Ég held að @hermanningjaldsson hitti naglann á höfuðið.
Boris Johnson (eða öllu heldur, Brexit) og Donald Trump eru þar sem þeir eru vegna þess að þeim tókst að nýta sér nútíma tækni til að sigra kosningar/þjóðaratkvæðagreiðslu.
Hvort tveggja Barack Obama og Píratar þökkuðu sínum árangri á sínum tíma að miklu leyti getunni til þess að nýta internetið til að koma málstað sínum á framfæri, enda var hann á þeim tíma langt umfram samkeppnisaðilana í pólitík. En sú velgengni snerist um að nýta internetið til þess að dreifa upplýsingum, pósta sem víðast og svoleiðis.
Þróunin síðan þá hefur hinsvegar verið þannig að tæknin er beinlínis vopnvædd, ekki til að ná til allra, heldur til þess að sníða bæði skilaboðin og viðtakendalistann taktískt eftir því hvar hann virkar best. Upplýsingastjórnun hefur alltaf verið beitt til að valda sundrungu í stjórnmálum, en munurinn er sá að upplýsingatæknibyltingin hefur verið vopnvædd til þeirrar upplýsingastjórnunar. Í gamla daga gátu pólitískir andstæðingar í það minnsta lesið málgagn hvors annars og drullað yfir málflutning hvors annars, en í dag er fólk að jafnaði ekki einu sinni meðvitað um hver rökstuðningur andstæðingsins yfirhöfuð sé, vegna þess að hann er einungis aðgengilegur þeim sem aðhyllist hann.
Þetta ástand nýtir alla verstu eiginleika manneskjunnar til skoðanamótunar. Reiði, fljótfærni og fordóma. Afleiðingin er enn meiri sundrung, sem síðan hentar ákveðnum pólitískum öflum betur en öðrum.
Pólitískt afl sem hefur í grunnstefnu sinni að taka upplýstar ákvarðanir án tillits til þess hvaðan þær koma, t.d., tapar á þessu. Pólitískt afl sem stærir sig af hugrekki við að taka fyrir viðkvæma minnihlutahópa og drulla yfir þá með hatri og fordómum, græðir á þessu. Öfl sem vilja minni samheldni og minni samvinnu græða. Það þýðist beinustu leið yfir í andúð á alþjóðasamvinnu og hópum sem á einhvern hátt eru frábrugðnir manns eigin, en stuðning við slagsmál og blinda eigingirni.
Í grunninn er ekkert nýtt í þessu. Það er bara nýtt vopn á markaðnum, sem er upplýsingatæknin, og það kom að því að hún yrði vopnvædd, sem hún hefur verið, og afraksturinn er akkúrat núna að þjóna best þeim öflum sem finnst réttlætanlegast að nýta hana óspart og án tillits til sannleikans eða siðferðislegra takmarkana. Það mun breytast, en það á eftir að koma í ljós á hvaða hátt.
Kannski er þetta aðeins meira en það sem @hermanningjaldsson sagði, en þetta er í sjálfu sér einfalt. Um hvern sannleika má ljúga. Í heimi þar sem fólk er almennt afspyrnu lélegt í að meta muninn á sönnu og ósönnu (og hefur alltaf verið), og misjöfn öfl hafa misjafna hagsmuni af því að fólk trúi hinu sanna eða ósanna, hvernig verður tæknin nýtt til þess að dreifa sannindum og draga úr ósannindum, frekar en öfugt?