Lagabreytingartillaga um lækkun aldurstakmarks Pírata

Ungir Píratar halda á miðvikudaginn félagsfund um lækkun aldurstakmarks fyrir félagsaðild að Pírötum. Aldurstakmarkið er nú 16 ár, en lagt er til að lækka það niður í 13 ár. Meðfylgjandi (neðst) eru drög af lagabreytingartillögu þess efnis sem verður kynnt á fundinum.

Stjórnmálaþátttaka ungs fólks hefur mikið verið til umræðu undanfarin misseri, en átök hafa verið haldin til að reyna að fá ungt fólk í auknum mæli á kjörstað. Þar má sérstaklega nefna #ÉgKýs átakið sem hefur þótt einstaklega vel unnið. Einnig má nefna loftslagsmótmæli undanfarinna ára þar sem börn hafa beitt sér á öflugan hátt fyrir umbótum, en hreyfingin var stofnuð af Gretu Thunberg, sem var þá 15 ára, og hafa börn jafnvel yngri en 13 ára tekið virkan þátt. Þessi hópur hefur greinilegan áhuga og getu til að taka þátt í stjórnmálaumræðu og hefur ekki sama aðgang og aðrir.