Heilbrigðiskerfið
Málefnavinna Píratar
Greta Ósk og Indriði.
Tillaga að kosningastefnu
Gerum langtímaáætlun í heilbrigðismálum með forvarnir, velferð sjúklinga og þjónustuþega að meginmarkmiði. Mannúðlegt viðmót og nærgætni séu í fyrirrúmi í heilbrigðiskerfinu og sjúklingurinn njóti ætíð vafans. (ekki fjármál og kostnaður). Heilbrigðisáætlun skal vera í takt við aðrar langtímaáætlanir ríkisins.
Heilbrigðisþjónusta verði öll gjaldfrjáls utan komugjalds. Gildi það einnig um meðferðir sem fólk þarf á að halda heilsu sinnar vegna og lyfjakostnað vegna langvinnra sjúkdóma.
Í heilbrigðisáætlun skal leggja línur um rekstrarform heilbrigðisþjónustu.
Heilbrigðisáætlun skal ná til stoðaðila við heilbrigðisþjónustu, svo sem sjúkraflutninga, slökkviliðs, björgunarsveita, neyðarlínu og þyrluþjónustu.
Auka á þjónustu við landsbyggðina, sjálfstæði rekstrareininga og gagnsæi í málefnum tengdum heilbrigðisþjónustunni.
Stofnað verði embætti umboðsmanns sjúklinga sem verði upplýsingamiðlari og þjónustuaðili fyrir sjúklinga, ásamt því að aðstoða og leiðbeina varðandi réttindi fólks og veiti kerfinu aðhald fyrir hönd sjúklinga og þjónustuþega.
Sjúklingur skuli eiga rétt á að fá óheftan aðgang að upplýsingum um greiningar, meðferðarúrræði og val á meðferðarúrræðum.
Þjónustuþegar heilbrigðisþjónustu skulu vera þátttakendur í eigin meðferð og njóta bæði jafnræðis og valfrelsis um meðferðarúrræði og ávallt hafa rétt til að leita álits annars sérfræðings.
Gerum tannlækningar gjaldfrjálsar sem sjálfsagðan hluta af heilbrigðisþjónustu.
Niðurgreiða skal sálfræðiþjónustu og viðurkenndar samtalsmeðferðir til að tryggja besta mögulega aðgengi.
Leyfi og niðurstöður lyfjastofnana annarra Norðurlanda varðandi leyfisskild lyf ættu að fást í íslenskum apótekum. Stuðla skal að aukinni samkeppni á lyfjamarkaði þjónustuþegum í vil.
Hvetjum til stöðugrar símenntunar og endurmenntunar fólks sem vinnur við heilbrigðisþjónustu.
Sjúkraskrár skulu varðveittar ótímabundið. Sjúklingar eiga rétt á að vita hver hafi aðgang að sjúkraskrám um sig, hvort verið sé að nota gögnin í rannsóknir og hvort gögnin séu rekjanleg. Tillaga að breytingu: Að taka eftirfarandi út: Ef sjúklingur fellur frá getur maki eða nánasti ættingi fengið aðgang að sjúkraskrá hans. Setja í staðinn: Að sjúklingur ráði sjálfur hver hafi aðgang að sjúkraskrá eftir andlát sitt. (Núverandi lög er varða sjúkraskrá: https://www.landlaeknir.is/gaedi-og-eftirlit/notendur-heilbrigdisthjonustu/sjukraskra/) Myndi krefjast breytingu á samþykktri stefnu til að breyta þessu orðalagi.
Píratar álykta:
Tryggja skal gæði og öryggi heilbrigðisþjónustu með góðri aðstöðu, hæfu starfsfólki, viðeigandi tækjabúnaði og gæðaeftirliti í innkaupum.
Huga skal að auknu álagi vegna fjölda ferðafólks um landið.
Huga skal að forvörnum almennt og huga enn betur að forvörnum þegar kemur að áhrifum mengunar á heilsu. Það á til dæmis við um loftmengun og mengun í jarðvegi og aðra mengun sem kemur til vegna umgangs fólks um jörðina og einnig á það við um innimengun vegna hættulegra efna í lögnum og byggingarefni, sem og vegna rakaskemmda og myglu í húsum.
Landlæknir skal koma upp teymi sem vinnur að endurmenntun og símenntun fólks sem vinnur við heilbrigðisþjónustu. Meðal annars skyldi fræða lækna og hjúkrunarfræðinga um nýjustu rannsóknir er varða heilsufarsáhrif rakaskemmda og myglu.
Stofnum móttöku fyrir fólk sem veikst hefur af völdum rakaskemmda og myglu. Heilbrigðiseftirlit, Landlæknir og Vinnueftirlit skulu hafa skýrar valdheimildir til að loka strax húsnæði þar sem mygluvandamál eru, áður en þau valda heilsutjóni.
Hugum að heildrænni nálgun og lífefnafræðilegri áherslu þegar kemur að lækningum. Þar sem virknimódel sjúkdóma er skoðað með því að líta til stóru myndainnar í heild, í stað þess að einblína á eitt afmarkað líkamskerfi í einu. Meiri áhersla verði lögð á forvarnir og að koma í veg fyrir skaða út frá rótorsökum áður en gripið sé til lyf- og skurðlækninga. Forðast skuli of mikil og afdrifarík inngrip séu þau ekki nauðsynleg. Allar slíkar ákvarðanir skyldi sjálfsögðu byggja á núverandi fyrirliggjandi vísindalegri þekkingu.
Snúum við fjársvelti til heilbrigðiskerfisins. Innviðafjárfestingu verði að hluta til varið í heilbrigðiskerfið.
Sjúkratryggingar Íslands skulu gera samninga við allar löggiltar heilbrigðistéttir.
Heilbrigðisþjónusta skal byggja á mannvirðingu, trúnaði og vísindalegri þekkingu. Leggja skal metnað í að veita starfsfólki og stofnunum heilbrigðisþjónustunnar svigrúm til vísindalegra vinnubragða eða innleiðingar á bestu fáanlegu þekkingu.
Hlekkur á vinnuskjal okkar þar sem einnig má lesa greinargerð, fundargerð málefnafundar, fundargerð frá fyrra Pírataþingi og eldri vinnu að stefnunni. https://docs.google.com/document/d/1Mxi7zMh2tVDO3MM7CyLNfc5XLYW6-svS1svkcpbi8xQ/edit?fbclid=IwAR2zyB65JjD0hE4J-qLG_FjZ27Ys-n3uZzgaXaiVsM40e9OO3DcESNi2G_U