Þetta eru nauðsynlegar vangaveltur Helgi og có.
Í þessari málsgrein er smá rannt um tilhneigingu til ólögmætra reglugerða m.m. og hættuna af þeim, stökkvið á næstu málsgrein vegna nýju reglna dómsmálaráðherra.
Á Íslandi er furðu mikill vilji á þingi til að veita ráðherra rétt til að útfæra hitt og þetta nánar, eða bara alveg, í reglugerð. Ég sé alveg hversu auðvelt er að samþykkja slíkt, til að geta fjallað um önnur þingmál sem máli þykja skipta. Tilhneigingin til að ganga lengra í nánari reglugerðum, reglum og lögreglusamþykktum en lög heimila er óþægilega rík. Sveitarfélög hika ekki við að setja í lögreglusamþykkt ýmislegt það sem lög heimila þeim ekki að marka stefnu um í lögreglusamþykkt, s.s. hjálmaskyldu fólks og barna á skíðum, skautum o.sv.frv. Ég hafði veruleg áhrif á að Kópavogur hætti við að taka til endanlegrar samþykktar slíka lögreglusamþykkt. Fyrir utan að ganga lengra en lög heimila sveitarfélögum að takmarka réttindi almennings, og setja þeim skyldur, þá hefði slík lögregulsamþykkt sett þá skyldu á lögreglu í Kópavogi að stoppa allar ömmur með hjálmlaus börn á snjóþotu á leið úr leikskóla auk þess eflaust að gera það ámælisvert af lögreglu að gera slikt ekki. Ég fór fram á og fékk upplýsingar um hvernig þessi hjálmaskyldutilraun í Kópavogi var tilkomin, og varð þá ljóst að lögfræðingum bæjarins var falið að koma með tillögu að uppfærslu lögreglusamþykktar, líta á aðrar nýlegar. Og þeir sáu nýlega frá Akureyri, sem hafði hjálmaskylduákvæðið í sér muni ég rétt. Hvort lögfræðingarnir höfðu lagt mat á hvort slíkt ákvæði samrýmdist lögum og stjórnarskrá eða ekki minnir mig að hafi ekki verið. Og svo tóku bæjarfulltrúar þetta með í pakkanum, og það var næstum því samþykkt. Vítin eru sannrlega til að varast þau. Rannt búið.
Stjórnarskráin
64. gr. heimilar þegnskyldu almenna, kannski með takmörkunum: “64. gr. Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri þegnskyldu.”
Bent hefur víða verið á 68. gr. stjórnarskrár sem segir :“Engan má beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Nauðungarvinnu skal engum gert að leysa af hendi.”
Hvergi er í stjórnarskrá tilgreind neyð en í 71. gr. segir þó um nauðsyn " Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.] 1)".
Ennfremur segir í 74. gr. m.a. “Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.”
Hvort VII kafli laga nr. 82/2008 byggi á 71, og 74. gr. stjórnarskrár, sem varðar félag en ekki einstaklinga, veit ég ekki.
Lög nr. 82/2008 um almannavarnir
Í 22. gr. segir varðandi starfsskyldu “Skal að því stefnt að starfskvöð komi sem réttlátast niður á borgarana. Ráðherra ákveður hámarkstíma fyrir skyldunám og æfingar í þágu almannavarna.”
Þarna vaknar spurning um hvort það teljist réttlátt að sumir borgarar skuli vinna störf endurgjaldslaust við hlið annarra á launum. Ég efa það.
Reglurnar nýbirtu
- gr. segir m.a.: “Lögreglustjóri… skal við skipun í hjálparlið tryggja að gætt sé jafnræðis og starfskvöð komi sem réttlátast niður á borgarana”
Hvernig lögreglustjóri geri slíkt án þess að greiða viðkomandi fyrir átta ég mig ekki á.
Ennfremur er í 5. gr. tilgreint, ólíkt fyrri reglum sýnist mér hvað þá lögum nánar
“Hjálparlið almannavarna skal m.a. aðstoða við eftirtalin verkefni: eldvarnir, björgun og sjúkraflutninga, ruðningsstarf, hjálparstarf vegna tjóns af völdum geislavirkni, sýkla eða eiturefna, löggæslu, fjarskiptaþjónustu og félagslegt hjálparstarf.”
Mín niðurstaða
Þegnskylda virðist heimil skv. 64. gr. stjórnarskrár en nauðung óheimil skv. 68. gr. Líklega hindrar 71. gr. stjórnarskrár ekki ákvæði laga nr. 82/2008 um almannavarnir og starfsskyldu. Aðeins ef starfsskylduaðilum er greitt fyrir störf sín samræmist það tel ég 22. gr. laganna um réttláta starfskvöð. Hins vegar hlýtur það að þvinga einhvern til að gera eitthvað sem honum getur stafað hætta af að vera nauðung.
Ég tel ennfremur ljóst að 22. gr. laganna sbr. einnig nýsamþykktar reglur feli í sér að greiða þarf þeim sem starfssskyldur eru settar á, ef staðan er á annað borð sú að einhverjir þeir sem vinna í tengslum við vánna fá greidd laun frá ríki og sveitarfélögum.
S.s. þegnskylda virðist í samræmi við stjórnarskrá, en í henni sé ég þó í fljótu bragði ekki hvað heimilar að skipa einhverjum að sinna verki feli það í sér hættu fyrir viðkomandi aðila.