Þetta mál á að taka úr nefnd núna í vikunni - í fljótu bragði lýst mér vel á þetta, verið er að lögfesta að ef lögbann er sett á tjáningu (t.d. fréttir) þá á að hraða málsmeðferð um lögbannið.
En það er alltaf gott að fá önnur augu ef einhver hnýtur um eitthvað?
Um breytinguna af vef Alþingis:
“Lagt er til ákvæði þess efnis að ef gerðarþoli mótmælir framgangi lögbannsgerðar á þeirri forsendu að gerðin fari í bága við 73. gr. stjórnarskrárinnar og sýslumaður hafnar þeim mótmælum þá geti gerðarþoli borið þá ákvörðun undir héraðsdómara, þó svo að gerðarbeiðandi mótmæli því, svo fremi sem hann skuldbindur sig til að láta af athöfn á meðan mál er rekið fyrir dómi. Þá er lagt til að mælt verði fyrir um að málsmeðferð í slíkum tilvikum skuli flýtt eins og kostur er. Auk þess er lagt til að dómari skuli fella mál strax niður ef gerðarbeiðandi krefst þess þegar gerðarþoli virðir ekki þá skuldbindingu að láta af athöfn sinni.”
Sú túlkun að slíkt geti í nokkru tilfelli staðist ákvæði stjórnarskrár þykir mér ótrúleg yfirhöfuð, ef ég á að segja alveg eins og er. Stjórnarskrárákvæðið tiltekur sérstaklega bann við beinni ritskoðun, sem er nákvæmlega það sem lögbann við birtingu efnis er. Ef birting á efni varðar við lög er það eitthvað sem á að kanna fyrir dómstólum eftir birtingu, ekki áður en hún er heimiluð. Það er því vægast sagt einkennilegt að lögfesta hvernig menn eigi að bera sig að þegar ritskoða á efni.
Það breytir því ekki að þessi lög eru í hróplegu ósamræmi við stjórnarskrá, og í stað ákvæða um flýtimeðferð ætti einfaldlega að taka það skýrt fram að lögbanni sé óheimilt að beita til að hindra birtingu efnis. Raunin er hinsvegar auðvitað sú að lagabókstafur hefur nánast enga merkingu hérlendis, og því í hæsta máta vafasamt að slíkt myndi nokkru breyta um dómaframkvæmd.