Spjallfundur á fimmtudagskvöld

Málefnafundur verður á fimmtudagskvöld 18. júlí 2019 klukkan 20 í nágrenni Seyðisfjarðar. Dagskráin er opin og um að gera að leggja til málefni á þessum þræði.

Ég vil brydda upp á málefnum sem varða útlendinga líka. Dvalarleyfi, atvinnuleyfi, vegabréfaeftirlit, vegurinn frá Seyðisfirði til Egilsstaða, innanlandsflug, heilbrigðisþjónusta fyrsta hálfa árið eftir komu til landsins (þar með talin þjónusta við ferðamenn og þá sem gagngert sækja heilbrigðisþjónustu hingað), millilandaflugvelli, afþreyingu og list.

3 Likes

Kúl, ég efast um að komast, en þetta hljómar vel

Hittumst á Skaftfelli kl. 20. Passlegur staður fyrir léttan, óformlegan fund.

Pírataskraf Seyðisfirði 18. júlí 2019

Þorbergur Torfason, Trausti Traustason og Bjartur Thorlacius ræddu landsmál og svæðismál á Seyðisfirði 18. júlí 2019. Eftirfarandi er mín samantekt á fjörugum umræðum, en villur skrifist á mig.

Innra skipulag Pírata

Beint persónukjör er betra en óbeint kjör í gegnum kjördæmisfélög. Flatur strúktúr er betri en háir pýramídar.

Fjarfundir

Textaspjall á netinu endar of oft í ókurteisi. Staðbundnir fundir eru ekki aðgengilegir nema þeim sem staðsettir eru nálægt. Því er lag að fjarfunda sem mest, og þá samtímis í hljóð og mynd. Zoom og Appear.in eru dæmi um þjónustur sem má nýta til þess að þátttakendur á netinu geti bæði talað og hlustað sem væru þeir á sameiginlegum fundarstað. Píratar ættu að gefa út ráðleggingar um fjarfundabúnað (nettengingu, tölvu, skjá, hugbúnað, hljóðnema, myndavél og uppsetningu) til meðlima og svæðisfélaga.

Orka og atvinnuöryggi

Þó álver stórauki framboð á atvinnu, þá er enn atvinnuóöryggi á Austfjörðum í því að álver geta lokað fyrirvaralaust. Þá geta fimmtánhundrað manns, starfsmenn álversins og þjónustufyrirtækja, misst störf sín á skömmum tíma. Auka mætti atvinnuöryggi með fjölbreyttari atvinnuvegum og áætlun um snögga uppbyggingu atvinnureksturs ef álver lokar. Til dæmis mætti forvinna skipulag og hönnun gróðurhúsa sem mætti reisa smátt og smátt og/eða snögglega ef skyndilega losnar um mannafla og orku í lanshlutanum.

Sjávarútvegur

Byggðakvóti nær engu markmiði. Fiskur verður ekki eftir í þeim byggðarlögum sem fá úthlutað. Byrjendur og litlar útgerðir uppfylla ekki skilyrði. Skoða að setja landaðan fisk á opinn markað.

Landsbyggðamál

Umræður um landsbyggðarmál þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar. Landsbyggðarmann þarf að fá til að drífa áfram umræður um landsbyggðarmál.

Vegir

Mikil eftirvænting eftir vegi um Teigsskóg, fram hjá Blönduósi og Selfossi. Um að beina svo ferðamönnum á rólegri, lengri leiðir t.d. suðurstrandaleið.

2 Likes

Góðir punktar.
En, hvað mættu margir og ef fáir, hverjir voru mættir?

Kkv, Guðjón

Mættir voru ekki nema við þrír sem eru nefndir í fundarnótum, enda sumir á ferðalagi um hásumarið.

Hvernig er kosning í gegnum kjördæmisfélög óbein? Félagið kýs væntanlega sinn fulltrúa beinni kosningu. Auk þess myndi það fyrirkomulag þýða að kjósendur þekkja betur til frambjóðenda og geta þar af leiðandi tekið upplýstari ákvörðun. Það er oft mjög erfitt að velja einhvern aðila á hinum enda landsins sem maður hefur aldrei hitt sem þýðir að allt valdið færist til þeirra sem flestir þekkja, m.ö.o frambjóðenda á höfuðborgarsvæðinu. Það er kannski ‘flatur strúktur’ en það er samt í praxís hæð sem landsbyggðin kemst ekki uppá.

Píratar ættu að gefa út ráðleggingar um fjarfundabúnað (nettengingu, tölvu, skjá, hugbúnað, hljóðnema, myndavél og uppsetningu) til meðlima og svæðisfélaga.
Algjört skilyrði að sá hugbúnaður sé frjáls og opinn (FOSS), vandamál sem ég sé er að hljóðnemar og myndavélar kosta peninga.

1 Like