Stefna Pírata í skattamálum

Á síðustu árum hafa verið haldnir einn og einn fundur Pírata um skattastefnu, en ekkert fútt eða alvara komist í leikinn.

Hvaða stefnu viljum við hafa í skattamálum?

Hvað finnst okkur að megi lagfæra varðandi tekjuskatt einstaklinga?
Hvað finnst okkur að tekjuskattur fyrirtækja ætti að vera hár?
Finnst okkur ennþá að hækka skuli fjármagnstekjuskatt í 30%?
Hvað finnst okkur um virðisaukaskatt í einu þrepi?
Hvað finnst okkur um gistináttagjald, viljum við enn að það verði föst upphæð?
Hvað finnst okkur um erfðaskatt yfirleitt?
Hvað finnst okkur um vegatolla sem skattaviðbót?

Er áhugi á að skoða flata skattprósentu á einstaklinga og veltuskatt á fyrirtæki?

Nokkrir stefnuliðir eru nú þegar til í stefnum Pírata:

  • Fjármagnstekjuskattur skal hækkaður úr 20% í 30%
  • Til þess að einfalda skattkerfið og jafna réttindi skal greiða ónýttan persónuafslátt beint til allra 16 ára eða eldri.
  • Aflaheimildir skulu boðnar upp til leigu á opnum markaði og leigugjald renna í ríkissjóð.
  • Gistináttagjald verði ekki föst upphæð, heldur prósentuhlutfall af verði gistingar.
  • Öll starfsemi sem losar mengandi efni í umhverfið skal greiða mengunarrentu umfram hefðbundna skatta.
  • Þjóðin á að njóta arðs af orkuauðlindum og skal innheimta arð af nýtingu þeirra t.d. með útgáfu orkunýtingarleyfa, sem orkuflutningsgjöld, sem tekjuskatta vegna orkusölu eða með öðrum hætti.
  • Sveitarfélögum verður gert leyfilegt að innheimta fasteignaskatt af orkumannvirkjum þar sem eigendur starfa á samkeppnismarkaði.
  • Tryggja skal að fyrirtæki í rekstri sem skila hagnaði og eru með veltu á Íslandi greiði tekjuskatt og aðra skatta hér á landi í samræmi við lög (þunn fjármögnun).

Þar fyrir utan hafa oddvitar Pírata og þingflokkurinn gert það að stefnu sinni að persónuafsláttur skuli hækkaður, en grasrótin hefur hvorki rætt það mál né samþykkt.

Þetta eru góðar spurningar.

Guðjón Sigurbjartsson stendur fyrir fundi um efnahagsstefnu í kvöld, sem er náskylt efni. Ég velti fyrir mér hvort skattastefna eigi beinlínis heima í efnahagsstefnu en er ekki viss sjálfur.

Í öllu falli finnst mér að við ættum að vera með eina, almenna skattastefnu frekar en að hafa hana hér og þar eins og er.

Sérstaklega finnst mér athugunarvert að skattastefna innihaldi tilteknar prósentutölur og einungis til þess að hala inn meiri pening til ríkisins (til byggingar Landspítalans í tilfelli okkar stefnu núna) frekar en að fjalla aðeins meira um út frá hvaða forsendum við ættum að hugsa skattprósentur almennt.

Það getur verið erfitt fyrir kjörna fulltrúa að berjast fyrir slíkri stefnu vegna þess að þeir geta ekki endilega sjálfir svarað spurningunum sem koma upp eða metið rök gegn tölunni sjálfri, en hvort tveggja kom t.d. upp við setningu skatta- og gjaldalaga seinast. Í tilfelli fjármagnstekjuskatts, þá er málið bara allnokkuð mikið flóknara en svo að hægt sé að einfaldlega hækka þessa prósentu án þess að taka tillit til annarra þátta eins og tekjuskatts fyrirtækja, persónuafssláttar einstaklinga gagnvart fjármagnstekjuskatti og þess háttar. Það er minnst á frítekjumark fyrir smærri fjármagnseigendur í greinargerð en það veitir enga frekari leiðsögn eða rökstuðning. Af hverju að hlífa smærri fjármagnseigendum? Hversu mikið á að hlífa þeim og hverjir eru smærri fjármagnseigendur?

Þessum spurningum væri miklu auðveldara að svara með því að hafa almenna skattastefnu, sem tiltæki þá ekki bara ákveðna prósentu fyrir ákveðinn skatt til að fjármagna ákveðið verkefni, heldur gæfi kjörnum fulltrúum betri leiðsögn um á hvaða forsendum eigi að taka umræðuna þegar á hólminn er komið.

Í greinargerð stefnu okkar um fjármagnstekjuskatt er t.d. lauslega minnst á að hann sé lægri hérna heldur en í algengum viðmiðunarlöndum. Það gæti verið kjörið dæmi sem ætti kannski heima í stefnunni, að það ætti að taka mið af einhverju slíku. Þá væri líka hægt að ræða þá spurningu, því það er ýmislegt skrýtið við íslenskt hagkerfi sem gæti haft áhrif á það upp að hvaða marki við viljum hafa hlutina nákvæmlega eins og annars staðar (verðbólgusækni og verðtrygging spila hér meira inn í, til dæmis).

Þannig að skattastefna ætti í rauninni, að mínu mati, að snúast um prinsippin á bakvið skattinn. Hvaða markmiðum sé almennt náð með skattheimtu og til hvaða spurninga við eigum að líta þegar við ákveðum hvaða skattprósenta sé við hæfi og við hvaða skatt. Mikilvægar undantekningar væri líka fínt að hafa á hreinu, t.d. ef við viljum ekki hafa VSK á nauðsynjavörum, eða vörum sem eru nauðsynlegar til að stuðla að tilvist íslensku tungunnar eða hvaðeina.

Vá, ég hafði aðeins meira af skoðunum á þessu en ég taldi í upphafi. En allavega, það er efnahagsstefnufundur í kvöld sem ég veit ekki hvort ég komist sjálfur á, en það gæti verið samleið milli efnahagsstefnu og skattastefnu.

3 Likes

Ég kemst ekki á fundinn í kvöld, en ég get sett hér nokkra punkta úr eldra vinnuskjali vinnuhóps frá 2016 sem var með drög að “skattastefnu” sem átti að verða undirstefna núgildandi efnahagsstefnu Pírata, en svo komu kosningar*2:

  • Fjárlög ríkisins skulu gerð í eins opnu og gagnsæu ferli og mögulegt.
  • Einstaklingar skulu fá aukna valmöguleika yfir því hvert skattfé þeirra rennur.
  • Ríkið skal ekki reka aðra starfsemi en þá sem nauðsynleg er til að stuðla aðjöfnum tækifærum borgaranna og að þeir fái frelsi til að nýta borgararéttindi sín til fulls.
  • Starfsemi sem nýtir sameiginlega auðlindir þjóðarinnar skal greiða markaðsverð fyrir notkunina.
1 Like

Þetta eru frábærir punktar. Er þetta vinnuskjal aðgengilegt einhvers staðar, eða plan um að taka málið upp að nýju?

Ég fann punktana á útprentuðu skjali, þetta var unnið á einhvern pad í den, en það má setja punktana í nýtt stafrænt skjal og jú það mætti halda fund um þetta við fljótlega.

Jæja, alþjóðlega er verið að tala um 21% fyrirtækjaskatt, hljómar það ekki bara vel ef allir skattar af innkomu einstaklinga eru 30%, ásamt 4X% hátekjuskatti?

Ef að hátekjuskattur yrði 40 og eitthvað prósent þá finnst mér það þurfi þá á sama tíma að skilgreina hátekjur sem raunverulegar hátekjur. Sem í mínum huga eru að algjöru lágmarki 2 milljónir á mánuði. Allt undir því á harð duglegt og venjulegt vinnandi fólk nefnilega möguleika á að ná upp í ef það vinnur myrkrana á milli og er í ágætis vinnu. T.d. ef það er að safna sér eins hratt og það getur fyrir einhverju dýru, útborgun í íbúð, nýjum bíl eða hvað sem er. En fólk sem er yfir þessari upphæð er allra jafna fólk sem á það í rauninni ekkert mikið skilið, eins og bankastjórar, skipstjórar uppsjávarskipa, forstjórar margra fyrirækja o.s.frv.

Því ég vil sjá ríkasta fólkið borga mest til samfélagsins og það fátækasta minnst en samt hafa það þannig að venjulegt fólk geti haft tækifæri til að vera harð duglegt og þéna vel án þess að verða fyrir mun hærri skattafrádrætti. Þannig ég myndi vilja sjá að hátekjuskattþrepið myndi ekki hafa áhrif á venjulegt fólk en ég myndi reyndar líka vilja sjá að fyrir venjulegt fólk væru tvö skattþrep, en samt ekki breytt bil í prósentu á milli þeirra, svo að þeir sem hafa það betra borgi aðeins meira en auðvitað ríkasta fólkið mest.

En ríkasta fólkið á mjög oft fyrirtæki sem gerir þeim kleift að borga enþá minni skattaprósentu heldur en allir aðrir með því að taka mest sitt fjármagn út sem arð og borga þá fjármagnstekjuskatt sem er ekki nema 22%. Þessa prósentu þarf að hækka og sérstaklega ef að hátekjuskatturinn yrði 40+ %. Hvati fyrirtækjaeiganda yrði annars meiri en hann er í dag til að skammta sér lág laun í hverjum mánuði og taka út hærri arð á lægri prósentu. Fullt af fólki gerir þetta nú þegar og myndi það bara aukast nema þessi prósenta yrði hækkuð líka. Reyndar eru líka allt of margir að borga enþá minni skatt því það virðist vera hægt mjög auðveldlega að skrifa næstum hvað sem er á fyrirtækið sitt og sleppa þannig við vsk. af því líka.

En að hækka skatta og hækka skatta, það er ekkert sniðugt endalaust. En með kerfi sem myndi stuðla að þessu þá væri hægt að setja markmið um það að ríkissjóður hefði alltaf nægt fjármagn til að reka sig og það sem þarf í samneysluna á hverju ári, en samt þannig á öllum tímum að fjármagni hverrar stofnunar fyrir sig yrði ráðstafað á eins hagkvæman og skynsaman hátt og hægt væri. Og ef að skatttekjur ríkissjóðs væru að vaxa úr hófi fram því sem meðalhófi gætir, þá væri hægt að reikna út hversu mikið hver skattþrep væri hægt að lækka án þess að valda slæmum áhrifum á rekstur ríkisins, og hlutfall hvers skattþreps þá í takt við tilganginn um hver eigi að borga mest.

Að sjálfsögðu á að taka aftur upp auðlegðarskattinn aftur líka, ef þú átt hreinar eignir fyrir meira en einhverjar tugi milljóna þá hefurðu vel efni á því að borga meira en þeir sem eiga það ekki eða eiga jafnvel alls ekki neitt.

Ef að skattkerfið væri gert með þessum tilgangi og framkvæmt sem slíkt, þá stórlega efast ég um að 40+% skattur væri á hátekjum eftir örfá ár. Allir skattar myndu lækka mikið og sumir jafnvel hverfa með öllu algjörlega á sama tíma sem samfélagið væri orðið gott fyrir alla.

Ég vil tala svolítið um lægsta punktinn í þessum efnum, enda erum við öll með okkar hugmyndir um hvað eigi að gera varðandi hápunkta í tekjum og mikilvægi þess að koma í veg fyrir óhóflega eignasöfnun fárra einstaklinga (sem endurspeglar ofc viðhorf til óhóflegrar valdsöfnunar o.s.frv.)

Ég er þeirrar skoðunar að lágmarkskrafa eigi að vera sú að enginn skattur skuli vera greiddur af tekjum sem að eru innan marka framfærslukostnaðar.

þ.e.a.s. að skattleysismörk, hvernig svo sem þau eru skilgreind, skuli vera það há að skattlagning ríkisins á tekjum einstaklinga skuli aldrei vera með þeim hætti að hún setji fólk niðurfyrir framfærslukostnað.

Ríkið á ekki að skapa fátækt, né auka fátækt, með skattlagningu á tekjum lágtekjufólks.

2 Likes

Það má kannski horfa til framfærsluviðmiða í þessari umræðu: https://www.stjornarradid.is/verkefni/felags-og-fjolskyldumal/neysluvidmid/

1 Like

Núna vil ég breyta því sem ég sagði og hafa þá frekar 1 þrep á almenning og eitt á hátekjur í staðin fyrir 2 og 1. Því mér finnst þetta mjög góða hugmynd hjá þér, í réttlátu íslensku samfélagi ætti þetta ekki að vera neitt mál.

1 Like

Setjum okkur háleit markmið, og náum þeim samhliða því að bæta hag allra.

Harring vísaði til einkaneyslu meðalmannsins, stundum kölluð neysluviðmið eða miðgildi einkaneyslu. Hana skulum við hækka! Hún fylgir ráðstöfunartekjum, þó sparnaður og lántaka geta hliðrað henni um tíma. Krónutala er ekki háleitt markmið (vegna verðbólgu), svo við skulum stefna að því að ráðstöfunartekjur hækki, verðtryggt!

Markmið 1: Miðgildi kaupmáttar fullorðinna, eftir húsnæðiskostnað, hækki um 5% á næsta ári.

Meðalmaðurinn er ekki einn á landinu. Ef allir tekjuhópar hækka hlutfallslega jafn mikið endar munurinn á milli þeirra að verða hverfandi. Að lægsta tekjutíubdin hækki um 5% er því háleitt markmið. Stefnum þó enn hærra!

Markmið 2: Kaupmáttur fullorðinna sem ekki eru í námi, eftir húsnæðiskostnað, á mörkum lægstu og næstlægstu tíundar, hækki um 6%.

Getur einhver flett upp hvaða lönd eða fylki hafa tekið viðlíka framförum? Hvernig, hvaða og hve mikill skattur var tekinn af almenningi í þeim löndum?

Markmiðin eru göfug og skýr. En þau er erfitt að mæla fyrr en eftirá. Sem slagorð og mælanlegt milliskref, til að athuga hvernig okkur gengur fram eftir nýju ári, þá legg ég til eftirfarandi slagorð:

20.000 ný störf!

Þetta er heróp, og mælistika til skemmri tíma. Ekki markmið í sjálfu sér (sumir vilja jú komast á eftirlaun!) en getur virkað sem leiðarljós og endurgjöf í hverjum mánuði, þar til við höfum náð tökum á atvinnuástandinu. En 26000 manns voru án atvinnu í mars, þar af 6000 lengur en í ár.

2 Likes

Í El Salvador, Panama og Indónesíu hefur hagur lítilmagnarans vænkað einna mest, eða um 5% árlega, samkvæmt Alþjóðabankanum.

Í Ekvador, Úrúgvæ og Kólumbíu hefur hann staðið í stað eða rýrnað.

Þekkir einhver til þessara landa? Hvað veldur því að hagur lítilmagnarans hefur vænkað hratt í fyrri þremur löndunum en ekki í seinni þremur?

Gögnin frá Íslandi ná ekki nema fram til ársins 2017. En þá hafði hagur lítilmagnarns hér verið að hækka um 5,7% árlega. Það eru hraðari veldisvöxtur framfara hér en meira að segja hjá þessum þremur löndum sem komu best út í seinustu könnun Alþjóðabankans. Eigum við nokkuð sameiginlegt með lýðveldunum El Salvador, Panama og Indónesíu? Hvað stuðlar að svo hröðum framförum í hverju landi?

Heimild:
Ég leitaði að þeim gögn sem gefa einna besta vísbendingu um þróun kaupmáttaraukningar venjulegs og fátæks fólks erlendis. Yfirleitt gefa hagstofur upp hagvöxt og meðaltekjur, sem gefa góða vísbendingu um þróunina, en litast þó meira af tekjuþróun tekjuhárra heldur en tekjulágra. Ég leit frekar til tekna og gjölda þeirra sem hafa minni tekjur en flestir samlanda sinna. Vöxtur í tekjum eða gjöldum þessa hóps er þekktur í nokkrum löndum, en alls ekki öllum. Tölurnar ná yfir þróunina árin 2015-2019 eða svo.

https://data.worldbank.org/indicator/SI.SPR.PC40.ZG?contextual=consumption-by-income-1&locations=CO-SV-PA-ID-EC-UY-IS