Nú er lag að hlusta á nemendurna og taka tillit til þeirra. Hér eru drög að ályktun sem Píratar geta rætt um:
Ályktun um áherslur í menntamálum
Píratar styðja að áherslum í menntun barna og unglinga verði breytt nokkuð, þannig að í skólanámsskrám allra skólastiga verði lögð aukin áhersla að draga kennsluefnið fram í nútímann. Þannig vantar í menntakerfið kennslu á:
- Kynfræðslu, hinseginfræðslu og hinseginkynfræðslu
- Heilbrigðismál, þ.m.t. fatlanir, geðsjúkdóma, ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi og forvarnir
- Andleg veikindi og verkfæri sem nemendur geta notað til að vinna bug á þeim, þ.m.t. áhrif streytu, hugrænar atferlismeðferðir, ræktun andlegrar heilsu og slökun
- Heimsmálin, þ.m.t. fátækt, kúgun, þrælkun, loftslagsbreytingar og umhverfismál
- Fjármálalæsi, forritun og tölvunarfræði
- Mannréttindi og fræðsla um atvinnumarkaðinn
- Upplýsingalæsi í flóknum heimi frétta- og samfélagsmiðla
- Önnur málefni samtímans sem undirbúa skólakrakka fyrir samtímann og framtíðina.
Þessar kennsluáherslur eiga að rýmast innan núverandi skólakerfis og virkja þarf nemendur til að hafa áhrif á áherslur í kennslu og námsskrár í framtíðinni. Hugsanlega þarf að endurmennta kennara og skólastjórnendur til að geta fullnýtt markmið aðalnámsskráa og skólanámsskráa ásamt því að koma á áherslum nemenda varðandi gæði og innihald menntunar.
Greinargerð:
Með þessari ályktun vilja Píratar styðja við hugmyndir skólakrakka úr 10. bekk Víðistaðaskóla sem þau söfnuðu saman og eru að safna undirskriftum fyrir á change.org/menntakerfidokkar.com.
Píratar vilja stórauka aðkomu og samráð við nemendur, og vilja að menntakerfið haldi áfram í þróun í takt við tímann. Áherslur munu stöðugt breytast, og það þarf að vera skýrt ferli sem nemendur geta notað til þess að kalla eftir aðlögun og breytingum. Með því tryggjum við velferð nemenda og ungs fólks, og aukum áhuga og gagn þeirra af námi.