Nýjar (og óþarfar) aðgerðir vegna Covid á gráu svæði gagnvart stjórnarskrá

Á dagskrá þingfundar í dag er frumvarp um loftferðir, sem er á verulega varasömum stað gagnvart stjórnarskrá. Sem áheyrnarfulltrúi Pírata í umhverfis- og samgöngunefnd styð ég minnihlutaálit Viðreisnar og Samfylkingar um að fella brott ákvæði sem við teljum geta stangast á við 66. gr. stjórnarskrárinnar.

Í frumvarpinu er lagt til að við lög um loftferðir bætist bráðabirgðaákvæði sem heimili ráðherra að setja reglugerð sem skyldar flugrekendur m.a. til að synja farþega um flutning til landsins ef hann framvísar ekki einu af þrennu:

  • vottorði um ónæmisaðgerð gegn COVID-19,
  • vottorði um að sýking sé afstaðin, eða
  • vottorði eða staðfestingu á neikvæðri niðurstöðu prófs gegn COVID-19.

Flugfélögum væri í dag alveg heimilt að neita að flytja farþega sem ekki geta framvísað svona vottorðum, gætu þar vísað í flugöryggissjónarmið, en með því að ríkið skyldi þau til þess kemur stjórnarskráin til skjalanna, þar sem segir í 66. gr.: „Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi.“

Stjórnarmeirihlutinn afgreiðir þetta álitamáli með þessari klausu: „Fyrir nefndinni hafa komið fram ólík sjónarmið um framangreint álitaefni. Ekki er fyrir að fara fordæmi í dómaframkvæmd um hvernig túlka beri ákvæðið í því ljósi sem hér er til skoðunar.“ Þetta þýðir á mannamáli að stjórnarliðar viðurkenna að þetta geti mögulega flokkast sem stjórnarskrárbrot, en vilja bara að fólk láti reyna á það fyrir dómstólum ef það er ósátt. Ég vil hins vegar túlka slíkan vafa almenningi í vil.

Frumvarpið var lagt fram um miðjan mars og síðan þá hefur margt breyst í sóttvarnamálum, eins og t.d. miklu skýrari heimildir til að skylda fólk í sóttkví. Nauðsyn á þessari lagasetningu er því tæpast fyrir hendi, hvað þá að taka sénsinn á að brjóta stjórnarskrárvarin réttindi í leiðinni.

4 Likes

Eru fordæmi fyrir því að augljós brot á stjórnarskrá hafi hindrað lagasetningu hér á landi?

góður punktur :slight_smile:

en ég held að svarið sé: nei, því miður :woman_shrugging:

Í rauninni er ákveðið dæmi um þetta í sama frumvarpi. Heimkomubannið sem við erum á móti, það er í b-lið málsins. Síðan er í c-liðnum kveðið á um skyldu flugfélags til að endursenda farþega geti hann ekki framvísað tilskildu vottorði á Keflavíkurvelli. Meirihlutinn leggur til að fella út c-liðinn um endursendingarnar - án þess reyndar að segja í nefnarálitinu að ástæðan sé 66. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir: „Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi.“ En auðvitað er það stóra ástæðan, nákvæmlega sama stjórnarskrárákvæði og sömu rök og ættu að gilda um b-liðinn um heimkomubann.

Úr meirihlutaálitinu:

Ljóst er af orðalagi ákvæðisins að heimildin nær einungis til þess að vísa úr landi útlendingi sem ekki er búsettur hér á landi. Því er óheimilt að vísa úr landi íslenskum ríkisborgurum sem og einstaklingum með dvalarleyfi hér á landi samkvæmt ákvæðinu. Er ákvæðið því í fullu samræmi við 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar um að íslenskum ríkisborgara verði ekki vísað úr landi.

Þetta er aðeins annað en „án þess […] að segja […] að [stjórnarskrárbrot]“ sé ástæðan. Ég er ekki að taka afstöðu til þess hvort þetta sé rétt; aðeins að benda á að rökin sem gefin eru upp eru önnur.

Ef við hinsvegar gefum okkur að þessi hluti álitsins sé óheiðarlegur, þá er annar munur á þessum ákvæðum sem gæti leitt til ólíkrar niðurstöðu gagnvart stjórnarskrárákvæðinu: c-liðurinn fjallar um brottflutning einstaklings sem er kominn til landsins, en b-liðurinn um möguleika einstaklings til að nota tiltekna leið til að koma sér til landsins. Það er því auðveldara að færa bullrök fyrir því að b-liðurinn sé ekki stjórnarskrárbrot: Aðrar leiðir til að koma til landsins gætu verið færar, og íslenskir ríkisborgarar eiga að geta leitað til utanríkisþjónustunnar í neyðartilvikum. (Það er hættulegt að vísa til raunveruleikans í þessu. Íslenskir dómstólar hafa margsinnis sýnt fram á hann kemur niðurstöðunni aðeins við af tilviljun.)

Hvað sem því öllu líður, þá stendur ein spurning upp úr hjá mér. Er nokkur tilgangur með setningu laganna, ef flugfélagi er skylt að flytja (einhverja) farþega sem ekki uppfylla ákvæði a-liðar?

Já, það er rétt að það er munur á b-lið og c-lið, nefndi hliðstæðuna bara svona sem mögulegt dæmi um möguleg stjórnarskrárbrot að hindra lagasetningu.

Flugfélagi verður ekki skylt að flytja (einhverja) farþega þó að íslenskir ríkisborgarar verði undanþegnir b-liðnum. Flugfélög geta sjálf sett sér reglur um að taka ekki við farþegum sem uppfylla ekki a-liðinn, alveg eins og þau geta neitað að flytja fólk sem er blindfullt á grundvelli flugöryggis. Það horfir hins vegar öðruvísi við stjórnarskránni þegar ríkið skyldar flugfélög til að loka á farþega með íslenskt ríkisfang.

Þannig að þú vilt að flugfélögin setji sér þessar reglur, sem hefur nákvæmlega sömu praktísku áhrif, m.a. á getu íslendinga í krappri stöðu erlendis til að komast til landsins? Í hverju felst þá munurinn? Mögulegri skaðabótaskyldu ríkisins?