Um fall formannstillögunnar

Eins og kemur vonandi engum á óvart hefði ég frekar viljað að formannstillagan næði í gegn, en ég er samt kjánalega ánægður með niðurstöðuna, eða allavega tekst mér engan veginn að vera óánægður.

Þær segja nefnilega sína sögu, þótt ekki hafi náðst aukni meirihlutinn sem þarf til lagabreytinga. Meirihluti kjósenda (~57%) var hlynnt tillögunni sem er ekki nóg, en það segir samt þetta: Að þetta er ekki lengur tabú umræða, og er ekki umræða sem við þurfum að vera eitthvað óttaslegin yfir að kljúfi Pírata í herðar niður eða setji allt á annan endann. Við erum fullkomlega megnug um að ræða svona hluti bara yfir langan tíma og komast að niðurstöðu.

Í rauninni finnst mér bæði sjónarmiðin hafa unnið, hver á sinn hátt. Andstæðingar formannsembættis með því að fella tillöguna og það væri ábyggilega pínu yfirlætislegt að óska þeim til hamingju (þar sem ég er á öndverðum meiði), að þá finnst mér samt gott að þeir sjái lýðræðið virka sér í vil, því mér fannst vera orðinn nokkur ótti við að þetta yrði bara trukkað í gegn einhvern veginn, alveg sama hvað. En það var ekki þannig, og er ekki þannig. Stuðningsmenn tillögunnar (sérstaklega þau með sterka skoðun á málinu, eins og ég), fengu einnig að sjá að það þarf ekkert að laumast meðfram veggjum til að hafa og tjá skoðanir sem þó ganga svo nær sjálfsmynd flokksins.

Í heildina finnst mér þetta því hafa verið holl umræða, gott ferli og ég held það verði auðveldara fyrir báðar hliðar að nálgast hvora aðra í kjölfarið.

Takk fyrir þátttökuna og áfram Píratar!

7 Likes