Stefna Pírata í skattamálum

Á síðustu árum hafa verið haldnir einn og einn fundur Pírata um skattastefnu, en ekkert fútt eða alvara komist í leikinn.

Hvaða stefnu viljum við hafa í skattamálum?

Hvað finnst okkur að megi lagfæra varðandi tekjuskatt einstaklinga?
Hvað finnst okkur að tekjuskattur fyrirtækja ætti að vera hár?
Finnst okkur ennþá að hækka skuli fjármagnstekjuskatt í 30%?
Hvað finnst okkur um virðisaukaskatt í einu þrepi?
Hvað finnst okkur um gistináttagjald, viljum við enn að það verði föst upphæð?
Hvað finnst okkur um erfðaskatt yfirleitt?
Hvað finnst okkur um vegatolla sem skattaviðbót?

Er áhugi á að skoða flata skattprósentu á einstaklinga og veltuskatt á fyrirtæki?

Nokkrir stefnuliðir eru nú þegar til í stefnum Pírata:

 • Fjármagnstekjuskattur skal hækkaður úr 20% í 30%
 • Til þess að einfalda skattkerfið og jafna réttindi skal greiða ónýttan persónuafslátt beint til allra 16 ára eða eldri.
 • Aflaheimildir skulu boðnar upp til leigu á opnum markaði og leigugjald renna í ríkissjóð.
 • Gistináttagjald verði ekki föst upphæð, heldur prósentuhlutfall af verði gistingar.
 • Öll starfsemi sem losar mengandi efni í umhverfið skal greiða mengunarrentu umfram hefðbundna skatta.
 • Þjóðin á að njóta arðs af orkuauðlindum og skal innheimta arð af nýtingu þeirra t.d. með útgáfu orkunýtingarleyfa, sem orkuflutningsgjöld, sem tekjuskatta vegna orkusölu eða með öðrum hætti.
 • Sveitarfélögum verður gert leyfilegt að innheimta fasteignaskatt af orkumannvirkjum þar sem eigendur starfa á samkeppnismarkaði.
 • Tryggja skal að fyrirtæki í rekstri sem skila hagnaði og eru með veltu á Íslandi greiði tekjuskatt og aðra skatta hér á landi í samræmi við lög (þunn fjármögnun).

Þar fyrir utan hafa oddvitar Pírata og þingflokkurinn gert það að stefnu sinni að persónuafsláttur skuli hækkaður, en grasrótin hefur hvorki rætt það mál né samþykkt.

Þetta eru góðar spurningar.

Guðjón Sigurbjartsson stendur fyrir fundi um efnahagsstefnu í kvöld, sem er náskylt efni. Ég velti fyrir mér hvort skattastefna eigi beinlínis heima í efnahagsstefnu en er ekki viss sjálfur.

Í öllu falli finnst mér að við ættum að vera með eina, almenna skattastefnu frekar en að hafa hana hér og þar eins og er.

Sérstaklega finnst mér athugunarvert að skattastefna innihaldi tilteknar prósentutölur og einungis til þess að hala inn meiri pening til ríkisins (til byggingar Landspítalans í tilfelli okkar stefnu núna) frekar en að fjalla aðeins meira um út frá hvaða forsendum við ættum að hugsa skattprósentur almennt.

Það getur verið erfitt fyrir kjörna fulltrúa að berjast fyrir slíkri stefnu vegna þess að þeir geta ekki endilega sjálfir svarað spurningunum sem koma upp eða metið rök gegn tölunni sjálfri, en hvort tveggja kom t.d. upp við setningu skatta- og gjaldalaga seinast. Í tilfelli fjármagnstekjuskatts, þá er málið bara allnokkuð mikið flóknara en svo að hægt sé að einfaldlega hækka þessa prósentu án þess að taka tillit til annarra þátta eins og tekjuskatts fyrirtækja, persónuafssláttar einstaklinga gagnvart fjármagnstekjuskatti og þess háttar. Það er minnst á frítekjumark fyrir smærri fjármagnseigendur í greinargerð en það veitir enga frekari leiðsögn eða rökstuðning. Af hverju að hlífa smærri fjármagnseigendum? Hversu mikið á að hlífa þeim og hverjir eru smærri fjármagnseigendur?

Þessum spurningum væri miklu auðveldara að svara með því að hafa almenna skattastefnu, sem tiltæki þá ekki bara ákveðna prósentu fyrir ákveðinn skatt til að fjármagna ákveðið verkefni, heldur gæfi kjörnum fulltrúum betri leiðsögn um á hvaða forsendum eigi að taka umræðuna þegar á hólminn er komið.

Í greinargerð stefnu okkar um fjármagnstekjuskatt er t.d. lauslega minnst á að hann sé lægri hérna heldur en í algengum viðmiðunarlöndum. Það gæti verið kjörið dæmi sem ætti kannski heima í stefnunni, að það ætti að taka mið af einhverju slíku. Þá væri líka hægt að ræða þá spurningu, því það er ýmislegt skrýtið við íslenskt hagkerfi sem gæti haft áhrif á það upp að hvaða marki við viljum hafa hlutina nákvæmlega eins og annars staðar (verðbólgusækni og verðtrygging spila hér meira inn í, til dæmis).

Þannig að skattastefna ætti í rauninni, að mínu mati, að snúast um prinsippin á bakvið skattinn. Hvaða markmiðum sé almennt náð með skattheimtu og til hvaða spurninga við eigum að líta þegar við ákveðum hvaða skattprósenta sé við hæfi og við hvaða skatt. Mikilvægar undantekningar væri líka fínt að hafa á hreinu, t.d. ef við viljum ekki hafa VSK á nauðsynjavörum, eða vörum sem eru nauðsynlegar til að stuðla að tilvist íslensku tungunnar eða hvaðeina.

Vá, ég hafði aðeins meira af skoðunum á þessu en ég taldi í upphafi. En allavega, það er efnahagsstefnufundur í kvöld sem ég veit ekki hvort ég komist sjálfur á, en það gæti verið samleið milli efnahagsstefnu og skattastefnu.

1 Like

Ég kemst ekki á fundinn í kvöld, en ég get sett hér nokkra punkta úr eldra vinnuskjali vinnuhóps frá 2016 sem var með drög að “skattastefnu” sem átti að verða undirstefna núgildandi efnahagsstefnu Pírata, en svo komu kosningar*2:

 • Fjárlög ríkisins skulu gerð í eins opnu og gagnsæu ferli og mögulegt.
 • Einstaklingar skulu fá aukna valmöguleika yfir því hvert skattfé þeirra rennur.
 • Ríkið skal ekki reka aðra starfsemi en þá sem nauðsynleg er til að stuðla aðjöfnum tækifærum borgaranna og að þeir fái frelsi til að nýta borgararéttindi sín til fulls.
 • Starfsemi sem nýtir sameiginlega auðlindir þjóðarinnar skal greiða markaðsverð fyrir notkunina.
1 Like

Þetta eru frábærir punktar. Er þetta vinnuskjal aðgengilegt einhvers staðar, eða plan um að taka málið upp að nýju?

Ég fann punktana á útprentuðu skjali, þetta var unnið á einhvern pad í den, en það má setja punktana í nýtt stafrænt skjal og jú það mætti halda fund um þetta við fljótlega.