Tæknilegir innviðir í boði fyrir aðildarfélög

Ég vildi vekja athygli á því að tæknilegir innviðir félagsins bjóða aðildarfélögum upp á sín eigin svæði þar sem þau geta haft aðgang að félagatali, kosningakerfi og rafrænni skrifstofu (skjalageymsla með aðgangsstýringu).

Félagatalið
Félagatalið býður t.d. upp á að senda póst á alla meðlimi án þess að sá sem sendi póstinn komist í tæri við persónugögn eins og netfang. Ennfremur eru allar uppflettingar á meðlimum skráðar til að tryggja að ekki sé verið að skoða persónugögn að óþörfu eða í heimildarleysi.

Kosningakerfið
Aðildarfélög hafa einnig sín eigin svæði í kosningakerfinu og geta notað það til að setja inn eigin ályktanir eða kosningar um fólk.

Rafræn skrifstofa
Skjalageymsla með aðgangsstýringu (Nextcloud) er í boði á https://office.piratar.is. Þar er hægt að setja inn skjöl sem er þá deilt með meðlimum eða stjórnendum félags, starfshópi, nefnd eða ráði eða hverju eina sem þörf er á. Einnig er það heppilegt til að deila skrám með vefslóð, sem er heppilegt ef deila þarf einhverjum gagnapökkum sem er óráðlegt eða ómögulegt að senda með tölvupósti.

Þau aðildarfélög sem hafa áhuga á að nýta sér eitthvað af þessu geta haft samband við framkvæmdastjóra á framkvaemdastjori@piratar.is. Framkvæmdastjóri reddar síðan tæknilegri aðstoð eftir þörfum, hvort sem það er til að laga eitthvað sem klikkar eða aðstoða við notkun.

2 Likes