Nú er komið að þriðju stefnumótunarlotunni, en að þessu sinni er það Barnastefna, en hún fjallar um skóla, frístundir, íþróttir og tómstundir barna. (velferðarþjónusta barna og barnavernd falla hins vegar frekar undir velferðarstefnuna)
Fyrsti fundurinn fer fram í kvöld klukkan 20 og verður það Kickoff fundur, þar sem þrír sérfræðingar fara yfir málaflokkinn og sína sýn á hann með okkur.
Að þessu sinni verða það:
Björn Gunnlaugsson: Hann er aðstoðarskólastjóri Laugarnesskóla og hefur um árabil beitt sér fyrir því að upplýsingatækni sé nýtt til að bæta skólastarf. Hann stýrði innleiðingu spjaldtölva í grunnskólum Kópavogs á árunum 2015-18 og hefur einnig starfað í Klébergsskóla, Norðlingaskóla, Dalvíkurskóla, Smáraskóla og Langholtsskóla. Björn lítur á sig sem samfélagsmiðlastjörnu og áhrifavald.
Ragnheiður Guðmundsdóttir: Hún er félagsráðgjafi, fjölskyldufræðingur og doktorsnemi við Háskóla Íslands, og hefur ferðast víða erlendis og stundað nám í tengslafræðum. Hún mun fjalla um mikilvægi tengsla barna við umönnunaraðila.
Margrét Pála Ólafsdóttir: Hún er velunnari barna með áratugareynslu af leikskólastarfi og rekstri, og er stofnandi Hjallastefnunnar á Íslandi.
Við þökkum þessu góða fólki fyrir að koma og fræða okkur og gefa okkur fóður í umræðuna, en það er þó gott að taka fram að ekki skyldi túlka þátttöku þeirra á pallborði sem stuðningsyfirlýsingu við flokkinn, né heldur að stefnan sem við skrifum í kjölfarið verði alfarið eftir þeirra áherslum, en þarna eru sannarlega á ferðinni góðir sérfræðingar sem eru til í að veita okkur af þekkingu sinni, en upplýsingar eru einmitt forsenda upplýstrar ákvarðanatöku.
Fundurinn verður með því sniði að hann hefst í streymi klukkan 20:00 á slóðinni www.piratar.tv
Hvert erindi verður á bilinu 15-20 mínútur, og eru áhorfendur hvattir til að senda inn spurningar og taka þátt. Eftir erindin, ca. klukkan 21:00, færist fundurinn á fjarfundarform á slóðinni https://fundir.piratar.is/stefnumotunpirata og þar getum við byrjað að vinna stefnuna.
Fundarstjóri verður Atli Stefán Yngvason.
Hægt er að skoða núgildandi stefnur Pírata í Reykjavík í barna- og fjölskyldumálum hér, fyrir þau sem vilja undirbúa sig: