Starfshópurinn mikli

Held að við getum verið sammála um að skipulagsbreytingar innan flokksins gætu verið til góða og að í haust væri góður tími til að samþykkja slíkar breytingar (geri ráð fyrir að það sé sæmilega langt frá kosningum). Ég sendi eftirfarandi bréf á framkvæmdaráð núna áðan, sem ráðið að sjálfsögðu ræður hvað það gerir með. En endilega segið mér hvað ykkur finnst.

Eins og sum vita hef ég staðið fyrir reglulegum fundum þar sem kjörnir fulltrúar og meðlimir úr grasrót hittast til að ræða skipulag á starfi flokksins. Þar hafa verið rædd ýmis konar vandamál sem telja má að spretti frá skipulagi flokksins. Markmið þeirra er ekki að leggja til þess að Píratar leggi niður flatan strúktúr, heldur að strúktúrinn verði skýrari og betri, svo að hlutverkum sé úthlutað á lýðræðislegan máta. Ég tel nauðsynlegt að halda þessari vinnu áfram en hef því miður ekki tíma til þess, m.a. vegna þess að flýg til Kína í lok apríl og verð í burtu 4 mánuði. Ég ætla því að koma með tillögu fyrir framkvæmdaráð um hvernig megi halda þessu áfram og legg til eftirfarandi.

Á næsta fundi framkvæmdaráðs skipi ráðið starfshóp sem á að leggja fram breytingartillögur á lögum flokksins. Starfhópinum verður falið að afla sér upplýsinga, lesa skýrslur fyrrum formanna framkvæmdaráðs, kosningaskýrslur, taka viðtöl við félagsmenn og standa fyrir pallborðsumræðum ef þurfa þykir. Í starfshópinum skulu vera einhverjir kjörnir fulltrúar og einhverjir fulltrúar skipaðir af aðildarfélögum og skal vera falið að leysa eftirfarandi verkefni:

  1. Það hefur oft verið truflandi í kosningabaráttu að úthluta þurfi stjórnarmyndunarumboði með stuttum fyrirvara. Starfshópurinn skal leggja til tillögur um hvernig tryggja megi að ávallt sé einhver fulltrúi, einn eða fleiri, með umboð til að semja fyrir hönd hreyfingarinnar. Það skal vera skýrt í tillögum starfshópsins hverjir þeir einstaklingar séu, hvernig þeir séu skipaðir og hvernig megi afturkalla umboðið.

  2. Starfshópurinn skal skila inn tillögum um hvernig megi dreifa úr ábyrgð framkvæmdaráðs til að létta á álagi þess. Framkvæmdaráð hefur fjárráð, starfsmannahald, alþjóðasamstarf, skjölun og fjölmörg önnur verkefni á sinni könnu sem mögulega væri hægt að dreifa öðruvísi. Starfshópinum ber í þessu skyni að kynna sér starfsemi ráðsins í gegnum tímann og bera saman við aðrar stjórnmálahreyfingar, svo sem, en ekki einvörðungu, Pírata erlendis.

Starfshópurinn skal starfa í sumar og haust en leggja fram tillögur sínar viku fyrir aðalfund Pírata 2019 svo félagsmenn hafi tíma til að kynna sér þær, ræða og taka til umræðu á aðalfundi. Aðalfundur hefur svo umboð til að ákveða hvað gera skuli í framhaldinu, hvort halda skuli sérstakt lagaþing eða hvort vísa eigi tillögum til félagsmanna í atkvæðagreiðslu.

8 Likes

Ég held að vika sé of knappur tími til að ræða eitthvað sem kemur til með að hafa stórtæk áhrif á flokkinn, annars: :clap::clap::clap::clap::clap::clap::clap::clap:

2 Likes

Já, framkvæmdaráð mætti alveg hafa þetta mánuð eða þrjár vikur mín vegna, vill bara gefa starfshópinum sæmilegt rými til að vinna vinnuna.

1 Like

Ekkert af því sem á eftir kemur er ætlað til þess að draga úr eða andmæla neinu af því sem @SnaebjornBrynjarsson sagði, svo það sé alveg ljóst. (Ég veit að svona disclaimer vekur oft upp efasemdir, en mín reynsla er að ég hljóma iðulega miklu neikvæðari en raunin er, svo…)

Það gleymist oft að flatur strúktúr inniheldur tvö hugtök; það er ekki nóg að hann sé flatur, heldur þarf hann líka að vera strúktúr. Innan Pírata hefur það síðara gjarnan gleymst, og mín skoðun hefur alla tíð verið að það sé mjög góð leið til að koma í veg fyrir valdadreifinguna sem flokkurinn átti að ganga út á. Þar eru augljóslega tvær stofnanir innan flokksins sem eru „hættulegastar“: Framkvæmdaráð og þingflokkurinn. Ef skoða á skipulag flokksins virðist mér óhjákvæmilegt að taka einnig til þingflokksins, og tenginga hans við títtnefnda grasrót svo og aðrar stofnanir flokksins.

Hinsvegar vil ég benda á að ágallarnir hérna eru ekki eingöngu í lögum flokksins. Það eru nú þegar mörg tæki þar sem hægt væri að nota til að taka á strúktúrleysinu. Vandamálið er að það hefur jafnan valdið verulegum deilum þegar á að fara að beita þeim; ég hef sjálfur ítrekað lent í þeim. Það er því ekki síður ástæða til að skoða og breyta ýmsum hefðum og túlkunum sem hafa tíðkast innan flokksins. Hér vil ég sérstaklega benda á að framkvæmdaráð hefur sjálft öll tæki sem þarf til þess að dreifa verkefnum sínum – ráðið ber ábyrgð á verkefnum, og engin skylda er í lögum að meðlimir ráðsins þurfi að vinna hvert verkefni fyrir sig. Engra lagabreytinga er þörf til þess; framkvæmdaráði er heimilt að dreifa verkefnum og setja reglur um framkvæmd þeirra án aðkomu annarra.

Engin aðgerð sem nauðsynlegt er að grípa til krefst aðalfundar. Ég tel að æskilegra væri að gerð verði krafa um að rökstuddar tillögur að aðgerðum komi fram í skýrslu hópsins, og að sérstakur fundur verði boðaður um þær til kynningar. Starfshópurinn getur lagt lagabreytingar fram beint í kosningakerfi flokksins og sent erindi um mögulegar reglubreytingar til framkvæmdaráðs. Á þeim vettvangi er krafa um umræðu á viðeigandi grundvelli, sem við verðum að muna að er alls ekki alltaf allir félagsmenn.

Ef það hjálpar til við að skýra hugmyndina get ég skrifað uppkast að erindisbréfi fyrir þennan starfshóp.

5 Likes

@odin takk fyrir gott og ítarlegt innlegg. Ég held að við séum sammála um hvaða partar flokksins eru “hættulegastir” þó ég myndi kannski vilja nota annað hugtak. Það er mikilvægt að það samband Pírata og þessara aðila sé vel skilgreint.

Framkvæmdaráð hefur vissulega allar heimildir til að dreifa verkefnum, en það er líka brjálæðislega erfitt að dreifa verkefnum. Af minni reynslu af því að vera í framkvæmdaráði þá er það tímafrekara og erfiðara, það getur gengið illa að fá fólk í sjálfboðaliðastörfin þegar það hefur ekki titlana.

Við erum auðvitað alls ekki strúktúrlaus, ég er bara að tala fyrir umræðu um breyttan strúktúr og það sem hefur komið fram á þeim pallborðsfundum sem ég hélt í Tortuga er að nærri allir fyrrum formenn framkvæmdaráðs og aðrir meðlimir eru mér sammála. Þegar maður kemur inn í ráðið nýr er lítið bakland og ekki mikið af upplýsingum eða leiðarvísum aðgengilegir. Það hefur auðvitað ekki hjálpað þegar úrskurðir valda því að hluti ráðsins þurfi að hætta og svo maður tali nú ekki um þegar ráð leysist upp.

Ég tel að við gætum lært margt af fyrirkomulagi Pírata í Tékklandi sem skipta ábyrgð framkvæmdaráðs upp í 3 mismunandi ráð, það er mín persónulega skoðun.

En svo ég komi aðeins að því af hverju ég vill taka þetta fyrir á aðalfundi. Ég þekki vel lög félagsins og veit að við getum breytt þeim án þess að kalla til hans. Dagsetning næsta aðalfundar er nú þegar komin og þetta verður stór fundur með a.m.k. 100 Pírötum geri ég ráð fyrir.

Þegar taka á umræðu um stórar breytingar og mikilvæg grundvallaratriði eins og t.d. spurningar um stjórnarmyndunarumboð þá finnst mér mikilvægt að öllum líði eins og þeir hafi fengið að taka þátt. Þess vegna hef ég haldið þessa umræðufundi og þess vegna tel ég að við ættum að halda áfram að halda raðir umræðufunda.

Aðalfundur er góður staður til að taka þessa umræðu í sameiningu. Þeir hafa tilhneigingu til að vera hálf tómlegir, því að lokinni kynningu á ársreikningi og kynningu frá kjörnum fulltrúum (sem er bara eins og stór framfarafundur) er lítil umræða um stefnumótun og framtíðarsýn, og það er synd því svona stór fundur er fjölmennur og mér finnst það megi nýta þá góðu mætingu í mikilvæg verkefni.

Auðvitað er duo-cracy hérna og ef einhver vill leggja til sínar tillögur, og stofna starfshóp sjálfur er það sjálfsagt. En mér finnst það ekki endilega leiðin til að fara ef við ætlum að ná sáttum og samstöðu. Ég held þess vegna að það sé gott að það komi frá framkvæmdaráði sjálfu ef það á að gera stórar breytingar á hlutverki þess, og ég held að ef við ætlum að takast á við stóru spurningarnar varðandi “pólitíska forystu” sem varðar alvöru völd eins og að mynda ríkistjórnir í umboði grasrótar þá þurfum við að gera það með löngu samtali sem involverar alla.

1 Like

Gott svar, ég er alveg sammála þér að tólin til þess að tryggja strúktúr séu kannski til staðar og lögin í sjálfu sér eru ekki að koma í veg fyrir það.

En eins og ég sé þetta, þá snýst þetta þetta ekki endilega um að hvort það sé mögulegt eða ekki, heldur snúist þetta mun meira um það hvort hlutirnir náttúrulega falli þannig. Við eigum að byggja upp skipulag flokksins þannig að það hlutirnir fallir frekar í þannig ferli af sjálfu sér.

Ef það krefst vinnu og efforts að halda hlutunum þannig, þá er ferlið vont, og það mun falla á milli þegar annað hvort einstakir einstaklingar eða allur flokkurinn er undir álagi, hver svosem ástæðan fyrir því er.

3 Likes

Þetta starf fór vel af stað undir forystu Snæbjörns.
Vona að starfið haldi áfram á þeim nótum sem lagt var upp með.

Það er starfshópur tekinn til starfa, búinn að hittast einu sinni og er núna að undirbúa starfið með því að safna saman gögnum og skipuleggja þau. Þegar þau hafa verið tekin saman, þá verður þeim bara deilt opið með tengli á skráarsvæðið, þannig að allir hafi lesaðgang að öllum gögnum sem starfshópurinn er að vinna með.

Það verður betur fjallað um þetta með sjálfstæðum pósti þegar gögnin eru samantekin og komin á sinn stað. :slight_smile:

2 Likes

Er póstfang sem ég get sent gögn á?

1 Like

Já, skipulag@piratar.is. :slight_smile: Það styttist í sjálfstæða tilkynningu, vonandi næst það á mánudaginn.

1 Like