Fyrstu drög að barnastefnu fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í umsagnarferli - skilaðu umsögn hér!

Hér eru fyrstu drög að barnastefnu fyrir sveitarstjórnarkosningarnar (unnar á opnum fundum í samvinnu milli mismunandi félaga).

Vinsamlega farðu yfir og skilaðu umsögn um stefnuna hér að neðan í athugasemdum. Allar athugasemdir vel þegnar! Er verið að gleyma mikilvægum atriðum? Eitthvað sem mætti betur fara varðandi orðalag eða innihald? Ekki hika við að skella því í þína umsögn. Umsagnirnar verða svo teknar fyrir á sérstökum úrvinnslufundi þar sem umsagnarhöfundar eru hjartanlega velkomnir til að fylgja eftir sinni umsögn (skildu þá gjarnan eftir netfang fyrir fundarboðun á slíkan fund eða skráðu þig hér: https://forms.gle/xG8jL7hsEKTTuuip7).

Þekkirðu sérfræðing í málaflokknum og myndir vilja bera þetta undir hann og fá hans álit og umsögn? Ekki hika, það er frábær hugmynd! Sendu viðkomandi textann og skelltu svo inn umsögn í nafni viðkomandi ef viðkomandi er ekki skráður flokksmeðlimur.

Öllum verður frjálst að nýta sér drögin sem til verða til frekari vinnslu og samþykktar í sínu sveitarfélagi.

Ertu annars með góða hugmynd fyrir stefnumótun? Taktu þátt með því að mæta á fundi eða sentu inn þína hugmynd í hugmyndakassann hér að neðan.

Hægt er að að skrá sig á tengiliðalista fyrir málaflokka og fá sendar upplýsingar og áminningar um stefnumótunarfundarhöld þeim tengdum og senda inn hugmyndir í hugmyndakassann hér: https://forms.gle/xG8jL7hsEKTTuuip7

===============================================================

Fyrstu drög að barnastefnu - til umsagnar

(Núverandi stefnur um málefni barna: hlekkur)

Leiðarljós:

 • Gæta skal að réttindum barna í hvívetna.
 • Styðjum við barnafjölskyldur með fjölbreyttum leiðum.
 • Eflum og virðum fagmennsku í öllu starfi með börnum.
 • Stuðlum að góðri lýðheilsu barna, barnafjölskyldna og starfsfólks.
 • Tryggjum jöfn tækifæri allra barna.

Markmið:

-Menntakerfið, tómstunda- og íþróttastarf sem og öll önnur þjónusta við börn mótist út frá þörfum barnsins fremur en kerfisins þannig að barnið fái að njóta vafans.-

 • Brjótum upp hinn hefðbundna skóladag, aukum flæði milli faga og kennslustunda og sköpum svigrúm til að víkja frá viðjum vanans með rými fyrir fjölbreyttar þarfir.

 • Íþróttastarf sé einstaklingsmiðað og metið út frá persónulegum árangri.

 • Mikilvægt er að öll börn njóti góðs af íþróttastarfi til 18 ára aldurs í skjóli fyrir afreksmiðaðri nálgun. Tryggja þarf að íþróttafélög sem starfa samkvæmt samningum við sveitarfélögin sinni öllum börnum sem vilja stunda íþróttir, en einblíni ekki fyrst og fremst á þau sem skara fram úr.

 • Stuðlum að fullnægjandi svefni barna og vinnutíma barna sem þjóni lífsklukku þeirra. Upphaf skóladagsins sé í takt við líkamsþroska barna og ungmenna sem geti opnað á nýja nálgun í tómstundastarfi, til dæmis á morgnanna.

 • Nám barna fari fram á skólatíma í stað heimanáms þannig að staðið sé vörð um frítíma barna og komið í veg fyrir að aðstöðumunur hafi áhrif á árangur.

 • Stutt sé við góðan skólaárangur og líðan barna með því að stuðla að því að börn tileinki sér yndislestur sem fyrst, í samvinnu við skóla og heimili.

-Sköpum gæðastundir og einblínum á að viðmót kerfisins sé hvetjandi.-

 • Skóla-, frístunda- og tómstundastarf sé ánægjulegur vettvangur sem stuðlar að líkamlegri og andlegri heilsu og vellíðan barna.
 • Börnum sé tryggð viðunandi og heilsusamleg aðstaða og umhverfi.
 • Setja þarf markmið um að efla alhliða hreyfigetu og þroska sem er lykilatriði í velgengni í íþróttum og hreyfingu.

-Stuðlum að betra samfélagi fyrir börn, með auknum tíma með foreldrum, forvörnum og snemmtækri íhlutun.-

 • Eflum tækifæri fjölskyldna til að verja meiri tíma saman, með áherslu á að efla tengslamyndun barna og forráðaaðila.
 • Börn alist upp við öryggi með það að markmiði að síður verði þörf á stuðningi eða inngripi síðar á lífsleiðinni.
 • Allar ákvarðanir í málefnum barna skulu vera gagnadrifnar, það er teknar með hliðsjón af bestu upplýsingum hverju sinni.
 • Leggja skuli áherslu á að í öllu forvarnarstarfi sé gengið út frá “fræðslu en ekki hræðslu”,
 • Beita skal snemmtækri íhlutun þannig að fjármagn vegna stuðnings sé ekki bundið við greiningar, en greiningum sé þó áfram beitt til að meta hvernig sé best að veita stuðning.

-Búum til öfluga lýðræðisborgara með sterka samfélagsvitund, víðsýni og gagnrýna hugsun.-

 • Skólakerfið á að undirbúa einstaklinga til að geta tekið þátt í samfélaginu.

 • Mikilvægt er að námið sé markvisst, faglegt og fjölbreytt, þar skarist ólíkir hópar og ólíkar kynslóðir og kerfið búi þau undir það að meta upplýsingar, taka ákvarðanir og bera ábyrgð á sjálfum sér og öðlist færni í að móta samfélagið.

 • Bjóðum upp á betri námsgögn sem tala saman þvert á námsgreinar og skólastig.

 • Áhersla sé á læsi í víðum skilningi og hagnýta samfélagsþekkingu eins og tæknilæsi, tæknifærni, nýsköpun, sköpun og fjármálalæsi.

 • Þróum Vinnuskólann áfram í þágu þess að efla víðsýni og samfélagsþekkingu barna og tengjum hann betur við aðra menntun og fjölbreytta fræðslu.

 • Styðjum við félagsþroska ungmenna og aukna fjölbreytni í valfögum með fleiri safnskólum á unglingastigi.

-Tryggja skal mannréttindi barna.-

 • Réttur barna til friðhelgis einkalífs skal ávallt tryggður.

-Tryggja jafnrétti til náms, tómstunda og leiks óháð efnahag, uppruna, kynjum, kynhneigð, fötlun, stöðu og öðrum breytum.-

 • Jafnréttisfræðsla og vinna gegn ofbeldi, áreitni og einelti þveri allt barnastarf.
 • Tryggjum jafnréttis-, hinsegin og kynfræðslu fyrir öll börn á öllum skólastigum.
 • Sálfræðiþjónusta og andlegur stuðningur sé í boði innan skólanna til að takast á við áskoranir nemenda.
 • Fjölbreytni mannlífsins skal höfð að leiðarljósi sem og gagnkvæm virðing óháð sjónarhornum og skoðunum.
 • Aðgengi að tónlistarnámi óháð efnahag með meðal annars skólahljómsveitum, hverfakórum og hóptónlistarnámi.
 • Styðja við réttindi barns til tengslamyndunar við foreldra/forsjáraðila með sameiginlega forsjá eftir skilnað.
 • Viðhöfð sé virk upplýsingagjöf og jafnrétti í þjónustu vegna barns sem foreldrar/forsjáraðilar eiga saman eftir skilnað.
 • Bjóðum upp á ungmennahús með faglegu frístundastarfi fyrir ungmenni milli 16-20 ára í samstarfi við framhaldsskólana til að grípa þau ungmenni sem ekki fara í framhaldsskóla sem og að tryggja fullnægjandi félagslegan stuðning.
 • Tryggja gjaldfrjálsa móðurmálskennslu og íslenskukennslu barna með annað móðurmál en íslensku.
 • Vinna að jafnrétti til íþrótta og tómstundaiðkunar og gegn mismunun byggt á uppruna, kyni, kynhneigð, fötlun, fjárhag eða öðrum breytum. Styðjum við aukna notkun frístundakortsins meðal þeirra hópa sem nýta sér það minna en aðrir.
 • Tryggjum fullnægjandi upplýsingar um íþróttir og tómstundir á öðrum tungumálum en íslenskum.
 • Koma í veg fyrir að fjárhagsaðstæður takmarki tækifæri barna til tómstundaiðkunar, íþrótta eða félagslífs (LOI).
 • Tryggjum jafnt aðgengi að leikskólavistun óháð efnahag og sköpum hvata til styttri dagvistunar með 6 tíma gjaldfrjálsum leikskóla.
 • Eflum aðgengi að hinsegin félagsmiðstöðvum.

-Nýtum fagþekkingu og tækniþróun til að efla faglegt starf innan mennta og tómstunda-

 • Stutt sé við hugmyndaauðgi, nýsköpun í kennsluháttum og þróun í menntakerfinu með fjölbreyttu rekstrarformi skóla.
 • Lögð sé áhersla á endurmenntun starfsfólks.
 • Beita skal gagnreyndum aðferðum.
 • Eflum nýsköpunarmenntun og verkfærakistur til nýsköpunar.
 • Styrkjum tæknilega innviði í skólakerfinu.
 • Valdeflum starfsfólk og veitum þeim faglegan stuðning og hvatningu til að takast á við erfið verkefni og dafna í starfi.
 • Sýnum því virðingu að leikskólinn er fyrsta menntastig barna.
 • Styrkjum faglegar stoðir dagforeldrakerfisins.

-Tryggjum viðeigandi umönnun barna frá fæðingarorlofi, verum opin fyrir fjölbreyttum lausnum og komum til móts við barnafjölskyldur.-

 • Uppfyllum þörfina fyrir fjölda leikskólaplássa frá fæðingarorlofi í nærumhverfi barnsins og styðjum við skilvirka nýtingu þeirra.
 • Verndum lýðheilsu barna og stuðlum að tengslamyndun þeirra við foreldra/forsjáraðila sína með því að til dæmis takmarka hámarksdagvistunartíma í takt við styttingu vinnuviku.
 • Gerum tilraunir með að bjóða upp á sumaropna leikskóla og frístund fyrir þau sem þess óska með möguleikum á að þróa verkefnið áfram byggt á endurgjöf.
 • Gerum tilraunir með stuðningsgreiðslur til foreldra/forsjáraðila 12-15 mánaða barna sem ekki fá dagvistunarpláss eða velja af öðrum kosti ekki að setja börnin í umönnun utan heimilis með möguleikum á að þróa verkefnið áfram byggt á endurgjöf. Foreldrar/forsjáraðilar fái til dæmis 60% af kostnaði á barn á leikskóla á þessu tímabili.
 • Gerum tilraunir með litlar einingar af foreldra-/forsjáraðilareknum ungbarnadeildum í sjálfstæðum rekstri fyrir 12 - 36 mánaða börn sem fjórir aðilar geti rekið saman. Krafa sé gerð um að eitt úr þeim hópi sé með grunnmenntun í félags- eða menntavísindum og að tveir karlar séu hluti af hópnum með því markmiði að styðja við aukna þátttöku karla í fæðingarorlofi og umönnun barna. Mikilvægt er að fjölga fyrirmyndum um nærandi feður fyrir unga drengi auk þess sem verkefnið sé hluti af því að brúa bilið.

Hér eru drögin á Drive sem hægt er að hlaða niður á Word, breyta jafnvel í Track changes og senda á sérfræðinga: https://docs.google.com/document/d/1yTpGcEKbPr7gQfn2gJ7ritCrKWkz0koQSmGDT6JkeVI/edit?usp=sharing

Minni á að það er hægt að senda inn umsagnir sérfræðinga nafnlaust ef fólki finnst það þægilegra. Þá þarf nafn ekkert að fylgja umsögninni.

Stefnurnar eru einnig í umsagnarferli hjá félaga- og hagsmunasamtökum og hjá ýmsum fagaðilum, svo það verður spennandi að sjá hvað kemur þaðan og svo að bera það saman við það sem þið hér komið með :smile:

Núna á fimmtudaginn 17. mars verður maraþonstefnumótunarfundur frá kl. 17.30 og til svona 21.30 í Tortuga, einnig hægt að taka þátt í fjarfundi ef fólk kemst ekki á staðinn. Þar munum við vinna úr umsögnum og athugasemdum og reyna að klára sem mest. Endilega komið og takið þátt og fylgið eftir ykkar athugasemdum ef þið hafið sent inn hér eða Google Form skjalið sem hefur verið dreift inn á til dæmis Virka Pírata og sent á tölvupósti til áhugasamra um stefnumótun.