Ég leit aðeins á þetta, skoðaði smá kóða, las það sem ég fann af skjölun og prófaði að keyra þetta á vélinni minni.
Því miður finnst mér margt gallað við þetta kerfi eins og það er. Það sem er eiginlega mest áberandi er að það er mjög illa skjalað. Sú skjölun sem finnst um hvernig atkvæðastaðfesting og þess háttar fer fram er mjög gömul, ókláruð, frekar óskýr og virðist gera ráð fyrir því að lesandinn hafi þegar þó nokkuð mikla þekkingu á efninu.
Einnig, þótt það hafi eflaust fengið allnokkra öryggisrýni, þá byggir það ennþá á Django 1.8 sem er orðið þó nokkuð síðan að hætti að fá öryggisuppfærslur. Ég á því erfitt með að treysta því að jafn vel sé haldið utan um öryggið í heildina og það er látið líta út fyrir - og grunar mig að ákveðnir þættir eins og atkvæðastaðfestingin hafi fengið mikla rýni en ekki allt kerfið í heild sinni.
Ég prófaði einnig að keyra þetta með Django 1.11 (sem fær ennþá öryggisuppfærslur) sem virkaði ekki, þannig að ég prófaði 1.9 sem virkaði ekki heldur. Það er því ljóst að það þarf einhverja vinnu frá höfundum við að uppfæra kerfið í útgáfu af Django sem ennþá fær öryggisuppfærslur.
Þetta gæti hinsvegar hafa batnað við næstu áramót. Django 1.x (1.8, 1.9, 1.10, 1.11 etc.) er skrifað í Python 2.7. Django 2.x (2.0, 2.1 etc.) er hinsvegar skrifað í Python 3. Um áramótin næstu (2019/2020) verður Python 2.7 opinberlega orðið úrelt og gert verður ráð fyrir því að allir hafi uppfært í Python 3 á þeim tímapunkti. Það þýðir jafnframt að allir sem nota Django ættu að vera komnir í útgáfu 2.x á þeim tíma. Það gæti því verið góður leikur að kíkja aftur á Helios um næstu áramót, því að þá verða þau vonandi búin að uppfæra þetta.
Annar vandi sem ég rakst á var að mér tókst ekkiað finna út úr því hvernig maður eigi að innskrá sig í kerfið öðruvísi en að nota Google aðgang, Twitter, LinkedIn eða Yahoo. Hvergi fann ég innskráningarglugga né skjölun um hvernig innskráningarferlið virkaði eða hvernig ætti að breyta því. Væntanlega þarf að garfa eitthvað í kóðanum til þess, sem er slæmt.
Það sést í git repóinu þeirra að það er ennþá aktívt verið að þróa þetta. En öll skjölun er margra ára gömul og virðist að langmestu leyti ókláruð. Það virðist því þurfa allnokkra yfirlegu til að nota þetta kerfi. Mig grunar að þeir sem noti það núna njóti beinnar aðstoðar höfunda þess.
Hitt er síðan hvort að eitthvað af hugmyndunum þarna megi útfæra í Wasa2il (Kosningakerfi Pírata). Svo má vera, en ég er ekki nógu vel að mér í dulkóðunarfræðum til að segja til um hversu mikið maus það yrði. Wasa2il er í grunninn tiltölulega einfalt kerfi, þannig að ef það er hægt að einangra dulkóðunartæknina má vel vera að það væri hægt að flytja hana inn í Wasa2il án þess að skipta út kerfum. Það væri samt þokkaleg vinna, bæði vegna þess að tæknin er í flóknari kantinum en kannski aðallega vegna þess að skjölunin á þessu er svo slæm.