Óvenjuleg staða til umræðu: Er í þann mund að selja Alþingi hugbúnað

Eins og sum ykkar vita kannski hef ég verið að skrifa hugbúnað til að aðstoða mig, aðra þingmenn og starfsfólk þeirra við þingstörfin. Ég byrjaði á honum á þarseinasta kjörtímabili (2013-2016) og seldi nokkrum þingmönnum aðgang að honum á milliþingsárinu mínu 2016-2017 í gegnum fyrirtækið mitt, sem þá hét Fossbúinn. Ég var í þann mund að hefja að auglýsa hann fyrir öðrum þingmönnum og hefja stórsókn í aðgangssölu að honum þegar kosningar skullu á 2017, og ég bauð mig fram og fór aftur inn á þing. Síðan þá hef ég ekki rukkað fyrir aðgang að honum en hef ekki verið að auglýsa hann sérstaklega heldur. Hinsvegar hafði ég alltaf hug á að byrja aftur að selja aðgang að honum eða að selja Alþingi hann þegar ég lyki þingstörfum.

Svo gerðist það, að Alþingi ákvað að fara í allnokkra hugbúnaðarþróun til að auðvelda þingmönnum og starfsfólki Alþingis lífið, með því að m.a. búa til svokallaða Þingmannagátt. Sumt af þeim vandamálum sem henni er ætlað að leysa er þegar í hugbúnaðnum mínum. Sér í lagi er hugbúnaðurinn minn búinn að þróast út frá raunverulegum þörfum þingmanns sem þekkir þingstarfið út og inn og er því allmikil greiningarvinna til staðar í honum sem annars þyrfti að byrja frá grunni. Það er mat Alþingis að með því að eignast hugbúnaðinn og hafa réttinn til að nýta hann eins og því sýnist sé hægt að spara umtalsverðan upphafskostnað við þróun Þingmannagáttar, hvort sem kóðinn verður nýttur beint eða hugmyndirnar (greiningarvinnan) í honum.

Þannig fór að Alþingi bauðst til að kaupa þennan hugbúnað af mér fyrir 4 milljónir + VSK og ég hyggst taka tilboðinu. Það felur í sér að Alþingi eignast allan kóðann, fær a.m.k. 30 klukkustundir af tíma mínum til aðstoðar við að nýta hann, og ég skuldbind mig til að fara ekki í samkeppni við Þingmannagáttina í a.m.k. eitt ár eftir að ég lýk þingstörfum. Kóðinn verður gefinn út undir opnu leyfi (GPL, AGPL, MIT eða sambærilegu) og var það bæði krafa mín og Alþingis, þannig að hann verður öllum aðgengilegur. Síðan verður farið í útboð fyrir Þingmannagáttina og munu þeir aðilar sem sigra útboðið geta nýtt hugbúnaðinn, ýmist til greiningar eða kóðann sjálfan - Alþingi mun einfaldlega eiga hann og mega því nota hann á þann hátt sem því þykir heppilegast. Þá mun ég aðstoða þann aðila við að nýta ýmist hugmyndirnar eða kóðann eftir þörfum. Reyndar er mér mikið í mun að hugbúnaðurinn nýtist sem allra best og mun því aðstoða að öllu því leyti sem ég yfirhöfuð get.

Það er frekar óvenjuleg staða, að sitjandi þingmaður selji Alþingi hugbúnað, þannig að mér fannst rétt að hafa þetta upp á borðum fyrirfram, áður en skrifað er undir. Alþingi hefur fengið óháðan ytri aðila til að aðstoða sig sín megin, og ég bað um að fá ekki borgað fyrr en setu minni á Alþingi er lokið. Þannig fæ ég ekki borgað fyrr en ég lýk þingstörfum, þ.e. eftir næstu kosningar sem eru fyrirhugaðar 25. september 2021 en eignarhald yfir hugbúnaðinum verður afhent við undirritun samnings.

Ef þið viljið eitthvað ræða þetta er ég boðinn og búinn til þess, hvort sem er við einn í einu, í símtali, hér eða á fundi sem ég get boðað ef áhugi er fyrir því. Umfram allt eru bæði ég og tilheyrandi starfsfólk Alþingis sammála um að hafa þetta allt upp á borðum. Ef það eru athugasemdir eða spurningar er sjálfsagt að bregðast við þeim.

7 Likes

Helgi.

Ég sendi þér einu sinni póst á Facebook fyrir nokkrum árum, þegar ég átti Facebook, og þakkaði þér fyrir að vera eins og þú ert. Þú, mest þú en í nafni Pírata, fékkst mig til að fá áhuga á pólitík, áhuga sem ég hafði ekki áður því ég taldi það að lýðræði væri ekki lýðræði því pólitík væri of mikil pólitík. Hvernig þú komst fram á sjónarsviðið sem andhverfa alls þess sem ég alltaf taldi vera pólitík lét mig trúa því að heiðarlegir menn gætu alveg verið á þingi, þótt sjaldgæfir væru, og væru í raun og veru að vinna fyrir alþjóð að heilum hug.

Þegar þú fórst og talaðir við mótmælendur fyrir utan Alþingi, bara til að tala við þá og segja þeim hver staðan væri (man ekki hvaða ár það var en það hafi verið eitthvað með andstöðu við útlendina). Enginn annar þingmaður hefur gert neitt slíkt svo ég viti (er “bara” 30 ára). En ég man eftir að nokkrir hafa horft út um glugga þingsins eða skyldra bygginga og glott af fávisku almennings sem er að mótmæla hrottaskap og veruleikafyrringu þeirra sjálfra.
Jú svo náttúrulega eitthvað fjölmiðlafokk sem enginn skítugur almenningur fékk að vera viðstaddur svo það var í raun auðvelt fyrir þá pólitíkusa að segja hvað sem var, ekki voga fjölmiðlar sér að rugga bátnum neitt að ráði og spyrja alvöru spurninga.
Ég sendi þér líka póst á Facebook um hversu mikið ég sæi eftir þér af þingi þegar þú hættir síðast á þingi. Ég passaði mig samt á því að senda þér það ekki fyrr en það var orðið of seint fyrir þig að hætta við svo ég væri ekki að setja neina pressu á þig (eins og þér væri ekki skít sama samt haha). Ég meinti þetta allt saman.
Svo sá ég í eitt skipti í kvöldfrettatíma fyrir nokkrum árum þig tala um nákvæmlega það sem ég sjálfur hafi skrifað um á (ó)Pírataspjallinu litlu áður, varðandi ómögulegra aðstæðna fólks að eignast sitt eigið húsnæði. Þá sá ég það að ég sjálfur, að einhver ómerkilegur nobody utan af landi, gæti fengið sínum orðum talað á Alþingi Íslendinga án þess í raun að sækjast eftir því sérstaklega. Þetta gladdi mig mjög og styrkti trú mína í því að píratar og Alþingi skiptir í alvörunni máli, að almenningur getur í alvöru haft einhver áhrif, að Píratar er í alvörunni grasrótarflokkur.
Ég hef staðið fastur í þeirri trú á mikilvægi Pírata vegna þessa og þess sem áður er talið. Þú persónulega hefur skipt sköpum í því hjá mér.
Í hreinskilni var ég dapur þegar fjölmiðlar tilkynntu um að þú og Smári ætluð ekki að bjóða ykkur fram næst. Ég skil samt alveg af hverju.
Þú sjálfur hefur sagt að völd eru viðbjóður. Og ég er sammála, þau eru það og vilja bara viðhalda sjálfu sér næstum sama hvað það kostar.
Ég tel samt, og hef talið það í mörg ár, að þeir sem lýta svona á völdin og kannski vilja helst ekkert hafa þau. Eru nákvæmlega það fólk og er lang best í því að bera þau og valda þeim, þá koma mestu samfélagslegu umbætur fyrir alla hina sem hafa nákvæmlega eigin völd eða von um það einhverntíman, skítugan almenning.

Þessi póstur þinn núna er ekkert annað fyrir mér en bara staðfesting á þeim hugmyndum sem ég hafði myndað mér um þig.
Og núna er það ekki of seint eins og síðast að biðja þig:
Getur þú, Helgi, vinsamlegast orðið örlítill hræsnari og svikið þau orð þín þegar þú sagðist ekki ætla að bjóða þig fram aftur? Fyrir lýðræðið, fyrir okkur. Þú ert nákvæmlega manneskjan sem ættir að vera á þingi í langan tíma. Þú munt aldrei misbjóða neinum þeim sem er tilbúinn í að kynna sér málavexti hverju sinni. Þú ert nauðsynlegur fyrir lýðræðið. Þú værir heldur alls ekki fyrsti þingmaðurinn til að ganga á bak orða þinna og heldur ekki sá síðasti. Endilega fáðu Smára með þér með í hræsnina, þið eruð nauðsynlegir fyrir flokkinn, fyrir þingi, fyrir lýðræðið, fyrir Ísland.

Launin eru nú líka alveg þokkalega ágæt :stuck_out_tongue_closed_eyes:

En ef bara alls ekki og engin möguleiki á því nú né síðar. Þá bara þakka ég ykkur fyrir vel unnin störf í þágu lands og þjóðar og segi að þín/ykkar mun vera sárt saknað af þessum stað sem skapar samfélag okkar allra.

2 Likes

Þetta er vissulega óvenjulegt og þá mjög eðlilegt að þetta komi fram með svona skýrum hætti svo það sé hægt að ræða það og alla vinkla á því. Jákvæða hliðin á þessu er að þetta sýnir vel sterku hliðar Pírata, praktíska þekkingu sem Alþingi sér verðmæti í jafnvel þó að sumir andstæðingar Pírata á þinginu reyni stöðugt að gera sem minnst úr henni.

2 Likes

Má ég vera erfiður og spyrja … í hverju er þetta skrifað?

Einnig, ef meginviðmótið er í gegnum vafra myndi ég mæla eindregið með því að nota AGPL, ef þörf krefur með undanþágum fyrir einhver undirliggjandi libraries. Það er merkilega auðvelt, ef viljinn er fyrir hendi, að fara fram hjá því að gera kóðann aðgengilegan ef þess er ekki beint krafist. Ég veit að sá vilji er ekki til staðar hjá þér, en ég er ekki viss um að treysta Alþingi eða flestum íslenskum hugbúnaðarfyrirtækjum. :wink:

1 Like

Þetta er bara besta mál. Óvenjulegt en algjörlega eitthvað sem meikar sens.

1 Like

Nei, ég hyggst ekki bjóða mig fram aftur í þetta sinn, en þakka þér kærlega hlýju orðin. Það vermir mér um hjartarætur að rækta einhverjum trú á að stjórnmálamenn geti verið heiðarlegir, þó það væri ekki nema til að fá þá heiðarlegt fólk til að bjóða sig fram!

1 Like

Aldrei hélt ég að ég myndi biðja þig um þetta, en… endilega vertu erfiður. Samt bara núna.

Þetta er skrifað í Python 3.x (Django 2.x) og er með vefviðmóti sem er í Bootstrap 3.3.7.

Það er alveg 100% að þetta verði open-source. Það var bæði upphafskrafa mín og upphafskrafa Alþingis, er skilgreint í samningnum og eru AGPL, GPL og MIT eru nefnd sem dæmi í samningstextanum sjálfum. Þá er einnig tilgreint að það verði hýst á GitHub eða í sambærilegu umhverfi.

Krafan um að þetta verði open-source hefur ekki síður verið Alþingis-megin heldur en hjá mér og í upphafi samtalsins var reyndar imprað nokkuð á því af þeirra hálfu. Það er því enginn vafi á þessu, og er þetta í samræmi við stefnuna sem Alþingi hefur tekið í sambandi við kaup á sérsniðnum hugbúnaði og útboðum upp á síðkastið. Ég hef sjálfur lagt til AGPL og býst frekar mikið við því að það verði fyrir valinu, en í öllu falli er beinlínis samningsbundið að bæði hugbúnaðurinn minn, sem og varan sem kemur úr honum (Þingmannagáttin) verði gefin út undir opnu leyfi (e. open source software license). Það er því ekki bara kóðinn minn sem verður opinn, heldur líka Þingmannagáttin sjálf - jafnvel ef Alþingi kýs að endurgera allt sem er í forritinu mínu.

2 Likes

Þetta er óvenjulegt en ég get ekki séð neina hagsmunaárekstra, sérstaklega þar sem Píratar eru langt frá því að vera með meirihluta á Alþingi og eru ekki í ríkisstjórn heldur. Þó svo að ég viti ekkert um hugbúnaðinn þá geri ég ráð fyrir því að þetta sé lausn á vandamáli sem ekkert annað hugbúnaðarfyrirtæki hefur leyst til þessa. Þar af leiðandi er ekki óeðlilegt að það sé keypt í stað þess að bíða í einhvern langan tíma eftir lausn frá óháðum aðila sem hefur ekki þá reynslu af starfinu og þú hefur og þyrfti þess vegna mun meiri leiðsögn frá Alþingi sem út af fyrir sig myndi kosta sitt. Í máli eins og þessu þá reyni ég að hugsa hvernig ég myndi bregðast við ef einhver Sjálfstæðismaður væri að gera slíkt hið sama. Ég get reyndar ekki ímyndað mér að Sjálfstæðismaður myndi hafa fyrir því að tilkynna svona hluti sérstaklega til sinna flokksmanna né annarra.