Málefnahópur um nýja stjórnarskrá

Sæl öll!

Við Dagmar Loftsdóttir, Greta Ósk Óskarsdóttir og Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir höfum verið að leiða málefnahóp um nýja stjórnarskrá, í því skyni að setja saman drög að kosningastefnu Pírata í málaflokknum til að leggja fyrir Pírataþingið núna 10. apríl næstkomandi.

Við fjögur höfum hist (í fjarfundum) á fjórum undirbúningsfundum til að ræða ferlið og þá valkosti sem við þyrftum að ræða og bera undir félagsfólk. Við boðuðum síðan til opins málefnafundar Pírata þriðjudaginn 23. mars síðastliðinn, þar sem mæting var nokkuð góð (sennilega mættu um 15-20 í heildina). Fyrir fundinn höfðum við kynnt dagskrá þar sem minnst var á helstu valkosti sem við værum að ræða fyrir kosningastefnuna (sjá hér fyrir neðan) og á fundinum tókum við þá valkosti til opinnar umræðu þar sem leitast var eftir skoðunum og hugmyndum frá viðstöddum.

Eftir fundinn lögðum við drög að kosningastefnu flokksins í málaflokknum og hittumst þriðjudaginn í þessari viku (30. mars) til að ræða þau drög. Þau eru langt komin í dag og gerum við ráð fyrir að leggja þau til umræðu hér á spjallið eftir næsta fund okkar á þriðjudaginn í næstu viku, og í kjölfarið fyrir Pírataþingið.

Öll frekari innlegg um punktana sem eru helst til umræðu eru velkomin hér! Þeir eru, eins og kynnt var fyrir málefnafundinn:

  1. Hvað eiga Píratar að leggja mesta áherslu á varðandi nýju stjórnarskrána í kosningastefnu flokksins?

  2. Hvernig eiga Píratar að tryggja að ný stjórnarskrá verði innleidd á næsta tímabili?

  3. Viljum við innleiða nýju stjórnarskrána eins og hún birtist í nýlegu frumvarpi Pírata og Samfylkingar eða í einhverri annarri mynd? Sjá: https://www.althingi.is/altext/151/s/0026.html

  4. Erum við opin fyrir því að breytai stjórnarskránni í nokkrum hlutum? Þetta á sérstaklega við ef breytingartillaga Pírata o.fl. verður samþykkt á þessu þingi, þannig að hægt sé að breyta stjórnarskránni án þess að rjúfa þing.

  5. Viljum við hafa frekara samráð við almenning um lyktir ferlisins á kjörtímabilinu? T.d með því að halda borgarafundi eða rökræðukannanir?

  6. Viljum við kalla Stjórnlagaráð aftur saman til að fara yfir breytingar sem hafa verið gerðar á frumvarpinu síðan það lauk störfum og gefa álit sitt á þeim?

  7. Viljum við láta kjósa til nýs Stjórnlagaþings?

  8. Viljum við boða aðra þjóðaratkvæðagreiðslu til að staðfesta endanlegt frumvarp að nýrri stjórnarskrá, t.d. samhliða þarnæstu alþingiskosningum?

  9. Viljum við innleiða í nýja stjórnarskrá ákvæði um stjórnlagaþing, sem skuli endurskoða stjórnarskrána með (ó)reglulegu millibili?

Gleðilega páska!
Viktor Orri

3 Likes

Ég er svo spennt að sjá hvað kemur út úr þessu hjá ykkur duglega fólk! Ég hef mjög ákveðnar skoðanir á lið 4 og lið 7.
Hef sérstakar efasemdir um að breyta breytingaákvæðinu. Það er beinlínis hættulegt í mínum huga.

1 Like

Takk! Mátt endilega tjá þínar ákveðnu skoðanir nánar hér :smiley: við stefnum samt á að setja drögin á spjallið síðar í dag eða á morgun… eins og er leggjum við ekki til að fjalla um þessi tvö atriði í kosningastefnunni.

1 Like

Þetta er athyglisvert og verður fróðlegt að lesa ykkar pælingar en er þetta ekki álíka og að fara yfir lækinn til að sækja vatnið?

Að vera að búa til plagg um stjórnarskrána þegar það er alveg ljóst að það sem þarf að gerast varðandi stjórnarskrána er að brjóta á bak aftur neitunarvald Sjálfstæðisflokksins varðandi stjórnarskrána sem hann hefur nánast tekið sér án mikillar mótspyrnu vegna valdaþorsta alþingismann/forystumanna, VG, XB og annara. Til að breyta þeirri stöðu þurfa flokkar sem vilja nýju stjórnarskrána að mynda ríkisstjórn, best væri að það myndi gerast í haust ef ekki þá í þar næstu kosningum. Píratar þurfa að segja í stjórnarsáttmála þegar ný stjórn verðu mynduð í haust (ef það næst að halda XD úti) að nýja stjórnarskráin verði samþykkt fljótlega, svona eftir eitt ár eða svo og síðan verður boðað til nýrra kosninga og skráin síðan samþykkt.

1 Like

Takk fyrir innleggið! Það er einmitt í eitthvað í þessa veru sem við munum leggja til, þ.e. kröfu um að málið verði klárað á kjöstímabilinu og að Píratar fari ekki í ríkisstjórn sem ekki skuldbindur sig til þess. Önnur vafaatriði sem við höfum verið að skoða í því samhengi er hvernig við getum hindrað að minnihluti þingsins stöðvi málið með málþófi. Sömuleiðis það hvað nákvæmlega við eigum við með “nýju stjórnarskránni”, hversu mikið svigrúm Alþingi ætti að hafa til að breyta frumvarpinu eins og það lítur út í dag, og hvaða viðmið ætti að hafa að leiðarljósi í því ferli.

1 Like

Sæl öll!

Við erum búin að leggja lokadrög að kosningastefnu Pírata í stjórnarskrármálum, til að leggja fyrir Pírataþingið núna um helgina. Við vonum að þetta verði góður grundvöllur fyrir umræður og vinnuna þar! :slight_smile: Drögin eru eftirfarandi:

"Píratar krefjast þess að Alþingi innleiði nýja stjórnarskrá á grundvelli tillagna Stjórnlagaráðs á næsta kjörtímabili, líkt og þjóðin kvað á um árið 2012. Alþingi þarf að virða vilja þjóðarinnar og efna loforðið frá lýðveldisstofnun um að íslenska þjóðin fái nýja stjórnarskrá.

Píratar munu ekki taka þátt í ríkisstjórn sem skuldbindur sig ekki í ríkisstjórnarsáttmála til að taka nýja stjórnarskrá til atkvæðagreiðslu á Alþingi á kjörtímabilinu.

Alþingi ber að samþykkja nýja stjórnarskrá á kjörtímabilinu og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu til staðfestingar á henni í kjölfarið, t.d. samhliða þarnæstu alþingiskosningum.

Tillögur Stjórnlagaráðs skulu lagðar til grundvallar allri þessari vinnu, sem og sú vinna sem lögð hefur verið í þær tillögur síðan og birtist m.a. í þeim frumvörpum sem þingmenn Pírata hafa lagt fram á Alþingi undanfarin ár. Sú nýja stjórnarskrá hefur hlotið stuðning þjóðarinnar, var skrifuð á mannamáli af venjulegu og fjölbreyttu fólki í lýðræðislegu og gegnsæju ferli, tekur af ríkjandi vafa um valdmörk og ábyrgð valdhafa, festir nútímaleg mannréttindi í sessi, tryggir náttúruauðlindir í þjóðareign og eflir lýðræði, náttúruvernd og gegnsæja stjórnsýslu án þess að kollvarpa stjórnskipan landsins.

Allur ágreiningur um möguleg frávik frá tillögum Stjórnlagaráðs skal fara fram í víðtæku og opnu samráði við almenning, og eftir atvikum í samráði við fyrrum fulltrúa í Stjórnlagaráði. Tillögur Stjórnlagaráðs eiga að vera útgangspunkturinn og breytingar ættu ekki að ganga gegn markmiðum eða anda þeirra.

Alþingi ætti að taka nýju stjórnarskrána og einstök ákvæði hennar til umræðu á hverju þingi næsta kjörtímabils, til að varpa ljósi á einstök efnisleg ágreiningsatriði og veita öllum á þingi meira en nóg svigrúm til að tjá skoðanir sínar á málinu. Áður en kjörtímabilinu lýkur skal málið síðan klárað og heimild meirihluta þings til að takmarka umræðutíma nýtt í þeim tilgangi ef þess gerist þörf. Þannig tryggja Píratar að Alþingi greiði atkvæði um nýja stjórnarskrá á kjörtímabilinu verði tekin fyrir, óháð öllu málþófi."

5 Likes

Frábær stefna!

Það er ekki ástæða til að blanda eftirfarandi í málið að sinni, en þegar fram í sækir myndi ég leggja til að kosið yrði til stjórnlagaþings t.d. á tíu ára fresti, með svipuðum hætti og gert var síðast, og það skilaði síðan breytingatillögum sem færu beint í þjóðaratkvæði. Rökin eru þau helst að þingið eigi ekki að koma nálægt stjórnarskránni, af því hún fjallar ekki síst um leikreglurnar fyrir þingið.

Það eru líka nokkur atriði í frumvarpi Stjórnlagaráðs sem ég er ósáttur við, en þar sem ekkert okkar verður væntanlega fullkomlega sátt við allt sem er, eða vantar í, stjórnarskrá væri óskynsamlegt að standa gegn þessari nýju, sérstaklega vegna þess að með samþykkt hennar verður auðveldara fyrir almenning að hafa áhrif til breytinga í framtíðinni.

3 Likes

Þetta lýtur afar vel út. Legg til að í stað “Alþingi ætti að taka nýju stjórnarskrána og einstök ákvæði hennar til umræðu á hverju þingi næsta kjörtímabils, til að varpa ljósi á einstök efnisleg ágreiningsatriði og veita öllum á þingi meira en nóg svigrúm til að tjá skoðanir sínar á málinu.”

Verði

"Alþingi geri það að forgangsmáli að klára vinnu við frumvarp að nýrri stjórnarskrá strax á fyrsta þingi næsta kjörtímabils, vinni svo jafnt og þétt að því að fínstilla frumvarpið og greinargerð þess með öllum sem vilja taka þátt, innan þings sem utan. Stefnt verði á að hafa tilbúið frumvarp sem fyrst á kjörtímabilinu svo óvæntir atburðir í stjórnmálum landsins, svo sem stjórnarskipti eða -rof hafi ekki áhrif á framlagningu frumvarpsins. Ákvæði um Stjórnarskrárbreytingar verði forgangsraðað umfram önnur ákvæði.

1 Like

Frumvarpið er á þeim stað eins og er. Það eru bara fínstillingar eftir. Sumar vissulega veigamiklar en samt bara fínstilling.

1 Like

Það eru dáldið mörg “ekki” í stjórnarsáttmálasetningunni. Væri ekki skýrara að segja “Píratar munu aðeins taka þátt í ríkisstjórn sem skuldbindur sig í ríkisstjórnarsáttmála…”?

2 Likes

Sammála, orðalag vissulega en mikilvægar fínessur í nálgun

1 Like

Líst vel á þetta, en er sammála Andrési um of mörg “ekki” og gera bara breytingar á orðalagi

1 Like

Takk! Góð ábending, við ræddum þetta atriði - regluleg Stjórnlagaþing - einmitt og það virtist vera almenningur stuðningur við það meðal félagsfólks, en á endanum hugsuðum við að það færi sennilega betur á því að vinna það sem nýtt, sjálfstætt stefnumál frekar en sem hluta af kosningastefnunni? Það væri held ég bara þjóðráð að boða félagsfund um slíka stefnu við tækifæri!

Þetta eru bara tvö “ekki”… :’(

En jú, persónulega finnst mér vel vera skoðandi að breyta þessu t.d. í það sem þú stingur upp á. Spurning hvort það hljómar eins og jafn skýrt loforð, samt…? Spurning.

1 Like

Ekki það að þetta sé frágangssök en mætti ekki nota:

Píratar munu eingöngu taka þátt í ríkisstjórn sem skuldbindur í ríkisstjórnarsáttmála að taka . . . .

Athugið samt að það þarf að hugsa þetta atriðið algerlega til enda. Velta upp hvort að það sé alger frágangssök að hafa þetta ekki í sáttmálanum og þá þurfum við að vera sátt við að það steytti á því atriði. Það er auðvitað rétt að hafa það þannig (frágangssök) og líklega vænlegt.

Þar sem ég er eldri en tvævetur í pólitík þá geta komið upp aðstæður í stjórnarsáttmála umræðum sem gera það að verkum að við dettum út úr ríkisstjórn ef þetta er absalútt okkar krafa. Ef þetta er inni sem er best, að þá þurfum við að gera okkur fulla grein fyrir hverju við erum hugsanlega að fórna. Það koma fleiri kosningar þó svo að þessi kosningalota taki upp allt kosningaplássið í heila okkar núna.

Mætti segja:

"Samþykkt nýju stjórnarskrárinnar er (eitt?) mikilvægasta verkefni næstu ríkisstjórnar. Alþingi ber að samþykkja nýja stjórnarskrá á kjörtímabilinu og efna. . . . . . . . . og svo framvegis?