Stefna um þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði 10% kjósenda

Hér er tillaga að stefnu um þjóðaratkvæðagreiðslur sem er hugsuð til að innleiða beint lýðræði inn í þingferlið okkar, í samræmi við ákvæðin í nýrri stjórnarskrá. Mig langar til að halda félagsfund og fá þetta inn í kosningakerfið sem allra fyrst, en hendi þessu hérna út til umræðu. Allar skoðanir og ábendingar vel þegnar!


Þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði 10% kjósenda

  1. Tíu af hundraði kjósenda geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarp eða þingsályktunartillögu sem er til umfjöllunar á Alþingi. Í slíkum tilfellum framfylgir þingflokkur Pírata kröfunni ýmist með sjálfstæðum tillögum um að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu eða breytingartillögum við tilheyrandi mál svo það taki ekki gildi nema þjóðin samþykki það fyrst í þjóðaratkvæðagreiðslu.

  2. Ávallt skal leitast við að þjóðaratkvæðagreiðslur samkvæmt þessari stefnu séu bindandi ef mögulegt er.

  3. Undantekningar og takmarkanir á rétti til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um þingmál skv. 1. gr. skulu einungis byggja á þeim sem finna má í frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár (grundvallaðari á frumvarpi stjórnlagaráðs).

  4. Að öðru leyti skal litið til frumvarps til nýrrar stjórnarskrár (grundvölluðu á frumvarpi stjórnlagaráðs) til leiðsagnar um álitamál sem varða þjóðaratkvæðagreiðslur.

Greinargerð

Markmið þessarar tillögu er að innleiða beint lýðræði í þingferli Pírata á meðan enn er beðið eftir því að ný stjórnarskrá, grundvölluð á frumvarpi stjórnlagaráðs, verði lögfest. Tillagan er byggð á nýjustu útgáfu frumvarps til nýrrar stjórnarskrár, sem má finna á þingskjali 822 á 149. löggjafarþingi (https://www.althingi.is/altext/149/s/0822.html) þegar þetta er ritað.

Í 66. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um málskot til þjóðarinnar, sem fjallar um rétt kjósenda til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem Alþingi hefur samþykkt, náist að safna undirskriftum 10% kjósenda. Takmarkanir á þeim rétti eru tilgreindar í 68. gr., t.d. hvað varðar fjárlög, fjáraukalög, lög sem eru sett til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum, skattamál og veitingu ríkisborgararéttar.

Ýmis dæmi eru um að undirskriftir gegn máli til meðferðar á Alþingi nái slíkum fjölda. Dæmi eru Icesave-málin, þingsályktunartillaga um að hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið án þjóðaratkvæðagreiðslu og kvótasetning makríls.

Aftur á móti er ekkert ákvæði í gildandi stjórnarskrá sem heimilar þjóðaratkvæðagreiðslu um einstaka þingmál nema fyrir atbeina forseta lýðveldisins. Því hafa slíkar undirskriftasafnanir almennt ekki leitt til þjóðaratkvæðagreiðslu, nema í þeim tilfellum sem forseti lýðveldisins hefur einnig hafnað lögum sem Alþingi hefur samþykkt, eins og í Icesave-málunum. Aftur á móti hefur rökstuðingur forseta lýðveldisins breyst mjög milli mála, enda ýmsar aðstæður sem hafa áhrif á afstöðu hans, og því hafa borgarar enga fyrirsjáanlega leið til þess að kalla fram pólitískan stuðning við að þjóðaratkvæðagreiðsla eigi sér stað. Þess í stað hafa stjórnmálamenn karpað sín á milli um það hvaða mál þeir telji að eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu en fara þá jafnan einungis eftir sinni eigin pólitísku sannfæringu, frekar en ákalli hinna endanlegu valdhafa, kjósenda sjálfra.

Árið 2019 voru greidd atkvæði um tillögu meðal Pírata um hvort ætti að setja orkumálastefnu Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu og var henni hafnað. Við meðferð tillögunnar, en ekki síður eftir að niðurstaðan lá fyrir, voru umræður um forsendur hennar og hvenær og undir hvaða kringumstæðum, á hvaða forsendum og með hvaða skilyrðum skuli halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvaða mál. Með öðrum orðum: hvernig eigi að velja málin sem eiga heima í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ýmsar mismunandi forsendur voru nefndar, sumar í andstöðu við hvora aðra, t.d. skoðanakannanir, gæði upplýsinga um málið (eða skortur þar á), eðli málsins, sérstaða orkumála, fjöldi undirskrifta gegn málinu og ýmislegt fleira.

Það er eðlilegt að óeining ríki um hvort halda skuli þjóðaratkvæðagreiðslu á hverjum tímapunkti eða ekki. Það er hinsvegar mjög óheppilegt að ferlið sem er notað til að taka þá ákvörðun sé óskýrt eða ekki til staðar yfirhöfuð. Afleiðingin er sú að enn ríkir ósætti um málsmeðferðina, jafnvel þegar niðurstaða liggur fyrir um hvort halda skuli þjóðaratkvæðagreiðsu eða ekki. Sú staða grefur undan tiltrú á beint lýðræði og gerir hinn eðlilega ágreining um niðurstöðuna að ágreiningi um málsmeðferðina.

Besta leiðin til að ráða bót á þessu er með því að koma á fót skýrum, fyrirfram þekktum skilyrðum fyrir því hvenær Píratar leggja til þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál og er það lagt til með þessari tillögu.

Frá upphafi hefur stefna Pírata verið að innleiða beint lýðræði með nýrri stjórnarskrá og því liggur beinast við að nýta það góða plagg til leiðsagnar.

Ný stjórnarskrá gerir ráð fyrir því að hún sé hluti af löggjafarferlinu og því er ekki hægt að afrita beint texta frumvarpsins inn í þingferli Pírata. Sem dæmi gerir ný stjórnarskrá ráð fyrir því að þjóðaratkvæðagreiðsla fjalli um lög sem þegar hafa verið samþykkt, meðan Píratar geta einungis lagt til þjóðaratkvæðagreiðslu áður en mál er samþykkt eða tekur gildi. Því er leitast við að setja á fót ferli sem endurspeglar markmið og verkun málskotsákvæðis nýrrar stjórnarskrár hvað best, helst þannig að almenningur geti leitað til frumvarps um nýja stjórnarskrá og skilið hvaða skref þurfi að taka til að Píratar bregðist við með tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Með samþykkt þessarar tillögu verður það ekki lengur bara stefna að innleiða beint lýðræði með nýrri stjórnarskrá, heldur verður beint lýðræði hluti af verkferli flokksins út frá sömu skilyrðum og takmörkunum sem finnast í nýrri stjórnarskrá.

Tillagan er lögð fram með tilvísun í grunnstefnuliði Pírata:

  • 6.1 Píratar telja að allir hafi rétt til að koma að ákvarðanatöku um málefni sem varða þá.
  • 6.2 Réttur er tryggður með styrkingu beins lýðræðis og eflingu gegnsærrar stjórnsýslu.
  • 6.3 Píratar telja að draga þurfi úr miðstýringu valds á öllum sviðum og efla þurfi beint lýðræði í þeim formum sem bjóðast.

Tillagan byggir einnig á eftirfarandi ályktunum Pírata:

5 Likes

Mjög áhugaverg! Væri til í að ræða þetta á félagsfundi við tækifæri :slight_smile:

1 Like

Mér finnst þetta við fyrst sýn og lestur einstaklega vel unnin tillaga og sé enga hnökra á henni fljót á lítið (gæti fundið eitthvað seinna) og langar bara til þess að þakka þér fyrir þessa vinnu @helgihg og undirstrika þetta sérstaklega og mikilvægi þess að þetta verði unnið við fyrsta tækifæri og vel kynnt:

1 Like

Mér lýst almennt séð vel á þessa tillögu, spurning hvort það sé eitthvað tekið fram um gagnsæi slíkra undirskriftarsafnana? Þá meina ég að fjöldi undirskrifta sé öllum opinn, að möguleiki sé fyrir einstaklinga að komast að því hvort það sé búið að skrá þá í þeirri undirskriftarsöfnun(svo ekki sé hægt að skrá fólk í þeirra óþökk), og sömuleiðis að það sé innbyggð auðkenning á fólki, svo ekki sé hægt að skrá það í þeirra óþökk.

Þessi tvö síðustu skarast á, og væri annað hvort nægjanlegt þótt þetta síðara væri vissulega betra.

@asmundur90: Ég hugsaði aðeins út í útfærslu undirskriftasöfnunar en sé ekki ástæðu til að tilgreina það sérstaklega fyrr en þetta er orðið hluti af lagasetningarferlinu sjálfu. Ef það kæmu upp einhverjar verulegar efasemdir um að undirskriftasöfnun væri lögmæt, þá myndum við bara reyna að komast sem mest til botns í því, en þá væntanlega láta lögmæti þeirra njóta vafans.

Þessi leið er í eðli sínu til bráðabirgða. Það þyrfti alltaf meirihluta Alþingis að samþykkja tillögu okkar um þjóðaratkvæðagreiðslu hvort sem er. Það er t.d. hluti af því sem við þurfum að búa við, sem væri ekki til staðar ef ný stjórnarskrá hefði þegar verið innleidd, en þegar við erum komin með þetta ákvæði í stjórnarskrá þyrfti ekki lengur meirihluta Alþingis til að heimila þjóðaratkvæðagreiðslu, en þá þyrftu lögin um undirskriftir aftur á móti að vera skýr.

1 Like

@asmundur90 ég tek undir með @helgihg. Það er engin ástæða til þess að fara setja þannig pælingar inn í þessa tillögu Pírata á þessum tímapunkti. Heldur þvert á móti þætti mér það furðulegt ef það yrði gert núna. En auðvitað gott að velta þessu fyrir sér og hafa skoðun.

Svo ljómandi gott hjá þér Helgi að vinna í þessu.
Hef efasemdir um 10% markið. Held það sé of lágt. Það eru til svo margir tækifærissinnar og aðrir vitleysingar í þessum heimi sem vilja hræra í hinum bestu málum, sbr. mál sem núna er í umræðunni fyrir allt nema réttar sakir.

Held að ef markið er svona lágt þá verði meiri ófriður um hin ýmsu mál en ástæða er til. Fyrir almenning er óþægilegt að þurfa að takast á við þá sem vilja rugga bátnum til að forðast það að umræðan afvegaleiði annað gott fólk. Ef markið er lágt þá freystast margir til að reyna að hræra í fólki.

20% finnst mér jafnvel heldur lágt en þori ekki að nefna hærri tölu.
Veit að þú vilt halda þig við tillögu Stjórnlagaráðs sem er vel skiljanlegt, en vildi sem sagt koma þessu að.

Að ná ~ 25.000 eða ~50.000 þúsund undirskriftum (jafnvel innan ákveðins tímaramma) telst vart auðvelt verk og það þarf samhent átak kraftmikils hóps af vel mótivautuðu fólki. Hópurinn þarf samt ekkert að vera mjög stór.

Beint lýðræði gengur einmitt út á það að rugga bátnum og það var einmitt fólkið sem reis upp og ruggaði bátnum og prófaði eitthvað nýtt sem færði okkur lýðræði til þess að byrja með, sem var og er langt frá því að vera ágalla eða áfallalaust. En hefur þó þróast töluvert frá því í forðum daga og mótast á jákvæðan hátt - eins og t.d hvað varðar kosningarétt fólks. Ég tel að rökréttasta næsta skref sé að færa okkur úr fulltrúalýðræði og notast við blandað kerfi. Svo myndi ég vilja sjá seinna einskonar almennings deild á Alþingi líka. Þar sem allir borgarar þyrftu jafnvel að sinna einhverjum skyldum tímabundið yfir ævina. ( Lengri og önnur umræða en slæ þessu hérna inn)

@gauisig Ef þú með einhverja aðrar tillögur endilega vertu óhræddur við að nefna þær við erum hérna til þess að skiptast á skoðunum sem er akkúrat ein af skemmtilegri hefðum lýðræðis.

Svo er til fólk sem er bara ekkert hrifið af lýðræði og finnst t.d. meritocracy vera eitthvað sem við ættum að stunda meira af.

1 Like

Þessi tillaga er góð svo langt sem hún nær. Hins vegar þá má deila um af hverju þarf að hafa þetta 10%. Sú tala þýðir að það þarf um 20.000. Til að ná þeim fjölda þarf mikið skipulag, fjármagn og fjölda fólks í öllum kjördæmum og öllum bæjum. Miðað við reynslu mína af því að ná þessum “fáu” undirskriftum fyrir Pírata fyrir síðustu kosningar þá þarf heilmikið til. Með þessari tölu er verið að sigta frá nánast öll þau mál sem ekki eru á borði stjórnmálaflokka eða fjársterkra aðila, kannski sést það skýrt nú í umræðu um 3O. þar sem nánast enginn stórmálaflokkur hefur tekið að sér að safna undirskriftum. (Ekki einu sinni Miðflokkurinn).

Sjálfsprottin áhugi einstaklinga eða hópa fólks sem hefur brennandi áhuga á að koma á eða forða einhverju máli er, myndi ég telja, sjálfdautt verði þetta viðmiðið. Með þeim breytingum sem eru að eiga sér stað í veröldinni finnst mér, andstætt sumum að við ættum frekar að hleypa fólki að heldur en að letja það. (Nefni Gretu Thunberg sem dæmi).

Ég er svo sem ekki með beina tillögu að breytingu en nefni 5 %, sem þýðir um 10.000, svo mætti koma með víðara samhengi félagssamtaka? Forsetinn er líka möguleiki, einnig að einhver ábyrg nefnd myndi samþykkja, (landsótt) og síðan er hægt að að binda þetta við tölu fólks úr hverju kjördæmi segjum sem dæmi 1000 úr hverju sem skrifa undir sem þýðir þá um 6.000 í allt en þar kemur þá fram samhljómur margra og víða að. En það sem ég er að burðast með er að sum mikilvæg og knýjandi mál þurfa að fara fyrir þjóðina þó svo að andstaðan við þau sé mikil.

10% er bara tekið úr drögum stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá. Þetta eru sirka 25.000 manns í dag (plús mínus þúsund).

Mér finnst reynslan einmitt sýna hvað þetta sé heppileg tala. Það er átak að ná þessu en það hefur margsinnis náðst. Icesave, ESB-uppsögninni, kvótasetningu makríls, til dæmis.

Ég sé allavega alls ekki ástæðu til að hækka þessa prósentu. Miklu frekar að lækka, en mér finnst langeinfaldast að taka þetta bara úr frumvarpi stjórnlagaráðs. Það er leiðsögnin sem við höfum nú þegar úr því að hafa í gildandi stefnu að taka hana upp.

1 Like

10% talan er í samræmi við nýju stjórnarskránna, og er ágætt fyrsta skref, þó svo langtíma markmið gæti verið önnur tala.

Þá erum við ekki heldur sett í þá stöðu að það sé ósamræmi milli þeirrar stefnu og þeirrar stefnu að taka efnislega upp nýju stjórnarskránna án mikilla breytinga. Hún er málamiðlun og endapunktur mikillar vinnu ólíks fólks.

Þetta er tala sem auðvelt er að ná samstöðu um í þjóðfélaginu öllu, bæði töluverð bragarbót frá því sem nú er, en líka ekki hlaupið að því að virkja ákvæðið, svo fólk sem óttast að þetta verði ofnotað getur sofið rótt.

Þetta er svo mikil grundvallarbreyting á samfélagssáttmálanum að mér amk. finnst gott að ná fyrst niðurstöðu sem sem stærstur hluti þjóðfélagsins getur sæst á, og taka svo í framhaldinu afstöðu til hvort eigi að ganga lengra og þá hversu langt.

En meina, 10% er frekar solid upphafspunktur amk.

1 Like

Af því þú nefnir að 10% sé of lágt, undirskriftarlisti Orkunnar Okkar hefur bara náð 16 þúsund undirskriftum skv. frétt á wwwr.ruv.is frá því í dag, sem er enn talsvert frá 10% markinu. Þannig þetta mál sem þú tekur sem dæmi er í rauninni ekki dæmi máli þínu til stuðnings, heldur þvert á móti.

á kjörskrá í alþingiskosningum 2017 voru 248.502, þannig 10% talan er nær 25 þúsund ekki 20 þúsund.

Allt gott og blessað en mig vantar umræðuna, innan um annars ágætar skoðanir, hvort að það sé ekki réttara að hafa það þannig að það eigi að vera frekar, nokkuð, sæmilega, auðvelt, eða annað lýsandi orð yfir þann galla að það sé nánast ekki gerlegt nema fyrir stjórnmálaflokka og fjársterk öfl að leggja fyrir þjóðina knýjandi mál. Þá með vísun í heim á hverfandi hveli.

https://samradsgatt.island.is/Skrar/$Cases/GetAdviceFile/?id=66234182-92b3-e911-9453-005056850474

1 Like

Áhugaverð skýrsla, takk! @bofs

1 Like

Það er búið að boða til félagsfundar til að setja þetta inn í kosningakerfið. Þið sáuð væntanlega fundarboðið í tölvupósti í gær. :slight_smile:

Hér er ég ekki sammála Jason.

Hér til dæmis fengust 57 þúsund undirskriftir á 13 dögum.

Ef það er ekki gerlegt, þá hefur fólk kannski ekki nægan áhuga á því málefni.

2 Likes

Einhvern veginn tekst þeim þetta í Sviss og Bandaríkjunum, og þar eru það oft samtök sem standa fyrir undirskriftasöfnun, en alls ekki alltaf.

1 Like

Þeim sem til mín þekkja ætti ekki að koma neitt á óvart sem hér á eftir kemur. Fyrir hina sem ekki þekkja til mín er rétt að gera grein fyrir því “hvaðan ég kem” í þessu máli. Árið 2011 stóð ég ásamt fleirum að undirskriftasöfnun til að skora á Forseta Íslands að skrifa ekki undir lög um ríkisábyrgð vegna Icesave þannig að þau færu í þjóðaratkvæðagreiðslu á grundvelli 26. greinar stjórnarskráinnar. Forsetinn varð við þeirri áskorun en þetta var í annað sinn sem slíkt gerðist, í fyrra skiptið var það líka um Icesave en þá í tilefni af undirskriftasöfnun sem Indefence hópurinn stóð fyrir. Skemmst er frá því að segja að í báðum tilfellum var ríkisábyrgð hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu og síðar staðfesti EFTA-dómstólinn að það hefði verið hin lagalega rétta niðurstaða, enda er slík ríkisábyrgð almennt bönnuð í EES.

Að þessu sögðu vík ég næst að þeirri tillögu sem hér er til umræðu. Ég tek undir það sem komið hefur fram í öðrum athugasemdum hér, að tillagan er vönduð og virðist engum formlegum annmörkum bundin. Aftur á móti er ég efnislega alfarið á móti ákveðnu atriði hennar en það er 3. töluliðurinn:

Samkvæmt 1. mgr. 67. gr. frumvarps til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands (þskj. 510 - 415. mál, 141. löggj.) er gildissvið ákvæða þess um þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu 10% kjósenda, þrengt þannig að á grundvelli þeirra sé ekki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um:

  • fjárlög,
  • fjáraukalög,
  • lög sem eru sett til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum
  • [lög um] skattamálefni
  • [lög um] ríkisborgararétt.

Hefðu þessi ákvæði verið í gildi þegar Icesave málið kom upp, hefðu þau reynst gagnslaus til að knýja fram þjóðatkvæðagreiðslu um málið og hefði því hvort sem er þurft að reiða sig á að Forsetinn beitti málskotsrétti sínum. Ástæða þess er ekki aðeins sú að málið varðaði ríkisábyrgð og þar með fjárlög/fjáraukalög, heldur einkum að flutningsmenn málsins og fylgjendur þeirra héldu því staðfastlega fram að það væri nauðsynlegt til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum samkvæmt EES-samningnum, jafnvel þó það væri kolrangt eins og EFTA-dómstóllinn staðfesti síðar. Sambærileg staða er uppi á teningnum varðandi nýlegt mál um svokallaðan Orkupakka sem er auðvitað haldið fram að sé nauðsynlegt að innleiða til að uppfylla þjóðréttar skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningum (án tillits til þess að ekki hefur verið látið reyna á undanþágu frá þeirri skyldu á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar). Auk þess er sú innleiðing í formi þingsályktunar sem er ekki einu sinni hægt að leita á náðir Forseta með samkvæmt 26. gr. núgildandi stjórnarskrár (sbr. 60. gr. fyrrnefnds frumvarps til stjórnskipunarlaga).

Af þessari fengnu reynslu er ljóst að með því að setja slíkar takmarkanir fyrir því hvaða mál megi krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um, yrði alltaf sú hætta fyrir hendi að stjórnvöld á hverjum tíma sem gætu viljað koma einhverju máli til leiðar þvert gegn vilja kjósenda, reyndu að sniðganga þessa öryggisventla með því að setja málið í þann búning að það falli undir einhvern af undanþáguliðunum og í búning þingsályktunar svo ekki sé heldur hægt að leita á náðir Forseta um að beita málskotsrétti. Þessi hætta er hvorki ímynduð né fjarlæg, heldur raunveruleg og nærtæk, eins og framangreind dæmi sanna. Þetta þarf ekkert að vera flókið, ef ég væri ráðherra í ríkisstjórn sem vildi t.d. færa í lög eitthvað óhugnanlegt eins og skerðingu á prentfrelsi, gæti ég einfaldlega fundið eitthvað heppilegt mál um innleiðingu EES-tilskipunar og hengt viðkomandi ákvæði aftan við það (e. piggybacking).

Enn fremur eru undanþáguákvæðin haldin þeim alvarlega galla að hvergi í þeim eða annars staðar í fyrrnefndu frumvarpi kemur fram hver eigi að skera úr um hvort að tiltekið mál sé tækt eða ekki í slíka þjóðaratkvæðagreiðslu, eða hvort það falli undir einhverja af undanþáguliðunum, sem býður upp á sömu hættuna. Ef þetta hefði t.d. verið í gildi þegar Icesave málið kom upp hefðu Samfylkingin og VG einfaldlega skipað einhverja nefnd og gætt þess að meirihluti fulltrúa í henni væru þeim þóknanlegir, þannig að þeir myndu úrskurða á þann veg að málið væri ekki tækt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég er ekki tilbúinn að treysta því að á hverjum tíma verði sitjandi stjórnvöld og/eða Forseti sem hafa áhuga á að hlusta á vilja kjósenda, en það er einmitt í slíkum tilfellum sem helst gæti reynt á umrædd ákvæði. Þess vegna legg ég til að 3. töluliður tillögunnar verði felldur brott.