Við @hrafnkellbrimar höfum mallað saman eftirfarandi tillögu til að auka valddreifingu og aðkomu kjördæmanna að gerð sameiginlegrar kosningastefnuskrár, sem var sett inn í lögin okkar með nýjustu breytingunum.
Við látum greinargerðina um rökstuðninginn. Álit vel þegin!
Grein 7.2.4 orðast svo:
Í aðdraganda alþingiskosninga skulu oddvitar á lista hvers kjördæmis útbúa kosningastefnuskrá sem byggir á samþykktri stefnu flokksins í samráði við stefnu- og málefnanefnd og aðra frambjóðendur síns lista. Kosningastefnuskrá skal lögð til samþykktar með atkvæðagreiðslu í rafrænu kosningakerfi flokksins, enda njóti hún stuðnings efstu tveggja frambjóðenda á hverjum lista fyrir sig.
Greinargerð.
Lagt er til að í stað þess að stefnu- og málefnanefnd útbúi kosningastefnuskrá í samráði við frambjóðendur, sé hlutverkunum víxlað og frambjóðendum falið að útbúa kosningastefnuskrá í samráði við stefnu- og málefnanefnd. Nokkur rök mæla með þessari breytingu.
Í fyrsta lagi næst meiri nálægð við áherslu kjördæmanna sjálfra, enda er hver listi boðinn fram í kjördæmi en ekki á landsvísu, ólíkt stefnu- og málefnanefnd sem er kjörin ein fyrir allt landið.
Í öðru lagi bera efstu frambjóðendur hvers kjördæmis ábyrgð á því að koma stefnumálum flokksins í framkvæmd að kosningum loknum og því eðlilegt að þeir komi að áherslum á kynningu á þeim.
Í þriðja lagi er hlutverk stefnu- og málefnanefndar ekki að taka ákvarðanir um stefnumál heldur fyrst og fremst að tryggja að málefnastarf eigi sér stað. Gerð kosningastefnuskrár er hinsvegar á margan hátt pólitískt viðfangsefni sem hentar betur fulltrúum með pólitískt umboð. Þar sem efstu frambjóðendur á hverjum lista eru þeir einstaklingar sem hafa fengið mesta pólitíska umboðið liggur betur við að þeir útbúi kosningastefnuskrá heldur en stefnu- og málefnanefnd.
Ákvæðið takmarkar á engan hátt rétt eða getu einstakra frambjóðenda, kjördæmafélaga eða framboða í hverju kjördæmi til að ákveða og kynna áherslur til viðbótar þeim sem eru settar fram í sameiginlegri kosningastefnuskrá. Eðlilegt er að sjónarmið til einstakra málefna séu ólík eftir kjördæmum, en eðli málsins samkvæmt rata slík sjónarmið síður í þá sameiginlegu kosningastefnuskrá sem ákvæðið fjallar um. Tilgangur kosningastefnuskrár er að bjóða kjósendum skýra sýn á samþykkta stefnu Pírata og hvað atkvæði til Pírata þýðir, en ekki að draga úr flóru ólíkra sjónarmiða.
Áfram er gert ráð fyrir því að kosningastefnuskrá öðlist samþykki með meirihluta greiddra atkvæða í rafrænu kosningakerfi flokksins, en lögð er til minniháttar orðalagsbreyting, með því að orðunum „skal samþykkt“ er skipt út fyrir „skal lögð til samþykktar“, til að árétta að niðurstaða atkvæðagreiðslu ráði úrslitum.
Með þessu fyrirkomulagi er leitast við að útbúningur [er þetta alvöru orð?] kosningastefnuskrár sé gegnsær, lýðræðislegur og til þess fallinn að gera frambjóðendum kleift að nýta sem best þá leiðsögn sem finnst í samþykktri stefnu flokksins, þó þannig að áherslur kjördæmafélaga og fulltrúa hvers kjördæmis fái notið sín samkvæmt kjördæmaskiptingu landsins.