Neytendamál-stefna

Ég tel að við ættum að setja okkur neytendastefnu. Í grunninn tel ég Pírata hafa sprottið upp úr neytendamáli, þ.e.a.s. allt sem varðar friðhelgi einkalífs á netinu, réttinum til að deila upplýsingum sem við höfum aðgang að, og frjálsan hugbúnað.

Mögulega skarast þetta við vangaveltur sem aðrir eru með, t.d. @indridistefans, sem hefur réttilega bent á að við ættum að auðvelda almenningi að sækja réttar síns í réttarkerfinu, sem í augnablikinu er frekar dýrt og þar með óaðgengilegt fyrir fjölda fólks.

Það sem ég tel að neytendastefna Pírata ætti að innihalda:

Áherslu á friðhelgi einkalífs, sér í lagi á stafrænum vettvangi. Hvorki ríkisstjórnir né fyrirtæki eiga að stunda persónunjósnir.

Auðvelda efnaminni einstaklingum að stofna til hópmálsókna gegn stærri fyrirtækjum. Fyrirtæki komast upp með að svindla á fólki oft í krafti þess að málsóknin er dýrari en varan kostaði, hins vegar snýst dæmið við um leið og fjöldi fólks á auðvelt með að koma saman með kröfu. Þetta er hægt í dag, en ekki eins auðvelt og víða annars staðar.

Að fólk eigi að þekkja uppruna matvæla, því meiri upplýsingar því betra, ekki bara upprunaland, heldur jafnvel upprunastaður innanlands.

Það eru nokkur stef úr öðrum stefnum sem mér finnst þess virði að neytendastefna innihaldi líka. T.d. eru eflaust punktar úr landbúnaðar og umhverfisstefnu sem mætti endurtaka, en bara meira neytendamiðað, t.d. réttur á hreinu vatni, ómenguðum vörum út frá því að það skaði ekki umhverfið heldur manneskjur.

Hvað finnst ykkur? Ég er augljóslega svolítið litaður af því að hafa verið í stjórn neytendasamtakanna núna í tvö ár og vera orðinn ritari þeirra. En að vera þar inni hefur sýnt mér að við erum frekar aftarlega á merinni miðað við norðurlönd, neytandinn og sér í lagi leigjendur eiga mjög undir högg að sækja ef einhver brýtur á þeim.

4 Likes

Þetta gæti vel rúmast innan stefnuvinnunar sem mig langar að fara í og fá sem flesta með. Mig grunar að mörg fyrirtæki taki oft bara sénsinnn í þessum málum og það er að miklu leiti án afleiðinga.

1 Like