Lífeyrissjóðir eru augljóslega mjög mikilvægir eins og kerfið okkar er sett upp hér heima, hvort sem það er vegna elli-, maka-, barna, örorkulífeyrir eða hinn valkvæði viðbótarlífeyrissparnaður sem margir kjósa að nýta sér. Það fyrst- og síðastnefnda er það eina sem, vonandi, flestir munu nýta sér þegar starfsævinni lýkur eða jafnvel örlítið fyrr. Þetta eru ávaxtaðir peningar sem fólkið sjálft hefur unnið fyrir mest allt sitt líf á vinnumarkaði.
Þar sem fólk eru bæði sjálf- og fjárráða einstaklingar finnst mér því fáránlegt í alla staði að kjarasamningar geti neytt fólk til að greiða sín iðgjöld í einhvern ákveðinn sjóð umfram annan og hluti fjárræði fólksins þar með tekið af því.
Fólk er almennt, held ég, ekki að spá mikið í lífeyrissjóðum að neinu viti og er það alls ekki í huga fólks er það velur sér starfsvettvang eða menntun. Heldur er það, vonandi, áhuginn fyrir þeirri stétt. Síðan verða margir tilneyddir til að vera í lífeyrissjóði sem margir kæra sig bara alls ekkert um. Auðvitað þurfa allir að vera í einhverjum lífeyrissjóði en að vera skikkaður í einn umfram annan ætti að vera brot á lögum. Og það að samningar um kjör vinnandi manna sé að taka ákvörðunarvaldið af fólki um ávöxtun launa sinna í ellinni skýtur því ansi skökku við og get ég ekki séð rökin fyrir því að það sé betra á neinn hátt.
Sumir sjóðir eru bara fyrir ákveðnar stéttir auðvitað og það er svosem allt í lagi en að sjálfsögðu á það að vera val einstaklingsins að færa sig í þann sjóð sem honum lystir. Margir sjóðir eru opnir öllum sem vilja og margir einstaklingar eru óbundnir lífeyrissjóðum. En ekki allir og það ættu að vera allir.
Ávöxtun sjóða er mismunandi og mismunandi réttindi fylgja hverjum sjóði eins og t.d. húsnæðislán fyrir sjóðfélaga eru til boða í sumum en öðrum ekki. Ég tel að fólk vilji hafa möguleikann á að ráðstafa sínu eigin fé til ávöxtunar eftir sýni eigin vali, ekki til neyddu vali.
Ég legg til að bann verði sett á að fólk sé sett undir sér tilgreinda lífeyrissjóði og að það verði val fyrir hvern og einn. Allt í lagi að fólk sé sett í einhvern ákveðinn sjóð til að tryggja það að iðgjöld launa renni í lífeyrissjóð, en að það verði þá ekkert mál fyrir þá sem vilja að skipta þegar þeir vilja í hvern þann sjóð sem er með opið fyrir viðkomandi einstakling.
Þetta getur bara ekki verið kjarasamningsmál, kjarasamningur getur sagt til um iðgjalda prósentu sem og mótframlags greiðslur. En ætti aldrei að takmarka rétt fólks með því að höggva skarð í fjárræði þess.
Eins með framreiknaðan örorkulífeyri, að það sé krafa að vera búinn að borga í sama sjóðinn í X mörg ár af X mörgum árum og/eða X marga mánuði af X mörgum mánuðum ásamt fleiri skilyrðum.
Til hvers í ósköpunum?
Ef einstaklingur á inneign vegna ellilífeyris í nokkrum sjóðum þá fær hann það sem hann á úr þeim öllum og hægt er að fá það í einni greiðslu þar sem sjóðurinn sem hann borgaði síðast í sér um innheimtuna fyrir hann.
Framreiknaður örorkulífeyrir er reiknaður út og miðast við áunninn réttindi við 65 ára aldur. En auðvitað bundin þessum asnalegu kröfum og þar með getur óheppinn einstaklingur lent í slæmum málum ef hann er nýbúinn að skipta um lífeyrissjóð og lendir í örorku á þessu tímabili sem kröfurnar segja til um.
Ég legg því einnig til að framreiknaður örorkulífeyrir verði meinað að bera slíkar kröfur og ætti frekar að miðast áfram við áunnin réttindi við 65 ára, hjá öllum þeim sjóðum sem viðkomandi á inneign í, og þá kröfu um að greiðsla iðgjalds af launum viðkomandi hafi verið óslitin, eða því sem næst, í einhver X ár hjá einhverjum lífeyrissjóði, en ekki einhverjum tilteknum. Síðan gæti/myndi sjóðurinn sem síðast var greitt í sjá um að innheimta úr hinum sjóðunum rétt eins og ef um ellilífeyrir væri að ræða.