Meðvirkni með valdi - baráttan gegn spillingunni

Ég skrifaði stuttan pistil um þessa baráttu, sem hefur verið eitt helsta kosningabaráttumál Pírata að undanförnu. Þessi meðvirkni þingsins er eitthvað sem ég er búinn að rekast á aftur og aftur í fjárlaganefnd. Þetta sést líka í Bragamálinu, akstursmálinu, íslandspóstsmálinu og svo framvegis. Sá hluti kerfisins sem á að sinna eftirliti virðist aldrei vísa málum sem eru upprunin innan úr kerfinu, hvað þá pólitíska hluta þess kerfis, til þar til bærra yfirvalda til rannsóknar og ákæru. Ef málið kemst þangað þá er því svo bara hent út. Þetta er svo víða, eitt af einkennum þessa er að fólk út um allt land þarf að óttast um vinnu sína ef það sýnir sig opinberlega í röngum flokki … allavega, pistillinn:

Ég er að lesa grein(ar) í Stundinni sem ég fékk inn um bréfalúguna í dag. Ég þarf virkilega að rembast við að nota ekki orð sem færu fyrir brjóstið á fólki til þess að lýsa tilfinningum mínum um þessar greinar.

Fyrsta greinin (og ég er bara kominn á bls. 10) er um starfsemi heilsuhælis í Hveragerði, þar sem stjórnformaður er sagður vera með um 1,2 milljónir á mánuði fyrir stjórnarsetu sína, þar sem heilsuhælið býður upp á geðendurhæfningu án þess að vera með starfandi geðlækni og þar sem óvenju há “leiga” er greidd til fasteignafélagsins sem á húsnæðið sem heilsuhælið er rekið í. Mér væri svo sem alveg sama um þetta ef þau væru með sjálfstæðan rekstur en heilsuhælið er með nýjan samning við Sjúkratryggingar Íslands um 875 milljónir af skattfé á ári. Til þess að hafa það algerlega á hreinu, þá fylgir ábyrgð því að fara með almannafé. Sú ábyrgð hvílir á því eftirliti sem þarf að fara fram um hvort við séum að fá það sem við borgum fyrir. Mér finnst þetta augljóslega vera mál sem nefndir þingins (Fjárlaganefnd, Velferðarnefnd og Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd) þurfa að skoða ofan í kjölinn.

Önnur greinin er um það hversu margfalt meiri kostnaður (40x) er af skattsvikum en bótasvikum. Samt eru þingmenn ákveðinna flokka ítrekað að væla yfir bótasvikum og það var ekki fyrr en allt fór í kalda kol í hagspám að fjármálaráðherra drullaðist loksins til þess að setja hert skattaeftirlit á dagskrá. Forgangsröðunin þar er mjög skýr semsagt. Það er áætlað að um 4% af landsframleiðslu en bótasvik væru einungis um 1% af heildarfjárhæð bótagreiðslna.

Þriðja greinin er svo það sem fékk mig til þess að öskra inn í mér. Fyrirsögnin á þessari tiltölulega litlu en stórkostlega alvarlegu frétt er “sýslumaður hélt að sáttameðferð væri undanþegin stjórnsýslulögum”. Já, í alvöru. Af hverju finnst mér þessi frétt svona gríðarlega alvarleg en ekki hinar? Jú, þær eru gríðarlega alvarlegar líka en munurinn er samt að þær fjalla bara um peninga en þessi frétt fjallar um réttindi fólks og hvernig er troðið á þeim. Ég er með þingsályktunartillögu um betri stjórnsýslu í umgengnismálum, þar sem það þarf einmitt að beita sáttameðferðinni, þar sem sáttameðferðin er gríðarlega mikilvægur hluti af því ferli sem var sett upp fyrir nokkrum árum að kanadískri fyrirmynd (minnir mig). Þetta er rosalega viðkvæmt ferli fyrir mjög marga sem þurfa á því að halda sem skiptir rosalega miklu máli fyrir framtíð barnanna sem sáttin fjallar svo um. Það hjálpar ekki að fréttin þar fyrir ofan fjallar einmitt um hvernig sáttameðferðir framlengja oft ofbeldið, að ekki sé tekið nægilega mikið tillit til aðstæðna þar sem mögulega er saga um ofbeldi.

Í greinni segir: “Þar staðfestir ráðuneytið að sýslumaður hafi verið í lögvillu um gildissvið stjórnsýslulaga og lagaramma sáttameðferðar”.

Þarna öskraði ég inni í mér. Ég er nefndilega búinn að fá svo gríðarlega nóg af þessari fjandans meðvirkni með kerfinu. Þetta er ekkert annað en newspeak fyrir að sýslumaður braut lög. Stjórnsýslulög segja: “þú átt að gera svona”. Sýslumaður fór hins vegar ekki eftir því, miðað við úrskurð ráðuneytis, og er í kjölfarið sagður hafa verið í lögvillu. Nákvæm orð: “Sáttameðferð hjá sýslumanni er þjónusta sem kveðið er á um í lögum að sýslumenn skuli veita og er þar af leiðandi liður í lögbundinni meðferð máls samkvæmt barnalögum”.

Ég er ítrekað að lenda í þessari meðvirkni. Ég bað um öll gögn máls vegna framkvæmdar um Vaðlaheiðargöng en fékk örfá skjöl. Það þýðir að annað hvort er verið að ljúga að mér því ég veit alveg hvernig skjalavistun stjórnsýslunnar virkar, ég vann við að setja upp skjalavistunarkerfi fyrir ríkisstofnanir á árum áður, eða þá að það hefur verið sleppt því að vista samskipti og ákvarðanir sem voru teknar. Það er gríðarlega alvarlegt mál. Svipað með skýrslufeluleik fjármálaráðherra um skattaskjólin og núna virðist vera það sama í gangi vegna Íslandspósts. Það er alltaf sagt eitthvað svona eins og “lögvilla” eða álíka. Spurningin er aldrei hvort málið sé ekki það alvarlegt að það þurfi aðkomu rannsóknar og ákæruvalds.

Nú þarf eftirlit þingsins að hysja upp um sig buxurnar og hætta þessari fjárans meðvirkni sem er búin að vera með kerfinu frá því alltaf. Stór hluti laganna okkar fjallar um ábyrgð. En þegar þeim hluta er aldrei beitt nema gegn almennum borgurum landsins, þá verður maður að spyrja sig fyrir hvern lögin eru. Þá verður maður að spyrja sig um ástæður vantrausts á stjórnmálum. Er það af því að það gerist aldrei neitt fyrir þá sem taka sér vald?

Ég náði ekki alveg að halda aftur af þeirri orðanotkun sem ég var að rembast við að sleppa. Ég vil helst ekkert þurfa að ritskoða mig svona því mér finnst þessi orð lýsa tilfinningum mínum. Ég er ekki rithöfundur sem vísar í einhver ljóð og tilvitnanir til þess að útskýra hvernig mér líður. Mér finnst bara best að segja hvernig mér líður. Mér tókst það ekki alveg í þessari grein þar sem ég myndi vilja nota fleiri blótsyrði.

6 Likes

Greinilegt að ég get hlakkað til yfir helgina, stundin er ekki komin í minn póstkassa :slight_smile: Takk fyrir að setja þetta líka inn hér. Væri óskandi að þingmenn og aðrir fulltrúar pírata setji svona á annan vetfang en fb, það týnist svo margt þar.

2 Likes