Stefnumótun: Breytingar á framlagðri stefnu

Nú hefur verið lögð fram tillaga að stefnu sem er ágætlega unnin. Nálgunin er góð og starfið þarft, en einstaka atriði í henni hafa fengið gagnrýni sem væri í sjálfu sér ekkert mál að bregðast við.

Nema, vegna þess að stefnumótunarferlið okkar gerir það pínu óþjált og því er hér lögð fram til umræðu smá pæling um hvernig við getum breytt ferlinu okkar þannig að það geri betur ráð fyrir breytingum á tillögum eftir að hún er lögð fram í kosningakerfinu.

Aðeins um núverandi stefnumótunarferli, svo við byrjum öll á sömu blaðsíðu. Í dag er stefnumótunarferlið í reynd þannig að einhver aðili skrifar niður tillögu, og getur gert það á þann hátt sem þeim sýnist (má vera bara eitthvað Word skjal einhvers staðar, til dæmis). Þegar aðilinn telur sig hafa eitthvað að ræða við aðra, boðar hann til félagsfundar. Sá félagsfundur getur vísað tillögunni inn í kosningakerfið. Allur gangur er á því hversu mikla fundavinnu hvert mál fær, og í þessu tilfelli fékk tillagan alveg þó nokkra fundavinnu (sem reyndar virðist hafa farið framhjá ýmsum, sem er líka frekar algengt, en efni í aðra umræðu). Þegar þeim aðilum sem unnu að henni þótti hún nógu vönduð, lögðu þeir hana fram í kosningakerfinu og allt í góðu með það.

En SÍÐAN koma ábendingar, einungis eftir að málið er komið í kosningakerfið og þá vandast málið aðeins. Tillögur fá heila viku til umræðu í kosningakerfinu, áður en atkvæðagreiðsla hefst, en þó er engin formleg leið fyrir flutningsmenn að bregðast við ábendingum, nema með því að draga tillöguna til baka, innleiða breytingarnar og leggja hana aftur fram.

Það er alltaf ákveðin feimni við slíkt og kannski eðlilega. Þegar flutningsmaður er beðinn um að draga tillögu til baka er hætt við að hann upplifi það sem svo að hann ýmist hefði aldrei átt að leggja hana fram til að byrja með, eða eigi að hætta við hana. Reyndin er hinsvegar að þetta er eina leiðin til að breyta tillögunni þegar hún er fram komin (eftir því sem ég best skil lögin okkar).

Annað, er að ef tillagan er dregin til baka og lögð aftur fram breytt, að þá þarf aftur heila viku af umræðu sem flutningsmaður veit ekkert fyrirfram hvort að verði ekki bara nákvæmlega eins. Frá sjónarhorni flutningsmanns getur þetta því verið óttalegt vesen í skásta falli, en í versta falli frekar óþolandi.

Ein einföld leið til að laga þetta, sem mig langar gjarnan að heyra fleiri sjónarmið um, er að við einföldum þetta þannig, að flutningsmanni sé heimilt að breyta tillögunni sinni alveg fram að atkvæðagreiðslu. Það er í rauninni eina lagabreytingin sem þyrfti. Þá gæti flutningsmaður tekið tillit til þeirra athugasemda, jafnvel fengið aðstoð við breytingar, og allt slíkt, án þess að tapa neinum tíma eða þurfa að gera neitt sérstakt til að halda málinu sínu áfram. Ef hann myndi síðan ekki taka nægt tillit til þeirra væri tillagan væntanlega felld, þannig að flutningsmaður myndi þurfa að meta sjálfur til hvaða athugasemda hann vildi taka tillit til og hverra ekki.

Sjáið þið einhverja augljósa annmarka á því að breyta stefnumótunarferlinu okkar á þennan veg?

7 Likes

Skynsemisbreyting. Drífa í þessu.

Mér lýst vel á þetta, sérstaklega ef það er tæknilega mögulegt fyrir flutningsmann að opna textaeditor og breyta á x.piratar, eftir breytingu kæmi merki um að tillögunni hafi verið breytt. Er eitthvað slíkt tæknilega mögulegt?

2 Likes

Hljómar mjög skynsamlega

Ég sé þetta þannig fyrir mér, já. Einnig, hvað varðar kommentin, þá yrði bara aðskilið með skýrum hætti hvaða komment voru sett inn áður en atkvæðagreðislan hófst og hvað kom eftir hana.

Þetta er vandamál af tæknilegum ástæðum, ekki vegna laga félagsins. Kosningakerfið eins og það er núna býður ekki upp á breytingatillögur af neinu merkingarbæru tagi, en regluverkið segir ekkert um að ekki sé hægt að leggja fram breytingatillögur. Þvert á móti gerðum við upphaflega ráð fyrir að svo yrði. Þetta mál er í raun algjörlega hliðstætt því að þurfa að leggja fram “heila” stefnu til að breyta tiltölulega litlum atriðum í stefnumálum sem þegar eru til staðar. Flest vandamálin við það - m.a. það stærsta, að alltaf er aðeins um að ræða samþykkt eða synjun í heild, en ekki að neinum hluta - haldast í raun með þessu.

Ég geri athugasemdir við þetta sem breytingu til langframa. Sem tímabundin breyting er þetta ágætis lausn, en þá vona ég að stefnan verði sett á að kosningakerfið taki loksins upp breytingatillögur eins fljótt og auðið er. Ekki er þörf á neinni lagabreytingu. Umræðutímabilið sem notast er við í kosningakerfinu er ekki bundið í lög félagsins, og ekkert er tekið fram um mögulega meðferð stefnumáls í kosningakerfinu - meðal annars hvort tillagan verði að fara óbreytt til atkvæðagreiðslu þar. (Þetta kerfi er einn gallaðasti hluti laga Pírata, og er meðal þess sem ég hef alla tíð viljað skýra til muna.)