Hvernig framtíð við viljum Píratar sjá? Nýfrjálshyggjufólk virðist margt aðhyllast einhverskonar Ayn Rand dystópíu, félagshyggjufólk virðist aðhyllast jöfnuð sem byggir á stéttabaráttu (gegn auðvaldi og kapítalisma væntanlega) sem gekk vel á síðustu öld. En hver hver gæti langtímaþráhyggja Pírata verið?
Ég er með nokkrar pælingar hér að neðan, svona til viðbótar við ágæt en þó abstrakt ákvæði í grunnstefnu Pírata. Er þetta eitthvað sem fleiri Píratar geta tekið undir?
*Píratar vilja að á Íslandi sé í gildi stjórnarskrá sem tekur mið af þörfum samfélagsins á hverjum tíma ásamt því að stuðla að sjálfsákvörðunarrétti hvers og eins landsbúa.
*Píratar vilja að á Íslandi sé dómskerfi og hagstjórn þar sem velferð og þarfir einstaklinga og fjölskyldna eru grunnákvæði sem ganga framar kröfum félaga, fyrirtækja og fyrirtækjasamsteypa.
*Píratar vilja stefna að samfélagi þar sem beinu lýðræði, gagnsæi, menntun og upplýsingalæsi eru efld til að koma í veg fyrir opinbera hlutdrægni og spillingu, ásamt því að ná þeim markmiðum sem lýðræðisleg sátt (eða málamiðlum) næst um.
Píratar vilja stefna að samfélagi þar sem velferðarkerfi (félagsleg þjónusta, heilbrigðisþjónusta, meðferðarúrræði, menntun, samgöngukerfi og öryggisþjónusta) eru aðgengileg og *gjaldfrjáls fyrir borgara.
*Píratar vilja stefna að samfélagi þar sem hverjum og einum borgara er séð fyrir skilyrðislausum grunnlífeyri (hvort sem er með neikvæðum tekjuskatti eða svokölluðum ‘borgaralaunum’), til að auka sjálfsákvörðunarrétt borgara sem geta hagað lífi sínu, búsetu og lífsviðurværi eftir því sem hverjum hentar best. Einnig til að sporna gegn atvinnuleysi sem aukin sjálfvirknivæðing í helstu atvinnugreinum leiðir til, ásamt því að útrýma fátækt sem stuðlar að ótöldum kostnaði fyrir dóms- og heilbrigðiskerfi.
*Píratar vilja stefna að samfélagi þar sem hið opinbera hefur lítil sem engin afskipti af atvinnulífi önnur en að tryggja að farið sé að samkeppnislögum og öðrum lögum. Enda hafa afskipti ríkisins af atvinnuvegum iðullega stuðlað að fákeppni, minni nýliðun og gert þeim erfiðara fyrir sem vilja fylgja eftir hugarefnum sínum, vinna að fjölbreytni, framþróun og nýungum.
*Píratar vilja stefna að samfélagi þar sem fjárstuðningur og hvatning til samfélagsþróunar með opinberum samkeppnissjóðum sem hvetja t.d. til vísindaþróunar, umhverfisverndar, sjálfbærni, menningarstarfs og fjölbreytts húsnæðismarkaðar eða annars sem lýðræðisleg sátt er um á hverjum tíma.
*Píratar vilja að í alþjóðasamskiptum og samskiptum við erlenda borgara verði friðarumleitanir, mannúð, sjálfsákvörðunarréttur einstaklinga og sjálfbærni, höfð að leiðarljósi umfram aðra hagsmuni.
Er einhver hér sammála einhverju af ofangreindu?