(Hvernig hefði verið) Þingleg útfærsla um stefnu um þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi þriðja orkupakkann

Þá hefur tillögu verið hafnað um að haldin skuli þjóðaratkvæðagreiðsla um orkumálastefnu Evrópu, a.k.a. þriðja orkupakkann.

Satt best að segja kemur það mér svolítið á óvart, en við í þingflokknum höfðum undirbúið okkur undir að þetta yrði samþykkt og mig langar til að deila með ykkur hvernig við hefðum brugðist við, ef þetta hefði verið samþykkt.

Tillagan tilgreindi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, en með vísan til sjálfsákvörðunarréttar í grunnstefnu Pírata útfærum við þetta þannig að hún yrði bindandi, enda betra og lýðræðislegra á allan hátt og næði betur fram markmiði tillögunnar um að þingheimur fylgi niðurstöðunni.

Orkupakki 3 samanstendur af fjórum þingmálum, sumsé tveimur þingsályktunartillögum og tveimur frumvörpum. Við hefðum lagt fram breytingartillögu við hvert þeirra (fjórar breytingartillögur, sumsé) sem eru efnislega eins, og með sömu greinargerð. Því miður er ekki hægt að setja upp PDF skjöl hérna, þannig að drögin að þeim fylgja hér sem myndir. Þetta hefði verið birt sem drög til umræðu og hefðum við þegið ábendingar með þökkum.

Get ekki talað fyrir aðra þingmenn, en segi allavega fyrir sjálfan mig að ég hefði einnig greitt atkvæði með þingsályktunartillögu Flokks fólksins um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar samþykktar tillögunnar. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að þjóðaratkvæðagreiðslur eigi að vera bindandi, en er einnig þeirrar skoðunar að stefnu Pírata beri að framfylgja í verki á þingi.

1 Like

Takk fyrir þetta Helgi, annars tók ég undir með þér inn á x hvað varðaði breytingartillögurnar sem þú nefndir þar. Og svo var annað við orðalag sem ég var ósátt með. T.d. þetta með “öll lög” en hvatti samt þá sem vilja þjóðaratkvæðagreiðslu/r áfram og hjálpaði með þessa vinnu.

Niðurstaða kosninganna var fyrir mér fyrirfram gefin og kom mér ekkert á óvart. Sjálf sat ég hjá inn á x.piratar.is. En styð þetta mál samt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef nægur fjöldi næst innan þjóðarinnar. Ekki minni en 10% þröskuldur í máli sem varða alla þjóðina samt alveg til í discorce um hvað hentar hverju sinni.

Þetta hérna er skemmtileg lesning og líka hægt að finna efni í heimildarskránni.

Eins þetta: https://www.researchgate.net/publication/225603427_Direct_Democracy_in_Switzerland_Do_Elites_Matter

1 Like

Takk fyrir þetta innlegg @helgihg.

Ég græt söltum tárum yfir niðurstöðu kosningar meðal flokksmanna sem ég held að sé fyrsta synjunin á tillögu um að Píratar beiti sér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu í tilteknu máli. (Leiðréttið ef rangt.) Það finnst mér vera sennilega það næst-ópíratalegasta sem flokksmenn Pírata hafa komið sér saman um.

Þó er hughreystandi að sjá að þingflokkurinn hafi raunverulega lagt alvöru vinnu í þetta með flottri útfærslu á tillögum að bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrir vikið er það þó enn sorglegra að viðkomandi tillaga næði ekki fram að ganga í kosningu meðal flokksmanna.

Nú er óhjákvæmilegt að minna á 48. gr. stjórnarskrárinnar: “Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum.”

Ég tel að stjórnarskráin eigi að fá að njóta vafans enda er stjórnarskrárgjafinn kjósendur og ég hvet þingmenn Pírata því til að fara eftir sannfæringu sinni í þessu máli sem og öðrum.

Erfitt er að sjá hvernig þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál ætti að geta að geta skemmt daginn fyrir einhverjum í flokki Pírata sem lagðist gegn tillögunni í kosningakerfinu því slík atkvæðagreiðsla yrði hvort sem er ekki að veruleika út af Pírötum einum saman, heldur vegna þess að fullt af fólki í öðrum flokkum er líka að leita leiða til að bremsa þetta mál og það er fyrir löngu síðan orðið þverpólitískt (fyrir utan ESB-sinnaða flokka sem myndu aldrei andmæla neinu frá Brüssel).

Loks má benda á að það er yfirlýst stefna Pírata að taka ekki afstöðu með eða á móti ESB-aðild nema með því að slíka ákvörðun skuli leiða til lykta með þjóðaratkvæðagreiðslu og óháð persónulegri skoðun á aðild er ég hlynntur þeirri stefnu vegna þess að hún þýðir NEI. Orkupakkamálið er þannig vaxið að það vekur upp áleitnar spurningar í þessu sambandi, sem að mínu mati mælir frekar með því að það verði borið undir þjóðina heldur en ekki, fyrst slíkar tillögur eru á annað borð fyrirliggjandi.

Íslenskir kjósendur hafa tvisvar á lýðveldistímanum mátt greiða atkvæði í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál og í báðum tilvikum komust þeir að réttri niðurstöðu eins og var síðar staðfest af dómstólum. Það er ekkert hættulegt við að setja mál sem þetta í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, því ef eitthvað er þá styrkir það framhaldið ef fyrir liggur skýr vilji íslenska stjórnarskrárgjafans (kjósenda). Eins og sérfróðustu aðilar um þessi mál hér á landi hafa bent á færi málið þá einfaldlega aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem yrði reynt að finna nýja hentuga lausn. Það þyrfti alls ekki að hleypa neinu í uppnám enda er þetta ferli skilgreint með íslenskum lögum nr. 2/1993 sem lögfestu EES-samninginn.

Takk fyrir innleggið.

Það hefði á engan hátt skemmt daginn fyrir neinum ef tillagan hefði verið samþykkt eða þjóðaratkvæðagreiðsla haldin um OP3. Það var bara greinilega ekki álit meirihlutans að það væri ástæða til þess.

Þetta er bara ekki alveg rétt. Það er fullt af fólki sem finnst OP3 bara hið ágætasta mál sem samt myndi alveg mótmæla hlutum frá Brüssel. Þar á meðal undirritaður. Ég greiddi atkvæði gegn fjármálapökkunum ásamt öðrum Pírötum á sínum tíma af ótta við stjórnarskrárlegt ósamræmi og hélt frekar innlifaðar ræður um það á sínum tíma. Þetta er ekki svona svarthvítt. OP3 er ágætt mál að mínu mati algjörlega án tillits til aðildar okkar að ESB.

En ertu þá einungis hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslu að því gefnu að þú teljir niðurstöðuna sammála þér? Mér finnst þetta nefnilega vera tvær aðskildar spurningar. 1) Hvað manni finnst sjálfum um málið, 2) hvort málið eigi heima í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það sem skiptir reyndar meira máli þarna, að mínu mati, er að það söfnuðust meira af undirskriftum en sem nemur 10% kjósenda á sínum tíma í því máli. Það var sýnt fram á áhuga kjósenda á þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Það hefur ekki verið sýnt fram á þetta í orkupakkamálinu.

Og það er gott og blessað og virðingarvert sjónarmið sem ber að taka mark á. En þegar kemur að ákvörðuninni um hvort halda eigi þjóðaratkvæðagreiðslu þurfum við samt að hafa betra viðmið en að einhver stingi upp á því yfirhöfuð. Í nýrri stjórnarskrá eru tiltekin 10% kjósenda. Þau hafa ekki náðst. Orkan okkar hefur náð 16.000 gegn málinu eftir margra mánaða söfnun, en 10% kjósenda er sirka 25.000. Náist þessi 10% skal ég persónulega sjálfur leggja fram breytingartillögurnar sem eru kynntar hér að ofan, en það verður fyrst að sýna fram á að áhuginn á þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál sé nægur til þess að réttlæta hana. Það er sanngjörn krafa sem hefur ekki verið uppfyllt ennþá. Svo kannski breytist það, þótt ansi stutt sé orðið í endanlega ákvarðanatöku.

Sammála því - enda ekki á móti því. Mér finnst bara að það þurfi að sýna fram á að kjósendur hafi nægan áhuga á málinu til þess, sem hefur einfaldlega ekki verið sýnt fram á.

Ég er sammála báðum atriðunum.

Í fyrsta lagi tel ég málið eiga algjörlega heima í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem það varðar grundvallarspurningu um framtíð íslenska þjóðríkisins.

Í öðru lagi er ég líka þeirrar skoðunar að Ísland eigi ekkert erindi í ESB enda er ekki nema 20% landsins í Evrópu en hin 80% í Ameríku (byggt á jarðvísindum og landafræði). Þess vegna þætti mér frábært að fá þá afstöðu staðfesta af meirihluta íslenskra kjósenda.

Mér finnst ekkert að því að hafa báðar þessar skoðanir, burtséð frá því hver niðurstaða hugsanlegar þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðild gæti orðið síðar. Ef hún yrði önnur en sú sem mér hugnast myndi ég einfaldlega laga mig að þeirri niðurstöðu. Annað hvort með því að flytja annað eða með því að sækja um vinnu hjá Evrópusambandinu og bera fyrir mig öllum mögulegum sjónarmiðum um að tryggja sem mesta aðkomu Íslands að því sambandi.

Nú hef ég lesið meira af OP3 en nokkrum er hollt. Hvergi hef ég séð neitt í líkingu við það sem þú lýsir þarna. En kannski skjátlast mér. Hver er grundvallarspurningin sem þú átt við?

Ég var með þessu að meina hvort Ísland eigi að gerast aðildarríki ESB eða ekki. Það er aðskilið frá orkupakkanum og ég biðst afsökunar ef það kom ekki nógu skýrt fram.

1 Like

Ókídók. :slight_smile:
þáeruhérna20stafirafhandahófiþannigaðþettakerfileyfiméraðsvaraþér