ÍBÚAR HEILSÁRSHÚSA: Réttindi - Staða - Framtíð

Sæl öll
Mig langar til að viðra við ykkur málefni sem er mér hugleikið og sjá hver afstaða Pírata er til þessa máls og hvort Píratar vilji taka málefnið upp. Þetta er staða og framtíð íbúa í sk sumarhúsum. Ég kýs frekar að kalla húsin heilsárshús. Kerfið sem skilgreindi húsin sem sumarhús er að niðurlotum komið og barn síns tíma. Nýir tímar eru framundan. Fleiri og fleiri vilja búa í streituleysi og góðu lofti í sveitinni í timburhúsi sem ekki kostar hvítuna úr augunum. En, computer says no. Gaman væri að vita hversu mörg við erum. Ég skýt á 1000-2000 manns. Ég stofnaði FB grúppu fyrir nokkrum mánuðum til að safna fólki saman sem býr í heilsárshúsum og á ekki annað húsnæði á landinu (Það er mikilvægt) og er komin með fulltrúa frá um 20 húsum í grúppuna. Aðallega fólk hér í kringum mig í Grímsnesinu og á Kjalarnesi þar sem ég þekki aðeins til. En ég veit að mun fleiri búa á þennan hátt s.s. á Hellnum á Snæfellsnesi, í Hvalfirði, Borgarfirði og í nágrenni Akureyrar.
Það er margt sem gerir okkur erfitt fyrir og margt rangt við kerfið eins og það er núna. Set hér niður nokkra punkta en er örugglega að gleyma einhverju atriði, - enda aðeins að viðra þetta við ykkur núna. Ef einhver vill skoða þetta frekar er hægt að skoða þetta skipulegar og af meiri festu.

  1. Hærri fasteignalán, því sumarhús er sk kerfinu alltaf tómstundahús og því hærri vextir. Alveg sama þó við sýnum banka fram á að þetta sé okkar heimili og getum veifað reikningum og ýmsu öðru því til staðfestingar. Getum sýnt að við eigum ekki aðra fasteign á landinu. Bankinn lítur samt á þetta sem frístundahús. Þar með eru lán aðeins til 15 ára og vextir hærri.

  2. Rafmagn er dýrara. Þetta er samt mismunandi milli sveitarfélaga. Ég ræddi t.d. við konu sem bjó í sumarhúsahverfi á Hellnum Snæfellsnesi. Hún sagði þetta mikið hagsmunamál hjá stórum hópi fólks sem býr þarna í heilsárshúsi en þau greiða mun hærri rafmagnsreikning en aðrir í nágrenninu en þar er ekki hitaveita og því verður að kynda með rafmagni.

  3. Enginn snjómokstur, sorphirða, eða póstur borinn í hús.

  4. Lögheimilið og pósturinn. Varðandi póst borinn í hús, er eins og við séum enn á stigi hestvagna og landpósta sem þurftu að vaða árnar með pakka og böggla til fólks. Í dag er ekki hægt að bera póstinn heim til mín þar sem ég bý í skilgreindu sumarhúsi (þetta fer eftir deiliskipulagi, hvernig húsið er skilgreint og þvi má ekki breyta). Ég hef fullan skilning á þessu og fer ekki fram á slíkt. En sumum stendur til boða að stofna sk Biðpóst og sækja pakka og bréf á pósthúsið. Fólk fær þá sms jafnvel þegar pakki berst. En ekki er hægt að stofna biðpóst fyrir mig á næsta pósthúsi (Selfoss) þar sem ég er ekki með neitt löglegt heimilisfang sk Póstinum. En lögheimili mitt er Óskilgreindu, 805 Selfossi. Þannig er ég skilgreind í Þjóðskrá. Engin leið er til að ég fái pósthólf eða eitthvert sístem til að hægt sé að senda mér bréf eða böggla og er vesenið endalaust sem ég hef gengið í gegnum með þetta atriði.

  5. Vegna atriðis 4, kjósa flestir sem búa í heilsárshúsi að skrá lögheimili sitt hjá ættingja eða vin og eru þannig rangt skráðir í kerfinu og útsvarið fer á rangan stað. Peningur fólks fer þannig í að byggja upp innviði rangs sveitarfélags og fólk hefur þar kosningarétt. Fólk fær bréf og póst sendan til ættingja og lendir ekki í sama veseni og ég. En ég kýs að vera skilgreind sk kerfinu að ég búi í því sveitarfélagi sem ég sannarlega bý í. Þannig get ég tekið þátt í að móta mitt sveitarfélag. Hafa áhrif á það. Ég má kjósa hér í Grímsnes- og Grafningshreppi þar sem ég er skráð með lögheimili hér (Óskilgreindu, 805 Selfossi)

  6. Börn þessara íbúa eiga ekki rétt á skólagöngu í því sveitarfélagi sem þú búa í. Það er undir hælinn lagt hvernig sveitarfélög bregðast við umsóknum íbúa í heilsárshúsum um svoleiðis þjónustu.

  7. Húsnæðisskortur á höfuðborgarsvæðinu hefur verið viðvarandi í mörg ár með svimandi háu leigu- og húsnæðisverði. Ef við sem búum í heilsárshúsum myndum öll ákveða að flytja aftur í húsnæði skilgreint sem lögheimili á höfuðborgarsvæðinu, myndi kerfið leggjast á hliðina. Það er hreinlega ekki til þetta húsnæði.

  8. Fasteignagjöldin eru hærri í einhverjum sveitarfélögum ef um sumarhús er að ræða.

  9. Þjónusta við fatlaða og eldri borgara ekki í boði eða erfitt að fá.

10.Tímarnir breytast. Kerfin eru lengi að taka við sér. Það er kominn tími til að þetta kerfi sumarhúsa fari að breytast. Ný tækni, betri hús og betri samgöngur gera fólki kleyft að búa allan ársins hring í sínu heilsárs húsi og það er af sem áður var, þegar fólk dvaldi nær eingöngu í sumarhúsunum sínum á sumrin. Enda samgöngur þá verri og húsin ekki jafn vel byggð og raunin er í dag.

Ég set ekki fleiri vangaveltur hér inn um málið. Mig vantar að spegla þessar vangaveltur í ykkur og sjá hvað píratar hafa um þetta að segja. Ég veit að tilraunir hafa verið gerðar til að vinna að einhverjum breytingum á frumvörpum um lögheimili án árangurs. Margir sjá aðeins hindranirnar í þessu, sem eru margar, en það er enginn að tala um að þessu þyrfti að kollvarpa frá a-ö á einu ári. Eitt og eitt skref til framþróunar þarf þó að eiga sér stað. Nú er allt í bremsu og gamaldags viðnámi gegn óhjákvæmilegri þróun mála.
Takk fyrir lesturinn!
Heiða Björk Sturludóttir, Óskilgreindu, 805 Selfossi, Ísland.

3 Likes

Sæl Heiða,

Kannast vel við þetta - bý einmitt í heilsárshúsi upp í Kjós. Hér eru reglurnar þannig að skilgreining á því hvort þú getur skráð þig sem heilsárshús eða ert skilgreindur sem sumarbústaður fer eftir því hvort að húsið standi á grunni eða stöplum.

Það þarf að sjálfsögðu að samræma hluti mun betur á þessu sviði á milli sveitarfélaga og eins að tryggja meiri rétt fólks eins og okkur sem elskum að búa í meira nágreni við náttúruna. Það er því mikilvægt að tækla þessi mál - því eins og þú segir tímarnir hafa breyst og kerfið þarf að fylgja þeim breytingum.

Þú vilt ekki ganga í FB grúppuna Gísli :slightly_smiling_face: Grúppan heitir Íbúar í heilsárshúsum.
Já, það þarf breytingu. En, sveitarfélögin hafa ekki vald til að breyta hjá sér. Þau þurfa að framfylgja landslögum um þjónstu við íbúa. Við t.d. höfum stungið uppá því við GOGG að við afsölum okkur réttindum til snjómoksturs o.s.frv. til að mega skrá okkur rétt, þ.e. að Bjarkarbraut 26, Grímsnesi, - en þá má sveitarfélag ekki semja þannig um skerta þjónustu. Það brýtur landslög. Það þarf því að breyta lögum um lögheimili. Frumvarp um breytingu á þeim lögum var lögð fram 2017 eða 2018 en hafnað af Reykjavík og GOGG. Held að flest önnur sveitarfélög hafi verið samþykk. En það er náttúrulega hagsmunamál Reykjavíkurborgar að fólk haldi áfram að borga útsvar í Reykjavík. Hér er góð umfjöllun um málið. https://www.ruv.is/frett/ohefdbundid-husnaedi-thu-att-ekkert-heima-thar

1 Like