Mér finnst stundum gaman að fylgjast með umræðum á Pírataspjallinu, en ég hef satt að segja stundað það mjög lítið undanfarna mánuði, jafnvel 2-3 ár (man það ekki alveg), svo ég skal ekki segja til um hvert ástandið á spjallinu er núna.
Mér finnst það dálítið óheppilegt hve algengur sá misskilningur er, að þær umræður sem fram fara á Pírataspjallinu séu á einhvern hátt einkennandi fyrir Pírata sem stjórnmálahreyfingu. Það þarf sífellt að vera að benda lesendum þess á, að fjölmargir meðlimir þess séu ekki píratar, svo þeir fari nú ekki að dæma Pírata af orðum einhverra handahófskenndra fésbókarnotenda.
Það út af fyrir sig finnst mér nú eiginlega næg ástæða til að aftengja Pírataspjallið frá flokknum með táknrænum hætti, með því að breyta nafni þess. Ég held að ef það væri einfaldlega kallað Spjallið, eða eitthvað annað jafn ótengt flokknum, þá væri stór hluti vandans leystur. Þau sem vilja halda áfram að ræða málin þar inni geta gert það. Þeir kjörnir fulltrúar sem kæra sig um að sitja þar fyrir svörum geta áfram gert það, þegar þeim hentar. Það er síðan spurning að hversu miklu leyti Píratar taki að sér að stýra “Spjallinu”. Moderators þyrftu ekkert endilega að tengjast flokknum, né reglurnar að vera á ábyrgð flokksins. Umfram það mætti auðvitað líka hreinlega leggja það niður, ef ástæða þykir til.
En í millitíðinni mætti nýta þann vettvang til að vekja meiri athygli á þessum hérna, og laða að fleiri meðlimi til þátttöku í umræðum hér, með því að pósta regluluega inn á fésbókarhópinn hlekkjum á umræður hér inni. Því það væri óneitanlega kostur að fjölga þátttakendum hér, ekki satt? Mér hefur skilist að það sem háir þessu spjalli mest sé hve fámennt það er. Með auknum fjölda myndi auðvitað aukast þörf fyrir ritstjórn, en trúlega yrði sú þörf seint jafnmikil og á fésbókarhópnum, sérstaklega ef þátttaka í þessu spjalli er takmörkuð við flokksmeðlimi.
Ég velti því upp rétt fyrir áramót (inni á Pírataspjallinu) hvort hægt væri að gera þetta sjálfvirkt. Helgi Hrafn tók vel í þá hugmynd, og sagðist ætla að kanna þann möguleika eftir áramót. Ég þekki ekki alveg hvernig það mætti útfæra nákvæmlega, hvaða sjálfvirku tengingar fésbókin gefur öðrum síðum aðgang að, en ég er að sjá fyrir mér að það myndu birtast póstar inni á Pírataspjallinu í hvert sinn sem nýjar umræður bætast við hér inni, með hlekk á viðkomandi umræðu. Ef til vill væri ástæða til að pósta hlekk á sömu umræður oftar en einu sinni ef hún reynist vinsæl, kannski ekki í hvert skipti sem ný athugasemd bætist við, en hugsanlega mætti finna einhvern góðan milliveg, hvort sem það yrði eftir hverjar 10 athugasemdir eða annað þvíumlíkt.