Umræða kringum málflutning Björns Leví í Kjarnanum/viðtak: „…án nokkurrar áætlunar hvað taki við“, íhaldsnauð og ýmsar óuppfylltar þarfir.
Er mikið sammála Birni Leví um margt -íhaldið má missa sín og mikið vantar á framfarasinnaðar áætlanir og efndir. Einnig gæti ég trúað að raunþörf á tækniyfirfærslu frá öðrum löndum væri talsverð sem og tækniþróun og aðlögun í undirstöðugreinum einnig
Það er löngu kominn tími á framfarir á ýmsum sviðum.
Eftir að hafa fylgst með stefnum stjórnvalda í umhverfismálum o.fl. er man ekki hissa að engar áætlanir séu í bígerð, hvað þá meir.
Ferðamannalandið Ísland varð til –bara einhvernveginn. Rafveita landsins var ekki í góðu standi komumst við að í vetur. Ég hélt að íslendingar væru svo pottþéttir í tölvutækni og öllu tengdu henni – rafmagn er náttúrulega undirstaðan, það vantaði kannski eitthvað uppá veitu út á ystu annes, en að víða vantaði varaafl, eða að fólk á köldum svæðum (enginn jarðhiti) yrði skítkalt í meira en sólarhring -nei! Í umhverfismálum erum við sæmilega sett (ekki vel) á sviðum þar sem EB reglur gilda- þegar aðstæður eru hliðstæðar –í úrgangsmálum t.d. Eini aðilinn sem sjálfviljugur hóf hauggassöfnun áður en reglur (EB) þar um gengu í gildi (höfðu langan aðlögunartíma) var SORPA. Samt var vitað að hauggas er öflug gróðurhúsalofttegund. Og samt voru það bara stærstu staðirnir sem þurftu að safna og þeir jafnvel „lokuðu“ urðunarreinum svo þeir þyrftu ekki að safna í haugunum sem fyrir voru. Ef reglur koma ekki frá EB eru stundum engar reglur, eins og á við um jarðveg -það er semsagt víðast vel gerlegt (og gert) að menga jarðveg.
Jarðvegur er mjög mikilvægur – í honum er uppspretta fæðunnar, allt lifir á honum. Frjósamasti hluti hans er svokallaður humus, sem verður að mestu til úr lífúrgangi (lífbrjótanlegum úrgangi, e. Biodegradable waste). Íslensk ræktarmold er vart söluvara og molta er að mér vitandi ekki söluvara. Við kaupum mikið af erlendri mold, -er það gott? Hér fer ekki fram ræktarmoldarþróun, ætli sé nokkur sérfræðingur í slíku hérlendis. Engin gæðaþróun eða gæðavottun í boði. Af hverju ekki? Þegar spurt er hjá Rannís, hvort ekki sé örugglega veittir tækniþróunarstyrkir í eins bráðnauðsynlegt fyrirtæki eins og jarðgerðarþróun, fyrir framleiðslu moltu og jarðvegsbætis (eftir ráðgjöf frá NMÍ) er svarið nei, því varan fari ekki á erlendan markað. Semsagt tækniþróun á alíslensku þarfaþingi er ekki styrkt hjá Tækniþróunarsjóði. Þetta var árið 2017. Í staðinn sótti ég um ódýrasta styrk til þróunar á byggingarefnum úr íslenskum jarðefnum, enda hægt að ná að gera þau að útflutningsvöru – sandur t.a.m. er ekki lengur auðínáanlegur víðs vegar um heiminn… En nei, fékk ekki styrk fyrir það.
Það er mikill áhugi á nýsköpun hérlendis –já útumallt, í atvinnulífinu, - hjá stjórnmálafólki. En það er ekki mikið um hana í raun er ég hrædd um. Ætti ekki að vera meiri áhersla á tækniyfirfærslu og aðlögun að aðstæðum hér (eins og með moldina sem er frábrugðin að samsetningu ef miðað er við nágrannalönd)? Eins lítil og þjóðin er og einangruð, væri ekki skynsamlegt að einbeita sér að því að tækniþróunarstig væri miðað við að við værum vel með á nótunum í undirstöðu-framleiðslugreinum – hér hefur verið áhersla á frumlega matargerð og það er frábært, en undirstöðurnar eru – er ég hrædd um vanræktar. Vonandi eru sviðin ekki mörg sem eru í svipuðu standi og moldarbransinn, því óhætt er að segja að sá bransi sé vanþróaður… Í Tæknirþóunarsjóði er enn miðað við að styrkir séu fyrir útflutningsbærar vörur (spurðist fyrir á meil).
Hvað með skilvirka nýtingu jarðhitavatns? EB stefnir að því að lítið þurfi að nota orku til að hita upp hús (gegnum hönnun, einangrun, hústækni ofl.) , markmið fyrir árið í ár var að auka orkuskilvirkni almennt um 20%. Árið 2030 rúmlega 30% (miðað við 2007). Haldiði að það væri ekki hagstætt hér? Stefán Arnórsson fyrrum prófessor við HÍ talar um að nýting heitavatnsins sé oft eins og hrein og bein námuvinnsla – semsagt ágeng og langt í frá sjálfbær. Allavega er notað helmingi minna af heitu vatni í upphitun í Svansmerktu húsi í Garðabæ heldur en almennt gerist í öðrum nýjum/nýlegum húsum hér. Skrítið að íslensk stjórnvöld hafi ekki áhuga á slíku, eða fjölmiðlar.