Icesave-III: 42.400 undirskriftir á innan við 9 dögum eða nálægt 5.000 á dag.
Takk fyrir áhugavert innlegg!
Dómstólar myndu væntanlega skera úr um hvort að skilyrði yrðu uppfyllt, þ.e. ef þetta væri í stjórnarskrá.
Mér finnst bæði afskaplega langsótt að Icesave hefði ekki staðist fjárlaga-kvöðina og þjóðaréttarskuldbindinga-kvöðina.
Icesave var tillaga um samning og höfnun hans hafði ekki í för með sér að við brytum í bága við þjóðaréttarlegar skuldbindingar, heldur voru þær framkvæmdar eftir sem áður með tilheyrandi dómsmáli fyrir EFTA-dómstólnum. Við stóðum að fullu við þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar með því að hafna Icesave-samningunum og hefðum gert það jafnvel ef við hefðum tapað málinu (þótt þá hefði komið í ljós að ríkið hefði ekki staðið við þær skuldbindingar sem deilt var um, en það væri óháð samþykkt Icesave-samningsins). Maður er ekki skuldbundinn til að semja þegar maður er sakaður um að brjóta lög. Að láta reyna á dómstóla er í fullu samræmi við þjóðréttarlegu skuldbindinganna á sama hátt og að ákærður einstaklingur stendur að fullu við samfélagslegar og lagalegar skyldur sínar með því að neita að semja við saksóknara og láta reyna á dómstóla, jafnvel ef hann síðan reynist sekur um það sem honum er gefið að sök.
Sömuleiðis tel ég mjög langsótt að hún hefði verið hindruð á grundvelli fjárlaga-kvaðarinnar vegna þess að hún var ekki fjárlög, fjáraukalög eða skattalög, en að mínu mati er augljóst (kannski ekki fyrir öllum) að verið sé að tala um þau mál, sem eru nauðsynleg til þess að gangverk ríkisins haldi áfram. Málið er ekki að almenningur hafi ekkert vit á fjármálum ríkisins, heldur að þessi lög þurfa að vera til staðar til þess að yfirvöld geti fúnkerað yfirhöfuð - óháð fjárhag. Icesave hefði vissulega gert það að verkum að gera þyrfti ráð fyrir útgjöldunum í fjárlögum, væntanlega líka fjáraukalögum og skattalögum, og ekki hefði verið hægt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um þau fjárlög. En ef öll mál eru undanskilin sem hafa áhrif á fjárhag ríkissjóðs yfirhöfuð, þá augljóslega er ekkert hægt að beita ákvæðinu og þá gengur það í berhögg við gjörvallt markmið sitt. M.ö.o. finnst mér sú túlkun ekki alveg standast.
Hvað varðar OP3, þá er hann ekki til að framfylgja þjóðréttarlegum skuldbindingum heldur til að samþykkja þjóðréttarlegar skuldbindingar. Ég skoðaði þetta frekar vel því ég hafði sjálfur sömu áhyggjur í sambandi við það mál, en ég tel ómögulegt að líta á hann sem framfylgd. (Til að vera alveg nákvæmur, þá er þingsályktunartillagan um að samþykkja OP3 ekki framfylgd, en frumvarpið sem fylgir með, og útfærir þá samþykkt, er hinsvegar framfylgd og kæmi ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu, en það væri óþarfi ef þingsályktunartillagan væri tæk sjálf hvort sem er - enda þar um raunverulegu ákvörðunina að ræða sem kjósa þyrfti um.)
Hvað varðar þingsályktunartillögu vs. frumvarp í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá tek ég undir gagnrýni þína, en þess vegna kveður stefnutillagan einnig á um þingsályktunartillögur. Mér finnst þær þurfa að vera með og það hefur almennt verið niðurstaðan þegar við höfum rætt þetta innan flokksins í gegnum tíðina. En jafnvel að þetta gengi bara yfir frumvörp væri auðvitað risastökk fram á við, því það er ekki hægt að setja landslög með þingsályktunum þótt vissulega sé hægt að taka stórar ákvarðanir með þeim.
En jafnvel ef við gefum okkur að þetta væru raunveruleg vandamál með nýrri stjórnarskrá, eitthvað sem er alveg þess virði að skoða betur og pæla meira í, þá verður þetta mat í okkar eigin höndum þar til við fáum ákvæðið inn í stjórnarskrá. Ef skerpa þarf á hlutverki dómstóla og skýra betur orðalagið í lagatextanum er það alveg sjálfsagt, en það þarf ekki að gerast áður en við samþykkjum þetta sem stefnu hjá okkur.
Takk sömuleiðis fyrir góðar röksemdir og innsýn.
Ég held að þessi skoðanaskipti séu mjög gagnleg og sömuleiðis umræður á félagsfundinum um málið. Fagna þessari tillögu og mun styðja hana með þeim rökum að betra er að hafa þetta sem stefnu flokksins heldur en ekki, þrátt fyrir álitaefni um undanþáguákvæðin.
Pælingarnar um að þetta þurfi mögulega að skýra nánar eins og það birtist í frumvarpi að nýrri stjórnskrá styð ég líka og er jákvæður fyrir því að verði skoðaðar nánar í framhaldinu.
Tillagan er komin til atkvæðagreiðslu í kosningakerfinu: