Þrýst verði á forseta að skipa óháðann dómsmálaráðherra?

Eru forsendur fyrir að fara fram á að Guðni Th. forseti skipi nýjan og óháðan dómsmálaráðherra, og ættu það þá fremur að vera almennir píratar fremur en þingmenn/þingflokkur Pírata sem fram á það færu? Myndu tillögur þannig skipaðs ráðherra fá framgang á þingi?

Ég tel almenning ekki munu treysta nýjum dómsmálaráðherra úr þeim flokki sem lengst hefur verið við stjórn á Íslandi, og lengst hefur verið með embættið innan sinna raða sökum þeirra stöðu sem nú er uppi. Þetta byggi ég m.a. á þeirri óvissu sem verið hefur um lögmæti Landsréttardómara, dóma þeirra og magnast hefur við úrskurð MDE. Einnig byggi ég þetta á því viðnámi sem sá flokkur hefur viðhaft við tillögum um óháða stofnun sem rannsaki hugsanleg brot lögreglu og veiti henni viðhald. Það nýjasta þar er framganga lögreglu á Austurvelli 11. mars s.l.og svo framganga lögreglu gagnvart handteknum mótmælanda sem sbr. viðtal í Stundinni lýsir þessu:
"„Mér var sagt að ég mætti ekki hringja í lögfræðinginn minn. Þeir sögðust ætla gera það. Þeir spurðu mig ekki hvað hann hét fyrr en tvemur til þremur tímum seinna,“ segir Elínborg. Lögreglan tilkynnti Elínborgu ekki u að hún mætti hringja í aðstandanda. Móður Elínborgar var tilkynnt þegar hún kom niður á lögreglustöð að Elínborg vildi ekki tala við hana fyrst hún væri ekki búin að hringja í hana. "

Gæti forseti, ef hann mæti svo t.d. sökum kröfu almennings, skipað dómsmálaráðherra í óþökk flokksins, og myndi alþingi veita tillögum hans brautargengi? Væri svo skynsamlegra að almennir píratar krefðust sliks fremur en þingflokksmenn sökum mögulegra eyðingarorða um stjórnarandstöðutal?

1 Like

Held ekki að forseti geti gert þetta miðað við hvernig stjórnarskráin er túlkuð í dag, þó vissulega standi að ráðherra starfi í umboði hans.

Snæbjörn, hvað er það í stjórnarskrá sem fólk túlkar þannig að forseti geti ekki gert slíkt? Er það sú túlkun á 1. og 2. gr. stjórnarskrár að í því felist að þing ákveði hvaða flokkar myndi ríkisstjórn með því að flokkar semji sín á milli um meirihluta, oddvitar viðkomandi ákveði síðan hverjir verði ráðherrar, tilkynni það á þingflokksfundi og til forseta sem skipi ráðherra í samræmi? Er ekki ýmsar gjörðir forseta í andstöðu við skilning ýmissa á heimildum hans dæmi um að venjur samræmist ekki endilega stjórnarskrá og að forseti þurfi ekki að fylgja hefðum segi stjórnarskrá annað?

“1. gr. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.
2. gr. Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.”

Ég held að hann geti þetta og við ættum að krefjast þess af honum, líkt og með málskotsréttinn, sem var talinn óvirkur þar til forveri hans virkjaði hann.

1 Like

Til viðbótar bætist hvort forseti geti neitað að bæta við ráðherraembætti og skyldum dómsmálaráðherra, þ.m.t. að vinna úr dómara- og dómsstólaflækum m.m. sem hafa og nú eru uppi, á ráðherra sem fyrir fer með ráðherraembætti langstærstu útflutningsgreinarinnar, ferðamála, auk næststærstu útflutningsgreinarinnar iðnaðar og nýsköpunar. Mig grunar að hann muni staldra við amk og ekki skipa ráðherrann að svo stöddu. En Hallgrímur, þér sýnist ekkert í stjórnarskrá hindra forseta í að velja sjálfur dómsmálaráðherra?

Mér líst ekkert á það.

  1. Völd forsetans samkvæmt stjórnarskrá í dag eru ekki lýðræðisleg og einkennast af valdasamþjöppun. Þau eru þarna vegna þess að stjórnarskráin okkar er arfleifð konungsríkis.

  2. Nú vænti ég að þessi tillaga komi til vegna þess að Guðna forseta er treyst þokkalega vel, en alltaf þegar við látum stjórnmálamann nýta vald sem áður hefur ekki verið nýtt, þá verðum við líka að hugsa út í þær aðstæður að einhver komist í embættið sem við treystum engan veginn. Besta dæmið um þetta er valdið sem forseti Bandaríkjanna hefur fengið smátt og smátt í gegnum tíðina, í hvert sinn vegna þess að sitjanda forseta hverju sinni var treyst fyrir því tiltekna valdi. Síðan varð Donald Trump forseti Bandaríkjanna. Ef álíka drullusokkur og kálhaus kæmist í forsetastóla á Íslandi (sem er ekkert meira útilokað hér heldur en vestanhafs), myndum við vilja að hann færi að setja „óháða“ ráðherra án atbeina þingsins?

  3. Vel á minnst, því ríkisstjórn þarf að starfa í umboði þingsins, eða eins og það er orðað á fræðimáli, að „þingið þarf a.m.k. að þola ríkisstjórnina“. Það er ákveðið grundvallaratriði í stjórnskipaninni.

  4. Það eru ekki til óháðir ráðherrar. Ráðherrar þurfa að taka rammpólitískar ákvarðanir á hverjum einasta degi og það skiptir máli að pólitísk afstaða hans liggi fyrir fyrirfram. Ópólitískur ráðherra er eins og rútubílstjóri án áfangastaðar. Þetta er pólitísk staða.

  5. Ráðherrar, jafnvel ef „óháðir“, eru samt háðir flokkunum í ríkisstjórn til áframhaldandi setu. VG og Sjálfstæðisflokkur eru á sitthvorum endanum á vinstri-hægri skalanum en verja samt hvorn annan vegna þess að þeir hafa sameiginlega hagsmuni af því að halda ríkisstjórninni saman. „Óháður“ ráðherra hefði nákvæmlega sömu hagsmuni og hver annar ráðherra í sitjandi ríkisstjórn.

Það sem væri langbest, væri ef stjórnarmyndunarferlið sem er ákvarðað í nýrri stjórnarskrá væri tekið upp, en þá kýs þingið forsætisráðherra og forsætisráðherra skipar ráðherra. Þetta skýrir ábyrgðina á því hver beri ábyrgð á hverjum ráðherra, nefnilega forsætisráðherra.

Í dag er þetta alger hringavitleysa og í rauninni alfarið ákveðið samkvæmt þeirri hefð að þeir flokkar sem samþykkja að mynda meirihluta þingsins skipta niður með sér ákveðnum stólum, t.d. að Sjálfstæðisflokkurinn fær dómsmálaráðuneytið, en síðan er það formaður Sjálfstæðisflokksins sem ákveður hver verði ráðherra. Þannig að forsætisráðherra bendir á formann Sjálfstæðisflokksins sem bendir á þingflokkinn sem bendir á forsætisráðherra. Formlega er það síðan forseti lýðveldisins sem (af konungshefðarlegum ástæðum) ber formlega ábyrgð á öllu havaríinu þótt allir viti að það sé tóm vitleysa, en samt eiginlega líka forsætisráðherra, en samt ekki, en samt og samt ekki. Þetta er raunverulega vandamálið: ábyrgðin er óskýr og í reynd óskilgreind.