Ekki alveg vinsælasta umræðuefnið í sögu stjórnmálanna, en mér finnst þetta skipta máli.
Ég krotaði pistil í Fréttablaðið um áhrif klambannsins og mig langar svolítið til að heyra í flokksfólki um hvað því finnist um málefnið. Pistillinn er hér í heild sinni.
https://www.frettabladid.is/skodun/osidlegu-fornarlombin/
Ósiðlegu fórnarlömbin
Nýlega hefur frést um nokkurn fjölda Íslendinga, a.m.k. einhverja tugi, sem selja aðgang að myndefni af sér á vefnum OnlyFans. Alls konar efni er þar að finna, en umtalaðastur er hann fyrir kynferðislegt efni sem notendur búa til sjálfir. Miðað við fjöldann af Íslendingum sem vitað er um má leiða líkur að því að a.m.k. hluti þess efnis myndi teljast til svokallaðs kláms, en einnig má búast við að fjöldinn sé meiri og líklegt er að hann aukist með tímanum.
Eðlilega sýnist fólki sitt um klám, enda hugmyndir um kynlíf almennt fjölbreyttar, einstaklingsbundnar og persónulegar. Reyndar er skilgreiningin á klámi sjálf nokkurt bitbein, sem er ekki til þess fallið að auðvelda uppbyggilega umræðu um efnið.
Í öllum frjálsum lýðræðisríkjum nútímans er þó nær ótakmarkaður aðgangur að klámi staðreynd og – hvort sem okkur líkar betur eða verr – óbreytanleg í þokkabót. Af og til koma upp hugmyndir um að reyna að takmarka útbreiðslu kláms á netinu en það hlýtur að vera orðið ljóst að slík markmið eru með öllu óraunhæf, þ.e. ef við viljum halda bæði í tækni og samfélag sem er í meginatriðum frjálst. En svo lengi sem tæknivætt samfélag verður í meginatriðum frjálst verður nær ótakmarkaður aðgangur að klámi til staðar.
Aukin kynfræðsla, sér í lagi um samskipti, tilfinningar og mörk, er nauðsynlegur hluti af viðbrögðum okkar við þessari þróun, því þótt við getum ekki dregið úr kláminu sjálfu, þá getum við dregið úr neikvæðum áhrifum þess. Þá er fyrst og fremst hugsað til barna og unglinga, sem hættir til að gera minni greinarmun á raunveruleika og því sem birtist í ýmsu afþreyingarefni. Sem betur fer er umræðan um neikvæð áhrif kláms mestmegnis komin í þá átt; til fræðslu, í stað hugmynda um að yfirvöld ákveði hvað fólki sé treystandi til að sjá og heyra á hinu rómaða interneti.
En aftur að Íslendingunum sem dreifa klámfengnu efni af sjálfum sér á OnlyFans. Það vill nefnilega svo til að á Íslandi er klám bannað með lögum, sem virðist reyndar vera einsdæmi meðal frjálslyndra lýðræðisríkja eftir því sem undirritaður kemst næst.
Nú vilja sjálfsagt einhver benda á að a.m.k. hluti umrædds hóps sé í einhvers konar neyðaraðstæðum og sé jafnvel misnotaður, og að sjálfsögðu er hætta á því. En einmitt þá er mesta firran fólgin í að refsa honum. Hvort sem fólk birtir af sér klámfengið efni af fúsum og frjálsum vilja, eða vegna neyðar eða misnotkunar, þá er það aldrei réttlátt, og aldrei til þess fallið að vernda fólk fyrir misnotkun, að refsa því. En það er hins vegar nákvæmlega það sem núgildandi löggjöf um bann við klámi gerir, nánar til tekið 210. gr. almennra hegningarlaga.
Klám er eðlilega umdeilt og er ekki við neinu öðru að búast. Boðskapurinn hér er ekki sá að klám sé bara hið besta mál og að ekkert beri að gera við neikvæðum afleiðingum þess. En tvennt eigum við ekki að gera við þeim. Eitt er að sætta okkur við að vera eftirbátar frjálslyndra lýðræðisríkja í tjáningar- og upplýsingafrelsi. Hitt er að refsa mögulegum fórnarlömbum. Hvort tveggja fylgir hins vegar óhjákvæmilega hinu úrelta klámbanni sem enn finnst sprelllifandi í löggjöf Íslands.