Skýrsla ASÍ og SA um menntamál

Tengill: https://www.sa.is/frettatengt/frettir/skyrsla-sa-og-asi-um-menntamal

Þetta er eitthvað sem þyrfti líklega að skoða vel og vinna mögulega inn í stefnu Pírata eða gagnrýna með tilliti til stefnu Pírata. Skýrslan er ekki komin út, ætti væntanlega að birtast eftir kynningu 4. nóv: https://www.sa.is/frettatengt/frettir/menntun-og-faerni-til-framtidar-aherslur-sa

En þangað til, út frá þessum atriðum:

  1. Að tala skýrar einni röddu um sameiginleg hagsmunamál atvinnurekenda og launafólks í menntamálum, bæði gagnvart íslenskum stjórnvöldum og í Evrópusamstarfi.
  2. Að kanna möguleika á að auka formlegt samstarf félaga og stofnana í atvinnulífinu um sameiginleg markmið. Til greina kemur að sameina félög og samstarf með sameiginleg markmið.
  3. Að nýta sameiginleg tækifæri atvinnurekenda og launafólks í samstarfi atvinnulífs og skóla.
  4. Að bjóða í auknum mæli þekkingu og þjónustu atvinnulífsins til að leysa af hendi lögbundin verkefni stjórnvalda á sviði menntamála. (Atvinnulífið þjóni stjórnvöldum.)
  5. Að kanna möguleika á að nýta opinbera skólakerfið til að þjóna menntahagsmunum atvinnulífsins. (Skólar þjóni atvinnulífinu.)
  6. Að vinna með stjórnvöldum að því að draga upp gegnsæja heildarmynd af íslenska menntakerfinu þar sem hlutverk aðila er skilgreint, sátt sé um hugtakanotkun og einfalda framsetningu.

Er menntakerfið bara fyrir atvinnulífið og verkafólk? Er menntakerfið bara til þess að þjónusta atvinnulífinu? Er þetta ekki of þröngt sjónarhorn og hunsar mikilvægar vísindagreinar eða svið?

1 Like

Misskilningurinn er sennilega sá, að það þurfi sérstaklega að miða við atvinnulífið í dag, eða huga sérstaklega að hagsmunum atvinnurekenda, til þess að menntun þjóni þeirra hagsmunum.

Tökum óskyld dæmi, löggæslu (í staðinn fyrir menntunina) og fjölskyldulífið (í staðinn fyrir atvinnulífið). Augljóslega á löggæslan að geta svarað þörfum fjölskyldulífsins. En löggæsla er samt almennara fyrirbæri og þarf ekkert síður að þjóna fjölskyldulausum einstaklingum, tjah, eða einmitt fyrirtækjum. Löggæslan þarf að þjóna öllu samfélaginu, þar á meðal fjölskyldum. Það þarf ekkert að setja saman einhverja sérstaka löggæslu-fjölskyldu tengingu neinu frekar en að það þurfi sérstaka löggæslu-lögaðila tengingu. Góð löggæsla þjónar öllum, þar á meðal fjölskyldulífinu.

Menntun gagnvart atvinnulífinu hlýtur að vera það sama. Auðvitað á menntun að þjóna atvinnulífinu. En líka samfélaginu í heild sinni, þannig að kraftar hvers einstaklings séu betur nýttir, t.d. til nýsköpunar, og hinum menntuðu sjálfum, þannig að þau geti frekar unnið að verkefnum sem heilla þau, en ekki einungis verkefnum sem þau neyðast til að vinna. Menntun á líka að þjóna börnum hinna menntuðu og vinum þeirra og fjölskyldu. Hún á að auka tækifæri og gera meira úr þeim sem þegar eru, fyrir allt samfélagið. Atvinnulífið er auðvitað hluti af því samfélagi og því á menntunin að þjóna hagsmunum þess eins og hvers annars, en það er engin ástæða til að setja atvinnulífið eitthvað sérstaklega í brennidepilinn þegar kemur að menntun. Það flýtur bara með eins og við hin, alveg eins og þegar kemur að öðrum grunnstoðum samfélagsins eins og löggæslu eða réttarvernd.

Markmið atvinnulífsins í menntun er neysla þar sem einn afhendir vöru og annar tekur við henni, jafn hratt og skilvirkt og auðið er. Hraðinn og skilvirknin kemur í veg fyrir fyrir nám, tilraunir, ígrundun, árekstra, uppgötvun, gleði, samskipti, að standa frammi fyrir sjálfum sér (oft á óþægilegan hátt). Sótthreinsun þar sem flest það sem merkingarbært er, er tekið út úr menntuninni og hún í þess stað gerð að nammibarnum í Hagkaup.Þessi skólunarhugmynd menntar engan að mínu mati (það fer að sjálfsögðu eftir skilgreiningum okkar á menntun) en skólar fólk í tilteknum venjum og vinnubrögðum sem er gagnlegt út af fyrir sig. En menntun er jaðarrými, núningur, uppgötvun sem er merkingabær fyrir þig en verður ekki til nema í samskiptum við spurningar, tilraunir og annað fólk. Hún er skítug og hún tekur langan tíma. Stjórnmálaástundun er i eðli sínu ferli hraðans, pólitíkusar hafa ekki tima til að liggja yfir hlutum löngum stundum, þeir þurfa að akta hratt og eru alltaf í viðbragðsstöðu. Þegar um menntun er að ræða finna mér að þeir eigi að vara sig á að hlaupa upp til handa og fóta og gefa alls konar tískufyrirbærum í skólamálum grænt ljós, sérstaklega ef þau eru mótuð eftir hentisemi hagsmunaaðila hverju sinni á borð við atvinnulífið. Menntun er ekki hentugleikafyrirbæri. Förum vel með hana og skipum henni í öndvegi. Hættum að smætta hana í eitthvað hverfult og lítilmótlegt. Mæli til dæmis með hlustun á Gerd Biesta og lestri á manífestói hans um menntun. Hér er tengill í einn af ótal mörgum fyrirlestrum Biesta ef fólk langar að glöggva sig á honum. https://m.youtube.com/watch?v=QMqFcVoXnTI

Skýrslan komin: https://sa.is/media/26658/menntun-og-faerni-vid-haefi-fyrir-vef.pdf

Frétt um skýrsluna: https://www.ruv.is/frett/leggja-til-inntokuprof-eda-fjoldatakmarkanir

Í senn hrollvekjandi sýn og það sem við var að búast af þessum aðilum. Vonandi tekst að ná samkomulagi í samfélaginu um að standa gegn þessum gamaldags andstæðingum menntunar en það getur brugðið til beggja vona.

Sammála þessu með misskilninginn. En menntun á að þjóna nemandanum. Ef fólk vill endilega að hún þjóni fleirum þá má benda á að það gerir hún í vissum skilningi með þessu - menntun á öðrum forsendum en að þjóna þeim sem menntast mun aldrei nýtast samfélaginu svo neinu nemi.

Takk, gott að fá þessa tengla inn hérna.

1 Like

Tók stutta ræðu um þetta í störfum þingsins: https://www.althingi.is/altext/raeda/150/rad20191105T135445.html

Virðulegi forseti. Í gær var kynnt skýrsla atvinnulífsins um áherslur í menntamálum til framtíðar. Í þeirri skýrslu er ýmislegt áhugavert að finna og margt sem þarf að skoða betur. Í málefnum grunnskóla var farið yfir auknar áherslur á lestur, stærðfræði, skapandi greinar og vísindi, styttingu grunnskólans um eitt ár og ýmislegt fleira, á háskólastiginu að endurskoða fjármögnunarlíkan, taka upp fjöldatakmarkanir að norrænni fyrirmynd, sameina háskóla og taka upp norrænt námsstyrkjakerfi. Einnig eru lagðar til aðgerðir á leikskólastigi, í framhaldsskóla og í framhaldsfræðslu.

Ég get verið sammála þeim markmiðum skýrslunnar að þörf er á ýmsum endurbótum í menntakerfinu og það ber að taka þessar tillögur alvarlega og með opnum hug. Þó eru atriði í skýrslunni sem ætti að staldra við og spyrja atvinnulífið hvern það telur tilgang menntakerfisins vera. Hér á ég ekki við stórar breytingar eins og styttingu grunnskólans eða fjöldatakmarkanir í háskóla heldur, með leyfi forseta, „bilið á milli þess sem íslenskt menntakerfi skilar og þess sem íslenskt atvinnulíf þarfnast er að aukast. Sú niðurstaða bendir til þess að skoða þurfi innihald náms og með hvaða hætti einstaklingar velja sér nám.“

Í því samhengi þarf að hafa akademískt frelsi til viðmiðunar en það er skilgreint sem frelsi háskólakennara, háskólanemenda og háskólanna sjálfra til að leita þekkingar, hvert svo sem leitin leiðir, án óeðlilegra afskipta. Menntun er nefnilega ekki fyrir atvinnulífið. Menntun er miklu viðameira og mikilvægara fyrirbæri. Menntun er grunnstoð nútímasamfélags, ekki út af atvinnuskapandi möguleikum menntunar heldur út af því afli sem vísindalega aðferðin er. Atvinnulífið getur nýtt afurðir menntakerfisins en það á ekki að stýrast af þörfum atvinnulífsins. Það grefur undan akademísku frelsi sem er ein helsta ástæða þess að nútímasamfélag er ekki lengur í viðjum geðþóttaákvarðana harðstjóra heldur byggt á lýðræðislegum grunni og gildum. Verjum akademískt frelsi.

Mér finnst ýmislegt skaðlegt en ekkert athyglisvert í þessari skýrslu. Tek undir annað hjá þér. Viðbrögð akademíunnar og akursins eru svo að miklu leyti svipuð og má kannski kristalla í “jæja” (pfft) og “grrr”.