðnadóttur í íbúaráð Laugardals, Svafar Helgason í íbúaráð Vesturbæjar og Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur í íbúaráð Kjalarness, en Sigurborg var eini borgarfulltrúinn í meirihlutanum sem hefur góða tengingu við Kjalarnes og því í raun nauðsynlegt val í það ráð.

Hægt verður að hitta á þessa fulltrúa sem og aðra fulltrúa borgarstjórnarflokks Pírata á reglulegum fundum okkar í Tortuga sem munu ganga undir heitinu ,Borgarspjall”.

Við viljum enn og aftur þakka öllum sem sýndu þessu verkefni áhuga. Þetta tilraunaverkefni mun standa fram að hausti 2020 og í kjölfarið verður aftur kosið í ráð eftir lokamat á verkefninu og hvernig hefur tekist til.

2 Likes

Frábært. Góður og reynsluríkur hópur. Það verður gaman að sjá hvernig þessum nýju íbúaráðum framvindur.

2 Likes