Umræða um orkupakkann

Það eru skiptar skoðanir í flokknum um þetta mál. Þingmenn virðast ekki hafa tíma til að funda með grasrót til að útskýra hlutina fyrir henni og hlusta á það sem hún segir. Sem betur fer höfum við tæki sem gæti hjálpað, hægt er að búa til youtube þátt þar sem einhver sem hefur kynnt sér málið vel og er á móti getur rætt þetta við þingmann sem er með og reynt þá allavega að hreinsa upp þann misskilning sem er. Það vantar sárlega þetta samtal.

Að auki vil ég benda á að hér er stórt tækifæri til að tengja þessa umræðu við nýja stjórnarskrá, eins og Snæbjörn neglir í þessu tísti:
“… fólk sem óttast þriðja orkupakkann vegna þess að það vill að orkan sé okkar, en hefur barist með kjafti og klóm gegn auðlindaákvæði í stjórnarskrána sem tryggir að orkan sé sannarlega okkar”

Fólk í kringum mig er brjálað yfir þessum orkupakka og þegar ég spyr af hverju, þá fæ ég svarað:
“ég hef nú ekki kynnt mér þetta alveg, en þetta er bara það sem ég heyri”

En aðallega halda þau að erlend stórfyrirtæki muni stela orkunni okkar.

Hliðarspor:
Ég sá viðtal við SDG þar sem hann var spurður hvað hann hefði gert í stöðu WOW air, svarið hans var raus um þriðja orkupakkann. Geta Píratar ekki líka gert þetta?
Þegar við erum spurð um eitthvað, bara færa umræðuna yfir á annað málefni sem okkur hentar? Blaðamenn virðast allavega ekki gera neitt í því, sem er óþolandi.

1 Like

Fyrir mér er þetta nokkuð einfalt…
Það er “auðvitað” margt gott í öllum þessum pökkum…
EN…!
Það vonda við þá er að þarna er auðvitað verið að búa “orkumarkað” á samkeppnisgrundvelli… Veit ekki hvar og hvenær upplýst umræða í þjóðfélaginu var um það…?
Þar með er ríkið/BB/sjallarnir farið í það að kaupa upp Landsnetið til þess eins að geta síðan sagt að “það þurfi” að selja frá ríkinu annaðhvort Landvirkjun eða Landsnetið… Og auðvitað verður Landsvirkjun þá seld og gerð að einkafyrirtæki, sem hefði þá nánast einokunaraðstöðu á markaði…
Það eina sem gæti unnið gegn þessu er kannski að skipta Landsvirkjun upp einmitt vegna markaðsráðandi stöðu fyrirtækisins…
Ég er hinsvegar á því að raforka og vatn séu sjálfsögð mannréttindi allra þeirra sem búa á þessari stórhættulegu eyju…

2 Likes

Orkumálastefna ESB og stefnur Pírata

Orkumálastefna ESB (O3) gengur út á samræmingu framleiðslu, dreifingu og sölu á gasi annarsvegar og raforku hinsvegar, með áherslu á þarfir ríkja á meginlandi Evrópu. Lagnadreifing á gasi á ekki við á Íslandi og verður ekki rædd frekar hér. Margt í O3 meikar ágætan sens á meginlandi Evrópu vegna aðliggjandi landamæra og náttúrulegra aðstæðna (og sögulegra).

Í fyrstu orkumálastefna ESB 1996 var raforka skilgreind sem markaðsvara sem landamæri mættu ekki hindra, ekki frekar en aðrar vörur sem evrópusamstarfið gekk út á að samræma. Þannig urðu orkumál ESB hluti af þeim EES samningi sem Ísland hefur gengist undir, en áður má segja að orkumál og orkusala hafi ekki verið markaðsmál heldur einkamál hvers evrópuríkis fyrir sig. Árið 2003 kom orkupakki 2 og árið 2009 orkupakki 3 (O3), sem báðir settu ítarlegri markaðsskilyrði fyrir neysluvöruna raforku.

O3 sem er nýjasta útgáfa orkumálastefnu ESB aðgreinir framleiðendur, dreifiaðila, söluaðila og viðskiptavini hvern frá öðrum. Viðskiptavinum er skipt í tvennt, annarsvegar þeir sem kaupendur á rafmagni til eigin nota (hér kallaðir neytendur) og hinsvegar kaupendur á rafmagni til endursölu (söluaðilar).

Hér á eftir er smá greining á O3 og stefnum Pírata um það sem skiptir einstaklinga og neytendur helst máli varðandi raforkumál:
a) raforkuverð,
b) afhendingaröryggi,
c) hlutfall “grænnar orku”.
Hér að neðan nota ég þetta þrennt til að meta áhrif O3 á hvern viðeigandi greinar í grunnstefnu Pírata.

GRUNNSTEFNA PÍRATA: EFLING BORGARARÉTTINDA OG SJÁLFSÁKVÖRÐUNARRÉTTUR FÓLKS
Varðandi a) raforkuverð, þá tryggir O3 ekki bætt (lægra) raforkuverð til neytenda, heldur gerir O3 ráð fyrir markaðsverði og það miðast á endanum við evrópumarkað.

Sjálfsákvörðunarréttur íslenskra neytenda í orkukaupum verður því minni eftir því sem sem markaðstenging við raforkumál í Evrópu verður meiri. Svo má fullyrða að stórnotendur muni áfram ávalt fá lægsta markaðsverðið eins og tíðkast hefur bæði á Íslandi (stóriðja) og í Evrópu.

Varðandi b) afhendingaröryggi, þá eflir O3 hvorki né útvíkkar borgaraleg né lýðræðisleg réttindi einstaklinga á Íslandi, enda hafa íslensk orkufyrirtæki um árabil lagt mikið upp úr að bæta afhendingaröryggi innanlands og orkustefna ESB bætir þar litlu við, en á jákvæðum nótum má segja að O3 verndi í það minnsta áunnin borgararéttindi hvað afhendingu raforku varðar.

Varðandi c) hlutfall “grænnar orku”, þá bætir O3 engu sérstöku við hvað Ísland varðar.

Mín niðurstaða er því að orkumálastefna ESB (O3) efli hvorki borgaraleg eða lýðræðisleg réttindi neytenda á Íslandi né sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga, eins og grunnstefna Pírata kveður á um.

GRUNNSTEFNA PÍRATA: FRIÐHELGI EINSTAKLINGA (GEGN VALDMEIRI AÐILUM)
Varðandi a) raforkuverð, þá verndar O3 ekki hina valdaminni frá þeim valdameiri en stefnir að einhverju markaðsjafnvægi þess í stað.

Varðandi b) afhendingaröryggi, þá gerir O3 það að einhverju leyti, sem er jú mikilvægt víða í Evrópu og getur átt rétt á sér hér á Íslandi, þar sem afhendingaröryggi t.d. á Vestfjörðum og Norðausturlandi er ekki 100%.

Mín niðurstaða er því að O3 efli ekki friðhelgi og sjálfsákvörðunarrétt íslenskra neytenda eins og grunnstefna Pírata gerir ráð fyrir, a.m.k. ekki hvað hagstæð raforkuverð varðar, en O3 getur þó haft jákvæð áhrif á réttindi afskekktra byggða til afhendingaröryggis.

GRUNNSTEFNA PÍRATA: GAGNSÆI OG BEINT LÝÐRÆÐI
Í O3 er það helst að gagnsæi á að vera með starfi stofnana sem sinna eftirliti með raforkumarkaði og veita leyfi, auk þess sem orkuverð skulu vera opinber og aðgengileg. Maður spyr sig þó hversu gott gagnsæið er þegar neytandinn fær einn reikning fyrir raforkunotkun og annan fyrir notkun dreifikerfis og jafnvel fleiri reikninga vegna hitaveitu, vatnsveitu og lagna þeim fylgjandi.

Varðandi c) hlutfall “grænnar orku” þá verndar O3 neytendur ekki frá röngum upplýsingum um uppruna orkunnar (upprunavottorð orku eru söluvara).

O3 fylgir veruleg kvöð um aukna stofnanavæðingu eftirlits, leyfisveitinga og yfirumsjónar með raforkuframleiðslu, raforkudreifingu og sölu raforku. Með þessari stofnanavæðingu minnkar möguleikinn á beinu lýðræði varðandi leyfisveitingar til söluaðila, enda er lenska á Íslandi að OHF-væða stofnanir af þessum toga og undanskilja þær þannig óbeint frá lýðræðislegum ákvarðanatökum, kröfum um gagnsæi og upplýsingaskyldu nema þar sem sérstaklega er kveðið á í lögum og reglum.

Aukinni stofnanavæðingu vegna O3 fylgir líka kostnaður, þar sem hver og einn aðili getur krafist allskonar gjalda og þóknunar frá neytendum. Þannig kemur aukin umsýsla beint niður á “a) raforkuverði” til neytenda, sem er ekki valdeflandi nema fyrir milliliði sem starfa við raforkusölu.

Mín niðurstaða er sú að O3 hafi lítil bein áhrif í átt að auknu gagnsæi og aðgengileika upplýsinga, nema að til komi sérstök lög um slíkt. Þar að auki má segja að O3 hafi neikvæð áhrif á væntingar Pírata um beinna lýðræði hvað ábyrgð og ákvarðanir í raforkumálum varðar.

ORKUMÁLASTEFNA PÍRATA
Á meðan orkumálastefna ESB stefnir að markaðsvæðingu orkumála, sem getur verið ágætt fyrir marga hluta Evrópu, á O3 litla sem enga samleið með grunnstefnu og orkumálastefnu Pírata, sem gera ráð fyrir valdeflingu fólks, eflingu réttinda valdminni aðila gagnvart þeim sem valdmeiri eru og rétti þeirra sem vilja sjálfir framleiða raforku til eigin nota, auk þess sem O3 hvetur ekki til aukins lýðræðis í orkumálum.

Þar sem O3 gerir lítil til að styðja við grunnstefnu Pírata og vinnur fremur gegn orkumálastefnu Pírata er lítil ástæða fyrir Pírata að styðja við O3 enda má leiða rök að því að O3 sé fremur íþyngjandi fyrir borgara. Því hvet ég þingmenn okkar til að huga frekar að framgangi orkumálastefnu Pírata en að gefa O3 mikið vægi þó orkustefna Evrópu sé vel meint, þá á hún ekki endilega erindi á Íslandi eða samleið með stefnum Pírata. Enn fremur mætti íhuga lagabreytingar til að vinda ofan af íþyngjandi áhrifum orkumálastefnu ESB.

Hér er upptaka af fundi Smára og Björns Leví í Tortuga um þriðja orkupakkann frá 9. maí. Meginástæða þess hversu langan tíma tók að koma þessum fundi á koppinn var sú að það tók fáránlega langan tíma að lesa sig í gegn um þriðja orkupakkann og reyna að finna sannanir fyrir fullyrðingum beggja hópa. Mér sýnist það hafa gengið vel og flestar áhyggjur hraktar, en sannarlega hefði verið frábært að ná því fyrr.

3 Likes