Hæhæ!
Eftir að hafa séð breytingartillögurnar sem liggja fyrir fundi morgundagsins - og eru nota bene mjög áhugaverðar og stórar - þá ákvað ég að setja saman annars konar tillögu um "formanns"embætti innan Pírata.
Tillagan er ekki beint hugsuð “gegn” þeirri tillögu sem var send á félagatalið - en er þó innblásin af ákveðnum efasemdum um hana, og hugsuð sem tillaga að því sem vonandi getur talist ákveðin málamiðlun. Vonandi getur hún ásamt hinni tillögunni orðið til góðrar og gagnlegrar umræðu um þessi mál á fundinum á morgun! Tillagan er eftirfarandi:
Tillaga um breytt hlutverk formanns félags Pírata
- Gr.
Grein 14.6. fjalli brott í núverandi mynd og í stað hennar komi ný grein í tveimur liðum:
14.6.
a) Við upphaf hvers þings skal þingflokkur Pírata velja úr sínum röðum þingmann til að gegna hlutverki talsmanns þingflokksins gagnvart öðrum stjórnmálaflokkum. Á hverju kjörtímabili getur hver þingmaður aðeins gegnt þessu hlutverki í tvö ár að hámarki. Umræddur talsmaður skal teljast formaður félags Pírata gagnvart Alþingi, sé flokkurinn í minnihluta á þingi.
b) Þrátt fyrir ákvæði a-liðar er heimilt að bera upp tillögu á aðalfundi eða auka-aðalfundi um kosningu nýs talsmanns þingflokks Pírata, sem fram fari í rafrænni atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna Pírata, ef tillaga kemur um það frá fimmtíu félagsmönnum a.m.k. 30 dögum fyrir aðalfund.
- Gr.
Við bætist ný grein:
14.8.
a) Þrátt fyrir ákvæði greinar 14.6 skulu allir kjörnir þingmenn Pírata sem gegndu 1. sæti á framboðslista Pírata í síðastliðnum kosningum hverju sinni fara saman með umboð til að semja um myndun ríkisstjórnar við aðra stjórnmálaflokka, ásamt talsmanni þingflokks Pírata. Hefur þessi hópur sömuleiðis umboð til að velja úr sínum hópi færri einstaklinga til að koma fram fyrir þeirra hönd í samningaviðræðum við aðra flokka um myndun ríkisstjórna. Komi upp ágreiningur þeirra á milli um myndun ríkisstjórnar skal ½ hluta þeirra heimilt að skjóta þeim ágreiningi til sérstakrar rafrænnar atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna Pírata, sem standa skal yfir í 48 tíma.
b) Ríkisstjórnarsáttmála skal samþykkja í sérstakri rafrænni atkvæðagreiðslu sem stendur yfir í 48 tíma. Tillögu um slit á ríkisstjórnarsáttmála má bera upp á aðalfundi eða auka-aðalfundi ef tillaga kemur um það frá fimmtíu félagsmönnum a.m.k. 3 vikum fyrir aðalfund. Tillagan telst samþykkt ef ⅔ hlutar greiða henni atkvæði.
Greinargerð
Með þessari tillögu er fallist á þær röksemdir gegn núverandi fyrirkomulagi sem lagðar eru fram í greinargerð með tillögu um formann, varaformann og forsætisnefnd innan Pírata. Núverandi fyrirkomulag býður upp á það að formaður þingflokks hafi of mikið vald í samskiptum við aðra flokka innan þings, án þess að hafa til þess umboð eða sæta formlegri ábyrgð gagnvart flokknum. Þar að auki virðist hætt við því að einstaka þingmenn taki til sín málsvarsvald fyrir flokkinn umfram aðra þingmann án þess að til séu ferlar til að veita sérstakt umboð til þess, eða tryggja ábyrgð í því hlutverki. Meðfylgjandi tillaga er lögð fram í þeim tilgangi að bregðast við þessum ókostum núverandi ástands, án þess að ganga jafnlangt og tillaga um formann, varaformann og forsætisnefnd gerir.
Umrædd tillaga um formann, varaformann og forsætisnefnd gerir ráð fyrir að stofna þrjú ný embætti innan flokksins, að nafninu til í þeim eina tilgangi að hafa forsvar gagnvart öðrum stjórnmálaflokkum (þá fyrst og fremst á formannafundum á Alþingi) og semja um mögulega ríkisstjórnarmyndun. Að mínu mati er í fyrsta lagi einkennilegt að stofna tvö föst embætti innan flokksins – einstaklingskjörin á flokksvísu – sem hafi það eina hlutverk að semja um mögulega ríkisstjórnarmyndun í þeim undantekningartilvikum þar sem það á við (auk þess að varaformaður sé formaður til vara). Á blaði lítur út fyrir að forsætisnefnd myndi aðeins starfa einu sinni á fjögurra ára fresti eða svo – en í reynd er líklegt að embætti formanns, varaformanns og ritara sem kosið er sérstakri einstaklingskosningu á aðalfundum félagsins, muni hafa mun meiri áhrif innan flokksins en ofangreint lögbundið hlutverk gefur til kenna. Með öðrum orðum má leiða líkur að því að þetta fyrirkomulag muni leiða til þess að uppbygging, hlutverkaskipting, valdahlutföll innan flokks og ásýnd gagnvart fjölmiðlum og kjósendum verði smám saman sú að formaður og varaformaður Pírata séu sambærileg þessum embættum innan annarra stjórnmálaflokka – jafnvel þó svo aðrir titlar verði valdir og þó svo aðeins séu takmörkuð hlutverk tilgreind í tillögðum lagagreinum (í því samhengi er rétt að halda því til haga að hlutverk þessara einstaklinga/embætta er ekki sérstaklega takmarkað við tilgreind hlutverk í greinunum sem lagðar eru til). Loks er rétt að benda á að líklegt er að samkeppni verði um þessi embætti og ef til þess kemur að ákveðnir hópar (eða „fylkingar“) innan Pírata keppist um forystu flokksins, þá gæti hópur með 51% atkvæða á bak við sig hlotið öll þrjú embættin í sinn hlut og hópur með 49% atkvæða á bak við sig ekkert, vegna þess að lagt er til að kosið verði sérstaklega í hvert og eitt hlutverk á einstaklingsgrundvelli.
Að því sögðu er að sjálfsögðu hægt að aðhyllast þá hugmynd að Píratar taki upp tiltölulega hefðbundið formannsembætti og fyrir því eru ýmis gild rök; að formfesta þurfi óformlegt forystuvald, að viðkomandi geti tekið að sér ábyrgð og frumkvæði á ákveðnum verkefnum og samskiptum umfram aðra þingmenn og/eða að gott sé að hafa eina tiltekna manneskju í því opinbera hlutverki að tala máli flokksins og stefnu hans í heild. Sé tilgangurinn hins vegar aðeins sá að bregðast við þeim vandamálum sem bent er á í greinargerð með tillögu um formann, varaformann og forsætisnefnd, má hins vegar ímynda sér að hægt sé að innleiða breytingar sem ganga skemur en sú tillaga. Meðfylgjandi tillaga er viðleitni í þá veru og lögð fram sem annar valkostur til umræðu og hugsanlegrar atkvæðagreiðslu samhliða þeirri tillögu.
Með þeirri tillögu sem hér er lögð fram er gert ráð fyrir því að þingflokkur Pírata velji sérstaklega talsmann þingflokksins úr sínum röðum og að brott falli ákvæði núverandi greinar 14.6. um að formaður félags Pírata gagnvart Alþingi sé slembivalinn úr þeirra hópi og hafi engin pólitísk völd. Með því er gert ráð fyrir að umræddur talsmaður hafi formlegt umboð þingflokksins til að gegna því hlutverki sem formenn annarra stjórnmálaflokka gera á fundum formanna stjórnmálaflokka, og sæti ábyrgð gagnvart þingflokki (og gagnvart flokksmönnum og öðrum kjósendum í prófkjöri og kosningum) í samræmi við það umboð. Jafnframt er gert ráð fyrir því að enginn þingmaður geti gegnt þessu embætti lengur en í tvö ár á hverju kjörtímabili, svo að ákveðinn stöðugleiki geti verið um þetta hlutverk en að reglubundin velta sé jafnframt tryggð. Til þess að styrkja ábyrgð talsmanns þingflokks Pírata umfram þá ábyrgð sem vænta má að kjörinn þingmaður flokksins gegni gagnvart félagsmönnum er sérstaklega bætt við ákvæði í b-lið, þar sem félagsmönnum er gert kleift að krefjast kosningar nýs talsmanns Pírata, með sömu skilyrðum og sett eru í tillögu um formann, varaformann og forsætisnefnd að nýrri grein 10.a.7.
Jafnframt er lagt til hér að ný grein bætist við lög Pírata, nr. 14.8., sem festi í sessi fyrirkomulag um umboð til ríkisstjórnarmyndunar af hálfu Pírata. Með því er gert ráð fyrir að þeir oddvitar Pírata (1. sæti á sínum framboðslista) sem náðu kjöri í síðastliðnum þingkosningum fari saman með þetta umboð, ásamt talsmanni þingflokks Pírata (ef viðkomandi kemur ekki úr þeirra hópi). Gert er ráð fyrir að þessi hópur hafi umboð til þess að taka ákvarðanir um ríkisstjórnarmyndun og tilnefna tiltekna fulltrúa er sínum hópi til samningaviðræðna við aðra flokka um myndun ríkisstjórnar, svo að ekki sé nauðsynlegt að allt að sjö þingmenn taki beinan þátt í slíkum samningaviðræðum.