Rafrænar kosningar ennþá slæm hugmynd?

Hann setur sama fyrirvara og við höfum gert, að það sé allt í lagi að nota rafrænar kosningar í smærri einingum eins og félagasamtökum.

En mér finnst samt alveg þess virði að velta þessu upp enn og aftur, hvort það sé yfirhöfuð góð hugmynd að notast við rafrænar kosningar þegar atkvæði eiga að vera leynileg. Getur verið að það sé sniðugast að við hættum að kjósa rafrænt þar sem atkvæði eiga að vera leynileg, og afmörkum rafrænar atkvæðagreiðslur við þau atriði þar sem atkvæði hvers og eins geta verið opinber (og þ.a.l. staðfestanleg af öllum)?

Vandinn er nefnilega ekki bara sá að það vanti einhverjar fínar tæknilausnir til að tryggja hvort tveggja kosningaleynd og öryggi, heldur einnig TIL DÆMIS að þá er tæknin orðin það flókin að flestir kjósendur skilja ekkert í henni. Jafnvel þegar það er notað blockchain og svaka fínar dulkóðunaraðferðir, þá eru það samt flókin stærðfræðileg hugtök langt umfram það sem er hægt að ætlast til að meðalkjósandi skilji, og þ.a.l. langt umfram það sem meðalkjósandi getur spurt rökréttra spurninga um. Hvaða kjósandi sem er getur spurt heilsteyptra spurninga með ætlan um skýr og einföld svör þegar kemur að pappírskosningum, en ekki þegar kemur að blockchain og RSA lyklum. Spurningar eins og „Var kassinn innsiglaður?“ eða „Hversu margir fóru með hann milli A og B?“ geta allir bæði spurt og svarað, en spurningar eins og „Var RSA lykillinn 2048 eða 4096 bita?“ eða „Var búið að setja inn patch 31337?“ eru hinsvegar einungis á færi sérfræðinga og jafnvel ef svörin eru góð, skilur flest fólk ekkert í þeim.

Hafandi tekið þokkalegan þátt í þróun, viðhaldi og reksri á kosningakerfinu okkar og því þykjandi vænt um kosningakerfið okkar, þá erum við samt í þeirri stöðu að kjósendur verða einfaldlega að treysta sérfræðingum fyrir því og ekki bara hvaða sérfræðingi sem er, heldur tilteknum sérfræðingum. Ef traust veikist til umsjónarmanns kosningakerfisins, þá veikist traust til kosningakerfisins sjálfs, þannig að það þarf í rauninni tæknimenn með óaðfinnanlegt traust til þess að kosningakerfið okkar sé skalanlegt eins og stendur. Það er hvorki víst að það sé mögulegt né æskilegt.

„Just asking questions!“ :wink:

4 Likes

Við eigum ekki að notast við rafrænar lausnir við kosningar sem skipta máli.
Ég get ekki séð neina leið til að tryggja lýðræðið þegar þetta er orðið rafrænt.

Kosningar þar sem nafnleynd er ekki tryggð er í rauninni verra en ekki neitt.
Þá lítur út fyrir að það sé lýðræði en það er það oft í rauninni ekki.

2 Likes

Mér finnst það allt í lagi fyrir atkvæðagreiðslur ef atkvæðin eru birt, sem tíðkast nær aldrei í persónukosningum en tíðkast hinsvegar í stefnumótun. Algengt er t.d. að þegar greiða á atkvæði um tillögu séu fundargestir með tvö spjöld, eitt fyrir „já“ og annað fyrir „nei“ sem eru svo bara rétt upp á opnum fundi og talin þannig. Handauppréttingar eru kannski algengari, en þá eru atkvæðin jafn opinber.

Við höfum ekki haft atkvæðin opinber í stefnumótun hjá okkur hingað til, en mér finnst að það sé eitthvað sem við ættum að íhuga að gera því það er alvanalegt. Það leysir vandann vegna þess að þá sjá allir hvort atkvæði þeirra sé rétt.

Einnig, sem merki um grundvallarmuninn er að í atkvæðagreiðslum um stefnumál er alvanalegt að fólk greini frá atkvæði sínu að eigin frumkvæði og rökstyðji það. Slíkt tíðkast almennt ekki í persónukosningum, að fólk fari að færa rök gegn því að tilteknir samherjar sínir séu kjörnir. Reyndar er sjaldgæft (og af mörgum mjög illa séð) að færa rök fyrir því að tiltekinn samherji sé kjörinn, nema þá í einhverjum einkasamtölum.

Þannig að það er ákveðinn grundvallarmunur þarna á, stefnumótun og persónukjöri.

1 Like

Svo er mér bara að detta í hug núna að ef við myndum hafa atkvæði um stefnumál opin og nota kosningakerfið einungis fyrir stefnumál og lagabreytingar og þess háttar ákvarðanir, þ.e. þegar ekki er verið að velja milli einstaklinga, að þá gæti það afmarkað þróunarvinnu í kosningakerfinu þokkalega mikið. Persónukjörin eru flóknasti hluti kosningakerfisins og krefjast mestu umsjónarinnar.

Ég myndi halda að það væri alltaf kostur ef kosning sé nafnlaus. Með þeim hætti að staðfestanlegt sé að það sé ekkert svindl í gangi. Draumurinn væri að hægt væri að hafa nafnlausar kosningar, oft, hratt og örugglega. Sé það fyrir mér að það sé hægt að lækka kostnað við nafnlausar kosningar talsvert.

Við verðum að passa okkur á því að gera ekki hluti með einhverjum hætti, bara af því þeir voru gerðir svona hér áður. Jafnvel þó einhverjar kosningar séu ekki með nafnleynd í dag, getur verið að það væri betra að hafa nafnleynd.

Væri kannski pæling að reyna að fá manninn á þessu myndbandi þarna til að hjálpa okkur með þetta. Hann virðist hafa pælt ansi mikið í þessum hlutum.

1 Like

Það er alveg hægt að hafa rafrænar kosningar þar sem kjörseðill er prentaður út og settur í kjörkassa. Til að byrja með væru atkvæðin talin úr kassanum strax eftirá til þess að “votta” stafrænar niðurstöður. Seinna væri svo hægt að gera úrtak úr kjörkössum til þess að votta niðurstöður.

Það er auðvelt að hafa þetta nafnlaust, kjósandi mætir á kjörstað. Skráir sig inn eins og fyrirkomulagið er núna. Fær merki til þess að virkja atkvæði (án þess að það sé venslað við kjósanda). Merkið er notað til þess að setja atkvæðagreiðslu í gang í kosningavél (sambærilegt að vera með snertilaust kort og posa). Svo er valið á kosningavélinni (posanum) hvaða atkvæði kjósandi velur (það getur verið uppröðun eða hvaðeina) og greiðir svo að lokum atkvæði sem lokar atkvæðagreiðslu og prentar út seðil. Kjósandi skilar svo seðli í kjörkassa og hendir merkinu sem hann fékk í ruslið (það er ekki hægt að nota merkið til þess að skoða atkvæði eftirá eða setja í gang aðra atkvæðagreiðslu eða neitt, það er bara notað til þess að aflæsa kosningavélinni).

1 Like

Til hvers að bæta þessu auka skrefi við? Einnig er horfin tryggingin fyrir nafnleysinu um leið og það er komin vél sem skráir atkvæði í þeim tímaramma sem það er greitt. Hver er tryggingin fyrir því að merkið sé ekki notað aftur? Ef það er minnsti vafi á að hægt sé að hakka það til endurnotkunar þá er búið að rýra traust/gildi kosningarinnar.

1 Like

Ef kjósandinn þarf hvort sem er að mæta á tiltekinn stað til að kjósa, þá sé ég ekki lengur nein góð rök fyrir rafrænum kosningum. Eini kosturinn sem ég fæ séð í fljótu bragði yfirhöfuð er að það er fljótlegra að telja. Í samtökum eins og okkar þar sem búast má við að mesta lagi 1000 atkvæðum (metið er eitthvað svoleiðis) tel ég það ekki raunverulegt vandamál, og hvort tveggja gegnsæið og einfaldleikinn við pappírskosningu miklu stærri kostir en svo að það borgi sig að búa til ógegnsæið og flækjustigið sem fylgir því óhjákvæmilega að framkvæma rafræna kosningu með þessum hætti

Jafnvel ef það þykir mikill kostur að telja hratt, þá er það kostur fyrir þau sem halda kosninguna, en ekki fyrir kjósandann sjálfan. Það er engu flóknara fyrir hann að krota vilja sinn niður á pappír heldur en að innskrá sig í einhverja tölvu og raða þar hlutunum upp með mús.

1 Like

Þetta kemur aldrei til með að gerast nema í skrefum. Fyrsta skrefið væri staðbundin rafræn kosning. Það eitt og sér að fá nákvæmari (færri eða engir ónýtir / ógildir atkvæðaseðlar) og fljótlegri (og jafnframt vottanlegri) niðurstöður með því að nota rafrænar aðferðir við að kjósa … væri gríðarleg bæting á núverandi atkvæðaseðlapappírsflóði með tilheyrandi umstangi og ýmsu.

1 Like