Innra starf Pírata, Pírataþing og menning innan flokksins

Haldinn var félagsfundur um Pírataþing og bætta píratamenningu. Fundurinn var með mjög frjálsu sniði og var hverjum þáttakanda falið að lesa fundinn sjálfur, taka til máls ef viðkomandi þætti það við hæfi og voru allir hvattir til að sýna tillitssemi og háttvísi. Tókst þetta með ágætum, og fór fundurinn vel fram með líflegum umræðum.

Eftirfarandi er samantekt á umræðum fundarins.

Byrjað var á að ræða hvort skipulagslegar (e. structural) endurbætur gætu að einhverju leyti verið svar við þeim vandamálum sem flokkurinn hefur ítrekað staðið frammi fyrir, m.a. erfiðleikum í samskiptum flokksmanna og við úrvinnslu slíkra mála.

Voru sumir fundarmenn á því, að ýmsa þætti þess vanda væri hægt að leysa með því að flokkurinn kysi formann. Ýmis rök komu fram, m.a. að þá hefði flokkurinn til reiðu miðpunkt samskipa og upplýsingamiðlunar og það væri til þess fallið að auðvelda streymi upplýsinga innan flokks og út úr honum. Þannig hefði einnig einstaklingur það skýra hlutverk að ganga á milli og bera klæði á vopn flokksmanna þegar út af brygði í samskiptum og deilur kæmu upp, eða í það minnsta að bregðast við strax í upphafi þess að síkt ætti sér stað.

Aðrir fundarmenn lýstu sig andsnúna slíkum embættisstólum og lýstu áhyggjum af því að þá færi flokkstarfið að snúast enn meira um völd og stóla innan flokksins, eins og tíðkast í öðrum flokkum, og bentu á að helstu erfiðleikar í samskiptum hin síðari ár hafa yfirleitt hverfst um þann eina eiginlega valdastól sem fyrirfinnst innan Pírata, þ.e.a.s. stól formanns framkvæmdaráðs. Nær væri að fella þann stól líka af stalli.

Að þessu búnu, og í framhaldi af fyrri umræðum, var rætt um að mjög mikið vantaði á að flæði upplýsinga væri með eðlilegum og skilvirkum hætti innan Pírata. Var þar bent á fjölmarga þætti sem verulega þyrftu skoðunar við.

Rætt var að fjölmörg verkefni hefðu verið leyst í fyrri tíð í starfi flokksins, m.a. móttaka nýliða (Pírataskólinn), mentorakerfi í sama tilgangi, skýrslur pírataþinga, kosningastjórna og starfshópa og fleira. Mikil stofnanaleg þekking væri fyrir hendi, en henni væri illa miðlað, hún væri óaðgengileg bæði nýjum og eldri meðlimum og þannig væri stöðugt verið að finna upp hjólið á öllum mögulegum sviðum. Þetta gerði starfið óskilvirkt og óaðgengilegt nýju fólki.

Einnig var bent á að upplýsingamiðlun út á við væri mjög ábótavant, sem og miðlun upplýsinga um innra starf flokksins milli flokksmanna sjálfra. Þetta var talið þáttur í að fyrirbyggja gagnkvæmt traust meðal þáttakenda í grasrótarstarfi flokksins. Fundarmenn voru almennt mjög sammála um að pottur væri mölbrotinn í miðlun upplýsinga, skipulagi þeirra og utanumhaldi og það kæmi niður á stofnanalegu minni (e. institutional memory) flokksins og gerði flæði í flokksstarfinu mjög torvelt.

Fundurinn samþykkti að þessi samantekt yrði skrifuð og sett á Facebook-viðburð fundarins eftir yfirlestur og lagfæringar fundarmanna.

Vonandi verða áframhaldandi fundir.

Ég er með ákveðnar hugmyndir byggðar á strúktúr tékkneskra Pírata sem ég held að gætu verið til mikilla bóta, þ.e. að við brjótum upp ábyrgðarsvið framkvæmdaráðs í tvö eða fleiri ráð. Ég held að það væri til bóta að hafa einhvers konar pólitíska forystu, en ég skil vel tilfinningar fólks gagnvart orðinu formaður því ég deili þeirri skoðun líka að mér finnst það orð hafa alltof mikinn sögulegan bagga.

En klárt mál að við þurfum að gera ferlið í kringum stjórnarmyndunarumboð betra. Við þurfum að úthluta því löngu fyrir kosningar. Í raun og veru ætti alltaf einhver Pírati eða hópur þeirra að hafa stjórnarmyndunarumboð, svo það komi ekki upp þær aðstæður (nú í tvígang) að í stað þess að einbeita sér að kosningabaráttu, séu Píratar að takast á um stjórnarmyndunarumboð.

2 Likes