Kjarasamningsbundnir lífeyrissjóðir

Lífeyrissjóðir eru augljóslega mjög mikilvægir eins og kerfið okkar er sett upp hér heima, hvort sem það er vegna elli-, maka-, barna, örorkulífeyrir eða hinn valkvæði viðbótarlífeyrissparnaður sem margir kjósa að nýta sér. Það fyrst- og síðastnefnda er það eina sem, vonandi, flestir munu nýta sér þegar starfsævinni lýkur eða jafnvel örlítið fyrr. Þetta eru ávaxtaðir peningar sem fólkið sjálft hefur unnið fyrir mest allt sitt líf á vinnumarkaði.
Þar sem fólk eru bæði sjálf- og fjárráða einstaklingar finnst mér því fáránlegt í alla staði að kjarasamningar geti neytt fólk til að greiða sín iðgjöld í einhvern ákveðinn sjóð umfram annan og hluti fjárræði fólksins þar með tekið af því.

Fólk er almennt, held ég, ekki að spá mikið í lífeyrissjóðum að neinu viti og er það alls ekki í huga fólks er það velur sér starfsvettvang eða menntun. Heldur er það, vonandi, áhuginn fyrir þeirri stétt. Síðan verða margir tilneyddir til að vera í lífeyrissjóði sem margir kæra sig bara alls ekkert um. Auðvitað þurfa allir að vera í einhverjum lífeyrissjóði en að vera skikkaður í einn umfram annan ætti að vera brot á lögum. Og það að samningar um kjör vinnandi manna sé að taka ákvörðunarvaldið af fólki um ávöxtun launa sinna í ellinni skýtur því ansi skökku við og get ég ekki séð rökin fyrir því að það sé betra á neinn hátt.

Sumir sjóðir eru bara fyrir ákveðnar stéttir auðvitað og það er svosem allt í lagi en að sjálfsögðu á það að vera val einstaklingsins að færa sig í þann sjóð sem honum lystir. Margir sjóðir eru opnir öllum sem vilja og margir einstaklingar eru óbundnir lífeyrissjóðum. En ekki allir og það ættu að vera allir.

Ávöxtun sjóða er mismunandi og mismunandi réttindi fylgja hverjum sjóði eins og t.d. húsnæðislán fyrir sjóðfélaga eru til boða í sumum en öðrum ekki. Ég tel að fólk vilji hafa möguleikann á að ráðstafa sínu eigin fé til ávöxtunar eftir sýni eigin vali, ekki til neyddu vali.

Ég legg til að bann verði sett á að fólk sé sett undir sér tilgreinda lífeyrissjóði og að það verði val fyrir hvern og einn. Allt í lagi að fólk sé sett í einhvern ákveðinn sjóð til að tryggja það að iðgjöld launa renni í lífeyrissjóð, en að það verði þá ekkert mál fyrir þá sem vilja að skipta þegar þeir vilja í hvern þann sjóð sem er með opið fyrir viðkomandi einstakling.

Þetta getur bara ekki verið kjarasamningsmál, kjarasamningur getur sagt til um iðgjalda prósentu sem og mótframlags greiðslur. En ætti aldrei að takmarka rétt fólks með því að höggva skarð í fjárræði þess.

Eins með framreiknaðan örorkulífeyri, að það sé krafa að vera búinn að borga í sama sjóðinn í X mörg ár af X mörgum árum og/eða X marga mánuði af X mörgum mánuðum ásamt fleiri skilyrðum.

Til hvers í ósköpunum?

Ef einstaklingur á inneign vegna ellilífeyris í nokkrum sjóðum þá fær hann það sem hann á úr þeim öllum og hægt er að fá það í einni greiðslu þar sem sjóðurinn sem hann borgaði síðast í sér um innheimtuna fyrir hann.
Framreiknaður örorkulífeyrir er reiknaður út og miðast við áunninn réttindi við 65 ára aldur. En auðvitað bundin þessum asnalegu kröfum og þar með getur óheppinn einstaklingur lent í slæmum málum ef hann er nýbúinn að skipta um lífeyrissjóð og lendir í örorku á þessu tímabili sem kröfurnar segja til um.

Ég legg því einnig til að framreiknaður örorkulífeyrir verði meinað að bera slíkar kröfur og ætti frekar að miðast áfram við áunnin réttindi við 65 ára, hjá öllum þeim sjóðum sem viðkomandi á inneign í, og þá kröfu um að greiðsla iðgjalds af launum viðkomandi hafi verið óslitin, eða því sem næst, í einhver X ár hjá einhverjum lífeyrissjóði, en ekki einhverjum tilteknum. Síðan gæti/myndi sjóðurinn sem síðast var greitt í sjá um að innheimta úr hinum sjóðunum rétt eins og ef um ellilífeyrir væri að ræða.

1 Like

Margir misstu öll sín lífeyrisréttindi í hruninu vegna slæmrar stjórnunar sjóðana sem það var í.
Ég verð að játa að ég hélt að fólki væri orðið frjálst að velja sér lífeyrissjóð, en jæja.
Það sem þarf náttúrulega er að inneignin sé inneign einstaklingsins sem er hans til að ráðstafa. Ef þú veist að þú ert að drepast úr langvinnum sjúkdómi upp úr sjötugu, til hvers að fá hungurskammt í hverjum mánuði eins og hún eigi að duga fram yfir nítíu ára aldur? Arfur er síðan næsta mál.

Þegar fólk getur átt í hættu á því að missa lífeyrisréttindi sín vegna slæmrar stjórnunar örfárra manna, finnst mér þá vera en ríkari ástæða til að tryggja frjálst val á lífeyrissjóði svo fólk geti bæði dreift áhættunni á milli sjóða eða kynnt sér stjórnun þeirra eins og það getur til að taka upplýsta ákvörðun. Að binda fólk við ákveðna sjóði í kjarasamningum hindrar það algjörlega.

En tæknilega séð er hægt að velja sér lífeyrissjóð þar sem það er félagafrelsi á Íslandi. Fólk gæti valið sér stéttarfélag sem er ekki með kjarasamning bundinn við neinn sjóð. Þannig að rafiðnaðarmaður getur t.d. valið að greiða í stéttarfélag fyrir sjómenn og sleppt því þar með að vera bundinn við Birtu lífeyrissjóð. En það er fáránleg krókaleið og rafiðnaðarmaður hefur voða takmarkað að gera við að vera félagsmaður í stéttarfélagi sjómanna.

Einhverjar undanþágur geta samt orðið, allavega fékk ég það svar frá rafiðnaðarsambandinu að þeir sem hafa borgað “í mörg ár” í annan lífeyrissjóð, úr öðrum störfum, en sá sem kjarasamningur þeirra segir til um (Birta) gætu fengið að halda því áfram. Svo þótt það sé möguleg undanþága þá fylgir henni samt krafa, “mörg ár”.

Önnur undanþága sem ég veit um er þegar starfsemi í einkarekstri fór í ríkisrekstur þá fékk einn starfsmaðurinn að borga í sjóðinn sem hann var í því sá starfsmaður átti bara eitt ár eftir á vinnumarkaði sökum aldurs, svo það tók því varla að fara í nýjan sjóð.

Það á samt ekkert að þurfa að standa í einhverjum undanþágum frá kjarasamningum vegna einhvers sem á ekkert að koma kjarasamningum við í fyrsta lagi, en þetta er raunverulegur og órökréttur fáránleiki sem þarf að afnema sem allra fyrst. Mér finnst þetta eins og að vera neyddur í viðskipti við einhvern ákveðinn viðskiptabanka með kjarasamningi, allt yrði brjálað ef það væri en lífeyrissjóðir fá samt að gera það nær athugasemda laust.

Eitt sem ég vil líka koma á framfæri með framreiknaðar örorkubætur. Þá virðist það vera svo að hver sjóðurinn er skiptir máli hvort iðgjalda greiðandi lendir á réttindalausu tímabili bara við það eitt að skipta um sjóð þótt viðkomandi hafi óslitna greiðslusögu iðgjalda í einhvern lífeyrissjóð. Því á meðan einn sjóður mælist til þess að fólk tryggja sig sérstaklega fyrir þessu í a.m.k. 3 ár eftir skiptin þá segir annar sjóður að það skiptir ekki máli og engin réttindi tapist svo framarlega sem greiðslusagan er óslitin. Það fer þá kannski bara eftir túlkun hvers sjóðs fyrir sig hvernig hann túlkar “samkomulag samskipta lífeyrissjóða” og væri því kannski best að skerpa á þeim samningum til að taka af allan vafa úr slíkum málum. Enda fáránlegt að geta lent í örorku á réttindalausu tímabili í lífeyrissjóðskerfinu, þrátt fyrir óslitna greiðslusögu í lífeyrissjóð, og fá engar framreiknaðar örorkubætur vegna þess því sjóður viðkomandi túlkar samninginn á þá vegu. Það er alls ekkert í anda þess sem þetta kerfi á að standa fyrir.

Ég þekki ekki til þess að þú getir tekið út skyldusparnaðinn þinn út nema í mánaðarlegum greiðslum eins og allavega sumir séreignarsjóðir bjóða uppá en það væri alveg sniðugt að hafa það í boði fyrir ákveðinn hóp fólks. En ef allir mættu það og svo myndu einhverjir gera það og lifa samt miklu lengur en eyða allri upphæðinni sinni. Hver myndi þá grípa þá og styðja við þá til dauðadags ef lífeyrissjóðir þessa fólks væru tómir?

Það er náttúrulega í boði að fá að byrja að taka út fyrr eða seinna og fá þá lægri eða hærri fjárhæð í hverjum mánuði, en það er kannski annar handleggur.

Varðandi arfinn, þá veit ég ekki betur en svo að sumir sjóðir bjóða uppá að einhver hluti inneignar erfist við andlát. Það mætti alveg skoða fyrirkomulagið með það betur í þágu eftirlifenda enda svoldið súrt að einstaklingur sem hefur kannski greitt iðgjöld allt sitt líf og deyr jafnvel fyrir lífeyristöku að allir þeir peningar fari bara í kerfið sjálft í staðinn fyrir að styðja við fjölskyldu viðkomandi.

1 Like

Svo skipa fulltrúar atvinnurekenda helming stjórnarmanna umræddra lífeyrissjóða, þar à meðal Birtu! Sjôða sem launþegar geta ekki fengið greitt út fyrr en þeir hætta á vinnumarkaði. Þetta býður hættunni á vanhæfi heim.

1 Like

Þar sem hættan á vanhæfi er til staðar auk nægs tíma, þá er í raun bara ein raunhæf útkoma. Hún er ekki í þágu launþega.

Og launþegar geta lítið sem ekkert gert. Þessu verður að breyta en flestum virðist standa á sama um þessi mál. Þótt þetta sé jafnvel öll framfærsla fólks þegar ævistarfi þeirra lýkur.

Áhugaleysið er mér óskiljanlegt.